Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum

Það er greinilega búið að festa akkeri á blessaða flotkrónuna svo hún hætti að sveiflast.  Vandinn er að það er allt of stutt í keðjunni og hún of þung að auki, þannig að krónu greyið er að sökkva til botns.  Vandamálið er að við vitum ekki ennþá hve djúpt er þar sem akkerinu var kastað út.

Það er náttúrulega út í hött að krónan sé orðin lægri en japanska jenið eða að svissneskur franki og kanadískur dalur séu komnir yfir 100 kall.  Bilun!

En við eigum eftir að bíta úr nálinni með þetta.  18% gengisfall í mars hafði í för með sér 3,4% hækkun vísitölu neysluverðs milli mars og apríl.  Hækkun gengisvísitölu nemur um 30% síðustu 30 daga og ef við segjum að verðbólgan hagi sér hlutfallslega svipað núna og í vor, þá má búast við að hækkun vísitölu neysluverðs verði 5,7% milli mælinga í september og október.  Það gerir 68% verðbólgu á ársgrunni (þ.e. 5,6% verðbólgan margfölduð með 12) og 12 mánaðaverðbólga yrði 19,9%.  Ef síðan er gert ráð fyrir að hækkun vísitölu helmingist milli mánaða næstu tvo mánuði, þ.e. verði 2,8% í nóvember og 1,4% í desember, þá mun verðbólgan ná nýjum toppi í tæpum 24,5% í janúar 2009.

Inn í þessa útreikninga vantar alveg áhrif sem verða af mikilli hækkun stýrivaxta, en fall krónunnar og hækkun verðbólgu kallar óhjákvæmilega á allt af 10% hækkun þeirra, þ.e. úr 15,5% í 25,5% ætli Seðlabankinn að halda jákvæðum stýrivöxtum.

Ég verð að viðurkenna, að þegar ég spáði 18-20% verðbólgu í færslu hér í vor (sjá Verður 12 mánaðaverðbólga 18 - 20% í haust), þá átti ég ekki von á því að þar væri ég of varkár. En svo virðist sem orð mín:

þá má jafnvel gera ráð fyrir allt að 20% verðbólgu í vetrarbyrjun

muni því miður standast.  (Svo það sé skjalfest, þá er fyrsti vetrardagur 25. október, þegar Gormánuður gengur í garð.)

Fréttin sem bloggað er við:  Krónan á enn eftir að veikjast