Góð "við hefðum átt að hlusta"-umfjöllun

Það er gott að sjá svona samantekt á fréttum fyrri ára.  Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá tilvísunina í "of stór til að láta riða til falls eða of stór til að verða bjargað?" í umsögn Royal Bank of Scotland.  Málið er að þetta segir allt sem segja þurfti.  En hverjir áttu að bregðast við?  Átti Kaupþing að bregðast við og draga úr vexti sínum eða var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks sem áttu að bregðast við?

Ég er ekki í vafa um svarið:  Það voru stjórnvöld sem áttu að bregðast við.  Þau áttu að setja fram kröfur um að innlán sem hlutfall af útlánum þyrftu að ná alþjóðlega viðurkenndum mörkum.  Þau áttu að auka bindiskyldu til að minnka útlánamargfaldarann.  Þau áttu að efla hlutverk Fjármálaeftirlitsins og gefa því auknar valdheimildir.  Þau áttu að setja skorður við því hve mikið bankarnir gætu aukið innlán erlendra ríkisborgara, sem ekki eru búsettir á Íslandi, á reikninga sem eru á ábyrgð Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Þetta voru allt aðgerðir sem Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks áttu að grípa til.

Icesave er vafalaust stærsti skandallinn í þessu öllu.  Ekki það að hugmyndin var stórgóð og átti að bæta það atriði sem kemur fram í umsögn Dresdner Kleinworth Wasserstein að hefðbundin innlán væru of lágt hlutfall af útlánum.  Það var bara framkvæmdin sem var röng.  Í Bretlandi geta eingöngu þeir, sem eru með fasta búsetu í landinu, lagt inn á breska innlánsreikninga. (Þetta hefur komið fram í umfjöllun breskra fjölmiðla.)  Þetta er gert til þess að aðilar búsettir erlendis geti ekki fengið greiddar út ábyrgðir breskra stjórnvalda vegna þessara reikninga.

Ef maður skoðar lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, þá kemur dálítið forvitnilegt í ljós. Lögunum var breytt með lögum nr. 108/2006 dagsett 14. júní 2006 (sjá greinar 92 - 94) og inn í þau bætt heimild fyrir aðild erlendra útibúa innlendra fjármálafyrirtækja.  Það kemur sem sagt ekki bara í ljós að ríkisstjórnin átti að vita af ábyrgð sjóðsins gagnvart icesave, hún heimilaði það og hreinlega hvatti til þess.  Það þýðir ekkert fyrir menn að segja "þetta bara gerðist", þar sem þetta gerðist með vilja og vitund síðustu ríkisstjórnar!  Ríkisstjórnin opnaði hliðið fyrir Landsbankann að setja á fót icesave með lögum nr. 108/2006.  Það var greinilegt að menn hugsuðu ekkert út í hvað þeir voru að leyfa.

Fréttaskýring sem bloggað var við:  Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár

(Mæli ég með lestri fréttaskýringar Björns Vignis Sigurpálssonar annarra baksviðsgreina sem komu út í október 2008.)

Hér til viðbótar er texti úr athugasemd, sem ég setti við færsluna á Moggablogginu:

"Annars er áhugavert að lesa umræðuna sem varð á Alþingi þegar frumvarp að lögum nr. 98/1999 var lagt fram.  Þar kemur Guðmundur Árni Stefánsson í ræðustól og spyr viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson:

Herra forseti. Í ljósi þessarar gjörbreyttu stöðu og ljósra áforma ríkisstjórnarinnar um sölu Búnaðarbanka og Landsbanka og raunar þar með einkavæðingu alls fjármálakerfisins hér á landi, þá væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherrans til þess hvað hann telur að mundi gerast ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.

Svar ráðherra er síðan:

Ég vil ekki vera að velta því nákvæmlega fyrir okkur hvað gerist ef tiltekin bankastofnun fer á hausinn. Hins vegar er það svo að ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.

Sem sagt, menn vildu ekki gera ráð fyrir því að illa færi.

Svo er líka gott hér að vitna í orð Péturs H. Blöndal í 2. umræðu um málið:

Til þess að hindra það höfum við mjög sterkt bankaeftirlit með þessum fyrirtækjum eins og ég gat um áðan, að mörgu leyti strangara en með innlánsfyrirtækjunum. Síðan er eiginfjárkrafa til verðbréfafyrirtækja sem er mjög há, tugir milljóna, og svo er að auki starfsábyrgðartrygging fyrirtækjanna og lykilstarfsmanna þeirra. Það er því nærri útilokað, herra forseti, að það verði tjón á þessu sviði. Það þurfa þá að koma til nokkuð stórfelld mistök eða misferli sem fer saman við gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis. Þá hafi sem sagt allt bilað, starfsábyrgðartryggingin, eiginfjárkrafan, bankaeftirlitið o.s.frv. Þetta er nærri því útilokað. 

Enn og aftur er öryggi manna slíkt gagnvart bankakerfinu, að það geti ekki klikkað.  Menn vilja ekki gera ráð fyrir hinu óvænta."