Á þessari síðu er að finna efni sem snertir bankana, bæði þá gömlu og þá nýju, og aðrar fjármálastofnanir og þrotabú þeirra.

Síðan er í vinnslu og efni verður bætt við eins og tími gefst.

Endurreisn bankanna og mat á eignum og skuldum:

  1. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um forsendur fyrir skiptingu stofnefnahagsreikninga nýju bankanna frá 14. október 2008. (Upphlaðið afrit.)

  2. Fjármálaeftirlitið sendi frá sér minnisblað um endurskipulagningu bankakerfisins 11. desember 2008. Þar eru lagðir fimm verkferlar sem fara þarf í gegn um. a) Mat á eignum og skuldum nýju bankanna við stofnun þeirra; b) Mat á eignum og skuldum gömlu bankanna fyrir skilanefndir að nota; c) Gerð fjárhagsreiknings fyrir nýju bankana; d) Skilgreining og ákvörðun á fjárhagsskuldbindingum nýju bankanna við gömlu; e) Endurskoðun regluumhverfis og framkvæmdar bankaeftirlits.

  3. Mats Josefsson var fenginn til ráðgjafar um endurreisn fjármálakerfisins. Tillögur hans féllu í grýttan jarðveg íslenskrar spillingar, enda gerði hann ráð fyrir að endurreisn bankanna byggði á sanngirni og réttlæti. Skýrsla hans varð því aldrei neitt annað en bókastoð eða til að setja undir horn á ruggandi borði.

  4. Skilanefnd Kaupþings gaf út í reglulega frá febrúar 2009 til janúar 2011 svo kallaða Kröfuhafaskýrslu/Creditors report eða kannski réttara að segja að skýrslan frá febrúar 2009 hafi verið uppfærð reglulega. Þessar skýrslur voru alveg hafsjór upplýsingar, a.m.k. til að byrja með, og nýttust vel við að skilja verðmat á yfirfærðum eignum og skuldum til Nýja Kaupþings /Arion banka. Er þeim raðað hér í aldursröð, þ.e. þær sem ég hlóð niður: Febrúar 2009 - Mars 2009 - Apríl 2009 - Júní 2009 - Júlí 2010 - Nóvember 2010 - Janúar 2011

  5. Minnisblað frá forsætisráðherra og fjármálaráðherra frá 19. febrúar 2009 um ráðningu alþjóðlegra fjármálaráðgjafa fyrir ríkið í tengslum við endanlegt uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. Lagt er í minnisblaðinu til að gengið verði til samninga við ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint. Með í skjalinu er samningurinn við Hawkpoint.

  6. Samantekt/yfirlit (líklega frá Fjármálaeftirliti) yfir mat á eignum og skuldum nýju bankanna. Skjalið er líklegast frá 24. apríl 2009 en gæti hafa verið útbúið einhverjum mánuðum fyrr. Skjalið er áhugavert yfirlestrar.

  7. Erindi Þorsteins Þorsteinssonar, stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins, um reynslu hans sem samningarmanns ríkisins um endurreisn viðskiptabankanna haldið hjá Viðskiptaráði Íslands 26.11.2009.

  8. Í staðinn fyrir hugmyndir mjög reynds sérfræðings um endurreisn bankakerfisins voru fullkomlega óreyndir Íslendingar fengnir til að semja um endurreisn viðskiptabankana. Niðurstaðan þeirra vinnu var birt í skjalinu Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Hið merkilegasta plagg. Í því kemur m.a. fram loforð fjármálaráðherra um að yrði gengistryggingin dæmd ólögleg, þá kæmu seðlabankavextir á lánin. Niðurstaða Hæstaréttar í máli 471/2010 þurfti því ekki að koma á óvart. Hún hafði verið ákveðin ári fyrr. Skýrslan kom að vísu ekki út fyrr en 31. mars 2011.

  9. Samhliða útgáfu Skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, þá sendi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, frá sér greinargerð vegna umræðu um skýrsluna. Greinargerðin er eiginlega enn áhugaverðari enn skýrslan, því í henni segir ráðherra að bankarnir hafi skuldbundið sig til að “veita einstaklingum meiri afslátt af lánum þeirra en samið var um við yfirfærsluna”. Ekki er líklegt að nokkur maður finnist sem kannast við að hafa fengið þennan aukna afslátt, enda kæmi það illa heim og saman við yfir 700 ma.kr. hagnað bankanna á árunum eftir hrun.

  10. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Samantekt Ríkisendurskoðunar um hvað var gert og á hvaða forsendum. Alveg ómetanlegt rit um endurreisn viðskiptabankanna.

  11. Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um Dróma hf.

  12. Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson stóðu að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis í haustbyrjun 2016, Einkavæðing bankanna hin síðari. Skýrslan var byggð á yfirlegu þeirra yfir alls konar skjöl og efni. Vakti hún mikla athygli, en Brynjar Níelsson, þingmaður, tók að sér, með dyggri aðstoð Jóhannesar Karls Sveinssonar og Þorsteins Þorsteinsson að afgreiða skýrsluna sem rugl. Jóhannes og Þorsteinn voru meðal þeirra sem gagnrýndir voru í skýrslu Vigdísar og Guðlaugs. Mín skoðun á skýrslunni er að hún greini í megindráttur satt og rétt frá því sem gerðist. Með skýrslunni voru birt fylgiskjöl sem einnig er áhugavert að skoða.

  13. Skýrsla Ríkisendurskoðunar í nóvember 2016 um eignasölu Landsbankans á árunum 2010-16. Í skýrslunni kemur fram gagnrýni á Landsbankann og hann vændur um að fylgja ekki þeim reglum sem honum höfðu verið settar.