Löngu tímabær aðgerð

Ég spáði því í sumar að farið yrði í uppskurð á regluverki fyrir fjármálafyrirtæki.  Var það í framhaldinu á því að Evrópusambandið setti ofan í við þann aðila sem hefur haft umsjón með þessum málum, þ.e. Basel-nefndina sem starfar innan Alþjóða greiðslubankans (Bank for International Settlements), og vildi taka stjórnina af þeim að hluta.  Nú virðist sem spá mín sé að rætast.

Ekki að það hafi verið flókið að sjá þetta fyrir.  Fjármálakerfi heimsins var þá í stigmagnandi vanda sem nú er langt kominn með að fella það.  Stórir hlutar fjármálakerfisins hefur fallið utan hins stífa regluverks, sem hefur verið í gildi, og hafa raunar ýmsir aðilar innan kerfisins reynt, eins og kostur er, að sniðganga það með í besta falli vafasömum hætti.   Þetta hefur leitt til þess, t.d., að vogunarsjóðir, fjárfestingabankar og matsfyrirtæki hafa getað farið sínu fram án þess að fjármálaeftirlit í ríkjum heims hafi nokkuð um það að segja.  Nú er svo komið að þessir aðilar, þ.e. vogunarsjóðirnir, fjárfestingabankarnir og matsfyrirtækin, eru á góðri leið með að steypa hagkerfi Vesturlanda í gjaldþrot.  Og hrynji þau, verður lítið eftir, þar sem flest allir aðrir munu fylgja eftir.

Ég held svo sem að ekki sé þörf á að taka stjórnun þessara mála úr höndum Basel-nefndarinnar, en hún þarf greinilega að breyta starfsaðferðum sínum.  Þegar litið er yfir lista þeirra sem vinna að leiðbeinandi tilmælum nefndarinnar, þá sker það í augu að þar eru nær eingöngu bankamenn og síðan aðilar frá fjármálaeftirlitum.  Þar eru engir aðilar sem koma að pólitískri stefnumótum um bankamál, að ég tali nú ekki um neytendavernd.  Það er eins og regluverkið eigi fyrst og fremst að tryggja hag bankanna í staðinn fyrir að tryggja hag hagkerfanna sem bankarnir eru hluti af.  Þessu þarf að breyta.  Regluverk bankanna verður að taka mið af því að tryggja stöðugleika í hagkerfi hvers lands og heimsins í heild.  Það gengur ekki að stórir hlutar þess vinni án eftirlits og geti sett restina í hættum með óábyrgum aðgerðum.

Ég óttast að við séum ekki búin að bíta úr nálinni vegna þeirra fjármálagjörninga sem vogunarsjóðirnir og fjárfestingabankarnir stóðu að.  Talað er um að útistandandi séu afleiðusamningar og önnur verðbréf, sem eru utan eftirlits opinberra aðila, upp á hvorki meira né minna en 516.000 milljarðar USD.  Þetta samsvarar tífaldri vergri árlegri heimsframleiðslu!  Menn hafa miklar áhyggjur af því hvernig muni vindast ofan af þessum vafningum.  Ef aðeins 1% af þessum vafningum tapast þýðir það 5.160 milljarða USD sem er meira en sjöföld sú upphæð sem bandaríska stjórnin ætlar að leggja í björgun bankakerfisins.  Lendi slíkur skellur á hagkerfi Vesturlanda, þá má búast við að fleira falli en bara íslenska bankakerfið og að heimsmyndin sem við þekkjum í dag verði mikið breytt.  Um þessar mundir hriktir í stoðum breska bankakerfisins og þess þýska.  Bandaríska bankakerfið er komið í gjörgæslu bandarískra yfirvalda og er líðan sjúklings það slæm að allt lítur út fyrir að fjarlægja þurfi mikið af dauðu holdi og mjög líklega fleiri útlimi en þá tvo sem þegar er búið að taka.  Þetta ástand er farið að hafa mikil áhrif á stór og smá fyrirtæki í landinu og m.a. mun General Motors vera í miklum vanda.  Slökkvistarfið í Bandaríkjunum er farið að minna æ meira á baráttu við skógarelda.  Eina leiðin til að slökkva eldinn er að búa til varnarlínu í góðri fjarlægð frá ofsaeldinum og verjast frá þeim stað.  Allt sem er á milli eldsins og varnarlínunnar er tapað, en með þessu er skaðinn lágmarkaður.  Þetta hljómar eins og dómsdagsspá.  Og ég held að við verðum að fara að viðurkenna að dómsdagur frjálshyggjunnar, frelsis í fjármálaviðskiptum og kapítalismans er að renna upp.  Kaldhæðnin er að það er stjórnlaus græðgi þröngs hóps siðlausra bankamanna sem er að valda þessum vanda.

Frétt sem bloggað var við:  Vilja stokka kerfið upp