Ábyrgð Seðlabanka Íslands

Egill Helgason er með færslu hjá sér undir fyrirsögninni Wade búinn að vinna rökræðuna.  Ég ætlaði að setja athugasemd inn á þá færslu, en hún hefði drukknað í umræðu um allt annað.  Því ákvað ég að setja hana hér enda fjallar Peston að hluta um sömu atriði:

Ég ætla ekki að taka hanaslaginn um ábyrgð bankanna sem er mikil heldur benda á atriði í grein Wade sem mönnum virðist yfirsjást og einnig er bent á í bloggi Robert Peston, viðskiptaritstjóra BBC.

Wade segir:

The central bank tied its own hands so as to leave only the interest rate as its control instrument. It gave up reserve requirements on grounds that the banks did not want them; and it also failed to exercise moral suasion. Its efforts to restrain inflation by raising short-term rates (to 15 per cent by 2008) had the effect of sucking in more “carry trade” capital, undermining the intended curbing of demand and leading the krona to appreciate despite the huge external deficit.


Og Peston segir (í þýðingu vb.is ekki mbl.is):

Rót gríðarlegs vaxtar fjármálakerfisins á Íslandi eru vaxtamunarviðskipti, en á síðustu árum hefur reynst vinsælt að fá lánað í lágvaxtamyntum á borð við jen og ávaxta síðan í krónum. Um árabil reyndist þetta áhættulítil leið til gróða, en um leið og lánsfjárþurrðin skall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum kárnaði gamanið.


Báðir þessir aðilar benda á stýrivaxtastefnu Seðlabankans sem veigamikinn þátt í þeirri kreppu sem við erum að kljást við.  Mig langar að bæta við (nú hljóma ég eins og biluð plata) ákvarðanir Seðlabankans árið 2003 um lækkun bindiskyldu samhliða lækkun á áhættustuðlum vegna útreiknings á eiginfjárhlutfalli og ákvörðun Seðlabankans í mars 2007 um frekari lækkun áhættustuðla.  Þessar þrjár aðgerðir juku útlánagetu bankakerfisins um ríflega 200%.  Bara lækkun áhættustuðlanna gerði það að verkum að bankar sem áður gátu lánað 100 milljarða krónur fyrir hverjar 8 milljarða kr. í eigið fé gátu núna lánað 282 milljarða kr.  Lækkun bindiskyldunnar bæti síðan háum fjárhæðum við þessa tölu. 

Ég get ekki betur séð en að Seðlabanki Íslands hafi lagt talsvert mikinn eldsmat í þennan bálköst sem núna logar og síðan aðstoðaði hann bankana verulega við að safna því sem þeir bættu á.  Það sem Seðlabankinn gerði voru nokkuð staðlaðar aðgerðir út um allan heim í nafni BASEL II, en það er ekki annað hægt en að gagnrýna tímasetningar aðgerða Seðlabanka Íslands (sem voru að hluta framkvæmdar með reglum frá FME) og að þeim hafi ekki fylgt aðhaldsaðgerðir.

Tökum fyrst 2003:  Bindiskylda er lækkuð um 50% úr 4% í 2%.  Nokkrum mánuðum síðar er útlánageta þeirra aukin með lækkun áhættustuðla.  Þetta eru tvær þensluhvetjandi aðgerðir án þess að þeim fylgi nokkur aðhaldsaðgerð.  Stýrivextir voru 5,3% og þeir héldust 5,3%.  Bankarnir juku útlán sín til útrásarverkefna í kjölfarið og ári seinna fóru þeir inn á húsnæðislánamarkaðinn.  Fyrst hafði það gerst að verðbólga byrjaði að aukast og stýrivextir að hækka.  Á haustmánuðum fer allt af stað, verðbólga hækkar, stýrivextir hækka og gengið sem hafði verið á bilinu 119 - 126 fór að styrkjast.  Með styrkingu gengisins, þá jókst útlánageta bankanna aftur, en nú í erlendri mynt og veðhæfi innlendra eigna jókst líka í þeim samanburði.  Það furðulega við þetta allt, var að Seðlabankinn hækkaði raunstýrivexti mikið á þessum tíma.  Eftir því sem raunstýrivextir hækkuðu styrktist krónan, sem jók enn og aftur útlánagetu bankanna í erlendri mynt.  Stýrivextir sem höfðu verið 5,3% í febrúar 2004 meðan verðbólga var 2,3% voru komnir í 10,75% í febrúar 2006 með 4,1% verðbólgu og gengisvísitölu upp á 107,4.  Þarna eru raunstýrivextir skyndilega orðnir 6,6%, en áður höfðu nafnstýrivextir verið 5,3%.  Á sama tíma flýtur ódýrt lánsfé út um allan heim.  Menn gátu tekið lán í jenum á 0,3% vöxtum og það blasti náttúrulega við að ávaxta það á 10,75% vöxtum á Íslandi.  Útlendingunum var alveg sama um íslenska verðbólgu.  Aukið erlent fjármagn flaut inn og það ásamt háum stýrivöxtum hélt gengi krónunnar háu og mikilli útlánagetu hjá bönkunum.

Þá kemur 2007.  Ríkisstjórnin hafði tilkynnt með góðum fyrirvara að matarskattar yrðu lækkaðir 1. mars 2007, en í skugga þeirrar aðgerðar í 7,4% verðbólgu og 14,25% stýrivöxtum, þá lækkar áhættustuðull veðtryggðrar útlána úr 0,5 í 0,35.  Það voru eldar um allt í hagkerfinu og Seðlabankinn ákvað að bæta nokkur þúsund tonnum af olíu á eldinn.  Þessi aðgerð sneri kólnun á húsnæðismarkaðnum við, þar sem útlánageta bankanna í þann málaflokk jókst skyndilega um 42%.  Aðgerðir ríkisstjórnarinnar lækkuðu verðbólguna niður í 5,9% í mars sem hefði átt að gefa Seðlabankanum færi á að lækka stýrivexti og byrja að vinda ofan af Jöklabréfunum.  Nei, hann hélt ekki bara stýrivöxtunum óbreyttum, hann hækkaði þá.  Það var að vísu reynt að láta svo líta út að stýrivextirnir hefðu lækkað með því að breyta aðferðafræðinni, en 13.30% stýrivextirnir í júní 2007 voru í raun hækkun um 0,25%.  Svo skall lausafjárkreppa á að fullu (þó svo að merki hennar hafi mátt sjá mun fyrr) og hvað gerði Seðlabankinn þá.  Bæta enn í vána með því að hækka stýrivexti.

Það er ofsalega margt furðulegt sem kemur í ljós þegar maður skoðar samspil stýrivaxtaákvarðana, verðbólgu og gengis.  Það er eitt sem æpir á mig:  Hækkun stýrivaxta virðist auka óróa!  Það er eins og verðbólgan elti stýrivextina!  Frá því að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 5,5% í 5,75% í júní 2004, þá hefur verðbólgan aldrei farið undir verðbólgumarkmið Seðlabankans.  Raunar hefur hún bara tvisvar verið undir 3% og 12 sinnum verið 3 - 4%.

Ef við bætum svo við þessa upptalningu að krónan var sett á flot með stýrivexti í hæstu hæðum og verðbólgu langt utan verðbólgumarkmiða Seðlabankans, þá er eiginlega með ólíkindum að allt hafi ekki farið fjandans til fyrir löngu.

Vissulega teygðu bankarnir sig langt í útlána- og útþenslustefnu sinni.  En þegar horft er til þess hve litlar afskriftir hafa verið bönkunum undanfarin ár, þá er ekkert sem bendir til þess að þeir hafi seilst of langt.  Fyrir 14 mánuðum var skuldatryggingarálag þeirra vel innan við 50 punktar.  Núna er það allt að 5.500.  Þetta er í mínum huga tilraun til að setja þessi fyrirtæki á hausinn og hefur ekkert, nákvæmlega ekkert með rekstrarlega stöðu þeirra að gera.  Á sama tíma og bankarnir sæta þessum ofurkjörum, þá fær einn viðskiptavina þeirra, Orkuveita Reykjavíkur, lán með 9,8 punkta álagi.  Kannski Glitnir ætti að fá OR til að taka lán fyrir sig!  Mér sýnist sem hræætur markaðarins séu búnir að færa sig alfarið frá olíunni yfir í skuldatryggingarálagið.

Frétt sem bloggað var við:  Ísland flautað úr leik

Rétt er að bæta hér við athugasemdum sem gerðar voru við færsluna á Moggablogginu.  Fyrst "Gunn":

"Þetta eru hagsmunaárekstrar af versta tagi þar sem fjárhagsöflin sem hafa dregið okkur niður í svaðið verja sína hagsmuni með kjafti og klóm.  Hlustið á hvað aðilar og einstaklingar hafa að segja í þessari umræðu. Greinið hvaða hagsmuni er verið að verja (pólitíska, efnahagslega) og hverju er verið að koma á framfæri? og hverjum er verið að veita högg og hvers vegna?  Almenningur er grunnhygginn og lætur létt plata sig. 

Það er augljóslega vegið að Davíð Oddssyni, en hvers vegna? Þetta er í raun aðför að SÍ sem skyldi kanski vera að verja hagsmuni þjóðarinnar á kostnað bankanna og fjárhagsaflanna? Hef aldrei haft sérstakt álit á Davíð sem stjórnmálamanni.  Hann hefur marga galla eins og við flestir og hefur gert sín mistök.  Þeir sem gagnrýna Davíð minnst eru Vinstri Grænir, held að Steingrímur Sigfússon sé búinn að fatta þetta. 

Það kom skýrsla frá Alþjóðabankanum - IMF í vor og nú aftur í  haust (engir íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað um hana... !) og einnig margfræg grein professors Robert Wade við London School of Economics sem birtist í Financial Times sem bentu á það sem hefur gerst. Áróðursmaskínur fjármálastofnanna, takið eftir Richard Porter og Friðrik Már Baldursson vísuðu þessu á bug.  Nú er þessi umræddi Richard Porter einnig farinn að gagnrýna Íslenska Seðlabankann fyrir að hrinda þessu af stað. Hmm, traustvekjandi?

Takið nú eftir þessari umræðu um Davíð.  Þetta er auðvitað ekki Davíð þetta er Seðlabanki Íslands og Ríkisstjórnin.  Mitt álit er að SÍ þeir hafa vitað að "spilaborgin" myndi hrinja í talsverðan tíma og í raun vitað að þeir höfðu ekki fjárhagslega burði til að bjarga íslenska fjármálakerfinu.  Atburðir síðustu 3-4 vikna hafi flýtt þessu ferli.  
Leigupennar hagsmunnaaðila (bankanna og hluthafa þeirra) hafa hamrað á Seðlabankanum og hafa notað sér grunnhyggni almennings og stjórnmálamanna með að persónugera þetta.  Þeir urðu að gera þessar aðgerðir með Glitni sem er gjaldþrota, hvað sem hver segir.  Sjá viðtal við Jón Daníelsson professor í London School of Economics á RUV - Speglinum þann 3.10.2008  http://www.ruv.is/spegillinn/

Þetta snýst að lokum allt spurning um hver á að "borga brúsann" og hverjum á að bjarga. Um hvort eigi að fórna hagsmunum eiganda fjármálastofnanna eða framtíðarhagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Seðlabanki og ríkisstjórn þurfa að hafa "pókerfés" þeir geta ekki svarað þessum ásökunum sem hrannast á þá. Davíð Oddson er ríkisstarfsmaður og hefur engin áhrif á umsóknaraðild að ESB sem gæti verið rétt spor.  Það sem er stóra spurningin núna er: kastar Seðlabanki Evrópu líflínu til okkar? Ef ekki hvað segir það okkur um afstöðu þeirra?  Það að ganga í EB tekur mörg ár og ekki víst að við fáum aðild að myntbandalaginu  þar sem við erum of skuldug og verðum með of mikinn halla á ríkisrekstriunum, en það er rétt skref að hefja aðildarviðræður.  Það er samt skynsamlegt að ekki veikja okkar samningstöðu.  Munum það að Ísland kemur til með að borga í sjóði bandalagsins mun meira en við fáum út úr þeim og okkar einasti ávinningur er að við fáum evru og tekur það mörg ár.

Vandamál okkar núna er að það þarf að taka geysistórar ákvarðanir á næstu 20 klukkustundum þegar bankar opna í Evrópu og það mun hafa afleiðingar á framtíð þjóðarinnar.  Það er ljóst að það þarf einnig að senda þetta blessaða fjármálafrumvarp til föðurhúsa, hallalaus fjárlög nú eru frumskilyrði."

Og frá mér:

"Við þennan lista furðulegra aðgerða Seðlabankans, þá má nefna að samkvæmt algildum hagfræðikenningum, þá er jafnvægi haldið á gjaldeyrismarkaði með því að skapa eftirspurn eftir þeim gjaldmiðli sem er að falla og framboð eftir þeim gjaldmiðli sem er að hækka.  Þannig var það hlutverk Seðlabankans að selja krónur í miklu mæli, þegar krónan var að styrkjast til að koma í veg fyrir of mikla styrkingu hennar og kaupa krónur í kjölfar veikingu hennar.  Fyrri aðgerðin hefði styrkt gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar án lántöku eða með takmarkaðri lántöku, en hin hefði verið eðlilegt leið til að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til að skapa stöðugleika.  Þar sem fyrra tækifærið var ekki notað, þá hafði Seðlabankinn ekki burði til að sporna við falli krónunnar í vor.  Það sendi nokkuð skýr skilaboð út á markaðinn um vanmátt Seðlabankans og gróf undan trúverðugleika hans.  Ég hef oft spurt mig að því, af hverju Seðlabankinn reyndi ekki að hafa áhrif á gjaldeyrismarkaðinn með þessu móti.  Menn hafa skýrt það með því, að Seðlabankinn hefi ekki viljað vera með inngrip í gjaldeyrismarkaðinn, en málið er, að það er mikilvægt hlutverk seðlabanka að vera með slíkt inngrip."