Litið til baka 60 ár

Ég kom í heiminn miðvikudaginn 25. janúar 1961 og er því orðinn 60 ára. Hef svo ekki hugmynd um hvernig veðrið var þann dag eða stemmningin í þjóðfélaginu, en það hélt mér ekki frá því að koma 3 vikum fyrir tímann. Þar með tók ég asann út og hef lítið verið fyrir að flýta mér um of síðan. Svo ég fylgi þeirri reglu að í upphafi skuli endann skoða, þá er ég kvæntur fjögur barna faðir og afi þriggja barnabarna.

Sem Seltirningur, þá lá leiðin í Mýró, Való og MR. Svo var það tölvunarfræði við Háskóla Íslands, tvær gráður í aðgerðarannsóknum við Stanford háskóla, sat í eitt og hálft ár í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist árið 2009 sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands í Menntaskólanum í Kópavogi. Besti skólinn hefur þó verið skóli lífsins og öll sú menntun og endurmenntun sem hann hefur upp á að bjóða.

Starfsævin hefur leitt mig víða, en flest þau fyrirtæki sem ég hef starfað hjá eru ekki lengur til eða ekki til í þeirri mynd sem þau voru, þegar ég hóf þar störf. Þetta eru Prjónastofna Iðunn, Skipadeild Sambandsins, Tölvutækni Hans Petersen, Iðnskólinn í Reykjavík, Íslensk erfðagreining (ÍE), VKS, Betri ákvörðun ráðgjafaþjónusta (eigin rekstur), Hewlett Packard (HP), Hewlett Packard Enterprise (HPE), Enterprise Services (ES) og DXC Technology. Eins og sést á þessari upptalningu, þá eru þarna nöfn sem ekki skreyta lengur fyrirtækjaflóru landsins. En þá ekki meira um mig og vil ég í staðinn beina sjónum að samfélaginu og breytingum á því.

Þegar ég fæddist var vinstri umferð, ekki var hægt að aka hringinn, ekið var yfir fjallvegi eða um hættulegar skriður til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Norðfjarðar, Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Súgandafjarðar, Önundarfjarðar og Dýrafjarðar.  Þessir staðir einangruðust hálft árið. Bundið slitlag var ekki til utan þéttbýlis. Farið var í siglingu, þegar farið var til útlanda, þ.e. með skipi, eða ekið eftir hlykkjóttum vegi um Vatnsleysuströnd og farið var fram hjá hermönnum til að komast út á flugvöll.  Fyrsta utanlandsferðin mín var sumarið 1967 með Gullfossi með viðkomu í Edinborg á leið til Kaupmannahafnar.  Þotur voru ekki til hér á landi og heldur ekki tölvur.  Sveitasíminn var Facebook þess tíma, þ.e. ef maður vildi að öll sveitin vissi eitthvað, þá talaði maður um þau efni í símann (eins og fólk notar Facebook í dag).  Svo má náttúrulega ekki gleyma því að Surtsey birtist ekki heiminum fyrr en ég var á þriðja aldursári!

Ferð í Fjörðinn (Hafnarfjörð) var heilmikið ævintýri enda farið yfir Kópavogsháls, Arnarnesháls og framhjá öllum óbyggðasvæðunum sem þarna voru.  Á Íslandi bjuggu um 177.000 manns, þar af um 72.000 í Reykjavík, á Seltjarnarnesi bjuggu rúmlega 1.300 manns, 6.213 í Kópavogi og Akureyri var næst stærsti bær landsins með 8.835 íbúa.  Vestfirðingar voru fleiri en Austfirðingar og íbúar Norðurlands Vestra og þar bjuggu líka fleiri en í næst stærsta bæjarfélaginu.  Hafnarfjarðarstrætó hökti leið sína og ef maður var heppinn, þá bilaði hann ekki áður en komið var á leiðarenda. Bara þeir allra frökkustu fóru upp að Elliðavatni og þá þótti við hæfi að gista í sumarbústað við vatnið.  Það var góð dagsferð að fara á Þingvöll og til baka.  Lagt snemma af stað og komið að kveldi til baka.  Stórvirkjanir landsins voru Steingrímsstöð, Ljósafoss og Írafoss. Ég man eftir ferðum út á land, því vinir og frændfólk átti heima vítt og breitt um landið. Ferðir til Akureyrar, Siglufjarðar, Húsavíkur, í Jökulsárgljúfur og um sveitir Suðurlandsundirlendis og Borgarfjarðar man ég eftir. Man t.d. vel eftir akstrinum í gegn um Strákagöngin og þegar við gistum í Vesturdal í Jökulsárgljúfri.

Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðjan voru liggur við einu framleiðslufyrirtæki landsins sem ekki voru í eigu Sambandsins enda var ekkert álver í Straumsvík.  En það gerðist margt á fyrstu 10 árum ævi minnar.  Þjóðfélagið tók stakkaskiptum.

Fyrsta tölvan kom til landsins 1964 frekar en 1965, Búrfellsvirkjun reis og líka álver kennt við Ísal.  Keflavíkurvegur var lagður og helstu leiðir út úr Reykjavík voru bættar.  Strákagöng voru grafin og sprengd og þar með var vetrareinangrun Siglufjarðar rofin. Júrí Gagarín fór út í geim, Askja gaus, Bítlarnir komu fram í endanlegri mynd árið 1962, Hrímfaxi fórst með 12 manns á Fornebu flugvelli í apríl 1963, Surtseyjargos hófst 14. nóvember og Kennedy var myrtur 8 dögum síðar.  1966, nánar tiltekið 30. september, hófust útsendingar sjónvarpsins.  Þær voru í svart-hvítu og til að byrja með tvisvar í viku.  Handboltinn var spilaður í Hálogalandi, en þó eignuðumst við stjörnur á heimsmælikvarða.  Jón Hjaltalín Magnússon fór meira að segja til Svíþjóðar að spila með Drott.  Laugardagshöllin var tekin í notkun 1967 sama ár og Danir niðurlægðu fótboltalandsliðið 14-2.  Ári síðar komu yfir 20.000 manns til að sjá Benfica spila við Val.  Þetta eru einu tvö metin sem ennþá standa.  KR vann sinn síðasta Íslandsmeistaratitil í yfir 30 ár um líkt leyti og síldin hvarf.

Ég var orðinn 10 ára, þegar aðrir en Sjálfsstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komust til valda og um líkt leyti gengum við í EFTA.  Nixon og Pompidou heimsóttu Ísland og Fisher og Spassky háðu einvígi aldarinnar.  Tveimur dögum fyrir 12 ára afmælið hófst gos í Heimaey.  Ásgeir Sigurvinsson varð atvinnumaður í knattspyrnu.  Efnahagur þjóðarinnar hrundi og meðalverðbólga var 40% á ári eða svo.  Fermingarpeningar brunnu upp og það gerðu líka húsnæðislán og eignir lífeyrissjóðanna.  Hafi sjöundi áratugurinn verið áratugur pólitísks stöðugleika, þá var sá áttundi allt annað.  Einu tölvurnar sem voru til á landinu voru í sérstökum reiknistofnunum eða skýrsluvélum og komu ýmist frá International Business Machines eða Digital Equipment Corporation.  Við háðum þorskastríð við Breta og Þjóðverja, þegar við færðum landhelgina út í fyrst 50 mílur og síðan 200 mílur.  Lærðum að veiða loðnu og skutum ennþá hval.  Ísbjörn heimsótti Grímseyinga og ekki má gleyma að Hekla tók upp nýtt munstur, gos á 10 ára fresti.  Loksins gátum við keyrt hringinn og nýr vegur kom niður Kambana og upp í Kjós meðan Sléttubúar máttu ennþá aka troðninga til að komast inn á Kópasker. Hræðilegustu lög lýðveldisins voru sett, þegar verðtrygging var leyfð. Snjóflóð olli mannskaða á Neskaupsstað og 138 manns létu lífið í mannskæðasta flugslysi íslenskrar flugsögu í nóvember 1978.

Níundi áratugurinn rústaði efnahag heimilanna, enda ruku verðtryggðar skuldir upp úr öllu valdi.  Kvótakerfið var tekið upp um líkt leyti og verðbólgan toppaði í 134%.  Fjármagnseigendur og kvótaeigendur mæra hlutinn sinn, meðan við hásetarnir hörmum okkar.  Jörð skalf og gaus fyrir norðan í einum mestu náttúruhamförum síðari tíma, enda gliðnaði landið um allt að 8 metra!  RÚV missti einkaleyfi á rekstri ljósvakamiðla.  Reagan og Grobasov heimsóttu Höfða og bundu enda á Kaldastríðið.  Kommúnisminn féll í Evrópu.  Einmenningstölvur flæddu inn í landið og tölvusamskipti urðu að veruleika.  Upplýsingaöldin gekk í garð. Þetta voru háskólaárin mín, fjögur á Íslandi og tvö í Kaliforníu. Handboltinn var í uppsveiflu, meðan lítið gekk hjá fótboltanum, þó margir fótboltamenn færu í víking atvinnumennskunnar. Bjarni Friðriksson fékk bronsverðlaun í júdó.

Tíundi áratugurinn var áratugur Davíðs Oddssonar í pólitíkinni, Viðeyjarsamningsins og þegar Framsókna var aftur hleypt í ráðherrasæti. Bankaútrásin hófst og til liðs við þá gengu menn sem áttu eftir að setja þá alla á hausinn. Á þessum árum fengu menn þá flugu í höfuðið að krónan gæti flotið án stuðnings, hægt væri að nota verðbólgumarkmið og íslenskir bankar gætu keppt við erlenda í útlöndum. Öllum þessum hugmyndum var hrint úr vör í upphafi nýrrar aldar. HM í handbolta var haldið á Íslandi árið 1995. Fótboltinn var að rísa úr öskustónni. Snjóflóð ollu miklum mannskaða á Súðavík og Flateyri. Framsal fiskveiðikvóta var leyft og einnig veðsetning hans.

Ný öld bauð upp á mikinn uppgang í atvinnulífinu, mikilmennskubrjálæði athafnamanna sem héldu að þeir væru snillingar og hefðu fundið upp gullgerðarvélina. Hún reyndist framleiða glópagull, þó það yrði svo á endanum almenningur sem færi verst út úr útrásinni og glópagullsframleiðslunni. Vala Flosadóttir sótti silfurverðlaun til Ástralíu og handboltalandsliðið til Kína. Jörð hristist og skalf á Suðurlandi. Kvennalandsliðið í fótbolta vann sér rétt til þátttöku í úrslitakeppni EM2009 í Finnlandi, sem var stærsta afrek íslensks fótbolta til þess tíma.

Eldgos voru tíð fyrri hluta annars áratugar 21. aldar, þegar gaus á Fimmvörðuhálsi, í Eyjafjallajökli, Grímsvötnum og norðan Vatnajökuls. Síðan hafa spár gengið út á að það myndi gjósa á hverju ári án þess að eldfjöll hafi rumskað. Jörð hefur skolfið, en enn sem komið er án umtalsverðs tjóns. Kvennalandsliðið í fótbolta lék í úrslitakeppni EM2013 í Svíþjóð. Karlalandsliðið gat ekki verið eftirbátar kvennanna og tryggði sér inn á EM2016 í Frakklandi og HM2018 í Rússlandi. Árangur kvennanna kom ekki á óvart, en ég verð að viðurkenna, að ekki átti ég von á því að karlalandsliðið næði inn í 8 liða úrslit EM í fótbolta. 27. júní 2016 í Nice er og verður ógleymanlegur, þegar Englendingar voru lagðir að velli, sem og allir dagarnir á EM í Frakklandi.

Er Ísland betra í dag en fyrir 40-60 árum?  Eru vandamálin okkar stærri eða flóknari?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að samfélagið er sífellt að verða flóknara og hættulegra.  Á mínum yngri árum var framið morð á nokkurra ára fresti, núna eru þau mörg á ári. Grunsemdir um morð urðu meira segja til þess að fenginn var þýskur rannsakandi til að koma sök á nokkur ungmenni vegna þess að þau lágu svo vel við höggi.  Fyrirgreiðslupólitík var landlæg, en það var visst siðgæði í spillingunni.  Fólk gat skilið húsin sín eftir ólæst um nætur og lykla í bílum.  Kerrum var ekki stolið, þó hæg væru heimatökin.  Þetta var tími sakleysisins, nokkuð sem við höfum glatað og kemur ekki aftur.

Það hafa verið forréttindi að lifa þennan tíma, þegar Ísland breyttist úr fiskveiðiþjóð í tæknivætt þjónustu samfélag.  Að fá að taka þátt í þróuninni og byltingunni.  Margt tókst vel og annað fór úrskeiðis.  Hagstjórnarmistökin hafa verið fleiri en tölu verður á komið og þau hafa versnað eftir því sem á ævina hefur liðið.  En við höfum öll tækifæri til að gera gott úr ástandinu, ef við bökkum aðeins og horfum til fortíðarinnar.  Þetta þjóðfélag varð ekki það sem það er vegna eiginhagsmunagæslu og græðgi, þó svo að vandamál dagsins í dag séu vegna þess.  En við erum ekki á réttum stað sem þjóðfélag. Eigingirnin er enn of ríkjandi. Við erum enn of upptekin við að ekki megi ganga til góðra og mikilvægra verka, vegna þess að einhverjir “óverðugir” gætu fengið eitthvað sem þeir eiga ekki skilið. Stjórnmálaflokkarnir eru enn haldnir þeim misskilningi að þeir eigi að verja bráðabirgða stjórnarskránna frá árinu 1944 fyrir skynsamlegum og nauðsynlegum breytingum til að hún endurspegli Ísland árið 2021 en ekki Danmörk árið 1849. Stjórnarskrá og stjórnskipan sem Íslendingar mótmæltu á Þjóðfundinum árið 1851.

Framtíðin er óljós, en ég lít björtum augum til hennar. Fyrst heimurinn lifði af valdatíð Trumps, þá er seigla hans talsverð. Framundan eru þó ár erfiðra ákvarðana, þar sem komast þarf að niðurstöðu um stefnu í öllum helstu málum samfélagsins. Loftlagsmál eru þar efst á blaði, málefni landlausra, uppbygging stríðshrjáðra landa, verndun auðlinda og hreinsun hafanna. Á Íslandi er það náttúruverndin með Miðhálendisþjóðgarð í brennidepli, menntun sem mætir kröfum framtíðarinnar, sjálfbærni þjóðfélagsins, stöðugleiki í efnahagsmálum, framtíð gjaldmiðilsins, þátttaka í alþjóðasamstarfi, stuðningur við þá sem minna mega sín, uppbygging hjúkrunarheimila og almennt í heilbrigðiskerfinu og ekki má gleyma fjórðu iðnbyltingunni og hvernig við ætlum að gera Ísland tilbúið til að takast á við hana.

Ég er spenntur að sjá hvað næsti áratugur ævi minnar hefur upp á að bjóða. 60 ár er ekki hár aldur og get ég alveg eins átt von á að eiga 30-40 ár eftir ólifuð. Maður sér það á dánartilkynningum, að sífellt fleiri eru langalangömmu og -afar á sinni dánarstund. Fólk sem er ríkt af afkomendum og hefur lifað í gegn um stærri breytingar en ég lýsi að ofan. Fólk sem fæddist í torfbæjum með moldargólfi, en fellur frá í rúmi á hátæknisjúkrahúsi. Ef þessi breyting hefur orðið á um og innan við 100 árum (og að miklu leyti á síðustu 50 árum), þá sjáum við bara á hvaða skala breytingarnar næstu áratugina geta orðið.

Gleðilega framtíð með þökk fyrir það liðna.