Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta

Það er ekki mikil bjartsýni ríkjandi hjá greiningardeild Glitnis fyrir þetta ár. Meðaltalsgengi (gengisvísitala) upp á 142 á þessu ári og lokagengi um 135.  Þetta þýðir vissulega nær 10% styrkingu krónunnar það sem eftir er árs.  En skoða verður þessar tölur með það í huga, að þrátt fyrir mikið fall krónunnar í mars, þá stendur meðalgengi ársins í 139,3 stigum.  Til þess að meðalgengi ársins nái 142, þá má búast við að gengisvísitalan haldist um eða yfir 145 talsvert fram á haustið og síðan komi snörp styrking krónunnar.  Að öðrum kosti sé ég ekki að bæði náist meðalgengi upp á 142 og lokagengi upp á 135.  Mér virðist því Glitnir spá því að gengisvísitala á bilinu 143 til 147 verði það sem við stöndum frammi fyrir alveg til nóvemberloka og það verði ekki fyrr en í desember sem gengið takist að styrkjast svo heitið getur.  Annar möguleiki er að ástandið eigi eftir að versna aftur áður en það tekur að batna

Mér finnst bjartsýnin umtalsverð hjá Glitni fyrir þróun gengis á næsta ári og ég vona innilega að sú spá gangi eftir.  Með meðaltalsgengi upp á 128 og byrjunartöluna 135, þá verður gengisvísitalan að haldast undir 128 langtímum saman.

Þá er bara að draga andann djúpt og vona að raunveruleikinn fyrir þetta ár verði betri en Glitnir les úr spilunum. 

Frétt sem bloggað er við:  Glitnir: gengishækkun í haust

Athugasemd 2018:  Eina ástæðan fyrir því að ég endurbirti þessa færslu hér, er til að sýna hvaða væntingar sérfræðingarnir gerðu til gengisþróunar.  Þetta voru upplýsingarnar sem haldið var að almenningi og hann trúði, a.m.k. upp að vissu marki.  Reyndin varð hins vegar að gengisvísitalan fór yfir 230 stig áður en gengið tók að styrkjast og þegar þessari athugasemd er bætt við í febrúar 2018, þá er gengisvísitalan enn yfir 160 stigum.  (Gengisvísitalan er reyndar ekki skráð lengur, af einhverri furðulegri ástæðu.)