Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður?

Andstaða Seðlabankans við að fjármálafyrirtæki færi bókhald sitt í erlendri mynt er mjög skiljanleg, þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði, að ef það gerist missir Seðlabankinn mikilvægt stjórntæki úr höndunum og frá honum fara mikilvæg verkefni.  Seðlabanki Íslands hefur ekkert vald yfir evrunni, en hann ábyrgur gagnvart krónunni.  En er ekki leikurinn tapaður?  Er það ekki um seinan fyrir Seðlabanka Íslands að koma í veg fyrir að íslensk útrásarfyrirtæki breyti um uppgjörsmynt?  Er það ekki um seinan að koma í veg fyrir fyrirtæki sem skráð eru í fjölþjóðlegri kauphöll færi hlutabréf sín yfir í fjölþjóðlega mynt?  Fái þau það ekki hér á landi flytja þau einfaldlega úr landi.  Og ekki er Seðlabankinn betur settur með það.

Til skamms tíma sá ég ýmsa kosti við að halda krónunni og hugsanlega verður það hægt í einhvern tíma í viðbót.  En því miður er styrkur krónunnar það lítill og vægi Seðlabanka Íslands svo óverulegt í alþjóðlegu fjármálaumhverfi, að krónan stendur ekki ein og sér.  Sveiflur í gengi krónunnar eru of miklar til það hægt sé að líta á íslensk fjármálafyrirtæki sem vænlegan fjárfestingarkost.  Það er ekki bara að gengi, t.d., Kaupþings hafi lækkað stórlega í íslenskum krónum á síðustu mánuðum, heldur hafa sveiflur á gengi krónunnar ýkt þessa lækkun enn frekar.  Meðan fjárfestir á Íslandi hefur tapað, segjum, 40% á lækkun gengis hlutabréfa, þá hefur hinn erlendi tapað 10% til viðbótar vegna lækkunar krónunnar.  Og þegar kemur að árs- og árshlutauppgjörum, þá ýkja gengissveiflur þau líka og gera allan samanburð óskiljanlega.  Eignir upp á 10 milljarðar evra mynda hagnað eitt uppgjörstímabilið og tap hitt.  Eign upp á 9 milljarða evra sýna hærri eignastöðu á einu uppgjörstímabili en eignir upp á 11 milljarða evra á öðru.  Er hægt að búa við þetta?

Ég sé bara fyrir mér tvær lausnir á þessu.  Fyrri er að halda krónunni, en tengja hana við evru, sterlingspund eða svissneskan franka og bara eina af þessum myntum.  Með því fengist meiri stöðugleiki.  Þetta er sambærilegt við það sem Danir og Svíar gera, en þessar þjóðir halda sínum myntum en fasttengja þær evrunni.  Með þessu fæst meiri stöðugleiki í gengið og það ætti að hafa kælandi áhrif á hagkerfið.  Hinn kosturinn er að taka upp evruna.  Vandamálið er að ekki er víst að það fáist.  Ísland getur ekki bara svona upp á sitt eindæmi tekið upp evruna.  Vissulega hafa einhverjar þjóðir gert það, en það eru þjóðir sem standa utan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Danska leiðin virðist því liggja í augum uppi, þ.e. að tengja krónuna við gengi evrunnar og undirbúa jarðveginn fyrir það að kasta krónunni innan 10 ára eða svo.  Vandamálið er að velja tímapunktinn og það verður ekki auðvelt.  Ég legg til 1. júlí 2009, en einnig mætti gera það um næstu áramót.  Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki nægilegt vit á hagfræði eða peningamálum til að skilja nákvæmlega hvað það hefur í för með sér að skipta yfir í evru eða fasttengja krónuna við evruna.  Ég á móti átta mig alveg á afleiðingum þess að halda krónunni í þeim ólgusjó sem alþjóðlegt fjármálakerfi er að ganga í gegnum og ég átta mig á hættunni á að óprúttnir spákaupmenn fari að leika sér með fjöregg þjóðarinnar.

Það má segja að Seðlabanki Íslands sé í svipuðum sporum og íslenska ríkið þegar Davíð keypti bjórinn í Fríhöfninni um árið.  Hann á bara þvingaða leiki og getur valið um það að gefa skákina strax eða vera hægt og rólega mátaður. Niðurstaðan verður alltaf sú að fjármálafyrirtækin breyta um starfrækslumynt.  Spurningin er bara hvort þau gera það sem íslensk fyrirtæki eða erlend.