Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning

Jæja, það á ekkert að gera fyrir krónuna.  Látum vera að bankarnir eigi að bjarga sér sjálfir, en það er nokkuð ljóst að koma þarf til móts við almenning.   Þá sem eru með gríðarlega greiðslubyrði eftir hamfarir síðustu 7 mánaða.  Það er mín skoðun að best sé að gera það í gegnum vaxtabótakerfið.  Mig langar að leggja hér fram nokkrar tillögur: 

Í fyrsta lagi að hækka hámarksvaxtabætur umtalsvert.  Þess vegna í 1.000.000 kr. fyrir einstakling og 2.000.000 kr. fyrir hjón.  Fyrir mjög marga mun það ekki einu sinni duga til að vega upp verðbætur og gengisbreytingu. 

Í öðru lagi að afnema eignamörk vegna vaxtabóta, þar sem mjög margir sitja uppi með tvær eignir, þ.e. nýkeypt húsnæði eða húsnæði í byggingu og síðan gamla húsnæðið sitt. 

Í þriðja lagi, að leyfa fólki að setja bílalán inn í vaxtabótaútreikninga. 

Í fjórða lagi, að leyfa fólki að taka gengisbreytingu umfram eitthvað tiltekið gengi sem kemur fram í afborgunarhluta lánsins inn í vaxtabótaútreikninginn.  Viðmiðið gæti t.d. verið að hækkun gjaldmiðla umfram verðbólgu + 10%.  Hægt væri að fá bankana til að hjálpa fólki við þessa útreikninga. 

Í fimmta lagi, að hækka bætur almannatrygginga sem nemur verðbólgu ársins um áramót til að leiðrétta kjör þeirra sem þær þiggja. 

Í sjötta lagi, þarf að afnema skerðingu vegna fjármagnstekna gagnvart lífeyrisbótum eða að minnsta kosti leyfa fólki að draga vaxtagjöld frá áður en til skerðingarinnar kemur. 

Ég átta mig á því að svona aðgerðir kosta háar fjárhæðir, en það mun kosta ennþá meira ef hér verða fjöldagjaldþrot heimilanna. 

Einnig væri hægt að fara út í mikla niðurfærslu höfuðstóla húsnæðis- og bílalána, en það bætir ekki upp útgjöld þessa árs.  Niðurfærsluna mætti framkvæma þannig, að hluti lánsins væri tekinn til hliðar, þ.e. geymdur, og lántakandi þyrfti eingöngu að hafa áhyggjur af því sem eftir stæði.  Ef svo kæmi í ljós að ytri aðstæður breyttust svo mikið til hins betra, þá þyrfti lántakandinn að greiða af hlutfallslega stærri hluta. Þessi leið gæti verið innlegg fjármálafyrirtækjanna í að rétta efnahag landsins við.  Það kemur hvort eð er nokkuð út á eitt hvort bankarnir hirða húsnæðið af fólki og selji það öðrum á lægra verði eða að þeir lækki höfuðstól lána núverandi eigenda.