Tillögur talsmanns neytenda

Mig langar að vekja athygli á tillögum talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar, um þessi mál, en þær er auðvelt að útvíkka þannig að þær nái til verðtryggðra lána.  Talsmaður neytenda setur fram fjórar tillögur sem hér segir í grein sem birt var á vefsvæði hans 7. október:

  • Gengi erlendra lána verði fest varanlega í tiltekinni gengisvísitölu sem samrýmist meðallangtímagengi sem neytendur hefðu mátt vænta við lántöku.
  • Þau lán sem um ræðir verði tekin inn í Íbúðalánasjóð sem samkvæmt heimild muni lækka þau til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið, sbr. ummæli viðskiptaráðherra á www.dv.is í morgun.
  • Gengistryggð lán verði yfirtekin á tilteknu gengi til bráðabirgða en hinn hluti lánsins frystur þar til betur árar.
  • Greiðslubyrði lána verði fastsett tímabundið í tiltekinni krónutölu miðað við ákveðna gengisvísitölu.

Það er lítill vandi og líklega skynsamlegt að annað hvort tengja gengisvísitöluna á einhvern hátt við vísitöluneysluverðs eða klippa af vísitöluuppfærslu verðtryggðra lána.

Annars held ég að leysa megi bæði málin í einu með því að fara leið 3, sem er jafnframt leið sem ég hef lagt til og hafði talsmaður neytenda reyndar samband við mig til að fá nánari skýringu á henni.  Er hún sett þarna fram í einfaldaðri mynd.  Í fullri lengd (en þó ekki að fullu útfærð) þá gengur tillaga mín út á eftirfarandi:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Frétt sem bloggað var við: Jafnræði milli lántakenda