Mat byggt á hverju?

Vissulega er ýmislegt sem breyst hefur til hins verra í rekstrarumhverfi íslensku bankanna, en það er ekkert sem bendir til þess að rekstur þeirra standi eitthvað veikari fótum en fyrr.  Þannig er lausafjárstaða Kaupþings mjög sterk.  Raunar svo sterk að ég efast um að það finnist margir bankar í Evrópu, hvað þá Norðurlöndum, sem er eins vel fjármagnaður.  Bankinn er búinn að grípa til fjölþættra aðgerða til að bregðast við "bankakreppunni" og er í raun óskiljanlegt að lánshæfismat hans hafi lækkað svona mikið.  Svipaða sögu er að segja af Landsbankanum, en Icesave reikningarnir í Bretlandi hafa styrkt lausafjárstöðu bankans mjög mikið.  Nú er bankinn fjármagnaður að stórum hluta af innlánum í stað lána á millibankamarkaði.  Glitnir stendur líklegast verst að þessu leyti af íslensku bönkunum, en þar hafa menn þegar farið af stað með aðhaldsaðgerðir.

Það merkilegasta við þess breytingu er að "bankakreppan" fór af stað vegna vandræða með svo kölluð undirmálslán á bandarískum fasteignamarkaði.  Það er tvennt sem vert er að hafa í huga varðandi þessi lán.  1)  Íslensku bankarnir eiga lítið sem ekkert undir varðandi þessi lán.  2)  Moody's lofsöng þessi lán fyrir bara einu ári eða svo.  Evrópskir bankar treystu þessum lánum eftir að Moody's, S&P og fleiri matsfyrirtæki stimpluðu þau í bak og fyrir á sínum tíma og hirtu sína þóknun fyrir að hafa komið með greiningu sína (samkvæmt upplýsingum í 60 minutes).

Það er grafalvarlegur hlutur að lánshæfimat íslensku bankanna sé að lækka með þessum hætti.  Menn bera hugsanlega blak af Moody's og segja að þetta hafi verið fyrirsjáanlegt, en þegar horft er til þess að fjölmargir erlendir bankar, sem hafa farið mjög illa út úr undirmálslánunum, eru að halda fyrra mati sínu, þá vekur þetta furðu.  Það sem verra er að svona mat, sem hugsanlega er byggt á veikum grunni getur haft dómínóáhrif á íslenskt efnahagslíf og er ekki gott innlegg á sama tíma og Seðlabanki Íslands er þegar búinn að stytta í hengingarólinni meira en góðu hófu gegnir.

Frétt sem bloggað var við: Lánshæfismat bankanna lækkað

Athugasemd 2018: Þessi bloggfærsla sýnir vel hve lokaður maður var fyrir því, að bankarnir væru að fegra sannleikann.  Líklegast voru ársreikningar bankanna árið 2007 kolrangir og er með ólíkindum að þeir hafi aldrei verið yfirfarnir almennilega.