Evra eða ekki, það er spurningin

Mér finnst þessi umræða um evru eða krónu vera á villugötum.  Ég tek undir með þeim sem segja að krónan sé ekki nógu sterkur gjaldmiðill til að vera sjálfstæð, þ.e. án tenginga við aðra gjaldmiðla.  Þetta sjáum við bara á sveiflum á gengi krónunnar síðustu 7 ár eða svo, frá því að hún var sett á flot og verðbólgumarkmið voru tekin upp.  Það má svo sem leita orsaka fyrir því að krónan er svona óstöðug, en þessi pistill á ekki að fjalla um það.

Mér finnst Seðlabankinn og ríkisstjórn standa frammi fyrir velja milli þriggja meginleiða og síðan hefur hver og einn þeirra sína undirleiðir, ef svo má að orði komast.  Meginleiðirnar eru:

  1. Halda krónunni áfram á floti líkt og verið hefur undanfarin 7 ár.
  2. Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.
  3. Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.

Það eru ekki aðrir möguleikar í myndinni.  En til að geta ákveðið hvaða leið er heppilegust, er nauðsynlegt að skoða kosti og galla hverrar leiðar og ekki síður skoða hvaða undirleiðir hver og ein meginleið býður upp á.

1.  Halda krónunni áfram á floti líkt og hefur verið undanfarin 7 ár.

Þessi leið virðist vera fullreynd.  Íslenska hagkerfi virðist ekki nógu stórt til að geta haldið krónunni stöðugri.  Hagsveiflur eru miklar og virðist óstöðugleiki krónunnar vega þar þungt.  Til þess að þessi leið gangi þá virðist þurfa verulega uppstokkun í peningamálastjórnun Seðlabankans og hugsanlega breytt viðhorf þeirra sem versla með krónuna á millibankamarkaði.

2.  Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.

Þessi aðferð var notuð hér á landi allt til ársins 2001.  Hún hafði í för með sér gengisfellingu á nokkurra ára fresti eða í hvert sinn sem einhver brestur varð í fiskveiðum.  Nú hafa þær breytingar orðið á hagkerfinu að stóriðja er orðin stærri í gjaldeyrisöflun en sjávarútvegur, fjármálageirinn hefur stækkað mikið og ferðaþjónustan er stærri en nokkru sinni fyrr.  Hugsanlega er því hægt að taka aftur upp tengingu við myntkröfu, en spurningin er bara hvaða myntir, í hvaða hlutföllum, hvaða vikmörk á að nota, hvenær ætti að taka um slíka tengingu og hvaða ferli ætti að nota til að ákveða breytingar á hlutföllum og vikmörkum.  Seðlabankinn ætti að geta nýtt almenn hagstjórnartæki áfram, svo sem verðbólgumarkmið og stýrivexti, en landsmenn yrðu að vera undir það búnir að gengið héldi áfram að sveiflast, þó þær sveiflur yrðu líklegast ekki eins miklar og áður.

3.   Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.

Þetta er sú leið sem flestir tala um og halla flestir sér að evrunni.  Hér eru mörg vafamál.  Fyrsta er spurningin um hvaða mynt ættum við taka upp.  Evran er ekki sjálfsagður kostur af þeirri einföldu ástæðu að til að fá inngöngu í myntbandalagið, þá þurfa innviðir hagkerfisins að vera í lagi.  Aðrir kostir sem hafa verið nefndir eru norska krónan, svissneski frankinn og Bandaríkja dalur.  Hugsanlega eru aðrir kostir og þá þarf alla að gaumgæfa áður en menn festa sig á eina mynt.  Við gætum alveg eins tekið upp Kanada dal eða þann ástralska, ekki má heldur útiloka breska pundið og því ekki rússneska rúblu?  Það má ekki taka ákvörðun um þetta byggða á því að evrukórinn er háværastur.  Lykilatriði í þessu máli er síðan tímasetningin.  Tímasetningin hlýtur að taka mið af stöðu krónunnar gagnvart þeirri mynt sem um ræðir.  Er evra upp á 110 kr. heppileg eða teljum við að 100 kr. gefi réttari mynd eða 120 kr.?  Ef það er svissneski frankinn viljum við sjá hann í 55 kr., 65 kr. eða 75 kr.?  Ákvörðun um skipta um mynt verður ekki tekin nema seðlabanki viðkomandi lands samþykki það.  Það eru því fullt af álitamálum sem verður að greiða úr áður en hægt er að taka þessa ákvörðun.

Hvað sem verður gert, þá þarf að fara í umfangsmikla vinnu við að greina kosti og galla hverrar leiðar fyrir sig.  Þessa vinnu þarf að hefja án tafar og ráða til verksins fagmenn með þekkingu á svona ákvörðunarferli og fá í vinnu hagfræðinga og fulltrúa helstu hagsmunaaðila.  Það þýðir ekki að velja einn kost vegna þess að flestir vilji hann.  Valið verður að vera byggt á vandlegri greiningu og áhættumati og að fengnum nauðsynlegu samþykki seðlabanka viðkomandi lands/landa.  Lykilatriðið er að mínu mati tímasetningin.  Ég held að ekki verði hægt að fastsetja einhverja dagsetningu.  Betra sé að miða við eitthvað tímabil (1 - 2 mánuði) og velja gengi innan þess tíma, þegar sæmilegt jafnvægi er komið á gengið.  T.d. að flökt á 1 - 2 vikna tímabili mætti ekki vera meira en 0,5% (eða 1%).  Þetta þyrfti náttúrulega að útfæra nánar.

Sem sérmenntaður á sviði ákvörðunargreiningar (e. decision analysis), þá veit ég að góð ákvörðun verður ekki tekin nema undirvinnan sé góð. Ég veit það líka að góð ákvörðun tryggir ekki góða útkoma, hún eykur bara líkurnar á henni.  Eins og ég lýsi þessu viðfangsefni að ofan, þá sýnist mér að leysa megi það með hjálp ákvörðunargreiningar.

Fréttin sem bloggað var við: Ríkisstjórnin ræði evrumál við ESB