Er þetta trúverðugt bókhaldsfiff?

Það er áhugavert að sjá hvernig hægt er að breyta okkur Íslendingum úr stórskuldugum áhættufíklum í skynsama fjárfesta með einu pennastriki.  Ég er alls ekki að vefengja útreikninga hagfræðings Seðlabankans, en spyr af hverju var ekki búið að gera þetta fyrir löngu og er það trúverðugt í þeirri umræðu sem á sér stað að koma með þessar tölur núna?  Er ekki hætta á að erlendir aðilar líti á upplýsingarnar sem tilraun til að fegra ástandið á ósanngjarnan máta og jafnvel með brellum.  Eina stundina eru skuldirnar 109% af vergri þjóðarframleiðslu en hina 27%.  Það getur meira en vel verið að útreikningarnir réttir, en maður birtir ekki svona pælingu í miðri fjármálakreppu nema búið sé að búa markaðinn undir að breyting standi fyrir dyrum og þá er það gert án þess að birta hver áhrifin af breyttri mælingu eru.  Auk þess get ég ekki séð að þetta sé gott PR trix hjá Seðlabankanum, þar sem að nú hljóta menn að vefengja fleiri útreikninga frá bankanum í gegnum tíðina.  Vil ég þar fyrst nefna útreikning á viðskiptahallanum, en greiningardeildir bankanna hafa oft bent á tiltekið misræmi í þeim útreikningum.  Næst má taka verðbólgutölur sem eru ekki samanburðarhæfar við verðbólgutölur í nágrannalöndum okkar.

Það er eiginlega hræðilegt til þess að hugsa, að allar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans undanfarin ár, hafa verið til þess að ráðast gegn verðbólgunni.  Stór hluti verðbólgunnar hefur verið vegna hækkunar á verði fasteigna og vegna hækkunar á vöxtum lána til fastaeignakaupa.  Ef markaðsverð íbúðarhúsnæðis hefði ekki verið inni í vísitölumælingunni, þá hefði verðbólgan mælst vel innan við verðbólgumarkmið Seðlabankans.  Raunar kveður svo rammt við að dæmi eru um verðhjöðnun á milli mánaða í stað 4 - 5% verðbólgu.  Afleiðingin hefur verið hærri stýrivextir sem síðan hefur leitt af sér hærri verðbólgu.  Því miður er ekki hægt að breyta þessu með einu pennastriki og vinda ofan af öllu sem á undan er gengið.  En ég vona samt að mönnum detti ekki í hug að taka húsnæðisþáttinn út nú, því þá fáum við ekki að njóta stöðnunar/lækkunar á húsnæðisverði í verðbólgumælingum næstu mánuði.

En það var fleira sem gerðist í gær niðri í Seðlabanka.  Það kom yfirlýsing frá bankanum að bankinn þyrfti ekki að taka lán til að bjarga íslensku viðskiptabönkunum.  Þeir stæðu vel og væru sjálfbjarga.  Kveður þarna í annan tón en undanfarin ár, þar sem Seðlabankinn hefur verið óspar á gagnrýni á útþenslu bankanna og áhættusamar fjárfestingar þeirra.  Aftur hlýtur maður að spyrja um trúverðugleika bankans.  Er það trúverðugt að harðasti gagnrýnandi útlána-, fjárfestinga- og útþenslustefnu bankanna komi nú og segi þá vera í góðum málum?  Mér þætti það ekki trúverðugur kennari sem gagnrýndi nemanda sinn fyrir slæleg vinnubrögð við verkefnavinnu, en gæfi honum síðan 10 fyrir verkefnið, þó svo að nemandi hafi hunsað gagnrýni kennarans.  Ég verð að viðurkenna að viðsnúningur Seðlabankans lítur ekki vel út í mínum augum.  En ég er, jú, bara vitlaus öryggisráðgjafi í Kópavogi.

Frétt sem bloggað var við: Ekki lengur skuldugasta þjóð í heimi