Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?

Greining Landsbankans er að spá lækkun stýrivaxta í nóvember í spá sem birt var í morgun.  Byggir greiningin m.a. á því að "dregið [hafi] úr verðbólguvæntingum næstu mánuði" og því hafi Seðlabankinn ekki lengur þörf á að halda stýrivöxtum svona háum lengur.  Ekki eru nema nokkrir dagar síðan að greiningardeild Landsbankann birti spá um þróun krónunnar þar sem spáð var að hún yrði veik út árið og þar með að varla kæmi til lækkun verðbólgu vegna styrkingu krónunnar.

Ég trú ekki öðru en að Seðlabankinn velti fyrir sér samspili verðbólgu og stýrivaxta, þegar ákvörðun um stýrivexti eru teknar.  A.m.k. var það skýringin í apríl, þegar stýrivextir voru hækkaðir í 15,5% að halda yrði stýrivöxtum í ákveðinni fjarlægð frá verðbólgunni.  Þá var bilið, þ.e. raunstýrivextir, 3,7% og í blogginu mínu frá 22.5. Viðsnúningurinn hafinn?, þá spáði ég því að raunstýrivextir færu niður fyrir 3% með verðbólgutölum í maí.  Sú varð að vísu ekki raunin, heldur gerðist það mánuði seinna.  Um þessar mundir standa raunstýrivextir í 2,8%, þ.e. verðbólga mældist 12,7% í júní og stýrivextir standa í 15,5%.  Gangi verðbólguspár bankanna eftir verður verðbólgan í júlí á bilinu 13,3 - 13,7%, sem gerir það að verkum að raunstýrivextir verða á bilinu 1,8 - 2,2% og gætu lækkað niður fyrir 1,5% gangi spár eftir um rúmlega 14% verðbólgu í ágúst.

Ég velti í maí vöngum yfir hvaða raunstig stýrivaxta Seðlabankinn teldi nauðsynlegt.  Það er alveg ljóst að miðað við óbreytta stýrivexti munu raunstýrivextir lækka við birtingu næstu tveggja verðbólgutalna, en eftir það hækka þeirra hægt fram að áramótum. Spá um stýrivexti byggir á tveimur forsendum: 

1. Æskilegt raunstig stýrivaxta. 

2. Spá um verðbólgu næstu mánaða.

Skoðum fyrst æskilegt raunstig stýrivaxta.  Reynsla undanfarinna ára er að Seðlabankinn hefur haldið raunstýrivöxtum á bilinu 1,8 - 3,8% á þeim tíma þegar verðbólga hefur verið tiltölulega lág.  Það má því gera ráð fyrir að æskilegt raunstig sé um 2,8-3,3%. (Hér verður 3,3% notað.)

Það sem við vitum um verðbólgu næstu mánaða er að hún á eftir að hækka áður en lækkunarferlið fer í gang.  Svartsýnustu spár bankanna geta þýtt að verðbólga í ágúst fari í 14,5%, en bjartsýnustu virðast gera ráð fyrir 13,7 - 14,1%.  Mjög erfitt er að spá framhaldinu, þar sem það veltur umtalsvert á stöðu krónunnar, en það er sama hvernig ég leik mér með tölur, ég get ekki séð að verðbólga í árslok verði undir 11% og mjög líklega slagar hún í 12,5%.

Þá er komið að því að spá fyrir um stýrivexti.  Í fyrsta lagi, þá megum við þakka fyrir að þeir verði ekki hækkaðir tímabundið eftir birtingu verðbólgutalna í júlí og ágúst.  Seðlabankinn hefur góð og gild rök fyrir því, ef hann miðar bara við að halda tilteknu raunstigi.  Ákveði Seðlabankinn aftur að stinga sér í gegnum öldutopp verðbólguöldunnar, þá má á móti búast við að hann dragi það lengur að hefja lækkunarferlið og ég er ekki viss um að verðbólga hafi hjaðnað nægilega á ársgrundvelli í nóvember til að stýrivextir verði lækkaðir þá.  Raunar held ég að Seðlabankinn muni ekki hefja lækkunarferlið fyrr en ársverðbólga er komin niður fyrir 12%.  Sé eitthvað að marka gengisspá Landsbankans, þá gerist það varla fyrr en í desember og hugsanlega ekki fyrr en í janúar.

Eftir að lækkunarferlið fer í gang, þá er allt sem bendir til þess að það verði skarpt (með fyrirvara um frekari áföll). Miðað við forsendur að ofan má því búast við að stýrivextir breytist sem hér segir (verðbólguspá innan sviga):

Desember 15,0% (11,5%)

2009:

Febrúar 14,0% (10,3%)

Mars 12,0% (9,0%)

Apríl 9,0% (5,6%)

Maí 8,0% (4,4%)

Júní 7,0% (3,7%)

Júlí 6,5% (3,1%)

Ágúst 6,0% (2,7%)

Nóvember 5,5% (2,4%)

Þetta er náttúrulega alveg sérlega mikil bjartsýni, en þessu fylgir mjög líklega talsverður skellur í efnahagslífinu.

Frétt sem bloggað er við: Spá stýrivaxtalækkun í nóvember

Athugasemd feb 2018:  Svo merkilegt sem það er, þá hefur spurningu Landsbankans ekki enn veri svarað á sannfærandi máta.  Á þessum tíma notaði Seðlabankinn jafnvægisraunvexti upp á 4,5%, en þeir voru lækkaðir í 3,0% eftir hrun.  Haustið 2017 talaði Már Guðmundsson um að þessir jafnvægisraunvextir væru komnir í 2,5%.