Hækkun gengisvísitölu er 50% það sem af er ári

Þau stórmerku tímamót urðu í dag, að gengisvísitalan lokaði í yfir 180 stigum.  Það sem meira er að hækkun vísitölunnar það sem af er árinu er komin yfir fimmtíu af hundraði.  Þetta þýðir að það sem kostaði okkur 2 krónur í ársbyrjun kostar núna 3 krónur.  Til að setja þetta í samhengi þá er hér fyrir neðan gengi nokkurra gjaldmiðla samkvæmt miðgengi hjá Glitni 1. janúar sl. og síðan við lok útsölumarkaðar Seðlabankans í dag.

Gengi   1.1.2008  23.9.2008  Mismunur

EUR       91,65       139,31        52,00%

USD       62,32       94,69        51,94%

CHF       56,46       87,46        54,91%

CAD       62,68       91,43        45,87%

NOK       11,55        16,95         46,79%

JPY        0,5687      0,8947     57,32%

GVT       120,5         181,4         50,54%

Svona með fullri virðingu fyrir því að ástandið á alþjóðafjármálamörkuðum sé skelfilegt, en sýnir þetta ekki augljóslega hvað peningamálastjórn Seðlabanka Íslands og hagstjórn ríkisstjórnar Íslands hafa gjörsamlega brugðist.  Þetta er svo fáránlegt, að menn eru komnir yfir það að bölsótast út í fall krónunnar og eru komnir yfir í hysterískan hlátur.

Afleiðing af þessu, er að þeir sem skulduðu í upphafi árs kr. 10 milljónir í myntkröfu með blöndu af  ofangreindum myntum, skulda núna kr. 15.054.000.  Greiðslubyrði lánsins sem var segjum kr. 100.000 á mánuði í byrjun janúar er komin í kr. 150.000 að viðbættu því að vextir sem voru 6% í janúar eru komnir í 9 og upp í 12% núna.

Á meðan þessu fer fram tjáir forsætisráðherra sig bara í drottningarviðtölum á Íslandi eða við erlenda blaðamenn sem vita ekki hvers á að spyrja.  Seðlabankastjóri stingur úfnum hausnum fram við og við og kennir öllum um nema sjálfum sér.  Efnahagsráðgjafi er ráðinn, en hann er bara að skoða málin.  Er einhver til í að gefa sig fram sem getur gert eitthvað?

Það eru nærri því 7 mánuðir síðan að krónudallurinn fór að taka á sig sjó.  Á þessum tíma hafa ríkisstjórn og Seðlabanki örfáum sinnum reynt að dæla upp úr dallinum, en síðan tekið sér góða pásu enda vafalaust dauðuppgefnir á puðinu og gjörsamlega úrræðalausir.  Nú er svo komið að allar lestar eru fullar af vatni og flestar vistarverur líka.  Farið er að flæða langt upp á aðalvélina og styttist í að hún fari í kaf.  Ef ekki verður byrjað fljótlega að dæla með öflugum dælum, þá sekkur bévítans dallurinn.  Hvaða skipstjóri léti svona lagað ganga yfir dallinn sinn?  Enginn, en meðan á þessu stendur er forsætisráðherra í felum og seðlabankastjóri í hnútakasti.  Er það nema von að trúverðugleiki þeirra sé enginn.

Ég spáði því í vor að verðbólga gæti í versta falli farið í 18-20% á haustmánuðum, en aldrei lægra en 14% síðsumars.  Um daginn hélt ég að verðbólgutoppnum væri náð, en nú er ég ekki viss.  Mér sýnist að þetta síðast hrap krónunnar gæti orðið til þess að verðbólga í október gæti numið tæplega 15% og síðan fari hún yfir 15% í nóvember.  Hressist krónan ekki verulega á næstu vikum, þá kemur fátt í veg fyrir þessa þróun.

 

Lokagildi gengisvísitölu í fyrsta skipti hærra en 180 stig