Skopmynd af höfundi teiknuð af Halldóri Baldurssyni í október 2010, þegar höfundur ákvað að taka þátt í starfi nefndar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um skuldavanda heimilanna.  Nefnd sem jafnan hefur gengið undir heitinu "sérfræðing…

Skopmynd af höfundi teiknuð af Halldóri Baldurssyni í október 2010, þegar höfundur ákvað að taka þátt í starfi nefndar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um skuldavanda heimilanna.  Nefnd sem jafnan hefur gengið undir heitinu "sérfræðingahópurinn".

Marinó G. Njálsson

Eigandi/höfundur efnis
 

Marinó G. Njálsson er borinn og barnfæddur Seltirningur.  Lauk barnaskóla- og grunnskólagöngu á Nesinu, fór þaðan í MR (stúdent 1981 af eðlisfræðibraut I), Háskóla Íslands (hóf nám í vélaverkfræði, en útskrifaðist haustið 1985 með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði) og loks Stanfordháskóla í Kaliforníu, þaðan sem hann útskrifaðist bæði með M.Sc. gráðu ('87) og verkfræðigráðu ('88) í aðgerðarannsóknum (operations research).  Lokaverkefni hans var um innbyrðistengsl framboðs og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu. 

Hann er alinn upp í fjölskyldurekstri hjá Prjónastofunni Iðunni hf., þar sem hann starfaði samhliða námi, einnig var hann tvö sumur á olíuskipum Skipadeildar Sambandsins.  Að loknu námi hóf hann störf hjá Tölvutækni Hans Petersen (1988-91), kenndi og gegndi stöðu skipulagsstjóra hjá Iðnskólanum í Reykjavík (1992-1997), var öryggisstjóri Íslenskri erfðagreiningu (1997-2000), en frá haustinu 2000 hefur hann sinnt ráðgjöf á sviði upplýsingaöryggismála og áhættustjórnunar, fyrst hjá VKS hf. (2000-2003), þá í eigin rekstri, en frá september árið 2012 í Danmörku hjá Hewlett Packard, Hewlett Pakard Enterprise og nú síðast DXC Security, sem er hluti af DXC Technology.  (Starfið í Danmörku er raunar alltaf það sama, en nafn vinnuveitandans hefur breyst vegna skipulagsbreytinga, sundrunar og sameiningar fyrirtækja.)  Samhliða störfum í Danmörku hefur hann haldið áfram að sinna ráðgjöf á Íslandi.

Marinó hóf að blogga um þjóðfélagsmál og upplýsingaöryggi fyrri hluta árs 2007 og var mjög virkur í umræðunni um hrunið og eftirmála þess.  Hann var einn af stofnfélögum Hagsmunasamtaka heimilanna og sat í stjórn/varastjórn samtakanna frá stofnun í janúar 2009 fram í nóvember 2010, þegar hann sagði sig úr stjórninni.

Marinó er kvæntur Hörpu Karlsdóttur og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn.

 
Marinó G. NjálssonÁsgeir Ásgeirsson, ljósmyndari, tók þessa mynd árið 2010.

Marinó G. Njálsson

Ásgeir Ásgeirsson, ljósmyndari, tók þessa mynd árið 2010.

Hvað er ég að vilja upp á dekk

 

Hvers vegna ætti ég að hafa eitthvað vit á þessum atburðum eða einhver að vilja hlusta á það sem ég segi?  Ekki er ég stjórnmálamaður sem hrærðist í hringrás atburðanna.  Þess síður blaðamaður sem var (eða átti að vera) sofandi og vakandi yfir öllu sem gerðist.  Og miðað við að vera tölvunarfræðingur, þá ætti þekkingarsvið mitt að liggja annars staðar.  (Er að vísu með tvær gráður í aðgerðarannsóknum, sem kannski yfirgnæfa tölvunarfræðigráðuna.)  Hvað er ég þá að vilja upp á dekk?

Þó ég hafi ekki byrjað að blogga um þjóðfélagsmál fyrr en í febrúar 2007, þá var ég búinn að taka þátt í umræðunni lengur.  Raunar hef ég látið mig samfélagsmál varða alveg frá því á 9. áratugnum.  Á 10. áratug 20. aldar birtust eftir mig nokkrar greinar um þjóðfélagsmál í Morgunblaðinu.  Frá 1991 til 1995 var ég fastur pistlahöfundur í blaðinu um upplýsingatæknimál, þar sem ég fór vítt og breitt yfir völlinn.  Hélt ég því áfram hjá Tölvuheimi auk þess sem ég veitti ráðgjöf við að koma blaðinu á koppinn. Þetta gerði það að verkum, að ég fékk sýn inn í rekstur fyrirtækja, sá hvar voru tækifæri og hvar menn voru að reisa sér hurðarás um öxl, áttaði mig á samhengi hlutanna og sá því oft hvað menn voru að gera vel og hvað menn voru að gera illa.   Þá eru það ráðgjafastörf mín, fyrst sem starfsmaður VKS hf. og síðan í eigin rekstri.  Í átta ár fram að hruni hafði ég komið að verkefnum á ótrúlega mörgum sviðum þjóðlífsins.  Flest innan fjármálafyrirtækja, m.a. hjá tveimur bönkum, kortafyrirtæki og 15 lífeyrissjóðum, tryggingafélögum, kom að stofnun Auðkennis, gerði úttektir og greiningar hjá símafyrirtæki, lyfjafyrirtæki, á almannatryggingakerfinu og svona mætti of lengi telja.  Víðtækust voru verkefni mín annars vegar hjá kortafyrirtækinu, sem hét í upphafi Greiðslumiðlun en er núna þekkt undir nafninu Valitor, og hins vegar lífeyrissjóðunum.  Hjá þessum aðilum vann ég áhættumat, öryggisgreiningu og innleiddi stjórnkerfi upplýsingaöryggis.  Hjá Valitor unnum við að viðbragðsáætlunum og stjórnun rekstrarsamfellu.  Það var líka verkefni sem ég byrjaði á hjá Landsbanka Íslands haustið 2005, en því var frestað ári seinna, þar sem önnur verkefni voru í forgangi.  Þráðurinn var tekinn upp aftur í ágúst 2008, en okkur entist ekki tími til að ljúka því.  Aðeins tókst að ljúka eins mánaðarvinnu af þeim tólf sem samið hafði verið um!  Ég veitti Landsbankanum raunar mjög fjölbreytta ráðgjöf á þessum árum og kynntist því mörgum aðilum innan bankans og ólíkum þáttum starfseminnar, m.a. þáverandi innri endurskoðanda bankans, Sigurjóni Geirssyni og hans fólki.

Eftir hrun fækkaði viðskiptavinum mínum mikið sem endaði með því að ég tók starfi sem mér bauðst hjá Hewlett-Packard í Danmörku.  Hef ég haldi áfram að sinna hluta þessara verkefna samhliða starfi mínu hjá Hewlett-Packard, síðar Hewlett Packard Enterprise og nú síðast DXC Technology í Danmörku.

Þessi þekking og reynsla þýddi, að ég var kannski nær skráargatinu en margir aðrir, þó ég hafi ekki verið fyrir innan dyrnar.  Mikilvægast tel ég þó að menntun mín í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla með megináherslu á ákvörðunarfræði og áhættumat gerði það að verkum að ég skil ekki bara vel mikilvægi formlegra vinnubragða, heldur hafði ég í henni snertingu við ótrúlega marga þætti sem skipta máli til að skilja flækjustigið og jafnvel atburðarrásina.  Enda sjáum við, að einhverjir mikilvægustu starfsmenn rannsóknarnefndar Alþingis voru doktorar í aðgerðarannsóknum, ef marka má orð Guðrúnar Johnsen í bók hennar Bringing down a banking system.

Ég er þó fyrst og fremst að vilja upp á dekk, vegna þess að ég hef eytt allt of miklum tíma í þessi mál, hvort heldur grúsk og rannsóknavinnu eða vegna þátttöku minnar í starfi Hagsmunasamtaka heimilanna og síðan einfaldlega baráttu um réttlæti fyrir fólkið í landinu.  Svo má ekki gleyma þeirri óbilandi réttlætiskennd sem mér býr í brjósti. 

Hvort það sé síðan rétt mat, að ég eigi erindi upp á dekk, er annarra en mín að dæma.

 
TOF3870-klippt.JPG

Afleiðingar hrunsins fyrir fjölskylduna

 

Hrunið hafði gríðarleg áhrif á mig og mína fjölskyldu.  Við höfðum verið dæmigerð íslensk millistéttarfjölskylda, sem höfðum haft það alveg ágætt.  Með hverri fjölgun á heimilinu hafði fylgt þörf fyrir stærra húsnæði og höfðum við stækkað við okkur í þrepum í samræmi við efnahag.  Eftir að fjórða barnið kom í heiminn var ljóst að þáverandi húsnæði myndi ekki henta, ef gera ætti ráð fyrir að öll börnin hefðu sitt eigið herbergi.  Árið 2004 var fyrst farið að skoða möguleika á stækkun og sótt var um lóð í Þingahverfi í Kópavogi (enda gott að búa í Kópavogi), þegar þær voru auglýstar til umsóknar um mitt ár 2005.  Áður höfðum við misst af skilafresti vegna lóða í Kórahverfi.  Við vorum því alls ekki að hoppa á einhverja hringekju brjálæðis uppgangsáranna.

Við fengum lóð úthlutað við Fróðaþing og biðum full róleg með að hefja framkvæmdir, sem átti eftir að koma í bakið á okkur.  Fyrsta skóflustunga var tekin 17. nóvember 2006.  Húsið er byggt úr einingum og voru fyrstu einingarnar reistar 20. apríl 2007, en þær síðustu ekki fyrr en 27. október sama ár.  Hægt var á framkvæmdum og þær nánast stöðvaðar við hrun krónunnar í mars 2008, en þá var það orðið fokhelt.  Okkur tókst að lokum að gera hluta húsnæðisins íbúðarhæft og fluttum inn í hann hluta um mánaðarmótin mars/apríl 2010.  Aðrir hlutar hafa síðan verið kláraðir smátt og smátt eftir það, að mestu ekki fyrr á árunum 2015-2017 og nær eingöngu fyrir sjálfsaflafé og með eigin vinnu.

Eftir að ég byrjaði að starfa sjálfstætt seinni hluta árs 2003, höfðu tekjur verið reglulegar og góðar.  Ég var í verkefnum fyrir trausta aðila og var að sinna verkum sem mikið lá á að ljúka hratt og vel vegna þrýstings frá eftirlitsaðilum á borð við Persónuvernd og Fjármálaeftirlit.  Ég tók þátt í einu "útrásarverkefni", hjá Landsbanka Íslands.  Því hafði verið frestað árið 2006, en þráðurinn tekinn upp í ágúst 2008, þegar ég undirritaði samning við bankann um að veita honum ráðgjöf upp á hátt í 20 m.kr. á næstu 12-15 mánuðum á eftir.  Þessi samningur var það fyrsta sem fauk út um gluggann við hrun bankanna í október sama ár.  Við það breyttust að sjálfsögðu allar fjárhagsforsendur.

Áður hafði það gerst, að þegar fasteignamarkaðurinn nánast botnfraus í byrjun árs 2008, þá lokaðist á möguleika okkar að selja þáverandi húsnæði.  Þegar það loksins tókst, tókum við á okkur um 15 m.kr. lækkun húsnæðisverðs, en það uppgjör fór ekki fram fyrr en árið 2012.

Við reyndum allt sem við gátum til að bjarga því sem var bjargað og rérum lífróður.  Vildum nýta okkur úrræði, sem stjórnvöld höfðu komist að samkomulagi við fjármálafyrirtæki um að bjóða.  Allt gekk raunar vel, þar til ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím J. Sigfússon í fararbroddi ákvað að setja SPRON í þrot frekar en að fara sömu leið og með bankana.  Sú ákvörðun varð okkur ákaflega þung í skauti.  Þá var nefnilega ekki lengur hægt að semja um eitt eða neitt við þann aðila sem hafði verið aðalviðskiptabanki okkar.  Þetta var stundin, þegar við vorum sett í spennutreyju, sem við sluppum ekki úr fyrr en í nóvember byrjun árið 2014 með um 60 m.kr. tjón á bakinu (15 m.kr. tjón vegna raðhússins er þar meðtalið).

Já, fjárhagslega kostaði hrunið okkur á bilinu 75-80 m.kr.  Í dag sitjum við uppi með lán upp á um 45-50 m.kr. sem við værum ekki með, ef hrunið hefði ekki komið.  Við erum búin að ganga á séreignarsparnað og síðan höfum við lagt 10-15 m.kr. af sjálfsaflafé í að vinna okkur út úr vandanum.  Með töpuðum tekjum vegna fyrrnefnds samnings við Landsbanka Íslands, þá gerir þetta á bilinu 75-80 m.kr.

Til að ná þessu var allur kostnaður skorinn niður.  Sumarfrí breyttust úr því að vera í fríi í það að vinna í húsinu, því ekki var til peningur til að kaupa að vinnu.  Við þetta bættist, að margir af mínum fyrri viðskiptavinum fóru í aðhaldsaðgerðir sem kostuðu að vinnan mín dróst svo mikið saman, að ég sá þann kost bestan að leita eftir starfi erlendis.  Frá ágúst 2012 hef ég því búið í Danmörku með fjölskyldan á Íslandi.  Í nokkur ár björguðu þessar dönsku tekjur efnahag heimilisins meðan við vorum að koma okkur fyrir vind.

Við komum standandi niður, en það tók á.  Þessi ár hafa verið lærdómsrík og við munum búa af þessari reynslu um ókomin ár.  Enginn er að segja, að hefði hrunið ekki orðið, að lífið hefði verið dans á rósum, bara að þessi sviðsmynd sem varð ofan á hafði þessar afleiðingar.

Fátt er svo með öllu illt.. Ég er kominn í gott starf í Danmörku og sonur okkar í nám við Aarhusuniversitet.  Í vinnunni fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég eignast marga góða vini, auk þess að hafa kynnst alveg helling af fólki úr ýmsum stigum þjóðfélagsins.  Ég fékk tækifæri til að gera hluti og taka þátt í vinnu, sem líklegast hefðu ekki staðið til boða í annarri sviðsmynd.  Fyrir það er ég þakklátur.