Á asnaeyrum - II. hluti: Kafli 4 Vaxtadómurinn

 

Höfundur

Marinó G. Njálsson

Útgefin

Útgáfa 2.0 September 2023

Útgefandi

Harpan ehf.

 

Kaflinn sem fylgir hér fyrir neðan er uppfærð útgáfa hans, enda er það svo að sífellt verður maður fróðari um málin og öðlast betri skilning á hlutunum. Aðeins er birtur sá hluti sem snýr að dómi Hæstaréttar 471/2010 og túlkun mína á honum, en sleppt að birta seinni hlutann, sem er um viðbrögð og frekari útreikninga.

Kópavogur, 16. september 2023

Marinó G. Njálsson

 
 

Kafli 4: Vaxtadómurinn

Hvað sem öllu tali og skoðunum hinna og þessara leið, þá var það ekki niðurstaðan.  Aðeins dómur frá Hæstarétti myndi geta leyst úr því.  Hann varð að fást og það án óþarfa tafa.

Að ákveða vígvöllinn ræður niðurstöðunni

Það er þekkt að sá sem ákveður vígvöllinn, hann getur unnið, þó hann hann sé ekki í góðri stöðu.  Það er einmitt það sem gerðist næst. 

Einhverra hluta vegna, þá atvikaðist það, að Lýsingu hf. tókst að stela næsta hluta atburðarrásarinnar.  Eða var það Sigurmar K. Albertsson, hæstaréttar-lögmaður, sem sá sér leik á borði?  Ekki ætlar höfundur að gagnrýna Sigurmar fyrir að vinna vinnuna sína, en það útspil hans, fyrir hönd Lýsingar, að stefna Guðlaugi Hafsteini Egilssyni 29. júní 2010 vegna skuldar Hafsteins við Lýsingu, átti eftir að breyta ótrúlega miklu.  Þorir höfundur að fullyrða að aldrei hafi einn lögmaður fært skjólstæðingi sínum jafn góða niðurstöðu og Sigurmar gerði í dómi H 471/2010 (vaxtadómur).

Um þetta mál, sem átti eftir að verða örlagavaldur í réttarsögu landsins, er ótrúlega margt að segja.  Byrja á þessu:

1.      Lýsing/Sigurmar völdu málið og dómskröfurnar.

2.      Lýsing/Sigurmar völdu verjandann í málinu.

3.      Lýsing/Sigurmar völdu dómarann í málinu.

4.      Lýsing greiddi allan málskostnað fyrir báðum dómsstigum.

Svo þetta sé skýrt nánar út, þá var búið að stefna málinu áður, stefndi var búinn að finna sér verjanda, búið var að úthluta dómara á málið og báðir aðilar höfðu þegar útbúið skriflegar greinargerðir.  Það var síðan dregið úr dómi, þar sem beðið var eftir niðurstöðu Hæstaréttar í málum H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann), en Sigurmar var lögmaður fjármálafyrirtækjanna í báðum þeim málum.  Dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur ákvað síðan að sami dómari fengi málið, þegar því var stefnt aftur.  Lýsing/Sigurmar þekktu gagnrök verjanda og máttu vita hvaða dómari væri settur yfir það, enda var lögð mikil áhersla á að flýta því sem mest menn máttu.

Það sem skipti hins vegar öllu máli og gerði það að verkum, að þetta tiltekna mál átti ekki að verða fordæmisgefandi, var eftirfarandi:

1.      Málið var uppgjörsmál, þar sem eingöngu var verið að gera upp fortíðina og engar framtíðargreiðslur yrðu af láninu.

2.      Lánið er tekið 21. nóvember 2007, greitt er af því til febrúar 2009 eða í 15 mánuði og bifreiðinni, sem keypt hafði verið, var skilað 28. júlí 2009.  Greiðslusagan er því stutt og hún nær eingöngu yfir tímabil, þegar gengið lækkar mikið og þar með hækkaði gengistryggður höfuðstóll lánsins allan lánstímann. 

3.      Lýsing fjármagnaði lán sín með lántöku hjá aðila sem ekki fór í slit.  Lýsing var því í raun og veru með skuldir sem greiða þurfti að fullu til baka, nema fyrirtækið næði samningum við lánadrottna sína.

4.      Það sem mestu skipti og  hefði átt að útiloka að hægt væri að nota dóminn sem fordæmisgefandi fyrir öll önnur lán varðandi vexti áður gengistryggðra lána, að málið fjallaði að öllu leyti um greiðslur sem þegar höfðu verið inntar af hendi eða voru gjaldfallnar áður en dómar H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann) gengu í Hæstarétti 16. júní 2010.  Eins og Hæstiréttur viðurkenndi í febrúar 2012, þá gekk niðurstaða dóms H 471/2010 (vaxtadómur) um afturvirkni gegn ákvæði stjórnarskrárinnar.

Höfundur hefur rætt þetta mál við marga lögmenn, m.a. Jóhannes Árnason sem var verjandi stefnda.  Ekki er að sjá að stefndi eða verjandi hans hafi hagað vörninni eitthvað afgerandi vitlaust.[1]  Þeir voru settir í ómögulega stöðu.  Sjálfur fór höfundur, ásamt Pálma Kristinssyni, yfir útreikninga áður en málflutningur fyrir Hæstarétti fór fram og vorum við sammála um að allt væri rétt reiknað miðað við forsendur dómskrafna.  Vandinn við þær var hins vegar, eins og fjalla um síðar, að þær gerðu allar nema sú síðast ráð fyrir að þegar efndar greiðslur yrðu endurreiknaðar skuldara í óhag.  Þarna hefði betri lögfræðiþekking getað orðið til þess að við hefðum hafnað útreikningunum sem röngum.  Þeir voru hins vegar réttir miðað við forsendur stefnanda og um það var spurt.

Eftir á að hyggja, þá var þetta leikrit sett upp af hálfu Lýsingar/Sigurmars og stefndi, verjandi hans, héraðsdómari og Hæstiréttur dönsuðu eftir þeim takti sem þar var sleginn.  Dómstólar féllu líka fyrir mörgum ákaflega vafasömum fullyrðingum.  Einnig er nánast furðulegt að hvorki héraðsdómari né hæstaréttardómarar hafi gert athugasemd við endurreikning efndra greiðslna skuldara í óhag.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var að setja á seðlabankavexti.  Verður ekki frekar fjallað um héraðsdóminn, því hann hefur enga vigt hvað framhaldið varðar.  Er það þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms, en hann notaði til þess aðrar forsendur og rök.

Vaxtadómur Hæstaréttar

Mál H 471/2010 (vaxtadómur)[2] var flutt fyrir Hæstarétti 6. september 2010.  Fyrir hönd lántakans flutti málið Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður.  Dómur gekk þann 16. september.  Niðurstaðan var alveg stórmerkileg.   Hæstiréttur ákvað að fjármálafyrirtækið hefði orðið fyrir forsendubresti við það að það veita lán með ólöglegri gengistryggingu.  Þetta er nauðsynlegt að endurtaka: 

Hæstiréttur ákvað að fjármálafyrirtæki hafi orðið fyrir forsendubresti við það að veita lán með ólöglegri gengistryggingu! 

Sá forsendubrestur gerði það að verkum, að það væri ekki að fá vexti í samræmi við það sem það hefði annars krafist af lántakanum, þar sem LIBOR vextir hafi ekki tengingu við upphæð í krónum og því geti þeir ekki gilt.  Þess vegna ákvað Hæstiréttur að víkja til hliðar ófrávíkjanlegri grein vaxtalaga nr. 38/2001 og dæma eftir frávíkjanlegri grein laganna!

Já, þetta þarfnast nánari skýringar.

1.      Forsendubrestur fjármálafyrirtækisins

Í dómnum segir: 

„Eins og að framan er rakið er óumdeilt að vextir af láni samkvæmt samningi aðilanna áttu að taka mið af meðaltali svonefndra LIBOR vaxta af lánum í japönskum yenum og svissneskum frönkum á þeim degi, sem samningurinn var gerður, að viðbættu 2,9% álagi. Þá er ljóst að aðaláfrýjanda var samkvæmt 4. gr. og 7. gr. samningsins heimilt á lánstímanum að láta þessa vexti taka breytingum til samræmis við breytingar á LIBOR vöxtum af lánum í þessum erlendu myntum á hverjum tíma. Vextirnir voru þannig tengdir beint við vexti á millibankamarkaði í London af lánum í þeim myntum, sem hin ógilda gengistrygging samkvæmt samningi aðilanna miðaðist við. Í þessu sambandi verður að gæta að því að fullljóst er að slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú liggur fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um.“

En hvernig komst Hæstiréttur að þessari niðurstöðu.  Til þess að skilja það, þarf að skoða hvað stendur í stefnunni.  Þar segir undir málsástæður og rök:

„Stefnandi byggir aðalkröfu sína og varakröfur á þeirri málsástæðu að almennt er litið svo á að samningsaðili eigi ekki að geta hagnast óeðlilega vegna atvika sem leiða til þess að gerningur er ógildanlegur, þar með talið til að öðlast rétt sem er í engu samræmi við þær forsendur sem gengið var út frá við gerð samningsins.  Ef láninu er breytt í íslenskar krónur og vextirnir miðaðir við erlendar myntir er ljóst að stefndi er að tryggja sér umtalsvert lægri fjármögnun en öðrum aðilum stóð til boða á þeim tíma sem samningurinn var undirritaður og gengið var út frá við gerð samningsins.  Þeir vextir eru auk þess úr takti við allan raunveruleika varðandi íslensk lánakjör og geta ekki gilt í uppgjöri aðila þessa máls.“[3]

Þarna nefnir Sigurmar, lögmaður Lýsingar, „forsendur sem gengið var út frá við gerð samningsins“.  Greinilegt er að þarna er bara vísað til forsenda Lýsingar, en ekki lántaka, og fyrir þessu féll Hæstiréttur.  En það er það sem hann segir næst, sem vekur meiri athygli:

„Ef láninu er breytt í íslenskar krónur og vextirnir miðaðir við erlendar myntir er ljóst að stefndi er að tryggja sér umtalsvert lægri fjármögnun en öðrum aðilum stóð til boða á þeim tíma sem samningurinn var undirritaður og gengið var út frá við gerð samningsins.“

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum:

„Þeir vextir eru auk þess úr takti við allan raunveruleika varðandi íslensk lánakjör og geta ekki gilt í uppgjöri aðila þessa máls.“

Þessi fullyrðing er hreinlega röng.  Mörgum hefur boðist mjög hagstæð lán við kaup á notuðum bílum af og til í framhaldi af því að ákvörðun vaxta var gefin frjáls.  Raunar mátti búast við því á hverju ári, að bílaumboðin kæmu með tilboð um góð lánskjör. Þá höfðu gengistryggð lán langtímum saman sveiflast upp og niður án þess að fjármálafyrirtækin hafi verið að kvarta yfir því.  Þannig að það var hvorki vaxtastigið né að höfuðstóllinn héldi sig nokkuð nálægt upprunalegri lánsfjárhæð (að frádregnum afborgunum) sem var að angra fjármálafyrirtækin.  Þessi lánskjör voru íslenskur raunveruleiki.  Það sem var ekki íslenskur raunveruleiki á þeim tíma sem lánið var tekið, var 50-60% hrun krónunnar.  Hafi einhverjar forsendur brostið, þá voru það forsendur lántakans, þ.e. hann reiknaði með því að greiða lága vexti af sæmilega stöðugum höfuðstóli allan lánstímann.  Fæst fjármálafyrirtæki, ef nokkuð, voru í raun og veru skuldsett í erlendri mynt.  Þau höfðu ekki tekið erlent lán til að endurlána, ekki einu sinni gengistryggt lán.  Á þessu var hugsanlega ein undantekning: Lýsing!  Lögmaður Lýsingar lagði hins vegar ekki, að höfundur viti til, fram nein gögn fyrir Hæstarétti eða Héraðsdómi Reykjavíkur því til staðfestingar, enda bera reikningar fyrirtækisins ekki með sér að fyrirtækið hafi skuldbundið sig í erlendum myntum.

Til að sýna tilbúninginn í málflutningi lögmanns Lýsingar, þá tókum við hjónin vaxtalaust, óverðtryggt bílalán hjá Lýsingu árið 2005, þ.e. tveimur árum áður en lánið var tekið sem dómsmálið fjallaði um.  Fullyrðingar Hæstaréttar, sem rétturinn étur upp úr lögmanni Lýsingar, um að svona kjör hafi ekki boðist eru því rangar.  Þess fyrir utan, að það kemur málinu ekki við, að hin eða þessi kjör hefðu ekki boðist.  Mjög líklegt er, að hefðu þessi lán ekki boðist, þá hefðu a.m.k. bílalánafyrirtækin búið til einhverja lánaafurð á hagstæðum kjörum.  Slíkt hefði einfaldlega verið nauðsynlegt til að halda bílaviðskiptum gangandi og þá sérstaklega með notaða bíla.  Og það var kannski mikilvægasti þátturinn í þessu.  Þó svo að bílalánafyrirtækin, þ.m.t. Lýsing, hafi haldið utan um lánssamningana, þá var lántakan hluti af samningi sem lántakinn gerði við bílasölu og það var í reynd bílasalinn sem gat ákveðið þau kjör sem kaupandinn fékk, líkt og lán okkar hjóna.  Hafi bílalánafyrirtækið lent í forsendubresti, þá var það í samningum við bílasöluna, ekki lántakann.

Til að skýra þetta síðasta betur, þá gerðu bílasölur samninga við lánafyrirtæki um að lánafyrirtæki byðu einstaklingum og fyrirtækjum ákveðin lánskjör, þegar verslað var við bílasöluna.  Lántakan var því hluti af kjörum í bílaviðskiptum.  Nánast aldrei hafði kaupandinn (og þar með lántakinn) nokkur samskipti við lánveitandann.  Því má segja, að lánskjörin hafi verið hluti af viðskiptakjörum bílasölunnar.  Alveg eins og þegar við hjónin tókum óverðtryggt, vaxtalaust lán árið 2005, þá er alveg útilokað að Lýsing hafi ekki fengið einhverja þóknun frá bílasölunni.  Spurningin er bara hve há sú þóknun var.  Höfundur telur sig alveg geta fullyrt, að ekkert lánafyrirtæki veitir lán sem það veit fyrirfram að það muni tapa stórum fjárhæðum á.

Lögmaður Lýsingar lagði, að höfundur best viti, ekki fram neinar sannanir fyrir hvaða kjör voru í boði hjá öðrum lánveitendum eða bílasölum.  Hann lagði heldur ekki fram neina rannsókn hlutlausra aðila, að hefðu þessi kjör ekki verið í boði, þá hefði markaðurinn ekki brugðist við með annars konar boði, sbr. vaxtalausa, óverðtryggða lánið sem fékkst hjá Lýsingu tveimur árum áður.  Hefði seljandi bifreiðarinnar lækkað verðið til að mæta hærri vöxtum eða tekið á sig hluta vaxtanna með samningi við Lýsingu?  Ekkert af þessu var skoðað en í staðinn gleypti bláeygur Hæstiréttur við heimatilbúnum rökum lögmanns Lýsingar.

Hafi Lýsing orðið fyrir forsendubresti, þá kom það lántakanum heldur ekkert við.  Lántakinn hafði líka orðið fyrir forsendubresti vegna gríðarlegs falls krónunnar.  Lögmaður Lýsingar lagði hins vegar ekki fram neitt sem staðfesti að Lýsing hefði orðið fyrir sambærilegum forsendubresti vegna breytinga á gengi krónunnar.  Hafi Lýsing fjármagnað sig með gengistryggðu láni, þá hlutu dómar H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann) einnig að ná til þess, þ.e. gengistryggingin verið ólögleg verðtrygging og skuldir Lýsingar verið á nafnverði lánanna í krónum, en ekki uppreiknað eftir gengi.

Gefum okkur samt, að höfuðstóll skuldar Lýsingar hefði tekið breytingum samkvæmt gengi, þá var Lýsing sterkari aðili samningsbandsins og fyrirtækið varð bara að taka þann kinnhest, sem af lögbroti fyrirtækisins hlaust.  Í síðari dómum Hæstaréttar um úrlausn áður gengistryggðra skulda, þá segir Hæstiréttur ítrekað að stórir aðilar hafi átt að hafa nægan skilning á eðli lántaka til að skilja hvað í þeim fólst.  Lýsing átti samkvæmt því að vita hvaða áhættu fyrirtækið var að taka, fyrir utan að Lýsing átti að vita að það braut gegn lögum 38/2001 að veita lán með gengistryggingu.  Að Hæstiréttur telji að aðili, sem braut vísvitandi gegn ákvæðum laga nr. 38/2001, hafi orðið fyrir forsendubresti er eins fráleitt og hægt er að hugsa sér. Að Hæstiréttur telji „forsendubrest“ fjármálafyrirtækisins skipta meira máli en neytendaréttur, er að mati höfundar alveg stórfurðulegt.

Sigurmar heldur áfram í stefnunni:

„Forsenda stefnanda fyrir þeim vaxtakjörum sem veitt voru var að samningarnir væru gengistryggðir.“

Hér er eiginlega bráðnauðsynlegt að vísa til dóms Evrópudómstólsins (nú Dómstóll Evrópusambandsins) í máli C-618/10, sem vísað hefur verið til nokkrum sinnum.  Í þeim dómi komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu, að forsendur lánveitandans skiptu ekki máli.  Það eina sem skipti máli var að bankinn hafði brotið gegn neytendarétti og þegar slíkt gerist, þá skal efna samninginn án þess atriðis sem braut gegn neytandanum.  Hæstiréttur lítur vissulega ekki svo á, svo merkilegt sem það er, að ólögleg gengistrygging sé brot gegn neytanda, heldur bara eitthvað slys sem meira og minna öll fjármálafyrirtæki landsins lentu í, þó þau áttu að vita að gengistryggingin væri ólögleg, sbr. umsögn framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja til nefndarsviðs Alþingis, þegar frumvarpið að lögum nr. 38/2001 var til umfjöllunar.  (Hæstarétti til málsbóta þá gekk dómur í máli C-618/10 ekki fyrr en 14. júní 2012, en málið var dæmt á forsendum tilskipunar um neytendasamninga (93/13/EEC) sem þegar hafði verið innleidd í 36.gr. laga nr. 7/1936 (samningalög).)

Hér er Sigurmar enn einu sinni að afvegaleiða umræðuna.  Hann er að reyna að fá Hæstarétt (og tókst það alveg með ágætum) til að breyta vöxtum afturvirkt.  Sigurmar vissi það jafnvel og allir, að því virðist, nema þeir sem sátu sem dómarar í málinu (hvort heldur í héraðsdómi eða Hæstarétti), að stjórnarskrá Íslands bannar afturvirkni og þar sem um uppgjörsmál var að ræða og engar frekari afborganir til framtíðar, þá var það um seinan fyrir Lýsingu að breyta fortíðinni.  Eins og Hæstiréttur kemst að orði í dómi H 600/2011 (Sigurður og Elvíra II), þegar hann snuprar sjálfan sig og Alþingi, þá er eingöngu hægt að leiðrétta ranga lagatúlkun til framtíðar.  Hvernig Lýsing túlkaði lögin á þeim tíma, þegar lánið var veitt skiptir ekki máli.  Það var röng lagatúlkun og því hefði Lýsing einfaldlega átt að sitja uppi með afleiðingar hennar.

2.      LIBOR vextir geta ekki tengst krónum

Í dómnum segir: 

„Einnig verður að líta til þess að eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hefur verið metið ógilt eru skuldbindingar gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda að öllu leyti í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við japönsk yen og svissneska franka, sem aðilarnir gengu út frá við gerð samningsins.“

Aftur kokgleypir Hæstiréttur skýringu sem stenst ekki nokkra skoðun.  Mörg dæmi voru um það að fjármálafyrirtæki voru á þessum tíma að bjóða upp á afurðir sem voru með alls konar vexti.  Kaupþing og SP-fjármögnun buðu til dæmis gengistryggð lán, þar sem notaðir voru vextir byggðir á tilbúinni vaxtakörfu, þó svo að lánsfjárhæðir væru gengistryggðar.  Ekkert segir að LIBOR vextir hefðu ekki getað orðið slík vaxtakarfa, enda ekkert í lögum nr. 38/2001 sem bannaði það.  Fram kom í lánssamningnum hver skipting „myntanna“ var í samningnum og því var alveg ljóst hvert hlutfall einstakra vaxta yrði í heildarvöxtum lánsins og auðvelt að búa til vaxtakörfuna.  Lánið var 50% miðað við jen og 50% miðað við svissneska franka.  Því hefði verið leikur einn að útbúa vaxtakörfu með reiknaða vexti byggða á meðaltali LIBOR vaxta fyrir þessar myntir. Alveg eins og Kaupþingi og SP-fjármögnun hafði tekist að reikna sína vexti og leggja þá á myntkörfu lána sinna.  Síðan hafa bankarnir verið að rukka lántaka miðað við höfuðstól í íslenskum krónum og LIBOR vexti.

3.      Frávíkjanlegar og ófrávíkjanlegar greinar vaxtalaga

Búið er að nefna þetta nokkrum sinnum áður í bókinni, en enn þarf að rifja þetta upp vegna samhengisins. Það er þetta með 2.gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, en hún hljómar svona:

2. gr. Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.“

Þarna kemur fram að ákvæði II. og IV. kafla laganna gildi bara að uppfylltum vissu skilyrðum, þ.e. kaflarnir eru frávíkjanlegir.  Einnig segir að bara sé hægt að víkja frá öðrum köflum, ef sérstaklega er tiltekið í köflunum að hægt sé að víkja frá þeim eða ef það er til hagsbótar fyrir skuldara.  Það þýðir að aðrir kaflar en II. og IV. eru ófrávíkjanlegir nema í undantekningartilfellum og þá eingöngu til hagsbóta fyrir skuldara.  Af hverju skiptir þetta máli?  Jú, Hæstiréttur ákveður að nýta ákvæði 4.gr. laganna við að ákveða hvaða vextir eigi að gilda, en 4.gr. er í II. kafla laganna, þ.e. í frávíkjanlega hluta laganna, en ýtir til hliðar ákvæði 2.gr., sem er í I. kafla og þar með þeim ófrávíkjanlega.

Eins og bent er á að ofan, þá voru það ekki rök Lýsingar, að ekki væri hægt að reikna vexti á lánið, þó lánið væri í íslenskum krónum og vextirnir LIBOR vextir.  Það var því engin ástæða fyrir Hæstarétt að víkja vöxtunum til hliðar og þess síður ástæða til að virkja hina frávíkjanlegu 4.gr. á kostnað hinnar ófrávíkjanlegu 2.gr. og 18.gr., sem þá hljóðaði:

„Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.“

Hæstiréttur var búinn að ógilda samning um vexti og samkvæmt hinni ófrávíkjanlegu 18.gr. þá bar kröfuhafa „að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem [kröfuhafinn] hefur þannig ranglega af honum haft“.  Líklegast var búið að hræða líftóruna úr Hæstarétti að slíkur úrskurður myndi setja Ísland á hliðina og þess vegna leitaði Hæstiréttur, líklegast, að rökum til að fella þann úrskurð sem hann felldi.  Svo mikið fát var á Hæstarétti, að hann braut gegn stjórnarskránni með úrskurði sínum og liðu 17 mánuðir áður en það var leiðrétt.

4.      Túlkun Hæstaréttar á dómskröfum stefnanda

Ekki er hægt að hverfa frá þessari umræðu án þess að gera samanburð á dómskröfum stefnanda.  Til að byrja með verður að hafa í huga, að búið var að dæma gengistrygginguna sem ólöglega verðtryggingu.  Fyrst ekkert var fjallað um vextina í júní dómum Hæstaréttar, þá giltu samningsvextir á þeim tíma þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.  Ákvörðun héraðsdóms var síðan áfrýjað til Hæstaréttar.

Dómskröfur stefnanda voru sem hér segir:

  • Aðalkrafa stefnanda var að miðað væri við að samningsfjárhæð verðtryggð og beri vexti samkvæmt gjaldskrá Lýsingar á hverjum tíma í stað LIBOR vaxta.  Endurreikna átti þegar greidda gjalddaga til hækkunar skuldar, þar sem það átti við.  Að teknu til fleiri þátta, m.a. söluverðs bifreiðar, endaði aðalkrafa stefnanda í kr. 1.306.867 auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

  • Fyrsta varakrafa var að samningsfjárhæð væri verðtryggð, en miðað við verðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í staðinn fyrir LIBOR vexti.  Endurreikna átti þegar greidda gjalddaga til hækkunar skuldar, þar sem það átti við.  Fyrsta varakrafan endaði í kr. 1.023.584 auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

  • Önnur varakrafa var að lánið væri óverðtryggt og vextir færu eftir gjaldskrá Lýsingar í staðinn fyrir LIBOR vexti.  Endurreikna átti þegar greidda gjalddaga til hækkunar skuldar, þar sem það átti við.  Önnur varakrafa endaði í kr. 963.486 auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

  • Þriðja varakrafa var um að höfuðstóll beri Reibor vexti auk umsamins 2,9% álags.  Þó það sé ekki nefnt í stefnunni, þá má gera ráð fyrir að lánið yrði þar með óverðtryggt.  Endurreikna átti þegar greidda gjalddaga til hækkunar skuldar, þar sem það átti við.  Þriðja varakrafa endaði í kr. 845.373 auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

  • Fjórða varakrafa stefnanda gekk út á að samningsfjárhæð bæri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í staðinn fyrir LIBOR vexti.  Endurreikna átti þegar greidda gjalddaga til hækkunar skuldar, þar sem það átti við.  Fjórða varakrafa endaði í kr. 795.944 auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

  • Fimmta varakrafa stefnanda, sem jafnframt var samhljóða kröfu stefnda, var að miðað yrði við upphaflega vexti samningsins.  Eingöngu átti að endurreikna gjalddaga, þegar skuldari átti inneign.  Niðurstaða fimmtu varakröfu og aðalkröfu stefnda endaði í kr. 122.961, auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi.

            Það er sama hvort litið er til samningalaga, laga um neytendalán eða vaxtalaga, öll segja að ekki sé hægt að breyta samningum eða vöxtum, nema það sé neytanda/skuldara til hagsbóta.  Aðalkrafa stefnanda og fyrstu fjórar varakröfur brjóta á þessu atriði og gera ráð fyrir að þegar greiddir gjalddagar verði endurreiknaðir.  Fimmta varakrafa stefnanda og jafnframt aðalkrafa stefnda var ein byggð á niðurstöðu júní-dómanna og að samningsvextir héldust.  Hæstiréttur féllst hins vegar á 4. varakröfu stefnanda.  Samkvæmt henni hafði skuldarinn vangreitt 70.383 kr. og með dráttarvöxtum stóð skuld vegna þegar greiddra gjalddaga í 86.121 kr.  Að þetta hafi ekki hringt viðvörunarbjöllum hjá reynsluboltum Hæstaréttar, er alveg með hreinum ólíkindum.  Hvernig getur stefndi hafa vangreitt, þegar hann greiddi samkvæmt greiðsluseðlum?

            Með réttu hefði Hæstiréttur átt að hafna líka fjórðu varakröfu stefnanda með sömu rökum og gert var í dómi H 600/2011 (Sigurður og Elvira II), að röng lagatúlkun verði bara leiðrétt til framtíðar.  Þar sem í dómi H 471/2010 (vaxtadómur) er ekki tekið á neinum kröfum til framtíðar, þá hefði fordæmisgildi dómsins ekki orðið það sem það varð og lög nr. 151/2010 „Árna Páls-lögin“ ekki fengið stoð í dómnum, eins og flutningsmaður og meðreiðarmenn hans héldu fram.  Frekari umfjöllun um þau lög bíður síðari kafla.

Aðrar gildrur sem Hæstiréttur féll í

Þó svo að grunnurinn að niðurstöðu Hæstaréttar í dómi H 471/2010 (vaxtadómur) hafi í raun orðið að engu við það, að réttinum sást yfir hið augljósa, að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar, þá telur höfundur að gott sé að fara yfir allar hinar gildrurnar sem rétturinn lét draga sig í.

Vandinn við þetta mál, var að það var notað sem fordæmi fyrir önnur lánamál og nýttu fjármálafyrirtækin það í botn til að hækka kröfur sínar á lántaka.  Fengu lántakar uppsprengdar kröfur mörg ár aftur í tímann á þegar greiddar afborganir og jafnvel uppgreidd lán frá því fyrir hrun. 

Hæstiréttur hefur vafalaust haldið, að hann væri að gera rosalega vel við skuldarann, en hann var ekki að því.  Í dómum H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann) var Hæstiréttur búinn að dæma gengistrygginguna ólöglega og því stóð endurreiknuð krafa Lýsingar í reynd í 122.961 kr., sem var bæði dómskrafa skuldarans og fimmta varakrafa Lýsingar.

Aðalkrafa Lýsingar var að stefndi yrði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð kr. 1.306.867 auk dráttarvaxta.  Varakröfur voru fimm og var upphæð þeirra kr. 1.023.584, kr. 963.486, kr. 845.373, kr. 795.944 og loks kr. 122.961, eins og áður var nefnt. 

Niðurstaða Hæstaréttar var að staðfesta dóm Héraðsdóms Reykjavíkur upp á að fjórða varakrafa skuldi standa, þ.e. að stefndi greiddi kr. 795.944 auk þess sem Lýsing greiddi málskostnað.  Hæstiréttur dæmdi stefnda því til að greiða ríflega 670.000 kr. meira, en krafa Lýsingar stóð í að teknu tilliti til dóma H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann).  Líklegast féllu dómararnir í þá gryfju að horfa til kröfu stefnanda áður en dómarnir í júní gengu og álykta sem svo að fjórða aðalkrafa sé hæfileg miklu lægri upphæð, þannig að stefndi yrði ánægður með þessar málalyktir.  Slíkir útreikningar voru þó ekki tilgreindir í stefnunni.  Munurinn á dómsniðurstöðu og aðalkröfu stefnanda var hins vegar um kr. 511.000 sem er hlutfallslega há upphæð miðað við 122.961 kr.  Því hugsa örugglega margir, að stefndi hafi sloppið vel. 

Staðreyndin er, að stefndi var illa leikinn af niðurstöðu Hæstaréttar, vegna þess að gengistryggingin var ekki undir í þessu máli.  Búið var að dæma hana ólöglega og þó svo að stefnandi hafi ekki verið búinn að bregðast við því með því að lækka kröfu sína á stefnda, þá viðurkennir hann í reynd að krafan hafi staðið í 122.961 kr. með útreikningi sínu á fimmtu varakröfu.  Hún var í reynd skuld stefnda við stefnanda á þeim tíma, þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi og málinu var áfrýjað til Hæstaréttar á þeirri forsendu að héraðsdómurinn hafi verið rangur.

Færa má góð rök fyrir því, að þar sem Hæstiréttur ákvað í máli H 471/2010 (vaxtadómur) að stefndi ætti að greiða meira en krafan stóð í raun og veru í eftir niðurstöðu Hæstaréttar í júní-dómunum, hafi rétturinn gengið  gegn ákvæðum þriggja laga, þ.e. samningalaga (nr. 7/1936), laga um neytendalán (nr. 121/1994) og vaxtalaga (nr. 38/2001). 

Rifjum enn og aftur upp þær greinar vaxtalaga sem hér áttu við:

2. gr. Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

II. kafli. Almennir vextir.

3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.“

Eins og áður segir, er 2. gr. í I. kafla vaxtalaganna og hún skilgreinir hvaða greinar eru frávíkjanlegar og hverjar ekki.  3. og 4. gr. eru í II. kafla.  Samkvæmt 2. gr., þá gilda 3. og 4. gr. „því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum“.  Eðlilegt var því að Hæstiréttur hefði byrjað að skoða þetta þrennt, þ.e. samninginn, venjur og lög. 

Fljótt á litið, þá var samningur á borðinu með tilgreindu vaxtaákvæði, LIBOR vexti og vaxtaálag, og meira að segja ákvæði um að endurskoða mætti vaxtaálagið.  Venjurnar voru kröfuréttur og dómafordæmi[4].  Minnst tvenn lög voru hins vegar í íslenskum rétti á þessum tíma og síðan EES-gerðir, sem tilgreindu hvað mátti og hvað ekki varðandi breytingar á samningum og svo vaxtalögin sjálf.  Í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 er ákvæði um að efna skuli samning þó ósanngjörnu ákvæði hafi verið vikið til hliðar og ekki megi breyta samningi neytanda í óhag.  Sambærilegt ákvæði er í 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán.  Hafa skal í huga, að bílalán telst neytendalán og því hefði verið eðlilegt að dæmt hefði verið eftir lögum nr. 121/1994.

Það voru því til staðar samningur um vexti, venjur um hvernig svona aðstæður eru meðhöndlaðar og lög um hvað mátti og mátti ekki gera.  Hæstiréttur ákvað að breyta samningnum með þeim hætti sem gekk í ber högg við lögin sem hann dæmdi eftir og tvenn önnur lög og hunsa kröfurétt og dómafordæmi.  Þetta hlýtur að vera met í meðvirkni með fjármálafyrirtæki.

Gildra númer tvö var að allir lánveitendur hafi notað LIBOR vexti.  Hún kemur í sjálfu sér máli H 471/2010 (vaxtadómur) ekki við, en hún kemur ansi mörgum öðrum málum við.  Kaupþing notaði kjörvexti og í samningsskjölum frá bankanum, sem höfundur hefur undir höndum, er hvergi tilvísun á LIBOR í tengslum við vexti lánsins.  Þar segir hins vegar:

„Í vexti af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuldara að greiða breytilega vexti eins og þeir eru ákveðnir af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tekur það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags.  Kaupþingi banka hf. er heimilt að breyta vöxtunum á 3ja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem gilda gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum.  Ákveði Kaupþing banki hf. að breyta vaxtaálagi skuldabréfs þessa verður skuldara tilkynnt um það bréflega, en vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða skuldina upp með óbreyttu vaxtaálagi innan mánaðar frá dagsetningu tilkynningar.“

Með skuldabréfinu fylgir greiðsluáætlun undirrituð af lántaka.  Þrátt fyrir að skuldabréfið sé með tilvísun í svissneska franka og japönsk jen, þá er ekki minnst á það í greiðsluáætluninni, en í henni segir:

Athugið að um áætlun er að ræða.

Áætlunin er byggð á núgildandi vöxtum og gjaldskrá bankans, sem geta tekið breytingum sbr. ákvæði í skuldabréfi.  Sé skuldabréfið greitt upp fyrir lokagjalddaga á skuldari rétt á lækkun lántökukostnaðar er nemur þeim vöxtum eða öðrum kostnaði sem greiða átti eftir greiðsludag.  Ef skuldabréfið er skuldfært af reikningi á gjalddaga greiðist lægra tilkynningar- og greiðslugjald.“

Það er sem sagt ekki bara að skuldabréfið vanti tilvísun í það hvernig kjörvextir eru ákveðnir, heldur vantar slíkar upplýsingar í greiðsluáætlunina, auk þess sem í henni er ekki minnst einu orði á að lánið hafi tengingu við gengi.

Næst setur Hæstiréttur fram ansi vafasama fullyrðingu í dómi sínum:

„Í þessu sambandi verður að gæta að því að fullljóst er að slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess..“

Ha, hvers vegna komu slík lánskjör ekki til greina?  Var Hæstiréttur allt í einu orðinn sérfræðingur um lánskjör á fjármálamarkaði.  Hann er ekki að vitna í orð lögmanns Lýsingar (a.m.k. kemur það ekki fram í dómnum) né þau fylgiskjöl sem Lýsing lagði fram, hvað þá dómskvaddan sérfræðing eða matsmann, þannig að þetta hlýtur að vera óútskýrð og órökstudd skoðun þess dómara sem samdi þennan texta.  Er það tækt, að dómari láti sína skoðun á fjármálamarkaði ráða úrslitum í jafn veigamiklu máli sem þessu?  Þarna hefði annað hvort lögmaður Lýsingar þurft að leggja fram greinargerð eða að rétturinn hefði kvatt til matsmenn og fengið þá til að skila slíkri greinargerð, þar sem þessi fullyrðing var staðfest.  Þá hefði lögmaður lántakans fengið tækifæri til að mótmæla niðurstöðunni.  Svo vísað sé til lánsins, sem við hjónin tóku hjá Lýsingu árið 2005, þá var það vaxtalaust og óverðtryggt.  Sem sagt mun betri kjör en fullyrt er í dómi Hæstaréttar að hefðu getað verið í boði.

En hvers vegna var ekki hægt að nota LIBOR vexti?  Er eitthvað flókið að reikna LIBOR vexti á lán sem er með 50% viðmið í japönsk jen og 50% viðmið í svissneska franka? [5]  Allir lánasamningar, líka sá sem lagður var undir í dómi H 471/2010 (vaxtadómur) höfðu á þessum tíma ákvæði um að endurskoða mætti vaxtaálag.  Mjög einfalt hefði verið fyrir lánveitendur að tilkynna lántökum um tvöföldun þessa vaxtaálags og þá hefði málið verið búið.  Líklegast hefði það verið ákaflega sanngjörn niðurstaða og eðlileg.

Þriðja gildran var varðandi fjármögnun fjármálafyrirtækisins.  Ómögulegt er að skilja hvað það kemur viðskiptavinum fjármálafyrirtækja við hvernig þau fjármagna sig.  Ekki kemur neytanda við hvernig dekkjaverkstæðið, sem hann á í viðskiptum við, fjármagnar rekstur sinn og þar með kaup á dekkjum.  Á neytandinn allt í einu að skulda viðkomandi verkstæði háar upphæðir, vegna þess að það gerði mistök í fjármögnunin sinni fyrir einhverjum árum eða að dekkin sem það seldi reyndust gölluð?  Nei, dekkjaverkstæðið endurmetur verðlagningu þjónustu sinnar til framtíðar og lætur þar við sitja, gengur á tryggingar (ef þær ná yfir atvikið) og vonar að það bjargi mistökum fortíðarinnar.  Að fjármálafyrirtæki njóti einhverrar sérstakrar verndar laga og dómstóla, þegar það klúðrar sínum málum, er svo kjánalegt að halda mætti að fjármálafyrirtæki beri ekki ábyrgð á rekstri sínum.  Dómstóll Evrópusambandsins tók fyrir mál, þar sem ógilt var vaxtaákvæði samnings (áðurnefnt mál C-618/10).  Hann hafnaði því að landsdómstóll gæti endurákvarðað vexti, þó svo að landslög leyfðu það.

Fjórða gildran er að það sé hlutverk Hæstaréttar að bæta sterkari aðila máls forsendubrest sem hann verður fyrir.  Á þessu atriði er tekið í títtnefndum dómi C-618/10.  Fjallað var um hann, þegar lýst var afstöðu Hagsmunasamtaka heimilanna til vaxta áður gengistryggðra lána.  Rétt er að endurtaka þá tilvitnun hér:

„69      In that context, it is clear, as the Advocate General observed in points 86 to 88 of her Opinion, that, if it were open to the national court to revise the content of unfair terms included in such contracts, such a power would be liable to compromise attainment of the long-term objective of Article 7 of Directive 93/13. That power would contribute to eliminating the dissuasive effect on sellers or suppliers of the straightforward non‑application with regard to the consumer of those unfair terms (see, to that effect, the order in Pohotovost’, paragraph 41 and the case‑law cited), in so far as those sellers or suppliers would remain tempted to use those terms in the knowledge that, even if they were declared invalid, the contract could nevertheless be modified, to the extent necessary, by the national court in such a way as to safeguard the interest of those sellers or suppliers.

70      Accordingly, such a power, were it granted to the national court, would not be such as to ensure, by itself, such efficient protection of the consumer as that resulting from non-application of the unfair terms. Moreover, neither could that power be based on Article 8 of Directive 93/13, which leaves Member States the option to adopt or retain, in the area covered by that directive, more stringent provisions compatible with European Union law, inasmuch as they ensure a higher level of consumer protection (see Case C‑484/08 Caja de Ahorros y Monte de Piedad de Madrid [2010] ECR I‑4785, paragraphs 28 and 29, and Pereničová and Perenič, paragraph 34).

71      It follows, therefore, that Article 6(1) of Directive 93/13 cannot be understood as allowing the national court, in the case where it finds that there is an unfair term in a contract concluded between a seller or supplier and a consumer, to revise the content of that term instead of merely setting aside its application to the consumer.“[6]

Já, það er mjög skýrt:  Ef landsréttur hefði leyfi til að setja sína eigin skilmála inn í samning milli neytanda og seljanda eða birgja, þá þýddi það einfaldlega að seljandinn/birginn myndi setja ósanngjarna skilmála í alla samninga við neytendur og það versta sem gerðist væri að dómstóll skipti þeim skilmálum út fyrir „sanngjarna“ skilmála.  Seljandinn, í tilfelli dóms H 471/2010 (vaxtadómur), lánveitandinn, gæti ekki tapað.  Hann fengi aldrei minna, en hann hefði átt að bjóða í upphafi og tæki ekki á sig neitt tjón vegna hinna ósanngjörnu skilmála eða meintra mistaka.  Enn og aftur er vert að rifja upp, að þáverandi framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja sagði í umsögn sinni til nefndarsviðs Alþingis, þegar frumvarp að lögum nr. 38/2001 var til umfjöllunar, að yrðu ákvæði 13. og 14. gr. samþykkt óbreytt, yrði gengistrygging bönnuð.  Það er í raun ekki hægt að líta á framboð gengistryggðra lána nema vísvitandi og eindregin brot fjármálafyrirtækjanna, sem treystu á að viðsemjandinn hefði ekki hugmynd um að verið væri að bjóða ólöglega afurð.  Ekki geta fjármálafyrirtækin heldur borið fyrir sig, að ómögulegt væri að muna það sem gerðist árið 2001, því það stóð til að breyta lögunum snemma árs 2008 (sjá umfjöllun í kaflanum Voru lánin ólögleg?), vegna þess að einhver hafði bent þeim á að lánin gengu gegn vaxtalögunum.

En Hæstiréttur ákvað sem sagt, að fyrirtæki sem virtust vísvitandi hafa brotið lög ættu að vera varin í bak og fyrir og til viðbótar átti að bæta þeim að þau hefðu orðið fyrir forsendubresti!  Við svona aðstæður koma upp í hugann fróm orð Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukku Halldórs K. Laxness:  „Vont er þeirra ránglæti, en verra þeirra réttlæti.“  Leið höfundi eins yfir „réttlæti“ Hæstaréttar varðandi vexti áður gengistryggðra lána.

Vert er að ítreka, að þetta mál sýnst ekki um vaxtalögin.  Það snýst um neytendarétt.  Það snýst um, að ekki sé hægt að bjóða neytanda ólöglega afurð og síðan hagnast á því.  Það snýst um niðurstöðu dóms C-618/2010, að sterkari aðili lánssamnings geti ekki hlaðið hann ólöglegum, ósanngjörnum skilmálum og síðan setið upp með breyttan samning, þar sem búið er að skipta þessum skilmálum út fyrir „rétta“ skilmála.  Þó svo að sá dómur hafi gengið árið 2012, þá breyttist ekkert í neytendarétt eða samningarétti í millitíðinni.  Hæstiréttur hefði því átt að komast að sömu niðurstöðu í sínum dómi, enda eru þau ákvæði sem um ræðir eins í íslenskum rétti og Evrópurétti. Þetta snýst um að athöfn fylgi afleiðingar, ekki bara að ólöglegt lán sé lagfært.  Á þessu prófi féll Hæstiréttur Íslands 16. september 2010 og ítrekað eftir það.

Kannski er það löggjafinn sem hefur fallið á prófinu og ekki sett neytendarétt á þann stall sem hann á að vera.  Kannski er það bara svo að valdastéttirnar eiga allan réttinn í íslensku samfélagi, en almúginn verður éta það sem úti frýs.  Að íslenskur aðall passi sína.

Afturvirknin og kröfuréttur

Ekki er hægt að skilja við þennan dóm án þess að minnast á hvernig hann brýtur gegn grundvallaratriði kröfuréttar.

Sé fjórða varakrafa stefnanda skoðuð, þá sést strax að stefndi var í skuld gagnvart þegar greiddum gjalddögum!  Upphæðin var ekki há (70.383 kr. og 86.121 kr. með dráttarvöxtum), en nóg til þess að dómarar sem virkilega lásu yfir kröfuna hefðu átt að reka augun í þetta atriði.  Samt ákváðu reyndustu dómarar Hæstaréttar, við getum líka kallað þá stjörnudómara Hæstaréttar, að þetta væri bara í lagi.  Hvernig var það mögulegt, að skuldari sem greitt hafði samkvæmt útsendum greiðslusendum lánveitanda, gæti verið í skuld vegna þessara gjalddaga greiðslna?  Útgefandi greiðsluseðlanna var lánveitandinn og því hefði skuldari mátt treysta því að greiðsluseðlarnir væru með réttri fjárhæð.  Greiðslan hafði verið móttekin athugasemdalaust og móttakandi fékk greiðsluna til eigin afnota.

Höfundur er ekki löglærður, en hefur þurft, í tengslum við hagsmunabaráttuna eftir hrun, að kynna sér ýmis lög sem snerta þau mál sem þar komu upp.  Kröfuréttur er eitt af því sem fékk ítarlega skoðun[7].  Guðfaðir íslensks kröfuréttar er líklegast prófessor Ólafur Lárusson, en hann kenndi kröfurétt í ansi mörg ár.  Til er lítið kver sem heitir Kaflar úr kröfurétti Ólafs Lárussonar[8].  Þar er farið yfir helstu atriði kröfuréttar.  Eitt af þeim atriðum sem skiptir miklu máli er um úrlausn vandefnda, eins og átt við í þessu máli.  Hafi komið upp vanefndir af hálfu skuldara, þá getur kröfuhafi leitað til dómstóla til „að þvinga skuldarann til að efna skyldu sína“[9].  Dómstólar hafa oftar en tölu verður komið á leyst úr ágreiningi vegna vanefnda og svo höfundur viti hafa þeir ekki látið sér detta í hug að taka upp rétt efndar greiðslur, heldur hafa dómsorð snúist um eftirstæðar greiðslur, þ.e. vanefndina.  

Allar kröfur stefnanda nema ein, þ.e. aðalkrafa og fjórar varakröfur, fólu það í sér að endurreikna efndar greiðslur, sem mótteknar voru án athugasemda af hálfu stefnanda.  Þær fólu því í sér að gengið var gegn kröfurétti, eins og hann hafði verið stundaður á Íslandi í vel yfir 200 ár eða frá útgáfu konungstilskipunar frá 9. febrúar 1798.  Þessar fimm kröfur, brutu allar gegn þeirri grundvallarreglu að skuldari telst hafa efnt að fullu skyldu sína gagnvart kröfuhafa, hafi greiðslan farið fram „á réttum stað og réttum tíma“[10].  Í máli Lýsingar gegn Hafsteini Egilssyni voru ekki vanefndir á samningi aðila fyrr en frá og með 24.3.2009.  Fram að því hafði stefndi staðið í skilum og greitt samkvæmt útgefnum greiðsluseðlum án þess að stefnandi gerði athugasemd.  Samningurinn hafði því verið efndur af hálfu stefnda fram til og með gjalddaganum 24.2.2009.  Vanefndir hófust með næsta gjalddaga.

Í 16. kafla kversins er fjallað um lok kröfuréttinda.  Þar er margt forvitnilegt, sem snýr beint að þessu máli.  Í kafla 16.2.1 Kröfu lýkur með greiðslu segir:

„Öllum kröfuréttindum er sett það markmið að greiðsla sú sem er efni kröfunnar fari fram.  Þegar sú greiðsla hefur farið fram er hlutverki kröfunnar lokið og henni sjálfri er þá lokið um leið.  Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo má segja, er sá að hún falli niður við greiðslu eða borgun.

Borgun leiðir því aðeins til brottfalls skyldu skuldara, að hún sé í samræmi við skylduna, að innt sé af hendi sú greiðsla sem greiða átti, hún greidd á réttum stað og á réttum tíma og hún greidd til kröfuhafa eða manns sem bær var um að taka við greiðslunni fyrir hans hönd.“[11]

Af þessu má leiða, að krafa Lýsingar gat aldrei snúið að öðru en vanefndum og það hefðu dómarar Hæstaréttar átt að skilja.  Þeir hefðu því átt að vísa málinu frá, krefja Lýsingu um að leggja fram nýja útreikninga, sem náðu aðeins til vanefnda, samþykkja fjórðu varakröfu með þeim fyrirvara að hún næði bara til vanefnda stefnda eða samþykkja dómskröfu stefnda sem jafnframt var fimmta varakrafa stefnanda og innihélt að skuldari væri ekki krafinn um frekari greiðslur vegna fullefndra gjalddaga.

Hér hefði eins mátt vitna í ritin Kröfuréttur I eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson eða Viðskiptabréf eftir Pál Hreinsson.

Var þetta allt leikrit?

Auðvitað má spyrja sig, hvort þetta hafi allt verið leikrit.  Haft var eftir einum hæstaréttardómara í tveggja manna tali eftir dóma H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann), þau mál hafi verið auðveld, þar sem lögin hafi verið svo skýr.  Þegar höfundi var greint frá þessum orðum, þá fylgdi það með, að sá sem ræddi við dómarann fannst sem dómarinn hafi ekki verið yfir sig kominn af gleði yfir því að dæma lántökum í hag.  Það er nefnilega þannig á Íslandi, að lítil magninn stendur ansi oft höllum fæti gegn þeim sem finnst sem þeir fari með valdið.  Höfundur veit af allt of mörgum dómum, sem fallið hafa neytendum í óhag, þó halda mætti að niðurstaðan hefði verið borðleggjandi neytandanum í hag.  Skýrasta dæmið er þegar Hæstiréttur gekk gegn áliti EFTA-dómstólsins um lögmæti framkvæmdar verðtryggðra lána.

            Ansi margir, sem höfundur ræddi við eftir uppkvaðningu dóms H 471/2010 (vaxtadómur), voru nokkuð vissir um, að engu máli hefði skipt hvernig haldið hefði verið á vörn í málinu, Hæstiréttur hefði alltaf fundið leið til að dæma Seðlabankavexti á lánin.  Það er það sem kröfuhöfum var lofað vorið 2009 í samningaviðræðum um föllnu bankana, þetta er það sem ráðherrar, Seðlabankinn og FME lögðu á borð fyrir þjóðina eftir að dómar H 92/2010 (Óskar) og H 153/2010 (Jóhann) gengu í Hæstarétti, þetta er það sem kom fram í lögfræðiálitum sem ráðuneyti pöntuðu.  Síðan var haldið uppi þeim hræðsluáróðri frá 16. júní til 16. september að bankakerfið myndi hrynja aftur yrði niðurstaðan almúganum í vil.

            Af öllum þessu er helst að draga þá ályktun, að allt í kringum dóm H 471/2010 (vaxtadómur) hafi verið leikrit, því niðurstaðan hafði verið ákveðin árið 2009 af samninganefnd Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálráðherra.


[1] Auðvitað er það þannig, að tapist mál þar sem málsástæður hefðu getað leitt til gangstæðrar niðurstöðu, þá má færa fyrir því rök að gerð hafi verið mistök í málflutningi. 

[2] Dóm H 471/2010 (vaxtadómur) er að finna í dómasafni Hæstaréttar og er hægt að nálgast á vef réttarins

[3] Úr stefnu Lýsingar gegn Guðlaugi Hafsteini Egilssyni.  Skjal í eigu höfundar.

[4] Dómur H 374/1997  10. september 1998, bls. 2735 í dómasafni réttarins það ár.  „[S]kuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu væri lokið.“  Vísað er í þennan dóm í dómi H 600/2011 (Sigurður og Elvíra II).

[5] Í umræðu á facebook sumarið 2016 sagði einstaklingur, sem skrifaði athugasemd á þráð hjá höfundi, að hann hefði neitað að skrifa undir endurútreikning bankans og væri því að greiða af láni sínu, eins og um óverðtryggt lán væri að ræða, þar sem vextirnir tækju mið af LIBOR vöxtunum sem tilgreindir væru í upprunalega lánssamningnum, þ.e. 50% vaxtanna væru miðaðir við LIBOR vexti japanskra jena og 50% við LIBOR vexti svissneskra franka.

[6] Tilvitnun úr dómi C-618/10.  Dóminn má finna hér:  http://curia.europa.eu/juris/document/document.jsf?text=&docid=123843&pageIndex=0&doclang=EN&mode=lst&dir=&occ=first&part=1&cid=1629475

[7] Sérstakur kafli er lagður undir ýmsar vangaveltur um kröfurétt, sjá Gengið gegn kröfurétti.

[8] Andri Árnason hafði umsjón með útgáfunni.  Útgefandi: Háskólaútgáfan. 2003

[9] Kaflar úr kröfurétti Ólafs Lárussonar, bls. 22.

[10] Sama, bls. 21

[11] Sama, bls. 34