Hvaða viðbrögð hefði ég viljað sjá

Ég fékk fyrirspurn frá Sigurvin um hvað ég hefði viljað að Seðlabankinn hefði gert og svaraði á eftirfarandi hátt:

"Ef þú ert að spyrja hvað ég hefði viljað sjá hjá Seðlabankanum, þá er kannski best að vitna í gamlar færslur, en hér er smá samantekt af því sem ég hef sagt hér á blogginu síðustu 20 mánuði.  Kannski ekki allt með þessum orðum: 

 • Ég tel að Seðlabankinn hafi farið fram úr sér í viðbrögðum við stöðu Glitnis.  Menn áttu að taka sér lengri tíma. Sleggju var beitt þegar hamar hefði dugað.  Hvort að lengri tími hefði breytt einhverju veit ég ekki og hugsanlega hefði það gert illt verra (þó svo að sjái ekki hvernig það hefði geta orðið verra en þegar er). 
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi unnið gegn fjármálastöðugleika í landinu allt frá því að gengið var sett á flot í lok mars 2001. Það gerði hann með því að setja gengið á flot í mikilli verðbólgu og þegar stýrivextir höfðu verið háir í langan tíma.  Betra hefði verið að bíða þar til verðbólgan gekk niður og stýrivextir voru lágir til að eiga möguleika á að hækka stýrivexti samhliða því að setja krónuna á flot. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nota vísitölumælingu sem var samanburðarhæf við mælingar í nágrannalöndum okkar, þannig að allar ákvarðanir í peningamálum væru byggðar á samanburðarhæfum grunni. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði ekki átt að lækka bindiskyldu árið 2003 samhliða innleiðingu Basel II. 
 • Ég tel að innleiðing Basel II 2003 hefði átt að vera í þrepum, en ekki einu stökki. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nýta hagstjórnartæki sín betur til að tryggja hér stöðugt gengi, þ.e. að kaupa krónur þegar gengið var að styrkjast og þannig vinna gegn of mikilli styrkingu. Þannig hefði hann jafnframt byggt upp gjaldeyrisvarasjóð og varnað því að vaxtamunarsamningar hefðu verið gerðir á kostnað fjárhagslegs stöðugleika.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að setja sér skýr og opinber viðmið varðandi eðlilega raunstýrivexti.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að vera með sveigjanlegri verðbólguviðmið.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að veita viðskiptabönkunum meira aðhald með hækkun bindiskyldu þegar ljóst var að útrásin var gerð með skuldsetningu.
 • Ég tel að það hafi verið mikil mistök að lækka áhættustuðul við útreikning eiginfjárkröfu 2. mars 2007.
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi strax haustið 2007 átt að bregðast við varðandi þá lausafjárþurrð sem virtist í uppsiglingu.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að styðja við gengi íslensku krónunnar strax sl. haust.  Við skulum hafa í huga að geta Seðlabankans til að styðja við krónuna var verulega skert vegna þess að hann hafði ekki styrkt gjaldeyrisforðann, þegar ytri skilyrði voru hagstæð.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að bregðast við Jöklabréfunum með því að lækka stýrivexti strax og ljóst var að spákaupmenn voru að spila á gengi krónunnar.

Þetta eru atriðin sem fjalla um Seðlabankann.  En ég á líka lista yfir það sem bankarnir hefðu átt að gera.  Hann er styttri vegna þess að í mínum huga snýst rekstur um þessi þrjú atriði:

 • Bankarnir hefðu átt að vera með mun virkari áhættustýringu
 • Bankarnir hefðu átt að vera með breytingastjórnunarferli sem gerði kröfu um að allar breytingar í rekstri og viðskiptaháttum þeirra færi í gegnum gagngera skoðun á kostum og göllum, þar með verstu mögulegu niðurstöðu
 • Bankarnir hefðu átt að vera með innleitt og prófað stjórnferli vegna rekstrarsamfellu

Það getur verið að þetta þrennt hafi verið til eða gert í einhverju mæli í bönkunum, en ljóst er að það var ekki nóg.  Kaupþing er nokkur vorkunn í þessu máli, en vitum við hvort bankinn hefði lifað vikuna, þó svo að bresk stjórnvöld hefðu ekki gert það sem þau gerðu.

Eins og þú sérð, þá persónugeri ég þetta ekki í Davíð Oddssyni, þó ég telji hann vera stóran hluta vandans.  Málið er að allir brugðust, þ.e. Seðlabankinn, ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit, Alþingi, bankarnir, fjárfestar, lífeyrissjóðirnir og almenningur.  Við létum dáleiðast af góðærinu og héldum að allt sem við snertum myndi breytast í gull.  Við létum glepjast af gylliboðum og misstum dómgreind okkar.  Við héldum að áhætta væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af.  Það kæmi ekkert fyrir okkur.  Við værum svo pottþétt.  Við dönsuðum öll í kringum gullkálfinn og dýrkuðum hann. Við hlustuðum ekki á raddir efasemdarmanna og kölluðum þá öfundarmenn, heimska, skilningssljóa, o.s.frv.  Verst af öllu er að ákveðinn hópur manna lét stjórnast af ólýsanlegri græðgi, þar sem ekkert skipti máli nema næsta grædda króna.

Loks megum við ekki gleyma því, að við lentum í hamfarastormi.  Þessi stormur er ekki af okkar völdum og við höfum fá úrræði til að komast í skjól undan honum.  Stærstu bankar heims hafa fallið í þessum stormi.  Þjóðríki út um allan heim standa frammi fyrir þroti.  Ríkustu lönd heims eru að ausa ómældum fjármunum inn í bankakerfi sín til að koma í veg fyrir fall þeirra. Það algjörlega óvíst að við hefðum staðið þennan storm af okkur í útópísku hagkerfi bara út af stærð hagkerfisins.  Að fallið hafi verið jafn harkalegt og raun ber vitni er aftur alfarið sök bankanna, Seðlabanka, ríkisstjórnar, Alþingis og Fjármálaeftirlits.  Þetta eru þeir aðilar sem eru ábyrgir (e. responsible) og hafa ábyrgðarskyldu (e. accountable)."

Athugasemd í febrúar 2018: Ég hef ekkert skipt um skoðun á flestum, ef ekki öllum þessum atriðum, þegar þetta er skrifað.