Má aldrei gera neitt fyrr en í óefni er komið?

Það er gott að sjá, að Seðlabankinn ætlar loksins að grípa til aðgerða til að styrkja gengið.  Virði ég það við bankann hvað hann ætlar að vera ákveðinn í aðgerðum sínum.  Það eina sem ég velti fyrir mér er:  Af hverju er Seðlabankinn ekki fyrir löngu búinn að grípa til slíkra aðgerða?  Af hverju þarf neyðarástand að skapast áður en gripið er inn í?

Það er verið að skipta út stjórn Landsbankans.  Það er búið að taka yfir Glitni.  Nú er kominn tími til að hreinsa út úr stjórn og bankastjórn Seðlabankans.  Þar er fullt af fólki sem lét það líðast að fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi á þeirra vakt.  Nú er tími til kominn að einstaklingar með bein í nefinu og djúpstæðaþekkingu á fjármálakerfi landsins og umheimsins taki við.

Annars lýst mér vel á þá hugmynd að Íbúðalánasjóður fái "takmarkalausa heimild til að kaupa upp öll veðlán sem tengd eru húsnæðiskaupum,2 eins og haft er eftir Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra í DV í dag.  Mér lýst ennþá betur á, ef slík lán munu lækka til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið.  Ef það gengur eftir mun ég alveg örugglega kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum og Jóhanna Sigurðardóttir verður þaðan í frá Heilög Jóhanna  

Frétt sem bloggað var við:  Gengi krónu fest tímabundið