Ákvörðunin kemur ekki á óvart

Ákvörðun Seðlabankans um að breyta ekki stýrivöxtum kemur ekki á óvart.  Ég spáði þessu í færslu minni í sumar (sjá Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?) og fyrir hálfum mánuði (sjá Glitnir breytir stýrivaxtaspá).  Í síðari færslunni færði ég rök fyrir því að raunstýrivextir væru í raun hálfu prósentu hærri en mismunurinn á verðbólgu og stýrivöxtum gæfi til kynna, þar sem 12 mánaða verðbólgutölur næðu í raun og veru yfir 54 vikur en ekki 52 eins og þær ættu að mæla.  Ársverðbólgan væri því í raun og veru 14%, ekki 14,5% eins og Hagstofan segir.

En aftur að ákvörðun Seðlabanka.  Miðað við upplýsingar sem ég hef safnað um stýrivexti og verðbólgu frá 1994 til dagsins í dag, þá hafa raunstýrivextir (þ.e. munurinn á stýrivöxtum og verðbólgu) aðeins á einu tímabili farið niður fyrir 2%.  Þetta gerðist frá nóvember 2001 fram að vaxtaákvörðun í apríl 2002.  Ýmislegt er líkt með þessu tímabili og núverandi aðstæðum, þ.e. þá eins og nú varð veruleg, skyndileg lækkun krónunnar.  Í báðum tilfellum hækkaði gengisvísitalan snöggt um 30 punkta og sveig síðan um 10-15 í viðbót.  Í báðum tilfellum hefur gengisvísitalan náð tímabundnu jafnvægi langt fyrir ofan gamla jafnvægið.  Í báðum tilfellum hefur fylgt mikil verðbólga. Og í báðum tilfellum hafði Seðlabankinn lækkað stýrivexti talsvert nokkrum mánuðum áður en krónan féll.  Lýkur þar samanburðinum.  En ef við getum notað fortíðina til að spá fyrir um framtíðina, þá gæti þrennt gerst á næstu mánuðum:

  1. Verðbólgan lækkar hratt frá janúar 2009 fram í júlí
  2. Stýrivextir lækka hratt allt næsta ár
  3. Krónan styrkist verulega frá nóvember 2008 fram í apríl/maí 2009

Greinendur eru nokkuð sammála um að atriði 1 og 2 eiga eftir að ganga eftir, en þetta með styrkingu krónunnar er í meiri óvissu.  Ekki það, að krónan mun örugglega styrkjast.  Spurningin er bara hvenær það styrkingarferli hefst og hve mikið hún muni styrkjast.  Ef aftur er leitað til sögunnar, þá tók það krónuna síðast sjö mánuði að ná lægstu stöðu.  Það tók krónuna síðan 6 mánuði að vinna til baka helminginn af veikingunni.  Gerist þetta líka núna, þá þurfum við í fyrsta lagi að bíða fram í október eftir að sjá toppinn á gengisvísitölunni, sem gæti þá verið í 175 eða svo, og styrkingin verður varla meiri en svo að gengisvísitalan í apríl/maí 2009 verður eitthvað á bilinu 145 til 150.  Hafi toppinum aftur verið náð í gær, þegar gengisvísitalan skreið tímabundið upp fyrir 170, þá gætum við verið að horfa á gengisvísitölu upp á 140 - 145 í apríl/maí á næsta ári.  En eins og sagt er um ávöxtun:  Ávöxtun í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun í framtíð.  Hún getur bara gefið vísbendingar um þróunina.  Það sama á við um gengið og verðbólguna.  Málið er bara, að ótrúlega margt er líkt í hegðun gengis og verðbólgu síðustu mánuði og var á sama tíma árs 2001.

Frétt sem bloggað er við:  Stýrivextir áfram 15,5%