Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana

Mér finnst mjög sérkennilegt að sjá hvernig allir hella sig yfir stjórnendur og þá sérstaklega eigendur bankanna, eins og þeir séu landráðamenn.  Það er eins og fólk haldi að þeir hafi gert það að gamni sínu að fella bankana og láta íslensku þjóðina sitja uppi með alla reikningana.  Ég held að fólk ætti aðeins að draga andann og slaka á, áður en eitthvað gerist sem það sér eftir.

Vissulega má rekja fall bankanna til alls konar ákvarðana sem stjórnendur þeirra og eigendur tóku, en það sem varð þeim þó endanlega að falli var ekki rekstur þeirra heldur greiðsluhæfi.  Skilanefnd hefur t.d. úrskurðað að Glitnir sé tækur í Kauphöllina!  Það þýðir að hann stenst kröfur um eiginfjárhlutfall og að eigna- og skuldastaða uppfylli alþjóðlegar viðmiðanir.  Bankinn er EKKI gjaldþrota. Mér kæmi ekkert á óvart þó niðurstaða hinna skilanefndanna verði eins, þ.e. að hvorki Landsbankinn né Kaupþing séu gjaldþrota. 

Ólíkt venjulegum fyrirtækjum, þá ber bönkum að kalla inn fjármálaeftirlit strax og í ljós kemur að þeir eru komnir í greiðsluþrot.  Það er enginn umþóttunartími eða samningar við lánadrottna.  Ef þeir hefðu haft slíkt tækifæri, þá væru þeir í slíku ferli, þar sem þeir gætu verið að selja eignir og gefa eigendum kost á að auka við eigið fé.  Hugsanlega var það röng ákvörðun hjá Seðlabanka Íslands að veita Glitni ekki lán.  Ef hann hefði samhliða því nýtt sér lánalínur til seðlabanka á Norðurlöndum, þá hefði lánið til Glitnis ekki skert getu hans til frekari lánveitinga.  Það hefði sýnt styrk Seðlabankans, en við vitum svo sem ekkert hvernig matsfyrirtækin hefðu metið hlutina.  Staðreyndin er nefnilega sú, að matsfyrirtækin eru í reynd mestu örlagavaldarnir í þessu máli (sjá Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?).

Þegar Lehman Brothers var settur í gjaldþrot fyrir 3 vikum, þá hófst atburðarás sem varð til þess að Glitnir missti lánasamning.  Það var ekki Glitni að kenna, hvorki eigendum né stjórnendum.  Það var heldur ekki ríkisstjórn Íslands að kenna né Seðlabankanum.  Þetta voru óheppilegar ytri aðstæður.  Það sem gerðist hér á landi var líklegast vegna rangra ákvarðana hjá þessum aðilum.  Hvort það var vegna þess að Glitnir áttaði sig ekki á því að Seðlabankinn myndi grípa til jafn harkalegra aðgerða og raun ber vitni eða að Seðlabankinn áttaði sig ekki á því hvaða áhrif aðgerðir hans hefðu skiptir ekki máli lengur.  Þetta er búið og gert.

En ég vil benda fólki á og búa sig undir, að verði ekki gripið til verulega umfangsmikilla aðgerða á alþjóðavísu á næstu dögum til að styrkja fjármálakerfi heimsins og taka úr umferð eiturpillur frá Bandaríkjunum, þá mun flóðbylgja skella á fjármálakerfi heimsins.  Þessi flóðbylgja er af völdum afleiða frá Lehman Brothers.   Samkvæmt frétt á vef The Guardian er byrjað að vefjast ofan af afleiðum að virði $200 - $440 milljarða.  Það eru fjölmargir bankar flæktir í þennan afleiðuvef, þar á meðal tveir af stærstu bönkum Bretlands, Royal Bank of Scotland og Barclays.

Málið snýst að mikluleiti um hve mikið fjármálafyrirtæki munu geta endurheimt af þeim skuldum sem þau eiga inni hjá þrotabúi Lehman Brothers og hve mikið þau þurfa að innheimta hjá tryggingarfélögum sem seldu þeim skuldatryggingarálag.  Þurfi þau að treysta á skuldatryggingarnar, þá er þeim aðeins tryggt 91,4% af skuldinni.  Það þýðir í fyrsta lagi gríðarlegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjunum og ógnvænleg útgjöld tryggingafélaganna.  Það er ekkert grín að þurfa að greiða út $400 milljarða í tryggingabætur (þó líklegast verði upphæðin ekki nærri því svo há).  Vissulega hafa fyrirtækin líka tryggt sig eftir öðrum leiðum, en spurning er hversu öruggar þær aðgerðir eru. 

Vandamálið er að þetta er bara ein bylgja!  Eins og máltækið segir er sjaldan ein báran stök og sagt er að þetta sé þegar sú sjöunda.  Fyrir hvern stóran banka (og smáan) sem fellur í valinn kemur ný bylgja.  Og við skulum hafa það í huga, að það var einmitt ein svona bylgja sem hreif með sér íslensku bankana. 

Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita.  Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits.  Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög.  Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur.  Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.

Viðbót 12.10. kl. 13:20

Bara svo fólk misskilji mig ekki, þá tel ég alveg ljóst að sá skellur sem við erum að fá er mun stærri en hann hefði þurft að vera og þar er við eigendur og stjórnendur bankanna að sakast, en einnig ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.  Auðvitað áttu bankarnir ekki að fá að vaxa jafnmikið og raun ber vitni á lánsfé en ekki eigin fé.  Málshátturinn segir að sígandi lukka sé best og það eru orð með sönnu.  Taka þarf lítil skref í einu og ná jafnvægi í hverju skrefi.  Það sem bankarnir gerðu var eins og maður að labba upp stiga, þar sem hann færir bara hægri fótinn ofar og ofar, en heldur vinstra fæti alltaf á sama stað.  Auðvitað raskast jafnvægi slíks einstaklings og það þarf minna til að fella hann.

Viðbót 12.10 kl. 21:20

Var að lesa Independent á netinu.  Þar er áhugaverð grein um afleiðumarkaðinn.  Hann er metinn á $516.000 milljarða (eða $516.000.000.000.000) eða tíföld ársheimsframleiðsla.  Menn á þessum markaði eru farnir að skjálfa og óttast hrun hans.  Ástandið er orðið svo slæmt að laun yfirmanna hafa verið lækkuð í 100.000 pund   Aumingja þeir.  Hér er linkur á greinina A £516 trillion derivatives 'time-bomb'