Forvitnilegt viðtal, þegar horft er í baksýnisspegilinn

Í írafárinu sem varð við þjóðnýtingu Glitnis, þá yfirsást mér viðtal Björgvins Guðmundssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Þorvarð Tjörva Ólafsson, hagfræðing á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, en viðtalið birtist mánudaginn 29. september.  Ég rakst á það áðan og held að það sé öllum holl lesning, þar sem í því viðurkennir Tjörvi raunar að seðlabankar og fjármálaeftirlit hafi gert röð af mistökum, sem leiddu til þeirrar fjármálakreppu sem núna ríður yfir.  Sérstaklega þykir mér vænt að sjá að hann hnýtir í Basel regluverkið, en ég hef einmitt gagnrýnt það, og að menn hafi gleymt að hafa eftirlit með "hinu" bankakerfinu.

Annað í þessu viðtali, sem birt er að morgni örlagaríkasta dags í hagsögu landsins, er eftirfarandi:

Almennt séð eru því hlutverk seðlabanka óbreytt frá því fyrir kreppuna. Umhverfið er hins vegar allt annað og áskoranirnar meiri. Sjálfsumgleði sumra seðlabankamanna hefur beðið skipbrot. Blómaskeiði síðustu ára er lokið og seðlabankar þurfa að taka á honum stóra sínum, læra af kreppunni sem nú skekur heimsbúskapinn og treysta innviði fjármálakerfisins til að komast í gegnum þessa kreppu en um leið draga úr líkum á frekari kreppum í framtíðinni.

Daginn sem þetta er sagt hrynur íslenska hagkerfið vegna "sjálfumgleði sumra seðlabankamanna".

Viðtalið er öllum holl lesning, ekki síst stjórnmálamönnum.  Það sem Seðlabankinn gæti líklegast lært af því, er að heimurinn hefur ekki tíma til að bíða eftir því að fræðilegri umræðu ljúki.  Menn þurfa að grípa strax inn í um leið og brestir birtast til að koma í veg fyrir að allt springi.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu: Viðtal við Þorvarð Tjörva Ólafsson