Á asnaeyrum - II. hluti: Gengistryggðu lánin

 

Höfundur

Marinó G. Njálsson

Útgefin

  1. útgáfa desember, 2020

  2. útgáfa september, 2023

Útgefandi

Harpan ehf.

Bókin er á rafrænu formi og fæst með því að smella hér og fylla út umbeðnar upplýsingar.

Efnisyfirlit bókarinnar

Hér fyrir neðan má finna valið efni úr bókinni. Hún er upp á 270 blaðsíður með öllu, þar af um 250 blaðsíður af texta.

 

Formáli

Þessi bók er annar hluti rita sem bera öll titilinn Á asnaeyrum. Titilinn má rekja til myndar sem Halldór Baldursson teiknaði haustið 2010, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, er sýnd draga mig á asnaeyrum og segir við mig: „Nú er eins gott að ég er með gott tak á asnaeyrunum þínum Marinó, því það er ekki svo að grösugustu bithagarnir séu einmitt þar sem þér finnst réttlátast að þeir séu.“

Ég var ekki einn um að vera dreginn á asnaeyrunum í undanfara og eftirmálum hrunsins. Þessi bók er um þann hluta sem snýr að gengistryggðum lánum, dómum og lögum tengdum þeim og ruglið og blekkingarnar sem haldið var á lofti í þeirri von að almenningur gleypti það hrátt. Nú flestir ýmist trúðu ráðmönnum eða áttuðu sig á því að almenningur gæti aldrei unnið slaginn við kerfið.

Bókin inniheldur lýsingu á því sem gerðist í megin dráttum. Í henni greini ég nokkuð oft frá minni skoðun eða túlkun á einstaka atburðum.

Á eftir fylgja vonandi fleiri rit í þessum flokki, en ég lofa engu.

Kópavogur, 21. desember 2020

Marinó G. Njálsson

 
 

Úrdráttur úr völdum köflum bókarinnar

 

Inngangur

Nokkur mál yfirtóku umræðuna í þjóðfélaginu í eftirmála hrunsins.  Gengistryggðu lánin, gengislánadómarnir og Árna Páls-lögin voru eitt slíkt mál. 

Þúsundir heimila og fyrirtækja höfðu tekið lán sem tengd voru við gengi erlendra gjaldmiðla.  Flestir gerðu það einfaldlega í þeirri trú, að stöðugleiki væri kominn á gengi krónunnar og að vaxtakjör þessara lána væru svo hagstæð að mikið þyrfti að ganga á til þess að þau yrðu óhagstæðari en hvort heldur verðtryggð lán með 5-8% vöxtum ofan á verðtryggingu eða lán með 9-15% nafnvöxtum án verðtryggingar, eins og veruleikinn var á fyrstu árum þessarar aldar.  Það var ekki flókinn útreikningur, að lán með 2,5-5,0% vöxtum (vaxtaálag innifalið) væru hagstæðari en flest annað sem bauðst.  Sérstaklega á tímum, þegar gengissveiflur voru tiltölulega litlar.

Allt lék í lyndi fram á mitt ár 2007.  Bönkunum hafði tekist að láta svo líta út, að þeir væru vel reknir og samkvæmt bestu starfsvenjum um heilindi í viðskiptum.  Hagspár litu vel út og hér var blússandi góðæri.  Um mitt ár 2007 brast hins vegar á stormur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og þá kom í ljós hve veikt og illa rekið íslenska bankakerfið var í raun og veru, að stjórnendur bankanna voru í rússneskri rúllettu með bankana sína og hagkerfið í leiðinni, að almennir viðskiptavinir voru afgangsstærðir í viðskiptalíkani sem snerist um að hygla fáum stórum viðskiptavinum sem voru í þeirri stöðu að bankarnir urðu að gera allt til að halda þeim réttu megin við gjaldþrotið.  Það sem verra var, var að þessir viðskiptavinir áttu ráðandi hluti í bönkunum og gengu í sjóði þeirra, eins og þeim sýndist.

Brestir fóru að koma í glansmyndina síðla árs 2007.  Krónan hafði byrjað að gefa eftir í ágúst og fljótlega á nýju ári hófst ballið.  Samfara skarpri dýfu fóru afborganir gengistryggðra lána í hina áttina.  Kallaði ég strax eftir því í maí að brugðist væri við vanda lántaka.  Greiningardeildir bankanna reyndu að draga úr svartsýni með því að segja að þetta gengi hratt yfir.  Stöðugleiki sumarsins reyndist hins vegar svikalogn og um haustið fóru bankarnir og krónan fjandans til.

Nýir bankar voru reistir, þar sem ýmsum var bjargað, en öðrum ekki.  Ástandið á mörgum heimilum var orðið slæmt og þó brugðist hafi verið með því með frystingu lána, þá var djúpt á frekari lausnir.  Fjármálafyrirtæki vissu ekki hvað þau áttu að gera, stjórnvöld vissu ekki hvað þau áttu að gera og lántakar biðu milli vonar og ótta.

Mitt í þessu svartnætti kom vonarglæta.  Líklega hefði gengistryggingin verið ólögleg verðtrygging og þar með þyrftu gengistryggðu lánin leiðréttingar við. 

Þetta var í febrúar 2009!  Stjórnvöld og fjármálafyrirtækin ákváðu að sjá hvort þau gætu beðið af sér storminn.  Samt var það svo að báðir aðilar vissu að þetta var rétt.  Ekki var heimilt að binda lán við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Fjármálafyrirtækin höfðu vitað þetta frá árinu 2001, en ekki er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra hafi frétt af þessu fyrr en seinni hluta árs 2007.  Ekki bara það, stjórnendur Seðlabanka og Fjármálaeftirlits (FME) hefðu átt að vita þetta, en þeir létu sem þeir vissu ekkert.

Seðlabankinn tók þetta þó nógu alvarlega til að óska eftir lögfræðiáliti sem enginn fékk að sjá utan bankans nema lögfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem útbjó sitt álit, sem enginn utan ráðuneytisins fékk að sjá!  Bæði álitin hljóðuðu upp á að gengistryggingin væri (líklegast) ólögleg.  En það var ekki rétti tíminn til að vera boðberi válegra tíðinda, enda hafði efnahags- og viðskiptaráðherra sagt að fólk ætti bara að fara með mál sín fyrir dómstóla.

Meðan þessu fór fram, var fjármálaráðherra með fleiri járn í eldinu en hann réð við með góðu móti.  Eitt var samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.  FME hafði haft þetta á sinni könnu, en fjármálaráðherra hélt að hann gæti látið málin ganga hraðar og fengið betri niðurstöðu.  Hann lét því ekki svona „smámál“ trufla sig í að ná „samningum aldarinnar“.  Er ómögulegt að skilja hvers vegna fjármálaráðherra taldi sig og sérfræðinga sína best fallna til að ná þessum samningum, en það er ekki efni þessarar bókar.  A.m.k. gerðist það, að samningamenn ríkisins í nafni ráðherrans fullyrtu (sem er náttúrulega jafngildi loforðs) að yrði gengistryggingin dæmd ólögleg, þá kæmu seðlabankavextir á lánin í staðinn.  Það var gert, þrátt fyrir að gera mátti ráð fyrir að það stríddi gegn ákvæðum laga nr. 7/1936, samningalaga, nr. 121/1994, um neytendalán, og ófrávíkjanlegum greinum vaxtalaga, nr. 38/2001.  Og viti menn, þegar upp var staðið þá ákvað Hæstiréttur að hunsa það sem bannaði þessa niðurstöðu og var fyrir algjöra tilviljun sammála samningamönnum ríkisins.

Bæði skuldarar og kröfuhafar leituðu réttar síns fyrir dómstólum.  Fyrstu mál gengu kröfuhöfum í hag, en í febrúar 2010 gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem dómarinn túlkaði lögin eins og texti þeirra var:  Gengistrygging var ólögleg verðtrygging!

Ég var á þessum tíma í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og við höfðum lengi reynt að fá einhverja lendingu í skuldamálum heimilanna.  Okkur kom niðurstaðan svo sem ekki á óvart, en hún var ekki endilega sú sem við höfðum leitast eftir.  Afstaða mín var, að fást yrði niðurstaða sem sátt væri um og sýndi það með stuðningi við gerðardómsleið talsmanns neytenda, sem hefði verið fær þegar stungið var upp á henni í apríl 2009.  Hún hefði þá náð til allra lána heimilanna.  Meiri hluti stjórnar HH var hins vegar á því að febrúardómurinn væri himnasending og margir voru til í að láta kné fylgja kviði og ná fullnaðar sigri.

Héraðsdómur var staðfestur í Hæstarétti.  Viðbrögðin urðu ótrúleg, svo ekki sé meira sagt.  „Þessi niðurstaða er reiðarslag og hún má ekki standa“, var tónninn frá ráðamönnum og lántakar fengju ekki að njóta gleðinnar nema í tvær vikur.  Ausið var yfir landslýð alls konar innihaldslausum staðhæfingum og tilbúnum tölum til að styðja við heimsendaspá stjórnvalda og þá sérstaklega Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.  Einhvers staðar í heiminum mundi það bull sem frá þessum herramönnum kom, varða atvinnumissi, en við búum á Íslandi, þannig að þetta var bara fjöður í hatt þeirra.  Forstjóri FME missti svo sem starfið, en það var vegna leka á trúnaðargögnum.  Sýndi kannski að manninum var ekkert heilagt.

Dómar um vexti fengust í héraði og Hæstarétti sumar og haust 2010, þökk sé einstaklega glæfralegu útspili lögmanns eins kröfuhafa. Bæði dómsstig gerðu sig sek um ótrúleg afglöp.  Til að bíta höfuðið af skömminni voru sett ákaflega óvönduð lög á Alþingi, nr. 151/2010, sem ganga alltaf undir nafninu Árna Páls-lögin.  Þau áttu að eyða óvissu, en juku hana í staðinn mjög mikið.  Það tók Hæstarétt fram á árið 2012 að leiðrétta helstu afglöpin.  Önnur fengu hins vegar að standa og þess hefur verið vandlega gætt, að ekkert mál rati til EFTA-dómstólsins, enda er hætt á, að þá kæmi í ljós að líklega er ýmislegt annað en lögin sem ráða niðurstöðum dómsmála á Íslandi.

Þetta er umfjöllunarefni bókarinnar.  Hún er búin að vera lengi í smíðum og því hefur þurft að endurskrifa hana reglulega.  Ef lesandanum finnst sem eitthvað sé úrelt, þá er það einfaldlega vegna þess að yfirsést hefur að uppfæra þann hluta.

Fyrsti kafli er um upphafið að þessu fári, ástæðu þess að fólk tók gengistryggð lán og hvernig lagapælingarnar hófust, aðvaranir sendar stjórnvöldum og skoðað hvað ætla mátti að fjármálafyrirtækin vissu.  Í öðrum kafla er fjallað um dóma sem gengu fram að fyrsta dómi Hæstaréttar, en um hann er fjallað í þriðja kafla ásamt viðbrögðum við honum. Einnig bregst ég við viðbrögðunum.  Vaxtadómurinn fær sitt pláss í fjórða kafla og Árna Páls-lögin í þeim fimmta.  Í sjötta kafla er smá talnagreining.  Farið er í gegn um valda dóma Hæstaréttar í sjöunda kafla, en sá áttundi er tekinn undir dóminn sem snupraði Alþingi og Hæstarétt.  Loks eru frekari vangaveltur um kröfurétt og á eftir þeim kemur eftirmáli.  

Höfum það alveg á hreinu, að hér er ekki um hlutlausa frásögn að ræða.Hún er sögð frá sjónarhorni þess semfannst á sér brotið, þ.e. skuldara og neytenda.Bókin er því á vissan hátt málsvarnarræða þeirra.

 

1. Kafli: Upphafið

Íslensk vaxtaumhverfi hefur ekki beint verið það hagstæðasta svo lengi sem höfundur man eftir sér.  Menn geta svo sem sagt, að vextir hafi verið lágir á 8. áratugnum, en það er bara ekki rétt.  Þeir voru hins vegar lágir miðað við verðbólgustigið.  Það var fyrst árið 2020 að breyting varð á þessu.

Eftir að vaxtafrelsinu var komið á um miðjan 9. áratuginn, þá vonuðust margir örugglega eftir því að ástandið myndi batna, en það fór á annan veg.  Vextir hækkuðu og hækkuðu, nema menn gætu fengið lán í erlendum gjaldmiðli.  Jafnvel í innan við 4% verðbólgu á árunum 1993-1999, voru óverðtryggðir vextir lána í íslenskum krónum tiltölulega háir samanborið við þá vexti sem fengust í nágrannalöndum.  Lágri verðbólgu fylgdi stöðugleiki í gengi og því fór það að vera kostur að taka lán í erlendum myntum án þess að þurfa að lifa við reglubundnar gengisfellingar.  Frjálst flæði fjármagns opnaði enn frekar á þennan möguleika.

Hvers vegna gengisbundin lán?

Háir stýrivextir Seðlabanka Íslands héldu uppi útlánsvöxtum á 10. áratugnum.  Jafnvel þegar vextir bankans voru farnir að lækka, þá voru þeir tiltölulega háir.  Meðalstýrivextir ársins 1996 voru 6,5% og hækkuðu þeir jafnt og þétt í 11,4% árið 2001.  Slíkir vextir eru einfaldlega ekki bjóðandi fyrirtækjum í samkeppni við innflutning frá löndum með umtalsvert lægra vaxtastig.  Fyrirtæki voru því farin að sækja í gengistryggð lán, rekstrarleigusamninga og eignaleigusamninga.  Þau voru að flýja hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands.

En stjórnendur og eigendur fyrirtækja vildu líka þessi kjör fyrir sig persónulega.  Fjármálafyrirtæki fóru því að bjóða þessa afurð til einstaklinga, en fyrir utan bílalánafyrirtækja, þá var farið með slíkt sem mannsmorð.  Hefði einhver einstaklingur þá djörfung að biðja um gengislán, þá var honum vísað afsíðis til að ræða slík mál.  Er hér talað af eigin reynslu.

Mjög misjafnt var hvernig fjármálafyrirtækin stóðu að þessari lánveitingu.  Í rekstrarleigusamningi frá árinu 2001, vegna bifreiðar sem var tekin á rekstrarleigu með tengingu við körfu erlendra gjaldmiðla, þá voru greiddir vextir þrátt fyrir að um leigusamning væri að ræða.  Þetta var svipaður samningur og síðar var dæmdur vera með ólöglega gengistryggingu og væri lánssamningur en ekki leigusamningur.  Önnur fjármálafyrirtæki pössuðu sig á því að vera með sérstakt skuldabréf fyrir hverja mynt og þinglýsa tryggingabréfi á viðkomandi eign, en það form var í samræmi við ákvæði íslenskra laga.  Eftir því sem leið á og lánunum fjölgaði, þá slepptu fjármálafyrirtækin tryggingabréfunum og sýslumenn þinglýstu lánum í erlendum myntum athugasemdalaust á eignir, þó svo að sumir vildu meina að það væri í andstöðu við íslensk lög.

 

3. kafli: Gengistryggingin fellur

Mikil spenna byggðist upp í kjölfar niðurstöðu Áslaugar Björgvinsdóttur í febrúar 2010.  Málinu var að sjálfsögðu áfrýjað til Hæstaréttar, eins og nokkrum öðrum héraðsdómum, þar sem fjallað var um gengistrygginguna.  Undir mánaðarmótin maí/júní spurðist það út, að stutt væri í málflutning.  Hann fór svo fram 2. júní.  Vitað var að Hæstiréttur tæki sér 2-3 vikur áður en dómsuppkvaðning færi fram, en í þetta sinn var asi á dómurunum.

16. júní 2010, dagurinn þegar gengistryggingin féll endanlega

Hæstiréttur úrskurðaði miðvikudaginn 16. júní 2010 í fjórum málum sem snertu gengistrygginguna, þ.e. dómar H 92/2010 (Óskar) Óskar Sindri Atlason gegn SP-fjármögnun, H 153/2010 (Jóhann) Lýsing gegn Jóhann Rafni Heiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni, H 317/2010 (Þráinn) NBI gegn Þráni ehf. og H 347/2010 (Sigrún) Sigrún Hafsteinsdóttir gegn Lýsingu hf.  Öll málin féllu skuldurum í hag, en þrjú þeirra gerðu það á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar.

Fyrst stutt forsaga.  Búið var að setja tíma á málflutning í máli H 92/2010 (Óskar) og áttu þrír dómarar að dæma í málinu. Áður en til þess kom, barst tilkynning frá réttinum um breytingu.  Hún gekk út á, að málið yrði flutt fyrir fimm manna Hæstarétti og yrði flutt samtímis máli H 153/2010 (Jóhann).  Skilaboðin voru alveg skýr.  Um mikilvægan úrskurð væri að ræða og því skyldu málin flutt fyrir fullum dómi, eins og 5 manna dómur er kallaður.  Málflutningur í báðum málum fór því fram í dómsal I miðvikudaginn 2. júní kl. 09:00.  Dómarar í málunum voru Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Mikill skjálfti var á æðstu stöðum út af mögulegri niðurstöðu Hæstaréttar.  Gekk það svo langt að 15. júní birtist frétt á vef Ríkisútvarpsins, þar sem haft er eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, að „ríkisstjórnin sé viðbúin að grípa til lagasetningar, þyki ástæða til þess, í kjölfar dóms Hæstaréttar“[1].  Ekki er hægt að skilja orð Gylfa á neinn annan hátt en að stjórnvöld sættu sig ekki við annað en „rétta“ niðurstöðu.  Er alveg með ólíkindum að stjórnvöld hafi þannig reynt að hafa áhrif á Hæstarétt.  Í samskiptum á kjarnalista Hagsmunasamtaka heimilanna voru menn sammála um að slík lagasetning, sem engum datt annað í hug en væri til að vernda fjármálafyrirtækin, væri stríðsyfirlýsing gegn heimilunum og almenningi.  Fannst mönnum sem Gylfi væri að sýna fólki löngutöng með tilvísunar til orða hans í ræðu sem hann hélt á Austurvelli í janúar 2009, þar sem hann sagði:  „Það glittir í löngutöng!“ um aðgerðir þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Svo rann upp dagur dómsuppkvaðningar.  Sjálfur var höfundur í fríi á Akureyri á gangi í þessu líka fallega sumarveðri, þegar símtal kom frá þeim félögum í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.  Án þess að hafa séð dóminn, var höfundur beðinn um álit á honum.

Dómar í málum H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann) gengu alveg eins og höfundur hafði spáð fyrir um 16 mánuðum fyrr hvað varðar gengistrygginguna.  Dómarnir eru samhljóða hvað þennan lið varðar:

„Af lögskýringargögnum er ljóst að ætlun löggjafans var að fella niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og heimila einungis að þær yrðu verðtryggðar á þann hátt sem í 14. gr. laganna segir. Vilji löggjafans kom skýrlega fram í því að í orðum lagaákvæðanna var eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar var ekkert rætt um þær tegundir, sem óheimilt var að beita. Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.“[2]

En til þess að lög nr. 38/2001 giltu um samninga málanna, þá þurfti Hæstiréttur fyrst að úrskurða um samningana sjálfa.  Voru þetta leigusamningar eða lánssamningar.  Hæstiréttur bendir á að greiddir séu vextir af samningunum, sem er ekki gert ef um leigusamning væri að ræða, hægt var að rifta samningi og krefja „leigutaka“ um fullar efndir, en ef um leigusamning væri að ræða félli einfaldlega frekari greiðsla niður og síðan eignaðist leigutakinn bílinn að loknum leigutíma án frekari greiðslu.  Ályktun Hæstaréttar var því:

„Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að áfrýjandi hafi í raun veitt stefnda Jóhanni Rafni lán til kaupa á bifreið, sem áfrýjandi kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings í stað þess að kaupa af stefnda skuldabréf, sem tryggt væri með veði í bifreiðinni. Af þessum sökum verður lagt til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.“[3]

Þá þurfti Hæstiréttur líka að ákveða hvort samningarnir væru í íslenskri mynt eða erlendri.  Um þetta segir Hæstiréttur:

„Lán í erlendri mynt falla ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samningur aðilanna ber skýrlega með sér að hann var um lán í íslenskum krónum, en fjárhæðin, sem ákveðin var í þeirri mynt, væri bundin við gengi tveggja erlendra mynta í þar greindum hlutföllum. Kaupverð bifreiðarinnar, sem samningurinn snerist um, var jafnframt tilgreint í íslenskum krónum og mánaðarlegar greiðslur í 84 mánuði ákveðnar í sama gjaldmiðli. Berum orðum kom fram í skilmálum með samningnum að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af, og sagði að auki í texta samningsins að hann væri „100% gengistryggður“. Af þessum sökum er ótvírætt að samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum og fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001.“[4]

Samantekið þá var niðurstaða Hæstaréttar eftirfarandi:

1.      Leigusamningur var lánssamningur

2.      Samningarnir voru í íslenskri mynt

3.      Gengistrygging er ólögleg verðtrygging og fellur því niður.

Fyrir okkur sem höfðum staðið í þessari baráttu í vel yfir ár var þetta stórsigur, en við áttum eftir að komast að því að stríðið var ekki búið, þó þessi orrusta hafi unnist.

[1] Sjá fréttina Hæstiréttur um gengisbundin lán sem birtist á vefnum www.ruv.is þann 15.6.2010, sjá: http://www.ruv.is/frett/haestirettur-um-gengisbundin-lan

[2] Textinn er samhljóða í bæði dómi H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann)

[3] Úr dómi H 153/2010 (Jóhann), en í hinum dómnum byrjar þessi texti: „Þegar þetta allt er virt verður að líta svo á að stefndi hafi í raun veitt áfrýjanda..“ því í honum snúast hlutverk stefnda og áfrýjanda við.

[4] Þessi hluti er samhljóða í báðum dómum.