Hvaða viðbrögð hefði ég viljað sjá

Ég fékk fyrirspurn frá Sigurvin um hvað ég hefði viljað að Seðlabankinn hefði gert og svaraði á eftirfarandi hátt:

"Ef þú ert að spyrja hvað ég hefði viljað sjá hjá Seðlabankanum, þá er kannski best að vitna í gamlar færslur, en hér er smá samantekt af því sem ég hef sagt hér á blogginu síðustu 20 mánuði.  Kannski ekki allt með þessum orðum: 

 • Ég tel að Seðlabankinn hafi farið fram úr sér í viðbrögðum við stöðu Glitnis.  Menn áttu að taka sér lengri tíma. Sleggju var beitt þegar hamar hefði dugað.  Hvort að lengri tími hefði breytt einhverju veit ég ekki og hugsanlega hefði það gert illt verra (þó svo að sjái ekki hvernig það hefði geta orðið verra en þegar er). 
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi unnið gegn fjármálastöðugleika í landinu allt frá því að gengið var sett á flot í lok mars 2001. Það gerði hann með því að setja gengið á flot í mikilli verðbólgu og þegar stýrivextir höfðu verið háir í langan tíma.  Betra hefði verið að bíða þar til verðbólgan gekk niður og stýrivextir voru lágir til að eiga möguleika á að hækka stýrivexti samhliða því að setja krónuna á flot. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nota vísitölumælingu sem var samanburðarhæf við mælingar í nágrannalöndum okkar, þannig að allar ákvarðanir í peningamálum væru byggðar á samanburðarhæfum grunni. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði ekki átt að lækka bindiskyldu árið 2003 samhliða innleiðingu Basel II. 
 • Ég tel að innleiðing Basel II 2003 hefði átt að vera í þrepum, en ekki einu stökki. 
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nýta hagstjórnartæki sín betur til að tryggja hér stöðugt gengi, þ.e. að kaupa krónur þegar gengið var að styrkjast og þannig vinna gegn of mikilli styrkingu. Þannig hefði hann jafnframt byggt upp gjaldeyrisvarasjóð og varnað því að vaxtamunarsamningar hefðu verið gerðir á kostnað fjárhagslegs stöðugleika.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að setja sér skýr og opinber viðmið varðandi eðlilega raunstýrivexti.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að vera með sveigjanlegri verðbólguviðmið.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að veita viðskiptabönkunum meira aðhald með hækkun bindiskyldu þegar ljóst var að útrásin var gerð með skuldsetningu.
 • Ég tel að það hafi verið mikil mistök að lækka áhættustuðul við útreikning eiginfjárkröfu 2. mars 2007.
 • Ég tel að Seðlabankinn hafi strax haustið 2007 átt að bregðast við varðandi þá lausafjárþurrð sem virtist í uppsiglingu.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að styðja við gengi íslensku krónunnar strax sl. haust.  Við skulum hafa í huga að geta Seðlabankans til að styðja við krónuna var verulega skert vegna þess að hann hafði ekki styrkt gjaldeyrisforðann, þegar ytri skilyrði voru hagstæð.
 • Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að bregðast við Jöklabréfunum með því að lækka stýrivexti strax og ljóst var að spákaupmenn voru að spila á gengi krónunnar.

Þetta eru atriðin sem fjalla um Seðlabankann.  En ég á líka lista yfir það sem bankarnir hefðu átt að gera.  Hann er styttri vegna þess að í mínum huga snýst rekstur um þessi þrjú atriði:

 • Bankarnir hefðu átt að vera með mun virkari áhættustýringu
 • Bankarnir hefðu átt að vera með breytingastjórnunarferli sem gerði kröfu um að allar breytingar í rekstri og viðskiptaháttum þeirra færi í gegnum gagngera skoðun á kostum og göllum, þar með verstu mögulegu niðurstöðu
 • Bankarnir hefðu átt að vera með innleitt og prófað stjórnferli vegna rekstrarsamfellu

Það getur verið að þetta þrennt hafi verið til eða gert í einhverju mæli í bönkunum, en ljóst er að það var ekki nóg.  Kaupþing er nokkur vorkunn í þessu máli, en vitum við hvort bankinn hefði lifað vikuna, þó svo að bresk stjórnvöld hefðu ekki gert það sem þau gerðu.

Eins og þú sérð, þá persónugeri ég þetta ekki í Davíð Oddssyni, þó ég telji hann vera stóran hluta vandans.  Málið er að allir brugðust, þ.e. Seðlabankinn, ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit, Alþingi, bankarnir, fjárfestar, lífeyrissjóðirnir og almenningur.  Við létum dáleiðast af góðærinu og héldum að allt sem við snertum myndi breytast í gull.  Við létum glepjast af gylliboðum og misstum dómgreind okkar.  Við héldum að áhætta væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af.  Það kæmi ekkert fyrir okkur.  Við værum svo pottþétt.  Við dönsuðum öll í kringum gullkálfinn og dýrkuðum hann. Við hlustuðum ekki á raddir efasemdarmanna og kölluðum þá öfundarmenn, heimska, skilningssljóa, o.s.frv.  Verst af öllu er að ákveðinn hópur manna lét stjórnast af ólýsanlegri græðgi, þar sem ekkert skipti máli nema næsta grædda króna.

Loks megum við ekki gleyma því, að við lentum í hamfarastormi.  Þessi stormur er ekki af okkar völdum og við höfum fá úrræði til að komast í skjól undan honum.  Stærstu bankar heims hafa fallið í þessum stormi.  Þjóðríki út um allan heim standa frammi fyrir þroti.  Ríkustu lönd heims eru að ausa ómældum fjármunum inn í bankakerfi sín til að koma í veg fyrir fall þeirra. Það algjörlega óvíst að við hefðum staðið þennan storm af okkur í útópísku hagkerfi bara út af stærð hagkerfisins.  Að fallið hafi verið jafn harkalegt og raun ber vitni er aftur alfarið sök bankanna, Seðlabanka, ríkisstjórnar, Alþingis og Fjármálaeftirlits.  Þetta eru þeir aðilar sem eru ábyrgir (e. responsible) og hafa ábyrgðarskyldu (e. accountable)."

Athugasemd í febrúar 2018: Ég hef ekkert skipt um skoðun á flestum, ef ekki öllum þessum atriðum, þegar þetta er skrifað.

Forvitnilegt viðtal, þegar horft er í baksýnisspegilinn

Í írafárinu sem varð við þjóðnýtingu Glitnis, þá yfirsást mér viðtal Björgvins Guðmundssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Þorvarð Tjörva Ólafsson, hagfræðing á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, en viðtalið birtist mánudaginn 29. september.  Ég rakst á það áðan og held að það sé öllum holl lesning, þar sem í því viðurkennir Tjörvi raunar að seðlabankar og fjármálaeftirlit hafi gert röð af mistökum, sem leiddu til þeirrar fjármálakreppu sem núna ríður yfir.  Sérstaklega þykir mér vænt að sjá að hann hnýtir í Basel regluverkið, en ég hef einmitt gagnrýnt það, og að menn hafi gleymt að hafa eftirlit með "hinu" bankakerfinu.

Annað í þessu viðtali, sem birt er að morgni örlagaríkasta dags í hagsögu landsins, er eftirfarandi:

Almennt séð eru því hlutverk seðlabanka óbreytt frá því fyrir kreppuna. Umhverfið er hins vegar allt annað og áskoranirnar meiri. Sjálfsumgleði sumra seðlabankamanna hefur beðið skipbrot. Blómaskeiði síðustu ára er lokið og seðlabankar þurfa að taka á honum stóra sínum, læra af kreppunni sem nú skekur heimsbúskapinn og treysta innviði fjármálakerfisins til að komast í gegnum þessa kreppu en um leið draga úr líkum á frekari kreppum í framtíðinni.

Daginn sem þetta er sagt hrynur íslenska hagkerfið vegna "sjálfumgleði sumra seðlabankamanna".

Viðtalið er öllum holl lesning, ekki síst stjórnmálamönnum.  Það sem Seðlabankinn gæti líklegast lært af því, er að heimurinn hefur ekki tíma til að bíða eftir því að fræðilegri umræðu ljúki.  Menn þurfa að grípa strax inn í um leið og brestir birtast til að koma í veg fyrir að allt springi.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu: Viðtal við Þorvarð Tjörva Ólafsson

Vogunarsjóðurinn Ísland og aðrir sjóðir - 100% öryggi er ekki til

Menn keppast hver við annan þveran að gagnrýna alla sem hægt er fyrir vafasamar fjárfestingar, svindl með peningasjóði, svindl með bótasjóði, áhættusækni og skort á framsýni.  Ég hef svo sem ekki gert neina fræðilega úttekt á bótasjóðum, fjárfestingum lífeyrissjóða, fjárfestingum peningasjóða eða hvað það nú er annað sem virðist hafa mistekist á undanförnum mánuðum og árum.  Í einhverjum tilfellum hafa orðið alvarleg mistök, í öðrum er um afleiðingu þess hruns sem enginn gerði ráð fyrir og í enn öðrum (ef marka má "orðið á götunni", samt ekki það á eyjan.is) þá hafa menn verið að misnota sjóðina til að útvega bönkunum og vildarviðskiptavinum þeirra fjármagn.  Ég ætla hvorki að fjalla um mistök eða svik, en ég vona að hvort um sig séu sjaldgæfar undantekningar og enginn sjóðsstjóri hafi látið misnota sig á þann hátt.

Mér vitanlega þá gilda strangar reglur um fjárfestingar bótasjóða og peningasjóða.  Ég hef fulla trú á því að menn hafi a.m.k. framan af verið að vanda sig virkilega vel.  Þar sem ég þekkti til bótasjóðs hjá einu tryggingarfélagi, þá hélt þar algjör snillingur utan um sjóðinn.  Þetta var maður sem tókst að gera gull úr öllu.  Ég hef því enga trú á öðru, sjái þessi einstaklingur enn um stjórn sjóðsins, en að þar sé fylgt ströngum faglegum reglum.  Málið er að landslag fjárfestinga hefur breyst  gjörsamlega síðustu 10 mánuði eða svo.  Fjárfestingar, sem taldar voru gulltryggðar um síðustu áramót eru ónýtar í dag.  Af hverju ættu bótasjóðir og peningasjóðir ekki að hafa tapað eins og UBS bankinn í Sviss, Royal Bank of Scotland eða Lehman Brothers?

Ég skil alveg að fólk sé reitt, en 100 ára stormurinn gekk yfir hagkerfi heimsins og fæstir voru með flóðavarnir til að verjast hamfarabylgjunni sem fylgdi.  Fólk verður að átta sig á því að allar fjárfestingar, sama hvaða nafni þær nefnast, eru áhættusamar? Og ekki bara fjárfestingar. Það að lifa á Íslandi er áhættusamt fjárhagslega vegna óstöðugs efnahagsástands. Getur einhver hérna nefnt mér eina einustu ríkisstjórn þessa lýðveldis sem hefur tekið af ábyrgð á ríkisfjármálum, haldið gengi í jafnvægi, verðbólgunni í skefjum, atvinnustigi háu og hagvexti jöfnum, stöðugum og skynsömum. Það er alltaf verið að tala um að bankarnir og Seðlabanki hafi gert Ísland að einum stórum vogunarsjóði. Ja, hér eru fréttir: Ísland hefur alla tíð verið einn stór vogunarsjóður og það löngu áður en vogunarsjóðirnir urðu til. Að búa í landi, þar sem maður getur aldrei treyst á að verðbólgu verði haldið í skefjum, að krónan haldist stöðug eða vaxtastig sé viðunandi er ekkert annað en óvissureið á borð við vogunarsjóð.

En aftur að sjóðunum.  Peningasjóðir eiga að vera alveg gulltryggðir.  Ég man þegar ég lagði pening í slíka sjóði fyrir 10 árum eða svo (peningamarkaðsbréf hjá Landsbréfum), þá var markmiðið að vera með óbundna reikninga, sem gáfu betri ávöxtun en almennar bankabækur og voru traustir.  Ég gat vegna þeirrar upphæðar sem ég var með (2 - 3 milljónir) líka fengið að kaupa víxla.  Peningamarkaðsbréfin gáfu 5 - 8% ársávöxtun, en víxlarnir allt að 15%.  Munurinn var að peningamarkaðsbréfin voru laus með dags fyrirvara, en víxlarnir voru bundnir í 30, 60 eða 90 daga.  Við skulum alveg hafa eitt á hreinu. Áhættan af víxlunum var margfalt meiri en af peningamarkaðsbréfunum.  Það var m.a. þess vegna sem ég fékk meiri ávöxtun af þeim. Ég veit ekki hvað þjónustufulltrúar bankanna sögðu við fólk, þegar það féllst á að flytja innistæður sínar af almennum reikningum (eða þess vegna verðtryggðum) yfir í peningasjóði.  Eitt hefði þó átt að fylgja:  Hærri vextir bera meiri áhættu.  Þetta er einfaldasta regla áhættustýringar.  Hafi einhverjum dottið í hug að 5% hærri ávöxtun yki á engan hátt áhættuna, þá lifði sá hinn sami í blekkingu. 

Þetta er eins og keyra bíl.  Gefum okkur að maður þurfi að komast á milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir ákveðinn tíma, segjum kl 18.00.  Við getum í grófum dráttum farið 2 leiðir að þessu. 1. Lagt tímanlega af stað og ekið á 70 - 90 km/klst. allan tímann (eða þess vegna hægar) og komið tímanlega, segjum milli 5 og 6.  Ef eitthvað fer úrskeiðis, svo sem bilun, dekk springur eða við verðum bensínlaus, þá er tæpt að við náum á tilsettum tíma. Lítil hætta er á slysum, þar sem við ökum tiltölulega rólega, og bensíneyðsla er hófleg.  Ef við lendum í slysi, þá verður tjón og meiðsl lítil.  2. Lagt af stað eftir hádegi og allt gefið í botn.  Ekkert svigrúm fyrir áföll, slysahætta eykst og einnig bensíneyðslan.  Ef við lendum í slysi er tjón mikið og löng sjúkrahúslega framunda, ef ekki bara banaslys.

Ef við segjum að hraðinn sé ávöxtunin, aksturstíminn sé tíminn sem það tekur okkur að ná ákveðinni ávöxtun og slysahættan og bensíneyðslan lýsi áhættunni okkar, þá sjáum við að aukinn hraði á peningamyndun eykur áhættu.  Það er alveg sama hvað einhver þjónustufulltrúi segir, peningasjóðir eru ekki tryggðir í bak og fyrir.  Þeir standa af sér flesta storma, en aldrei hamfaraveður, 100 ára storma.  Það getur orðið banaslys.  Spurningin er:  Áttu þjónustufulltrúarnir að vara við 100 ára stormi eftir að Glitnir var þjóðnýttur?  Átti að vara viðskiptavini strax við að í peningasjóðunum fælist meiri áhætta en í innlánsreikningunum?  Svo getum við spurt þá sem lögðu inn á Icesave hvort hafi verið öruggara, að leggja inn á Icesave í Englandi eða eiga inni í peningasjóði á Íslandi.

Sagan segir okkur (þ.e. fram til 6. október 2008) að peningasjóðir hafi verið gulltryggð ávöxtunarleið.  Tölfræði síðustu mánuði og ár segir okkur það.  Alveg eins og tölfræði síðustu ára sagði stórum bönkum úti í heimi að áhættan af undirmálslánunum var ásættanleg.  Fyrst að stóru aðilarnir með alla sína sérfræðiþekkingu klikkuðu, af hverju áttu einhverjir eyjaskeggjar í norðri að vita betur? 

Ég tek það fram að ég átti ekkert inni í peningasjóðum, en það er af þeirri einföldu ástæðu að allt mitt eigið fé er bundið í steinsteypu og meiri steinsteypu en ég kæri mig um, þar sem ég get ekki selt núverandi húsnæði og næ ekki að gera íbúðarhæft húsið sem ég er að byggja.  Þannig hefur eigið fé mitt brunnið hratt upp síðustu mánuði, en næstu 8 ár á undan hafði það líka byggst upp með ævintýralegum hætti. Hver er nettó hagnaður minn af þeim peningi sem ég átti 1999 og fór í steinsteypu það ár? Líklega fimmföldun, ef ekki meira.  Fer eftir genginu.  Hvað á það við um marga aðra?  Alveg örugglega fjölmarga. 

Líklegt er að fjöldi fólks fari illa út úr peningasjóðum bankanna, en hve margt af þeim var áður búið að græða helling á því að veðja á vogunarsjóðinn Ísland?  Ég geri mér grein fyrir að margir fara með neikvæðan höfuðstól út úr falli bankanna og stefna í gjaldþrot vegna þess.  Þeim þarf að hjálpa.  En hve margir eru í plús miðað við stöðuna 2002, hafa lifað góðu lífi undanfarin ár vegna betri tekna, en þurfa núna að draga saman seglin án þess að þrot blasi við?  Áttu nokkur hundruð þúsund í upphafi og eiga nokkrar milljónir núna eftir að hafa fengið 65% út úr peningasjóðum.  Keyptu kannski fyrir kr. 200.000 í Búnaðarbankanum á genginu kr. 1,69 og seldu svo hluta á genginu 450 þegar bankinn hét KB banki eða 1150 á síðasta ári. 

Þetta fólk kvartaði ekki þegar áræðnin skilaði sér í hagnaði, en það verður að skilja að til að auka möguleika á miklum hagnaði, þá eykur maður um leið líkurnar á miklu tapi.  Þetta er grundvallarregla áhættustjórnunar.  Og önnur grundvallarregla:  100% öryggi er ekki til.  Við getum nálgast það út í það óendanlega, en við munum aldrei ná því.  Spurningin er að finna jafnvægið á milli vænts taps, þ.e. ásættanlegrar áhættu, og kostnaðarins við að auka öryggið frekar.  Hvenær er öryggið orðið nógu mikið til þess að það borgar sig ekki að auka það.

Við höfum fjórar leiðir til að fást við áhættu:  1. Grípa til ráðstafana til að draga úr henni eða eyða alveg.  2. Sætta okkur við hana.  3.  Forðast hana með breyttum aðferðum/atferli.  4. Færa hana til annars aðila (sbr. tryggingar).  Áhættan af vogunarsjóðinum Íslandi er hægt að meðhöndla eftir öllum þessum leiðum, en ef hún er óbærileg, þá getum við forðast hana með því að flytja úr landi.  Við þurfum bara að muna, að önnur áhætta kemur í staðinn.  Áhættuna varðandi peningasjóðina var best að meðhöndla með því að forðast þá eða dreifa á fleiri en einn sjóð.  Raunar er málið þannig, að enginn ráðgjafi hefði átt að ráðleggja viðskiptavini sínum að setja alla peninga sína á einn stað.  Hafi það verið gert, þá er nauðsynlegt að breyta þessu í verklagsreglum bankanna.

Á hverju munu Íslendingar lifa?

Við stöndum frammi fyrir því að enn ein tilraunin í atvinnusköpun og verðmætaaukningu hefur runnið út í sandinn.  Á undan hafa farið síldin, loðdýrarækt, fiskeldið, rækjuveiðin og nú síðast bankakerfið.  Vafalaust mætti telja fleiri gullkálfa, en ég læt þessa duga.  Allt hefur þetta fallið vegna fyrirhyggjuleysi þeirra sem voru í þessum atvinnugreinum. Menn hugsuðu að þetta hlyti bara að ganga, þar sem útlendingum hafði heppnast að láta þetta ganga.  En annað kom á daginn.  Það er eins og í öllu þessu hafi gleymst að sígandi lukka er best. (Sígandi lukka þýðir hófsemi.)  Það er líklegast stærsta vandamál okkar Íslendinga, að við erum alltaf að leita að töfralausnum og þegar við teljum okkur hafa fundið þær, þá á að taka heiminn með trompi.  Minnimáttarkomplexar okkar eru svo ríkjandi, að við getum ekki sætt okkur við neitt annað, en að geta slegið þeim bestu við.  Garðar Hólm er út um allt í okkar samfélagi.  Menn sem eru á fullu að sannfæra okkur hvað þeir eru frægir og stórir úti í heimi, þegar í reynd þeir eru bara litlir karlar.

En þetta innlegg átti ekki að fjalla um það sem mistókst, nema í þeim tilgangi að við gætum lært af því.  Spurningin er aftur: á hverju við Íslendingar munum lifa í framtíðinni?  Hér fyrir neðan er listi yfir fyrirtæki og starfsemi í okkar litla landi sem gætu hjálpað okkur við að byggja upp nýtt Ísland.  Þetta eru fyrirtæki sem hafa skapað okkur útflutningstekjur undanfarin ár en eru ekki alltaf talin upp í því samhengi eða eru minna áberandi en stóriðjan, sjávaraútvegurinn, fjármálastarfsemin, Actavis,  Marel og Össur.  Listinn er tekinn saman af Róland R. Assier,sem m.a. kennir við Leiðsöguskólann, og er fenginn úr námsefni í áfanganum Atvinnuvegir 101.  Vona ég að Róland sé ósárt um að ég birti þessar upplýsingar hér.  Tekið skal fram að listinn miðar með fáum undantekningum við hlutina, eins og þeir voru við lok síðasta árs. Hugsanlega hafa því fyrirtæki hætt starfsemi, sem eru á listanum, og önnur bæst við sem ættu að vera þar.  Það væri gott, ef lesendur bloggsins eru til í að bæta við fleiri aðilum sem skapa þjóðinni útflutningstekjum.  Athugið að ferðaþjónustan telst ekki til fyrirtækja með útflutningstekjur, þó vissulega séu gjaldeyristekjur greinarinnar miklar (sjá nánar neðst).

Iðnaðarvörur:

 • Fiskvinnsluvélar og vélar
  • Skaginn
  • Traust
  • 3 X Stál
  • Klaki
  • Mesa
  • Landsmiðjan
  • Vélfag
  • Formax
  • Samey...
 • Kæli- og frystibúnaður
  • Celcíus
  • STG
  • Kælikerfi
  • Frost
  • Optimar
 • Búnaður til fiskveiða 
  • Hampiðjan/J. Hinriksson
  • Netagerð Vestfjarða
  • Fjarðarnet
  • DNG sjóvélar
 • Bátasmiðjur:
  • Trefjar
  • Bátasmiðja Guðmundar
  • Ósey
  • Mótun Bátastöðin Knörr
  • Seigla
  • Samtak
  • og fleiri og fleiri
 • Plastiðnaður
  • Sæplast
  • Borgarplast
  • Reykjalundur
  • Set
 • Umbúðir og prent
  • Plastprent
  • Kassagerðin
  • Oddi

 Hugvit og hátækni:

 • Hátækni
  • Vaki
  • MarOrka
  • Ecoprocess
  • Hafmynd
  • Fjölblendir
  • Stjörn-Oddi
 • Framleiðslutækni
  • Íslenska lífmassafélagið
  • Icelandic Green Polyol
  • Límtré
  • Alur
  • MT-bílar
  • PetroModel
 • Líftækni, lyf og heilsu- og snyrtivörur
  • Saga Medica
  • Orf líftækni
  • Primex
  • Norður ehf.
  • NorðurÍs
  • NimbleGen Systems Iceland
  • Ensímtækni/Zymetech
  • Ísgel
  • Lífeind
  • Lýsi
  • Móðir Jörð
  • Blue Lagoon
  • Iceherbs
  • Purity Herbs
  • Prokaria
  • Genís
 • Lækningartækni
  • Medcare-Flaga
  • Kine
  • Viasys Healthcare
  • Oxymap

Upplýsingatækni

 • Hugbúnaður, hugbúnaðar- og margmiðlunarþróun
  • Hugbúnaður fyrir sjávarútveginn og matvælavinnslu
  • Hugbúnaður fyrir stórmarkaði og stórverslanir
  • Hugbúnaður fyrir heilbrigðisgeirann
  • Hugbúnaður fyrir hitaveitukerfi
  • Hugbúnaður fyrir hernað
  • Hugbúnaður fyrir miðlun stafræns efnis
  • Ljósleiðaranet
  • Samskiptalausnir
  • Skjalastjórnun, stjórnun viðskiptatengsla
  • Öryggiskerfi
  • Tölvuleikir
  • Margmiðlun o.fl.
  • EJS International, Marel, Flaga, Hugur, Industria, Hugvit, Memphis, Kögun, Taugagreining, Gagarín, Menn og mýs, Mentor, Landsteinar Strengur, 3-plus, OpenHand, Caoz, CCP, Track-Well o.s.frv.

Fatnaður:

 • Vinnufatnaður
  • 66°N/Max
  • Trico
 • Tískufatnaður
  • Sportey
  • Nikita
  • 66°N
  • Zo-on
  • Cintamani
  • Spakmannspjarir
 • Annað
  • Ullarlopi, ullarband
  • Víkurprjón
  • Ístex
  • Glófi
  • Loðskinn
  • Sjávarleðu r

Drykkjavörur

 • Vatn
  • Icelandic Glacial
  • Icelandia PLC
  • Iceland Water
  • Glacier World 

Við þetta má svo bæta sjávarútvegi, stóriðju, fjármálastarfsemi, Marel og Össuri.

En gjaldeyristekjur verða ekki bara við útflutning.  Einn er sá vettvangur sem skapar miklar gjaldeyristekjur en það er ferðaþjónustan.  Þar gnæfa flugfélögin, Icelandair og IcelandExpress, upp úr, en í það heila voru gjaldeyristekjur af ferðamönnum um 50 milljarðar á síðasta ári, saman borið við 80 milljarða af útflutningi áls og 128 milljarða vegna útflutnings sjávarafurða.

Veiking krónunnar á þessu ári mun hafa mikil áhrif til hækkunar á útflutnings og gjaldeyristekjum.

Góð "við hefðum átt að hlusta"-umfjöllun

Það er gott að sjá svona samantekt á fréttum fyrri ára.  Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá tilvísunina í "of stór til að láta riða til falls eða of stór til að verða bjargað?" í umsögn Royal Bank of Scotland.  Málið er að þetta segir allt sem segja þurfti.  En hverjir áttu að bregðast við?  Átti Kaupþing að bregðast við og draga úr vexti sínum eða var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks sem áttu að bregðast við?

Ég er ekki í vafa um svarið:  Það voru stjórnvöld sem áttu að bregðast við.  Þau áttu að setja fram kröfur um að innlán sem hlutfall af útlánum þyrftu að ná alþjóðlega viðurkenndum mörkum.  Þau áttu að auka bindiskyldu til að minnka útlánamargfaldarann.  Þau áttu að efla hlutverk Fjármálaeftirlitsins og gefa því auknar valdheimildir.  Þau áttu að setja skorður við því hve mikið bankarnir gætu aukið innlán erlendra ríkisborgara, sem ekki eru búsettir á Íslandi, á reikninga sem eru á ábyrgð Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Þetta voru allt aðgerðir sem Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og "ekki mér að kenna" Framsóknarflokks áttu að grípa til.

Icesave er vafalaust stærsti skandallinn í þessu öllu.  Ekki það að hugmyndin var stórgóð og átti að bæta það atriði sem kemur fram í umsögn Dresdner Kleinworth Wasserstein að hefðbundin innlán væru of lágt hlutfall af útlánum.  Það var bara framkvæmdin sem var röng.  Í Bretlandi geta eingöngu þeir, sem eru með fasta búsetu í landinu, lagt inn á breska innlánsreikninga. (Þetta hefur komið fram í umfjöllun breskra fjölmiðla.)  Þetta er gert til þess að aðilar búsettir erlendis geti ekki fengið greiddar út ábyrgðir breskra stjórnvalda vegna þessara reikninga.

Ef maður skoðar lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, þá kemur dálítið forvitnilegt í ljós. Lögunum var breytt með lögum nr. 108/2006 dagsett 14. júní 2006 (sjá greinar 92 - 94) og inn í þau bætt heimild fyrir aðild erlendra útibúa innlendra fjármálafyrirtækja.  Það kemur sem sagt ekki bara í ljós að ríkisstjórnin átti að vita af ábyrgð sjóðsins gagnvart icesave, hún heimilaði það og hreinlega hvatti til þess.  Það þýðir ekkert fyrir menn að segja "þetta bara gerðist", þar sem þetta gerðist með vilja og vitund síðustu ríkisstjórnar!  Ríkisstjórnin opnaði hliðið fyrir Landsbankann að setja á fót icesave með lögum nr. 108/2006.  Það var greinilegt að menn hugsuðu ekkert út í hvað þeir voru að leyfa.

Fréttaskýring sem bloggað var við:  Baksvið: Viðvörunarljósin leiftruðu í þrjú ár

(Mæli ég með lestri fréttaskýringar Björns Vignis Sigurpálssonar annarra baksviðsgreina sem komu út í október 2008.)

Hér til viðbótar er texti úr athugasemd, sem ég setti við færsluna á Moggablogginu:

"Annars er áhugavert að lesa umræðuna sem varð á Alþingi þegar frumvarp að lögum nr. 98/1999 var lagt fram.  Þar kemur Guðmundur Árni Stefánsson í ræðustól og spyr viðskiptaráðherra, Finn Ingólfsson:

Herra forseti. Í ljósi þessarar gjörbreyttu stöðu og ljósra áforma ríkisstjórnarinnar um sölu Búnaðarbanka og Landsbanka og raunar þar með einkavæðingu alls fjármálakerfisins hér á landi, þá væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherrans til þess hvað hann telur að mundi gerast ef svo færi að stórar innlánsstofnanir á borð við Búnaðarbankann eða Landsbankann lentu í greiðsluerfiðleikum, nálguðust gjaldþrot, og að þeir sjóðir sem eru lagðir til stæðu ekki nægilega sterkir til þess að rétta hlut þeirra sem eiga fjármagn í þessum bönkum.

Svar ráðherra er síðan:

Ég vil ekki vera að velta því nákvæmlega fyrir okkur hvað gerist ef tiltekin bankastofnun fer á hausinn. Hins vegar er það svo að ef sjóðurinn getur ekki staðið fullkomlega undir öllum skuldbindingum, þá er gert ráð fyrir því að allir þeir sem eiga 1,7 millj. kr. inni í viðkomandi fyrirtæki, viðkomandi bankastofnun, fái það að fullu greitt. En síðan greiddist það sem umfram það er og eftir stæði hjá sjóðnum hlutfallslega ofan á þá upphæð. Þetta er reglan sem sett er. Síðan er gert er ráð fyrir því hvað sjóðurinn þurfi að vera með af peningum hverju sinni og hvað hann eigi að vera með hverju sinni til ráðstöfunar miðað við stærð kerfisins. Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.

Sem sagt, menn vildu ekki gera ráð fyrir því að illa færi.

Svo er líka gott hér að vitna í orð Péturs H. Blöndal í 2. umræðu um málið:

Til þess að hindra það höfum við mjög sterkt bankaeftirlit með þessum fyrirtækjum eins og ég gat um áðan, að mörgu leyti strangara en með innlánsfyrirtækjunum. Síðan er eiginfjárkrafa til verðbréfafyrirtækja sem er mjög há, tugir milljóna, og svo er að auki starfsábyrgðartrygging fyrirtækjanna og lykilstarfsmanna þeirra. Það er því nærri útilokað, herra forseti, að það verði tjón á þessu sviði. Það þurfa þá að koma til nokkuð stórfelld mistök eða misferli sem fer saman við gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis. Þá hafi sem sagt allt bilað, starfsábyrgðartryggingin, eiginfjárkrafan, bankaeftirlitið o.s.frv. Þetta er nærri því útilokað. 

Enn og aftur er öryggi manna slíkt gagnvart bankakerfinu, að það geti ekki klikkað.  Menn vilja ekki gera ráð fyrir hinu óvænta."

Svindl matsfyrirtækjanna og Basel II reglurnar

Ég hef oft fjallað um vanhæfni og svindl matsfyrirtækjanna í færslum mínum, enda tel ég að ábyrgð þeirra vegna þeirrar kreppu sem er að ganga yfir fjármálakerfi heimsins sé mikil.  Til að skýra í stuttu máli í hverju þetta svindl hefur falist, þá hafa matsfyrirtækin, Moody's, S&P og Fitch, tekið þátt í því með útgefendum verðbréfa að gefa slíkum bréfum einkunnir sem eru langt fyrir ofan raunverulegt verðmæti bréfanna.  Þetta byggðist fyrst í kringum undirmálslánin í Bandaríkjunum, en hefur síðan breiðst út til mun fleiri pappíra.

Aðferðin sem beitt var, byggir á því að hjálpa útgefanda verðbréfa (afleiða eða annarra pappíra), sem eru með veði í t.d. húsnæðislánum, að búa til vöndla sem hafa fá hærra mat en hin undirliggjandi veðlán.  Þannig eru veðlán kannski með mat upp á BBB, en nýju bréfin hafa alla jafna fengið mun hærri einkunn og algengast var að gefa þeim AAA-einkunn.  Þetta var gert með því að búa til verðbréfavafninga, sem settir tryggðir voru með veðum af mismunandi gæðum.  Þetta hefur svo sem verið skýrt út oft og mörgum sinnum og því ætla ég ekki að eyða plássi í það hér.  En spurningar sem standa eftir eru tvær:  Af hverju þurftu menn að fara út í þetta svindl?  Og hvers vegna er þetta orðið jafn algengt og raunber vitni síðustu ár?

Svarið við báðum þessum spurningum er það sama:  The New Basel Capital Accord Framework öðru nafni Basel II sem gefið var út í janúar 2001 af Basel Committee on Banking Supervision hjá Alþjóða greiðslubankanum (Bank for International Settlements).  Auðvitað er Basel II ekki sökudólgurinn, heldur varð ákveðinn sveigjanleiki í reglunum um útreikning á eiginfjárkröfu til þess að menn reyndu að komast í kringum þær.

Basel II reglurnar setja grunninn að því hvernig eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er reiknað út.  Hin almenna regla er að þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8% af útlánum, þ.e. fyrir hverjar 1 milljón sem lánuð er út, þá þarf fjármálafyrirtækið að eiga 80.000 í eigin fé.  En ef þetta væri bara svona einfalt.  Menn áttuðu sig á því að útlán voru misjafnlega áhættusöm.  Þannig eru opinberir aðilar, að maður tali nú ekki um ríkissjóðir, taldir mun áreiðanlegri lántakendur en t.d. bílasalar eða smávöruverslun.  Því þótti óeðlilegt að lán til smávöruverslunar hefði sama vægi í eiginfjárkröfunni og lán til ríkissjóðs Bandaríkjanna.  Menn fundu því upp á því að bæta við vægisstuðli og tengja hann við ekki bara eðli lána, heldur einnig lánshæfismat fyrirtækis, banka eða lands eða mat sem verðbréf fengu hjá matsfyrirtæki, o.s.frv.  Reglan er einföld:  Há matseinkunn þýðir lágan stuðul og lág matseinkunn þýðir háan stuðul.  Áhættuvægi lána eða verðbréfa getur því verið allt frá 0% vegna AAA til AA- metinna lána/verðbréfa með ríkisábyrgð til 150% ef mat fer niður fyrir B- þegar um er að ræða kröfur á banka eða ríkissjóði eða BB- ef kröfur eru á fyrirtæki.  Þannig breytist eiginfjárkrafan eftir gæði matseinkunnarinnar.

Það sem mestu máli skiptir þó í þessu líkani er, að áhættuvægi vegna eiginfjárkröfu fyrir BBB metna krafna á fjármálastofnun er 100%, þ.e. enginn afsláttur gefinn, meðan áhættuvægið er 20% ef matið er AAA.  Það þýðir bara eitt.  Fjármálastofnun getur átt fimm sinnum meira af AAA metnum kröfum en BBB metnum kröfum fyrir sama eigið fé.  Matið setti útgefendum verðbréfanna því greinilega takmörk sem þau sættu sig ekki við, þar sem það kom í veg fyrir að fyrirtækin gætu selt alla þá vafninga sem þau vildu gjarnan gefa út.

Leiðin framhjá þessu var að fá matsfyrirtækin í lið með sér og búa til það mesta svindl og skjalafals sem heimurinn hefur líklegast nokkru sinni orðið vitni að eða eigum við kannski að segja orðið fyrir.  Flóknir stærðfræðiútreikningar voru notaðir til að grafa sannleikann fyrir hverjum þeim manni sem datt í hug að vefengja áhættuútreikninga.  Vildu menn kynna sér útreikningana, þá fengu þeir í hendur nokkur hundruð blaðsíður af rökstuðningi fullar af stærðfræðiformúlum, sem vafalaust stóðust í útópísku fjármálakerfi þar sem aðeins 7 af hverjum 1.000 lánum fara í vanskil.  Málið var bara að menn vissu betur.  En með þessum flækjum tókst mönnum að ná því markmiði að breyta BBB undirmálslánum í gulltryggða AAA vafninga og þar með koma fimmföldu magni slíkra pappíra í umferð en annars hefði verið.  Nú kaupendurnir voru meðal annars fjármálafyrirtæki sem fylgdu reglum Basel II og tóku því fagnandi að geta keypt AAA vafninga inn í eignasöfn sín.  Fyrirtæki sem hefðu líklegast hunsað við þessum vafningum, ef þeir hefðu haft BBB mat. 

Nú spyr einhver sig:  En hvar var fjármálaeftirlitið?  Ja, starfsemi fjárfestingabanka og matsfyrirtækja var fyrir utan eftirlit fjármálaeftirlita og því átti þetta svindl sér stað átölulaust.  Það var ekki svo að fjármálaeftirlit Bandaríkjanna vissi ekki af þessu.  Langt því frá.  Það vissi af þessu en líkt og við Íslendingar þekkjum varðandi íslensku bankanna, þá hafði það ekki úrræði til að sporna gegn þessu.  Við hlið hins eftirlitsskylda fjármálakerfis óx því eftirlitslaust kerfi sem í dag er margfalt stærra ein hitt.

En hvernig getur það gerst að BBB pappírar geta orðið að AAA veðum?  Auðvitað á það ekki að geta gerst.  Hvort ástæðuna megi frekar rekja til skorts á eftirliti eða hreinlega skorts á reglum, þá er að minnsta kosti ljóst að skortur á siðgæði var stór ástæða, að ógleymdri gömlu góðu græðginni.  Hvað regluhliðina varðar, þá á náttúrulega ekki að vera hægt að breyta BBB pappírum í AAA veð.  Þar má svo sem benda á Basel II og segja að menn hafi hreinlega haft of mikla trú á heiðarleika fjármálafyrirtækja þegar reglurnar voru samdar.  Og kannski ekki af ástæðulausu.  Svona vafningar voru einfaldlega ekki til, þegar reglurnar voru í vinnslu, eða a.m.k. fór mjög lítið fyrir þeim.  Þegar vafningarnir fóru að koma fram, þá klikkaði Basel-nefndin með því að bregðast ekki við.  Hún átti strax að taka fyrir svona leikfimi með því að kveða úr um að svona afleiðuvafninga mætti aldrei meta hærra í útreikningi á eiginfjárhlutfalli en hin undirliggjandi veð.  Því miður var það ekki gert og verður það að teljast alvarleg yfirsjón af hálfu Basel-nefndarinnar.

Það er hart að setja þurfi reglur sem banna allt sem er ekki sérstaklega leyft.  Mannlegt eðli er bara því miður þannig, að finni menn glufu, þá troða þeir sé inn um hana og víkka eins og mögulegt er.  Hinn eftirlitslausi hluti bandaríska fjármálakerfisins er mesti ógnvaldurinn þegar kemur að þessu og ábyrgð hans er mikill í þeirri fjármálakreppu sem gengur fyrir heiminn.  Hvort ráðamenn vestan hafs og forráðamenn þessara fjármálafyrirtækja munu nokkurn tímann viðurkenna, hvað þá axla, ábyrgð sína í þessu máli, finnst mér ákaflega ólíklegt og ennþá ólíklegra að hægt verði að sækja til þeirra bætur vegna þess fjárhagsskaða sem þeir hafa valdið.

--

Vil svo bæta hér við athugasemd frá Guðmundi Ásgeirssyni:

"Ég stenst ekki mátið að bæta við mínum eigin hugleiðingum um þetta, en mér finnst það viðeigandi hér í framhaldi af þessari prýðilegu greiningu þinni. Þú útskýrir nefninlega mjög vandlega og skilmerkilega það sem mig byrjaði að gruna fljótlega eftir að þessi matsfyrirtæki komust í hámæli og hef sannfærst um fyrir þónokkru síðan: að þetta eru hálfgerðar svikamyllur.

Einnig sýnir þú fram á og rökstyður betur en mér hefur hingað til tekist sjálfum, að eftir að allur markaðurinn (nánast) var búinn að hengja sig á mat þeirra, þá sátu þau uppi með mikla ábyrgð og höfðu þannig í reynd vald til að fella (nánast) allan heimsmarkaðinn samtímis! Þrjú fyrirtæki, Moody's, S&P og Fitch höfðu t.d. samtals meira en helmingshlutdeild í heimsmarkaðnum og hegðunarmynstrið í matsákvörðunum þeirra hefur öðru fremur minnt mann á verðsamráð gömlu olíufélaganna hérna heima, slík er fylgnin þarna á milli. (Eða eins og beljur í fjósi, ef ein lækkar þá lækka hinar nánast undantekningalaust alveg jafn mikið.)

Svo þegar sannleikurinn fór að skína í gegn og vandamál að koma í ljós þá byrjaði að breiðast út mikill undirliggjandi titringur á heimsmörkuðunum. Það að sprengjan skyldi svo ekki komast upp á yfirborðið fyrr má e.t.v. skrifast á varkárni fjárfesta á heimsmarkaði sem voru allir orðnir flæktir í spilið hvort sem það var viljandi eður ei. Eftir það var svo í raun aðeins tímaspursmál hvenær dómínóið færi af stað, þetta þagnarsamsæri og kvíðaástand á heimsvísu gat ekki enst að eilífu.

Þegar hrunið hófst fyrir alvöru voru svo matsfyrirtækin í raun búin að mála sig út í horn með öllum fjárfestunum og stóðu frammi fyrir tveimur valkostum, hvorugum góðum: 1) að halda háu mati á skuldabréfum fyrirtækja sem voru jafnvel á leið í greiðslustöðvun og tapa þar með orðsporinu sem er dýrmætasta eign fyrirtækis sem fæst við að meta fjárhagslegt traust, eða 2) að reyna að bjarga eigin orðspori með því að viðurkenna sannleikann og lækka mat á þeim fjármálafyrirtækjum sem stóðu frammi fyrir vandræðum án tillits til áhrifa þess á viðkomandi fyrirtæki.

Eins og við vitum þá var það valkostur 2) sem varð ofan á og eftir lækkanir á lánshæfismati byrjuðu "lánalínur" að lokast, bankar að riða til falls og ýmis fjármálafyrirtæki að stefna í gjaldþrot. Eftir að sú skriða fór af stað varð ekki aftur snúið og síðan þá hefur ástandið undið upp á sig eins og snjóbolti sem fer hraðar en stjórnvöld ná að grípa inn í með sínum "neyðaraðgerðum" sem þau kalla að sturta peningum (almennings) inn í bankakerfið í von um að það muni redda einhverju.

Sem dæmi um hversu fáránlegt umverfið er orðið má nefna ákveðna forvitnilega tegund af áhættutryggingu sem kveður t.d. á um að ef lánshæfismati lántakanda lækki niður fyrir ákveðið mark skuli samningnum sjálfkrafa rift og hann strax greiddur upp að fullu, en heilu herskararnir af verðbréfamiðlurum og lögfræðingum vinna við að innheimta slíka samninga enda er það skylda þeirra fyrir hönd sinna viðskiptavina. Slík innheimta gengur beint á lausafjárstöðu skuldarans, sem óbeint leiðir til frekari lækkunar á lánshæfismati og fleiri samninga sem falla við það í eindaga og svona upphefst vítahringur sem þrengist í eftirfarandi skrefum:

#1 Skuldarinn neyðist skyndilega til að moka út lausafé til að mæta þessum óvæntu kröfum. #2 Ef skuldarinn er banki verður hann að verja sig fyrir þessari hröðu lækkun eiginfjárhlutfalls svo hann fari ekki niður fyrir lögbundið lágmark. Það getur hann gert með innheimtu gjaldfallinna skuldabréfa ef hann býr svo vel að eiga einhver slík, eða með sölu eigna sem er oft eina ráðið. #3 Þeir sem eiga hagsmuni undir bankanum komna verða varir við mikla sölu á eignum bankans og sjá að eitthvað óeðlilegt er á seyði, verða áhyggjufullir og taka út innistæður sínar eða selja sig út úr hlutabréfasjóðum o.þ.h.. Með öðrum orðum þá minnkar eftirspurnin eftir frekari skuldabréfaútgáfu bankans og því er slík endurfjármögnun ekki lengur valkostur, síst af öllu við gaddfreðnar markaðsaðstæður eins og nú ríkja. þegar allt lausafé hefur svo ryksugast burt hefst kapphlaup við tímann þar sem stjórnendur bankans rembast við að selja eignir nógu hratt til að eiga fyrir skuldum áður en veðköllin byrja að berast. #4 Ef bankinn er mikið* eða réttara sagt "illa" skuldsettur getur þetta aðeins endað á tvo vegu: annaðhvort tekst ekki að selja nógu miklar eignir nógu hratt til að standa í skilum á réttum tíma, eða ef það tekst þá verður bankinn áður en yfir lýkur eignalaus og getur ekki staðið í skilum með þær kröfur sem þá standa eftir. #5 Þegar banki stendur ekki í skilum telst hann umsvifalaust gjaldþrota.

*Með "vondri" skuldsetningu á ég við að uppbygging skulda- og eignasafns viðkomandi banka sé með þeim hætti að hún sé til þess fallin að leiða til svona atburðarásar. Án þess að ég hafi neitt haldbært fyrir mér í þeirri tilgátu, þá grunar mig samt fastlega að eitthvað svona hafi verið uppi á teningnum hjá Glitni þegar sá banki leitaði eftir aðstoð Seðlabankans, ekki síst í ljósi þess hversu hröð atburðarásin varð í kjölfarið. Eins og því hefur verið lýst er líkt og allt hafa farið í steik hjá þeim á þessum örfáu dögum(eða svo er sagt) þar til bankinn var þjóðnýttur . Annað hvort það eða þá að Lárus Welding hefur einfaldlega logið blákalt að framkvæmdstjóra ónefnds lífeyrissjóðs þegar hann fullyrti að rekstur bankans væri í góðum málum, aðeins tveimur dögum fyrir helgina örlagaríku.

Eins og fljótlega kom í ljós þá var allt íslenska efnahagslífið meira og minna samtvinnað og búið að hengja sig á allskyns svona skilmála sem skiptu e.t.v. engu máli á meðan allt lék í lyndi. Bæði vegna þess en ekki síst vegna ófyrirsjáanlegrar og ósvífinnar valdbeitingar erlendis frá, hrundi það því eins og spilaborg á undraskömmum tíma.

Þetta er skuldahliðin, en hvað með eignahliðina

Mönnum hefur verið tíðrætt um skuldir bankanna og skuldbindingar í útlöndum.  Þetta eru svakalegar tölur og er alveg með ólíkindum að menn hafi teygt sig svona langt, en það er búið og gert og taka verður á þeim vanda af festu og yfirvegun.  Það sem mér finnst aftur vanta í þessa umfjöllun eru upplýsingar um hve miklar eignir/kröfur bankarnir eiga/áttu í útlöndum og hver skipting þessara eigna/krafna er.  Ef þessar tölur fást fram, þá væri hugsanlega hægt að slá aðeins á þá múgæsingu sem er í gangi hér á landi og erlendis, eða að við fengjum það þá svart á hvítu hve ástandið er slæmt.

Það getur verið, að þær upplýsingar sem hér um ræðir séu viðkvæmar, en ég held að skaðinn af leyndinni sé farinn að verða meiri en að birta þær.  Auk þess finnst mér sem landsmenn eigi heimtingu  á því, þannig að við getum fylgst með því hvaða eignir eru að fara á brunaútsölu.

Frétt sem bloggað var við: Skulduðu Þjóðverjum milljarða

Ætla að lána 3 milljarða punda

Samkvæmt frétt á vef Financial Times (www.ft.com) ráðgera bresk stjórnvöld að lána Íslandi 3 milljarða GBP svo hægt verði að endurgreiða Bretum sem áttu innstæður á Icesave innlánsreikningum Landsbankans.

Sagt er að lánið sé mikilvægt skref svo hægt sé að losa um eignir Landsbankans í Englandi, en eins og alþjóð veit voru þær frystar með tilvísun í hryðjuverkalög fyrir 2 vikum.   Sagt er að sendinefnd breska fjármálaráðuneytisins og Englandsbanka séu á leiðinni til að "ganga frá málum". 

Það virðist vera hluti af samkomulaginu að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á fyrstu 20.887 EUR af innistæðum hvers aðila, en bresk stjórnvöld greiði það sem upp á vantar upp í 50.000 GBP (mismunur upp á 33.811 GBP).  Talið er að á breska ríkið falli um 2,4 milljarðar GBP.

Jafnframt er sagt að samkomulagið dekki hvorki innistæður fyrirtækja né opinberra aðila.

Þetta verða að teljast mikil tíðindi og vonandi verður Landsbankinn í framhaldinu tekinn af lista breskra stjórnvalda yfir vafasama aðila og gjaldeyrisviðskipti geta komist í samt horf.

Fréttin í heild er hér:

"Treasury plans £3bn loan to Iceland

By David Ibison in Reykjavik

Published: October 21 2008 23:20 | Last updated: October 21 2008 23:20

UK Treasury officials are putting the final touches to a plan to lend about £3bn to Iceland so it can repay UK depositors in Icesave, the online banking unit of Landsbanki, the collapsed Icelandic bank.

The loan would provide an important first step towards unfreezing the deposits of approximately 300,000 UK customers who have been unable to withdraw money after Landsbanki collapsed this month.

A delegation from the UK Treasury and the Bank of England will arrive in Reykjavik, the Icelandic capital, this week to try to “wrap up” the terms of the loan, according to officials in ­Iceland.

The precise size of the loan has not yet been decided, but it is expected to be about £3bn, representing about 30 per cent of Iceland’s gross domestic product.

A Treasury spokesperson said: “Following conversations between the chancellor [Alistair Darling] and Icelandic prime minister, officials from the Treasury and Bank of England are going to Iceland to work on finalising an agreement that aims to compensate UK depositors and ensure fair treatment for creditors.”

An agreement would help ease tensions significantly between the UK and Iceland after the collapse of its banking system triggered the most damaging diplomatic spat since the cod wars of the 1970s.

Relations deteriorated after the British government used anti- terror legislation to freeze the assets of Landsbanki amid fears the Icelandic government might renege on its commitment to compensate UK depositors.

The proposed loan will mean that the Icelandic government will be able to meet its share of compensation payments, with the remainder covered by the Financial Services Compensation Scheme, the UK compensation scheme.

The Icelandic government is responsible for paying the first €20,887 (£16,189) of any compensation claim while the UK government covers the difference up to £50,000. In this case, the UK government has also agreed to pay any additional claims over the £50,000 limit.

UK taxpayers could face a bill of at least £2.4bn to compensate British holders of accounts at Icesave, it has been estimated.

Any agreement with the Icelandic government will not cover corporate and government account holders in Icesave.

Björgvin Sigurdsson, Iceland’s commerce minister, said an agreement should be concluded by Wednesday."

Frétt sem bloggað var við:  Bresk nefnd aftur til Íslands

Löngu tímabær aðgerð

Ég spáði því í sumar að farið yrði í uppskurð á regluverki fyrir fjármálafyrirtæki.  Var það í framhaldinu á því að Evrópusambandið setti ofan í við þann aðila sem hefur haft umsjón með þessum málum, þ.e. Basel-nefndina sem starfar innan Alþjóða greiðslubankans (Bank for International Settlements), og vildi taka stjórnina af þeim að hluta.  Nú virðist sem spá mín sé að rætast.

Ekki að það hafi verið flókið að sjá þetta fyrir.  Fjármálakerfi heimsins var þá í stigmagnandi vanda sem nú er langt kominn með að fella það.  Stórir hlutar fjármálakerfisins hefur fallið utan hins stífa regluverks, sem hefur verið í gildi, og hafa raunar ýmsir aðilar innan kerfisins reynt, eins og kostur er, að sniðganga það með í besta falli vafasömum hætti.   Þetta hefur leitt til þess, t.d., að vogunarsjóðir, fjárfestingabankar og matsfyrirtæki hafa getað farið sínu fram án þess að fjármálaeftirlit í ríkjum heims hafi nokkuð um það að segja.  Nú er svo komið að þessir aðilar, þ.e. vogunarsjóðirnir, fjárfestingabankarnir og matsfyrirtækin, eru á góðri leið með að steypa hagkerfi Vesturlanda í gjaldþrot.  Og hrynji þau, verður lítið eftir, þar sem flest allir aðrir munu fylgja eftir.

Ég held svo sem að ekki sé þörf á að taka stjórnun þessara mála úr höndum Basel-nefndarinnar, en hún þarf greinilega að breyta starfsaðferðum sínum.  Þegar litið er yfir lista þeirra sem vinna að leiðbeinandi tilmælum nefndarinnar, þá sker það í augu að þar eru nær eingöngu bankamenn og síðan aðilar frá fjármálaeftirlitum.  Þar eru engir aðilar sem koma að pólitískri stefnumótum um bankamál, að ég tali nú ekki um neytendavernd.  Það er eins og regluverkið eigi fyrst og fremst að tryggja hag bankanna í staðinn fyrir að tryggja hag hagkerfanna sem bankarnir eru hluti af.  Þessu þarf að breyta.  Regluverk bankanna verður að taka mið af því að tryggja stöðugleika í hagkerfi hvers lands og heimsins í heild.  Það gengur ekki að stórir hlutar þess vinni án eftirlits og geti sett restina í hættum með óábyrgum aðgerðum.

Ég óttast að við séum ekki búin að bíta úr nálinni vegna þeirra fjármálagjörninga sem vogunarsjóðirnir og fjárfestingabankarnir stóðu að.  Talað er um að útistandandi séu afleiðusamningar og önnur verðbréf, sem eru utan eftirlits opinberra aðila, upp á hvorki meira né minna en 516.000 milljarðar USD.  Þetta samsvarar tífaldri vergri árlegri heimsframleiðslu!  Menn hafa miklar áhyggjur af því hvernig muni vindast ofan af þessum vafningum.  Ef aðeins 1% af þessum vafningum tapast þýðir það 5.160 milljarða USD sem er meira en sjöföld sú upphæð sem bandaríska stjórnin ætlar að leggja í björgun bankakerfisins.  Lendi slíkur skellur á hagkerfi Vesturlanda, þá má búast við að fleira falli en bara íslenska bankakerfið og að heimsmyndin sem við þekkjum í dag verði mikið breytt.  Um þessar mundir hriktir í stoðum breska bankakerfisins og þess þýska.  Bandaríska bankakerfið er komið í gjörgæslu bandarískra yfirvalda og er líðan sjúklings það slæm að allt lítur út fyrir að fjarlægja þurfi mikið af dauðu holdi og mjög líklega fleiri útlimi en þá tvo sem þegar er búið að taka.  Þetta ástand er farið að hafa mikil áhrif á stór og smá fyrirtæki í landinu og m.a. mun General Motors vera í miklum vanda.  Slökkvistarfið í Bandaríkjunum er farið að minna æ meira á baráttu við skógarelda.  Eina leiðin til að slökkva eldinn er að búa til varnarlínu í góðri fjarlægð frá ofsaeldinum og verjast frá þeim stað.  Allt sem er á milli eldsins og varnarlínunnar er tapað, en með þessu er skaðinn lágmarkaður.  Þetta hljómar eins og dómsdagsspá.  Og ég held að við verðum að fara að viðurkenna að dómsdagur frjálshyggjunnar, frelsis í fjármálaviðskiptum og kapítalismans er að renna upp.  Kaldhæðnin er að það er stjórnlaus græðgi þröngs hóps siðlausra bankamanna sem er að valda þessum vanda.

Frétt sem bloggað var við:  Vilja stokka kerfið upp

Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana

Mér finnst mjög sérkennilegt að sjá hvernig allir hella sig yfir stjórnendur og þá sérstaklega eigendur bankanna, eins og þeir séu landráðamenn.  Það er eins og fólk haldi að þeir hafi gert það að gamni sínu að fella bankana og láta íslensku þjóðina sitja uppi með alla reikningana.  Ég held að fólk ætti aðeins að draga andann og slaka á, áður en eitthvað gerist sem það sér eftir.

Vissulega má rekja fall bankanna til alls konar ákvarðana sem stjórnendur þeirra og eigendur tóku, en það sem varð þeim þó endanlega að falli var ekki rekstur þeirra heldur greiðsluhæfi.  Skilanefnd hefur t.d. úrskurðað að Glitnir sé tækur í Kauphöllina!  Það þýðir að hann stenst kröfur um eiginfjárhlutfall og að eigna- og skuldastaða uppfylli alþjóðlegar viðmiðanir.  Bankinn er EKKI gjaldþrota. Mér kæmi ekkert á óvart þó niðurstaða hinna skilanefndanna verði eins, þ.e. að hvorki Landsbankinn né Kaupþing séu gjaldþrota. 

Ólíkt venjulegum fyrirtækjum, þá ber bönkum að kalla inn fjármálaeftirlit strax og í ljós kemur að þeir eru komnir í greiðsluþrot.  Það er enginn umþóttunartími eða samningar við lánadrottna.  Ef þeir hefðu haft slíkt tækifæri, þá væru þeir í slíku ferli, þar sem þeir gætu verið að selja eignir og gefa eigendum kost á að auka við eigið fé.  Hugsanlega var það röng ákvörðun hjá Seðlabanka Íslands að veita Glitni ekki lán.  Ef hann hefði samhliða því nýtt sér lánalínur til seðlabanka á Norðurlöndum, þá hefði lánið til Glitnis ekki skert getu hans til frekari lánveitinga.  Það hefði sýnt styrk Seðlabankans, en við vitum svo sem ekkert hvernig matsfyrirtækin hefðu metið hlutina.  Staðreyndin er nefnilega sú, að matsfyrirtækin eru í reynd mestu örlagavaldarnir í þessu máli (sjá Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?).

Þegar Lehman Brothers var settur í gjaldþrot fyrir 3 vikum, þá hófst atburðarás sem varð til þess að Glitnir missti lánasamning.  Það var ekki Glitni að kenna, hvorki eigendum né stjórnendum.  Það var heldur ekki ríkisstjórn Íslands að kenna né Seðlabankanum.  Þetta voru óheppilegar ytri aðstæður.  Það sem gerðist hér á landi var líklegast vegna rangra ákvarðana hjá þessum aðilum.  Hvort það var vegna þess að Glitnir áttaði sig ekki á því að Seðlabankinn myndi grípa til jafn harkalegra aðgerða og raun ber vitni eða að Seðlabankinn áttaði sig ekki á því hvaða áhrif aðgerðir hans hefðu skiptir ekki máli lengur.  Þetta er búið og gert.

En ég vil benda fólki á og búa sig undir, að verði ekki gripið til verulega umfangsmikilla aðgerða á alþjóðavísu á næstu dögum til að styrkja fjármálakerfi heimsins og taka úr umferð eiturpillur frá Bandaríkjunum, þá mun flóðbylgja skella á fjármálakerfi heimsins.  Þessi flóðbylgja er af völdum afleiða frá Lehman Brothers.   Samkvæmt frétt á vef The Guardian er byrjað að vefjast ofan af afleiðum að virði $200 - $440 milljarða.  Það eru fjölmargir bankar flæktir í þennan afleiðuvef, þar á meðal tveir af stærstu bönkum Bretlands, Royal Bank of Scotland og Barclays.

Málið snýst að mikluleiti um hve mikið fjármálafyrirtæki munu geta endurheimt af þeim skuldum sem þau eiga inni hjá þrotabúi Lehman Brothers og hve mikið þau þurfa að innheimta hjá tryggingarfélögum sem seldu þeim skuldatryggingarálag.  Þurfi þau að treysta á skuldatryggingarnar, þá er þeim aðeins tryggt 91,4% af skuldinni.  Það þýðir í fyrsta lagi gríðarlegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjunum og ógnvænleg útgjöld tryggingafélaganna.  Það er ekkert grín að þurfa að greiða út $400 milljarða í tryggingabætur (þó líklegast verði upphæðin ekki nærri því svo há).  Vissulega hafa fyrirtækin líka tryggt sig eftir öðrum leiðum, en spurning er hversu öruggar þær aðgerðir eru. 

Vandamálið er að þetta er bara ein bylgja!  Eins og máltækið segir er sjaldan ein báran stök og sagt er að þetta sé þegar sú sjöunda.  Fyrir hvern stóran banka (og smáan) sem fellur í valinn kemur ný bylgja.  Og við skulum hafa það í huga, að það var einmitt ein svona bylgja sem hreif með sér íslensku bankana. 

Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita.  Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits.  Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög.  Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur.  Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.

Viðbót 12.10. kl. 13:20

Bara svo fólk misskilji mig ekki, þá tel ég alveg ljóst að sá skellur sem við erum að fá er mun stærri en hann hefði þurft að vera og þar er við eigendur og stjórnendur bankanna að sakast, en einnig ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.  Auðvitað áttu bankarnir ekki að fá að vaxa jafnmikið og raun ber vitni á lánsfé en ekki eigin fé.  Málshátturinn segir að sígandi lukka sé best og það eru orð með sönnu.  Taka þarf lítil skref í einu og ná jafnvægi í hverju skrefi.  Það sem bankarnir gerðu var eins og maður að labba upp stiga, þar sem hann færir bara hægri fótinn ofar og ofar, en heldur vinstra fæti alltaf á sama stað.  Auðvitað raskast jafnvægi slíks einstaklings og það þarf minna til að fella hann.

Viðbót 12.10 kl. 21:20

Var að lesa Independent á netinu.  Þar er áhugaverð grein um afleiðumarkaðinn.  Hann er metinn á $516.000 milljarða (eða $516.000.000.000.000) eða tíföld ársheimsframleiðsla.  Menn á þessum markaði eru farnir að skjálfa og óttast hrun hans.  Ástandið er orðið svo slæmt að laun yfirmanna hafa verið lækkuð í 100.000 pund   Aumingja þeir.  Hér er linkur á greinina A £516 trillion derivatives 'time-bomb'

Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?

Enn halda matsfyrirtækin að níðast á íslenskum fyrirtækjum.  Og hver er tilgangurinn?  Það eru sjálfuppfyllandi spádómar þessara matsfyrirtækja sem í raun hafa valdið mestum skaða hér á landi.  Það er enginn vandi fyrir matsfyrirtækin að spá versnandi horfum, þegar þau eru sjálf búin að skerða lánamöguleika með mati sínu.  Þetta er svo mikið bull, að stundum held ég að það sé sömu samráð við útgáfu lánshæfieinkunna fyrir Ísland og íslensk fyrirtæki og var á milli matsfyrirtækjanna og mats þeirra á verðlausum pappírum fjárfestingabanka í Bandaríkjunum.  Þá á ég við undirmálslánavafningana.

Það er eins og þau kunni ekki að skammast sín fyrir þann skaða sem þau hafa valdið fjármálakerfi heimsins.  Nei, það skal gengið lengra og engu er vært.  Bara svo ég rifji hér aðeins upp:

Í júní fór bandaríska fjármálaeftirlit, SEC, í heimsókn í nokkur matsfyrirtæki.  Frumniðurstaða þeirrar heimsóknar var að fyrirtækin hefðu orðið uppvís að alvarlegum hagsmunaárekstrum, þegar þau voru m.a. að meta verðbréf sem tryggð voru með undirmálslánum og öðrum eignum.  Dæmi voru um að sami starfsmaður sá um samninga við fjármálafyrirtæki um mat og framkvæmdi matið.  Matsfyrirtækin brutu ítrekað verklagsreglur sínar um framkvæmd mats.  Og þau voru sökuð um að beita ótrúverðugum aðferðum við að meta pappírana.  Það sem meira er, SEC fann dæmi um að matsfyrirtækin hafi komið með ráðgjöf um það hvernig fjármálafyrirtæki gætu breytt vafningum sínum til að hækka matið!  Ég spyr bara:  Eru þessi fyrirtæki trúverðug?

En skandalnum er ekki lokið.  Í skýrslu SEC með frumniðurstöðum þá er að finna ólýsanlega fáránlega hluti. Hér eru tvö dæmi:

Tölvupóstur sendur 15. des. 2006 milli tveggja greinenda í sama fyrirtæki að lýsa CDO (collateralized debt obligations):

 "Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters."

Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:

 "I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much."

Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis.

Skýrslu SEC er að finna í heild á vefsíðu SEC og má nálgast hana með því að smella hér.  Ég get bara sagt að málin versna eftir því sem meira er lesið.  (Ég bloggaði um þetta í júlí og má lesa þá færslu hér.)

Í myndbandi hjá Láru Hönnu Einarsdóttur er að finna ákaflega góða mynd sem lýsir vanhæfi matsfyrirtækjanna ennþá frekar.  (Ég man ekki í hvaða hluta fjallað er um þetta, en myndin er þess virði að horfa á hvort eð er.)

Það sem er furðulegast við þessa lækkun lánshæfismats OR nú er að í síðustu viku fékk fyrirtækið stórt lán með 9,8 punktaálagi.  Eignir fyrirtækisins eru gríðarlegar og tekjur tryggar.  Jæja, þeir hafa sínar reglur.

En eyðileggingarmáttur matsfyrirtækjanna er gífurlegur.  Það hefur hrun íslenska bankakerfisins sannað.  Það sem meira er, að óvægni þeirra er svo mikil, að í mars þegar allir íslensku bankarnir voru fjármagnaðir meira en ár fram í tímann, þá töldu matsfyrirtækin samt ástæðu til að lækka lánshæfismat sitt á þeim!  Gjörsamlega óskiljanlegt.  Það var svo á endanum lánshæfismatið sem feldi bankakerfið, vegna ákvæða í lánasamningum.  Ef þau hefðu dregið andann djúpt, þá hefðu Landsbankinn og Kaupþing komist í gegnum áfallið sem varð við þjóðnýtingu Glitnis.  Nei, matsfyrirtækin unnu hratt og fumlaust.  Á einum degi, án þess að heimsækja Ísland, svo ég viti, var fallöxinni beitt.  Og við hvin hennar var skorið á lífsnauðsynlegar lánalínur Landsbankans.  Þannig varð spádómur matsfyrirtækjanna um greiðsluhæfi bankanna sjálfuppfyllandi.

Raunar var barátta íslensku bankanna orðin vonlaus strax í vor.  Mánuðina á undan höfðu matsfyrirtækin lækkað lánshæfismat fyrst eins banka og hinir voru settir á athugunarlista.  Vegna þess að bankarnir voru á athugunarlista fór ríkissjóður líka á athugunarlista.  Þar sem ríkissjóður fór á athugunarlista endaði á því að bankarnir voru lækkaðir.  Eftir lækkun bankanna, lækkaði ríkið.  Af þessum ástæðum hækkaði skuldatryggingarálagið.  Þar sem skuldatryggingarálagið hækkaði, lækkaði lánshæfismatið fyrst hjá bönkunum og svo ríkinu.  Komin var í gang spíral, þar sem með hverri lækkun lánshæfismats hækkaði skuldatryggingarálag sem í staðinn lækkaði lánshæfismat.  Ég get ekki að því gert, en stundum finnst mér sem þriðji aðili hafi verið að braska með hinum tveimur.  Ég er ekki að segja að svo hafi verið, en miðað við hve ófaglega matsfyrirtækin stóð að mati á undirmálsvafningunum, þá finnst mér það eina skýringin.

Eina leiðin til að rjúfa þennan vítahring, er að Alþjóða greiðslubankinn (Bank of International Settlements) geri óvirkar um stundasakir þessar kröfur um lánshæfismat fyrir fyrirtæki og ríkissjóði frá viðurkenndum matsfyrirtækjum og setji það undir sjálfstæða ákvörðun hverrar lánastofnunar um sig að meta áhættu af útlánum til slíkra aðila.  Matsfyrirtækin geta haldið áfram að meta verðbréf, en þar endar starfssvið þeirra.  Auk þess eru það mun faglegri vinnubrögð, að lánstaki gefi lánsveitanda fullnægjandi upplýsingar um stöðu sína.  Það bætir áhættustýringu þar sem hún verður byggð á upplýsingum frá fyrstu hendi.  Og varðandi verðbréfin, þá verði þeim óheimilt að meta verðbréf hærra en undirliggjandi tryggingar segja til um.  Þannig hefðu BBB undirmálslán (þar sem þrettánda hvert lán fór í vanskil í Cleveland á árunum 1996 - 2001) aldrei getað endað sem AAA pappírar, en AAA matseinkunn þýðir að ekki geti orðið greiðslufall.

Í lokin vil ég benda á, að fyrir ekki löngu gaf Glitnir út skuldabréf sem fengu feiknagóða einkunn frá viðurkenndu matsfyrirtæki, þrátt fyrir að lánshæfismat bankans væri mun lægra.  Þetta á ekki að vera hægt.  Það á ekki að vera mögulegt verðbréf fyrirtækis fái umtalsvert hærra mat en fyrirtækið sjálft.  Vissulega eru tryggingar að baki öllum slíkum pappírum, en skerist á lánalínur, eins og gerðist í tilfelli íslensku bankanna, þá breytast allar forsendur svo gríðarlega og pappírarnir verða verðlitlir.

Frétt sem bloggað var við: Lánshæfiseinkunn OR lækkuð

Er víst að peningarnir hafi tapast?

Mér finnst þessi fréttaflutningur af innlánum á reikningum IceSave og KaupthingEdge vera dálítið litaður.  Það er alltaf talað um að peningar hafi tapast.  Miðað við þær upplýsingar sem fást hér á landi, þá eru þessir peningar ekki tapaðir.  Vissulega hafa menn ekki aðgang að þeim í augnablikinu og ekki er ljóst hve mikið fæst út, en þar til að dæmið er gert upp, þá eru þetta ekki tapaðir peningar.  Vissulega eru líkur á því að einhvað tapist, en það gerist þá því aðeins að eignir bankanna standi ekki undir innlánunum.

Mér þætti því nákvæmara hjá fjölmiðlum að tala um að peningarnir gætu tapast eða eru fastir, samanber það sem segir í fréttinni sjálfri:

Bresk líknarsamtök gætu verið að tapa allt að 120 milljónum punda (um 22,5 milljörðum kr.) á þroti íslensku bankanna

Það er alveg nóg að Bretar séu að missa sig yfir þessu, þó við hellum ekki olíu á eldinn með ónákvæmu orðavali.

Frétt sem bloggað var við: Bresk líknarsamtök að tapa meira en 22 milljörðum á íslensku bönkunum

Við þurfum að brjóta odd af oflæti okkar

Eftir því sem lengra líður, þá virðast fleiri brestir koma í ljós og nýir myndast.  Skál hagkerfisins er að molna.  Ég geri mér grein fyrir því að stjórnvöld eru að róa lífróður, en margt bendir til að það þurfi fleiri að leggjast á árarnar.  Annars sekkur einfaldlega þjóðarskútan og við vitum ekki hve margir bjargast.  Mig grunar að það sé með hana, eins og Titanic, að björgunarbátarnir séu bara fyrir takmarkaðan hóp.  Við verðum að nýta okkur alla hjálp sem okkur býðst, þar með frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ég held líka að það sé tímabært að virkja einhverja neyðaráætlun vegna viðskipta/vöruskipta til og frá landinu.  Það getur verið að vandamálin sem stoppa peningafærslur á milli landa í dag séu bara spurning um skrifræði, en hvað tekur síðan við?  Ég veit að það er til neyðaráætlun vegna farsótta og spurningin er hvort hana megi nota, ef aðrar neyðaráætlanir hafa ekki verið útbúnar.

Ég var með færslu hér fyrir viku undir heitinu Viðnámsþol þjóðarinnar. Ég átti ekki von á því þá, að viku seinna værum við farin að velta fyrir okkur að nauðþurftir gæti farið að skorta.  Að í millitíðinni hafi þurft að ganga í að tryggja að næg lyf væru í landi og fullnægjandi aðgang neyðarbirgðum.  Að ekki væri hægt að millifæra greiðslur á milli landa.  Ég er ekki að vera svartsýnn, bara raunsær, en meðan FME er að rétta af bankana, þá þurfa aðrar stofnanir þjóðfélagsins að fara að huga að öðrum hugsanlegum afleiðingum.  Við þurfum strax að fara í að tryggja að nauðsynlegustu aðföng haldi áfram að berast til landsins hvað sem á dynur á næstu dögum, vikum og mánuðum.  Það er ekki nóg að byrja verkið þegar vörurnar hætta að berast.  Það er ekkert gagn af ráðstöfunum, sem ekki hafa verið undirbúnar. 

Auðvitað vona ég að þessar áætlanir séu til og ekkert mál sé að hrinda þeim í framkvæmd.  En sé svo ekki, þá þarf að láta hendur standa fram úr ermum.  Ég sem ráðgjafi á sviði stjórnunar rekstrarsamfellu mun taka mjög jákvætt í að koma að slíkri vinnu, verði til mín leitað.

Eitt að lokum.  Ef fjármálakreppan dýpkar erlendis, þá gætum við einfaldlega horft upp á mikið hikst á viðskiptum milli landa.  Þar sem þjóðfélagið þrífst ekki án þessara viðskipta, þá gæti það haft ófyrirsjáanleg áhrif á daglegt líf hér á landi.  Erum við undir slíkt búin?

Frétt sem bloggað var við: Baksvið: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn - með góðu eða illu

Innlegg í naflaskoðun og endurreisn

Þessa daga eru í gangi miklar björgunaraðgerðir til að bjarga íslenska bankakerfinu, en ekki síður íslenska hagkerfinu.  Ég, líkt og margir aðrir, hef verið í skotgröfunum og hef vafalaust sett fram alls konar blammeringar, sem ekki standast nánari skoðun, meðan annað stendur traustum fótum.  Eitt af því sem mikið hefur verið rætt um hér á blogginu er:  Hvernig gat þetta gerst?  Það eru örugglega mjög margar ástæður fyrir því og ekki allar augljósar.  Ég hef tekið saman hér fyrir neðan nokkrar sem ég tel að skipti máli og síðan sett fram spurningar sem ég tel nauðsynlegt að sé svarað svo við getum lært af þessari bitru reynslu.  Auk þess nefni ég nokkur atriði sem gætu stuðlað að betra umhverfi.  Ég tek það fram, að ég hef unnið að ráðgjöf á svið upplýsingaöryggismála hjá fjölmörgum fjármálastofnunum og í tengslum við þá vinnu hef ég þurft að kynna mér fjölmargt um rekstrar- og lagaumhverfi fjármálafyrirtækja.  Það er þó langt frá því að vera einhver sérfræðiþekking og alveg örugglega ekki á fjármálahliðinni.

Ég held að það sé öllum ljóst að rekja má bankakreppunnar hér á landi til bæði innlendra og erlendar þátta.  Sumir af þessum erlendu þáttum voru atriði sem við réðum ekkert við, en annað er hægt að rekja til aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnar, Seðlabanka, FME, bankanna og útrásarmanna.  Nú er ég ekki að pikka einhvern einn út og segja að meginsökin liggi hjá einum aðila umfram aðra og er alls ekki að persónugera mistökin í einstaklingum.  En atriði sem mér finnst hafa vegið þyngst eru eftirfarandi:

 1. Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi
 2. Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands
 3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits FME með fjármálafyrirtækjum
 4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum
 5. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá erlendum bönkum
 6. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavafningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað
 7. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint
 8. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar.  Útrásarmenn tróðu líklegast of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.

(Svo mætti líklegast bæta við takmarkalausri minnimáttarkennd þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við þurfum alltaf að vera að sanna okkur.)

Atriði 5 og 6 eru alfarið úr okkar höndum, sem og framkvæmd erlendra aðila á Basel II reglunum. 

Nú er ég að leita að frumorsökum, en ekki afleiddum, þannig að lokun lánalína og skortur á lausafé (sem ég tel afleiddar ástæður) eru ekki með.  Margar ástæðnanna eru að sjálfsögðu samverkandi og mynda oft einn hrærigraut.  T.d. má líklega rekja hluta afglapa matsfyrirtækjanna til þess að bankar byrjuðu of seint að búa sig undir Basel II regluverkið.  Þá treystu menn matsfyrirtækjunum og fórnuðu sjálfstæðri gagnrýni eða mati á taphættunni af undirmálslánavafningunum sem varð til þess að menn keyptu þessar eiturpillur. Á sama hátt leiðir slakt regluverk á Íslandi m.a. til þess að afmörkun og eftirlit FME náði líklegast ekki nógu djúpt inn í fjármálafyrirtækin. Hafa skal í huga að FME vinnur mikið eftir forskriftum frá BIS og er ekki síður hægt að gagnrýna BIS þegar kemur að regluverkinu, þ.e. að regluverkið hafi ekki leitt til bestu starfshátta.  Ástæðan fyrir því að ég horfi ekki á útlánastefnu eða markaðsleg mál, er að allt slíkt á að fara í gegnum greiningarnet áhættustjórnunar áður en nokkru slíku er ýtt úr vör.

Þegar búið er að ákveða hvaða þætti á að skoða, þá þurfum við að greina hvað fór úrskeiðis.  Þar einbeiti ég mér að íslenska hlutanum, enda efast ég um að erlendir aðila séu að velta moggabloggi fyrir sér: 

 • Af hverju gátu bankarnir vaxið svona og skuldsett sig jafnmikið og raun ber vitni? 
 • Af hverju veiktist gengi krónunnar svona mikið og hafði Seðlabankinn einhver úrræði til að sporna gegn því sem hann nýtti ekki?
 • Hver var hluti viðskiptabankanna í sveiflum á gengi krónunnar? 
 • Af hverju var styrkur Seðlabankans ekki meiri en raun ber vitni? 
 • Af hverju var betra að setja Glitni í þrot í staðinn fyrir að lána bankanum? 
 • Af hverju hefur peningamálastefna Seðlabankans ekki virkað til að halda genginu stöðugu og verðbólgunni niðri? 
 • Af hverju stóðust bankarnir álagspróf FME en hrundu eins og spilaborg þegar á reyndi? 
 • Hvaða skilyrði/reglur eru varðandi notkun gjaldeyrisvarasjóðsins?  Hefði mátt notað hann til að verja gengi krónunnar eða bjarga bönkum í nauð?
 • Hvaða skilyrði þarf banki að uppfylla, þegar hann fær neyðarlán frá Seðlabankanum?
 • Hefði verið ástæða til að breyta þessum viðmiðum í ljósi aðstæðan á fjármálamörkuðum?
 • Skoðuðu menn í Seðlabankanum hugsanlega breytingu á lánshæfismati ríkissjóðs og hinna stóru bankanna áður en tekin var ákvörðun um að þjóðnýta Glitni?
 • Hvernig er staðið að ákvörðunum um stýrivexti?
 • Hvers vegna var vísitala neysluverðs með húsnæði notuð fyrir verðbólgumarkmið en ekki samanburðarhæfa vísitalan án húsnæðis eins og í nágrannalöndum okkar?
 • Hvers vegna var raunstýrivöxtum haldið jafn háum og raun ber vitni eða þeir hækkaðir í lækkandi verðbólgu?
 • Af hverju lækkaði áhættuvægi veðlána við útreikning eiginfjárstöðu í mars 2007, þegar hér var bullandi verðbólga?  Tekið er fram í Basel II reglum frá BIS, að þessi breyting sé undir hverju aðildarlandi komið.
 • Af hverju stofnaði Landsbankinn ekki dótturfélag í London um IcsSave reikningana?
 • Hvernig stóð á því að FME greip ekki inn í, þegar innstæður IceSave reikninganna voru orðnar það háar að ljóst var að ríkið gæti ekki staðið undir skuldbindingum vegna þeirra?
 • Skortir Seðlabankann/FME valdheimildir til að grípa inn í, þegar bankarnir stækka of hratt eða skuldsetja sig of mikið?
 • Hafa Seðlabanki og viðskiptabankarnir fengið fundi með matsfyrirtækjunum, þar sem farið er ítarlega yfir rökstuðning fyrirtækjanna fyrir mati sínu og fengið frá þeim leiðbeiningar um hvað betur hefur mátt fara?
 • Hvers vegna hafa lánalínur frá seðlabönkum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku ekki verið nýttar?

Svona mætti halda áfram endalaust.

En hvað þarf að gera til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur?  Þegar stórt er spurt er ekki alltaf mikið um svör.  Ég vil þó leggja til nokkrar tillögur: 

 • Það þarf að breyta lögum og reglum og veita FME, Seðlabanka og ríkisstjórn mun meiri heimildir í að stoppa menn af. 
 • Það þarf að breyta reglum um eiginfjárhlutfall fjármálastofnana, þannig að 8% séu lágmark sama hvaða lán á við til annarra en opinberra aðila.  Einnig mætti hækka eiginfjárhlutfallið í 12 eða 16% og halda áhættustuðlum Basel II óbreyttum.  Þó er kannski betra að færa stuðlana aftur til þess sem gilti fyrir 2. mars 2007. 
 • Innleiða þarf eins og skot nýjar reglur Basel nefndarinnar hjá BIS um stjórnun greiðsluhæfisáhættu/lausafjáráhættu.  Setja þarf það skilyrði að allar fjármálastofnanir uppfylli þær reglur frá og með áramótum. 
 • Endurskoða þarf lög um Seðlabanka Íslands, fækka bankastjórum í einn og setja það skilyrði að hann hafi sérþekkingu á málum peningamálastjórnunar, auk þess að vera með mikla reynslu úr fjármálaheiminum.  Helst einhverja alþjóðlega reynslu.
 • FME þarf að breyta eftirliti sínu úr því að menn sendi inn skýrslur á netinu yfir í að skýrslum sé skilað á formlegum fundum, þar sem menn þurfa að sýna fram á hlutina.  Ég er ekki að gefa í skyn að menn séu ekki að greina rétt frá, en menn verða nákvæmari þegar skýra þarf svörin út jafnóðum.  Fyrir vikið þarf að efla og styrkja FME.
 • Banna þarf að stofna til reikninga eins og Icesave út frá Íslandi.  Vilji menn gera það, skal það gert í erlendum dótturfélögum/systurfélögum. 
 • Það er ekki hægt að banna útrás, en hún verður að fylgja réttum leikreglum.

Og svo fyrir okkur sem engu ráðum: 

 • Af nema verðtryggingu lána.  Við erum búin að borga þessa verðtryggingu dýrum dómi og nú er tími til kominn að hún hverfi.  Án verðtryggingar bíta stýrivextir strax og á stærri hluta útlána.  Það má meira að segja gera þá kröfu að stýrivextir hafi vægi inn í vexti erlendra lána, ef menn vilja.

Tillögur talsmanns neytenda

Mig langar að vekja athygli á tillögum talsmanns neytenda, Gísla Tryggvasonar, um þessi mál, en þær er auðvelt að útvíkka þannig að þær nái til verðtryggðra lána.  Talsmaður neytenda setur fram fjórar tillögur sem hér segir í grein sem birt var á vefsvæði hans 7. október:

 • Gengi erlendra lána verði fest varanlega í tiltekinni gengisvísitölu sem samrýmist meðallangtímagengi sem neytendur hefðu mátt vænta við lántöku.
 • Þau lán sem um ræðir verði tekin inn í Íbúðalánasjóð sem samkvæmt heimild muni lækka þau til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið, sbr. ummæli viðskiptaráðherra á www.dv.is í morgun.
 • Gengistryggð lán verði yfirtekin á tilteknu gengi til bráðabirgða en hinn hluti lánsins frystur þar til betur árar.
 • Greiðslubyrði lána verði fastsett tímabundið í tiltekinni krónutölu miðað við ákveðna gengisvísitölu.

Það er lítill vandi og líklega skynsamlegt að annað hvort tengja gengisvísitöluna á einhvern hátt við vísitöluneysluverðs eða klippa af vísitöluuppfærslu verðtryggðra lána.

Annars held ég að leysa megi bæði málin í einu með því að fara leið 3, sem er jafnframt leið sem ég hef lagt til og hafði talsmaður neytenda reyndar samband við mig til að fá nánari skýringu á henni.  Er hún sett þarna fram í einfaldaðri mynd.  Í fullri lengd (en þó ekki að fullu útfærð) þá gengur tillaga mín út á eftirfarandi:

 1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
 2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
 3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
 4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
 5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
 6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Frétt sem bloggað var við: Jafnræði milli lántakenda

Eldurinn hefur borist til útlanda

Slökkviliðsstjórinn, Davíð Oddsson, fór í útkall fyrir hálfum mánuði.  Eldur logaði í einni byggingu við Kirkjusand.  Ekki tókst betur til en að húsið brann til kaldrakola og eldurinn breiddist út til margra bygginga við Borgartún og Austurstræti.  Staðan í dag eftir þetta útkall er að allur bærinn logar.  Reykjavík stendur í ljósum logum.  Heimili landsmanna standa í ljósum logum.  Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir ótrúlegum skaða.  Og núna hefur eldurinn breiðst út fyrir landsteinana.

Svo kemur maðurinn í viðtal og segist hafa gert allt rétt!  Hvernig getur það gengið upp?  Seðlabankanum, með Davíð Oddsson í fararbroddi, hljóta að hafa orðið á geigvænleg mistök fyrst svona er málum komið.  Seðlabankinn hlýtur að spyrja sig að því hvað hefði mátt gera öðruvísi.

Ég óska Kaupþingi góðs gengis í baráttu sinni við að halda bankanum á floti.

Frétt sem bloggað var við: Kaupþing í London í greiðslustöðvun

Það er verr fyrir okkur komið en ég hélt

Var að horfa á viðtalið sem "elsku drengurinn" hann Sigmar tók við Davíð Oddsson.  Ég er eiginlega orðlaus.  Hann Davíð er í svo ótrúlegri afneitun að það er hættulegt fyrir þjóðina.  Fyrir utan kjaftaganginn í honum.  Hann er verri en versta slúðurkerling.  Það eru nokkrir punktar sem vöktu sérstaklega hjá mér spurningar:

1.  Af hverju varpar hann sökinni á "slöku" eftirliti á Fjármálaeftirlitið?  Ég hélt að FME ynni eftir reglum sem Seðlabankinn ekki bara samþykkir heldur er hann aðili að þeim samtökum sem hreinlega semur þær.  Þá er ég að tala um Bank of International Settlements.

2.  Ég hélt að lánshæfismat Landsbanka og Kaupþings hefði lækkað vegna þess að matsfyrirtækin efuðust um getu ríkisins og Seðlabanka til að koma þeim til bjargar.  Ég hélt að lánshæfismat ríkisins hefði lækkað vegna þess að það hafði samþykkt að þjóðnýta Glitni með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgdi.  Og ég hélt að lánshæfismat Glitnis hefði lækkað vegna þess að Seðlabankinn hafði úrskurðað veðin sem bankinn vildi leggja fram handónýt og bankinn ætti því litla möguleika á fjármögnun.

3.  Ég vissi ekki að það væri neitt hættulegt við það, að bankar sem eiga eignir upp á hátt í 10.000 milljarða þyrftu að endurfjármagna sig á 3 - 4 árum upp á góðan hluta af þeirri tölu.  Það er það sem bankar gera.  Þeir taka lán til skammstíma og lána til langstíma. 

4.  Mér finnst nokkuð glannaleg sú afstaða Seðlabankastjóra að líkja því að bjóða lánadrottnum íslensku bankanna 5 - 15% af kröfum sínum við það sem Seðlabanki Bandaríkjanna gerði gagnvart Washington Mutual.  Kröfurnar sem þurfti að afskrifa vegna Washington Mutual eru sáralítill hluti af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Seðlabanki Bandaríkjanna hafi þegar ausið ómældum fjármunum inn í fjármálakerfið vestan hafs.  Seðlabanki Íslands hafði varla lagt fram krónu til að liðka fyrir með íslensku bönkunum og stóð gjörsamlega máttvana gagnvart lækkun krónunnar.  Ef Seðlabankinn hefði verið búinn að sýna getu sína áður með stórum aðgerðum, þá hefði kannski verið hægt að réttlæta þetta viðhorf, en að koma fram í sjónvarpi og skella þessu svona fram er í besta falli ósvífni.

5.  Mér fannst líka ótrúleg lýsing Davíðs á skilyrðum þess að veita lán til þrautavara.  Ég hefði talið að til að hægt sé uppfylla þessi skilyrði, þá væru menn í svo góðum málum að þeir væru vaðandi í lánsloforðum.

Maður fyllist bara vonleysi, þegar maður horfir á manninn þarna sjálfumglaðan eins og það sem er á undan gengið hafi bara verið eðlilegasti hlutur.

Frétt sem bloggað var við: Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna

Bæti hér við úr athugasemd, þar sem ég svara Jóni:

"Jón, það er fínt að heyra sannleikann, en hann kom ekki frá Davíð í gærkvöldi.  Það þarf ekki annað en að lesa yfirlýsingu fyrrverandi stjórnarformanns Glitni og hlusta á það sem bankastjórar Landsbanka og Kaupþings hafa sagt.  Hrun bankakerfisins á Íslandi hófst vegna þess að lánshæfismat Íslands og bankanna var fellt í kjölfar þjóðnýtingar Glitnis.  Við lækkun lánshæfismatsins lokuðust lánalínur og aðrar voru innkallaðar.  Þar með komst Landsbankinn í greiðsluþrot og vandi Glitnis jókst stórlega. Við þekkjum öll framhaldið.  Stórfelld eignaupptaka og eignatap tugþúsunda einstaklinga.  Ekki ræddi Davíð það.  Skerðing lífeyrisréttinda.  ekki ræddi Davíð það.  Fjármálalegu trausti umheimsins á Íslandi var kastað fyrir róðan.  Það fannst honum hið besta mál.  Það myndi koma aftur eftir nokkur ár!

Síðan fannst mér merkilegt, að allt þetta gerist á hans vakt og það hvarflar ekki að honum að hann eigi sök.  Að háir stýrivextir Seðlabankans spili stórt hlutverk í þessu öllu. Að getuleysi Seðlabankans við að halda gengi hér stöðugu spili stórt hlutverk í þessu.  Að hugmyndaleysi Seðlabanka og ríkisstjórnar við að halda verðlagi stöðugu skipti hér miklu máli.  Að Seðlabankinn hafi rekið peningamálastefnu sem steypti þjóðinni nærri því í gjaldþrot."

Má aldrei gera neitt fyrr en í óefni er komið?

Það er gott að sjá, að Seðlabankinn ætlar loksins að grípa til aðgerða til að styrkja gengið.  Virði ég það við bankann hvað hann ætlar að vera ákveðinn í aðgerðum sínum.  Það eina sem ég velti fyrir mér er:  Af hverju er Seðlabankinn ekki fyrir löngu búinn að grípa til slíkra aðgerða?  Af hverju þarf neyðarástand að skapast áður en gripið er inn í?

Það er verið að skipta út stjórn Landsbankans.  Það er búið að taka yfir Glitni.  Nú er kominn tími til að hreinsa út úr stjórn og bankastjórn Seðlabankans.  Þar er fullt af fólki sem lét það líðast að fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi á þeirra vakt.  Nú er tími til kominn að einstaklingar með bein í nefinu og djúpstæðaþekkingu á fjármálakerfi landsins og umheimsins taki við.

Annars lýst mér vel á þá hugmynd að Íbúðalánasjóður fái "takmarkalausa heimild til að kaupa upp öll veðlán sem tengd eru húsnæðiskaupum,2 eins og haft er eftir Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra í DV í dag.  Mér lýst ennþá betur á, ef slík lán munu lækka til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið.  Ef það gengur eftir mun ég alveg örugglega kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum og Jóhanna Sigurðardóttir verður þaðan í frá Heilög Jóhanna  

Frétt sem bloggað var við:  Gengi krónu fest tímabundið