Ó, vakna þú mín Þyrnirós

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Seðlabanka Íslands eru hlutverk hans sem hér segir:

Seðlabankinn fer með stjórn peningamála á Íslandi og hefur með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira, samanber það sem tilgreint er í lögum um bankann.

Mér sýnist sem Seðlabankinn ekki hafa staðið sig í neinu af ofangreindu.  Getuleysi Seðlabankans til að halda hér stöðugu verðlagi og að ég tali nú ekki um að mynda hér eðlilegan markað með gjaldmiðil þjóðarinnar hefur kostað mjög marga háar upphæðir.  50% fall krónunnar og 14% verðbólga ber ekki neinu öðru vott en að Seðlabankinn hefur brugðist hlutverki sínu. 

Ég get ekki annað en velt fyrir mér, er hvort ég geti leitað réttar mín, vegna hinna himinháu upphæða sem ég hef tapað (í formi hækkunar höfuðstóls lána) vegna aðgerðaleysi/getuleysi Seðlabankans.  Hvernig stendur á því að Seðlabanki Íslands láti það líðast að krónan lækki um 50% án þess að reyna að spyrna við fæti. Heldur Seðlabankinn virkilega að hann geti beðið af sér storminn? Við sjáum hvaða árangur er af því.  Allt bendir til að verðbólga í nóvember og desember verði um og yfir 18%.  Þetta þýðir að verðtryggð lán munu hækka um þessi sömu 18% á þessu tímabili.  Það sem verra er, að verðbólga á tímabilinu frá ágúst 2007 fram í janúar 2009 getur orðið allt að 22,5%.  Sé maður svo óheppinn að vera með skuldirnar í erlendri mynt, þá erum við að tala um að gengisvísitalan hafi hækkað um 64% frá því júlí á síðasta ári. Svissneskir frankar hafa hækkað um 78% og japönsk jen um 82%.  Hvað hefur Seðlabanki Íslands gert til að sporna við þessu?  Satt best að segja get ég ekki séð að hann hafi gert neitt að viti.  Raunar sýnist mér að Seðlabankinn hafi ýtt undir þessa þróun með óábyrgum yfirlýsingum, ótrúlegri framsetningu upplýsinga, ónákvæmum vinnubrögðum og viðskotsillum viðbrögðum við umræðu í þjóðfélaginu.  Menn hafa lokað sig inni og í besta falli veitt drottningarviðtöl.  Beiðni greiningadeilda bankanna um að fá að taka þátt í fundum um stefnu bankans hefur verið hafnað.  Menn hafa fallið í þá gryfju að kenna öðrum um og neita að líta á eigin misgjörðir.

Ef Seðlabanki Íslands (og raunar ríkisstjórnin líka) vakna ekki seinna en strax af sínum Þyrnirósarsvefni.  Forsætisráðherra kallaði seðlabankastjóra á fund sinn í dag, en neitar að um krísufund hafi verið að ræða.  Þeir hittist oft.  Mér er alveg sama hvort þeir hittist oft.  Í dag er krísa í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.  Af þeirri ástæðu þarf KRÍSUFUND.  Það þarf víðtækar aðgerðir til að bjarga því sem bjarga verður og það þarf að grípa til þeirra aðgerða STRAX.  Það þolir ekki frekari bið.  Við erum búin að bíða frá því í mars og ástandið gerir ekkert annað en að versna.  Ástandið er orðið svo grafalvarlegt að sýna þarf lífsmark sem eykur traust "markaðarins" á íslenska hagkerfinu og íslensku krónunni.

Fjölmargar fjölskyldur í landinu eru komnar í alvarlega greiðslukreppu.  Afborganir og höfuðstólar lána hafa hækkað um tugi prósenta.  Viðbrögð seðlabankastjóra hafa hingað til verið að fólk geti sjálfu sér kennt um.  Það hafi farið út í óábyrgar fjárfestingar, það hafi mátt vita að gengi krónunnar myndi lækka.  Málið er að þessi rök halda ekki vatni.  Í fyrsta lagi fór fólk út í fjárfestingar sínar í þeirri trú að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn hefði stjórn á stöðunni.  Í öðru lagi gat það á engan hátt reiknað með því að Seðlabanki Íslands væri vanhæfur til að kljást við lausafjárkreppuna, fyrir utan að ekki var hægt að ætlast til að almennir borgarar gætu gert sér grein fyrir afleiðingum þeirrar kreppu.  Í þriðja lagi datt engum í hug að Seðlabanki Íslands væri gjörsamlega ófær um að verja gengi íslensku krónunnar.  Ég átti sjálfur von á að gengisvísitalan myndi líklegast hækka í 125-130, enda var það í samræmi við spá greiningadeilda og Seðlabankans, en að gengisvísitala hækkað fyrst í 150 á örfáum dögum í mars og síðan í 183 á örfáum dögum í september er verra en nokkrum lántakanda gat dottið í hug.  Það er því ekki hægt að kenna lántakendum um óábyrgar lántökur.  Þeir sem áttu að tryggja stöðugt gengi brugðust og það er tími til kominn að þessir aðilar, þ.e. Seðlabanki og ríkisstjórn, sýni að þeir séu starfi sínu vaxnir eða segi af sér ella.

Frétt sem bloggað er við:  Sameiginleg ákvörðun landanna