Treysta lífeyrissjóðir á verðtryggingu?

Það var stutt viðtal við Vilhjálm Bjarnason í fréttum Stöðvar 2 í kvöld í tilefni niðurstöðu skoðunarkönnunar um afstöðu landsmanna til verðtryggingar.  Þar kastaði Vilhjálmur fram gamalli klisju um að nauðsynlegt væri að halda í verðtrygginguna vegna lífeyrissjóðanna.  Mér finnst þetta svo furðuleg staðhæfing hjá Vilhjálmi, að ég get ekki orðabundist.

Það er tóm steypa að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu.  Það þarf ekki annað en að skoða eignasafn sjóðanna til að sjá, að verðtryggð skuldabréf eru almennt undir 50% af eignum sjóðanna og oft mun minna.  Þrír stærstu sjóðirnir eru (samkvæmt vef Landssamtaka lífeyrissjóða):

1.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna.  Eignasafn LSR skiptist þannig:

 • Ríkistryggð bréf 15,6%
 • Skuldabréf lánastofnana 8.6%
 • Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
 • Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
 • Sjóðfélagalán 13,9%
 • Erlend skuldabréf 2,6%
 • Innlend hlutabréf 15,9%
 • Erlend hlutabréf 27,0%
 • Ýmsir sjóðir 1,7%31

Af þessum eignum eru 47,2% alveg örugglega ekki verðtryggð.  Óljóst er hve stór hluti hinna 52,8% eru verðtryggð, en reikna má með að það sé jafnvel innan við 40%.

2.  Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Live skiptist sem hér segir:

 • Sjóðfélagalán  9,2%
 • Íbúðabréf 27,0%
 • Bankar og sparisjóðir 3,7%
 • Fyrirtæki 2,6%
 • Innlend hlutabréf 37,0%
 • Erlend verðbréf 20,3%
 • Annað 0,2%

Hér er a.m.k. 57,3% óverðtryggt, en 36,2% alveg örugglega verðtryggð.

3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir: 

 • Erlend hlutabréf 21,1%
 • Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
 • Vogunarsjóðir 2,9%
 • Innlend hlutabréf 22,3%
 • Ríkistryggð bréf 25,6%
 • Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
 • Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
 • Veðskuldabréf 4,7%
 • Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
 • Önnur skuldabréf 3,3%

Aftur getum við sagt til hve stór hluti er örugglega óverðtryggður, þ.e. 51,2%, en ekki er vitað hve stór hluti af restinni er verðtryggður.

Hér höfum við 3 stærstu sjóðina, en heildareign þeirra jafngildir 48,76% af heildareignum allra lífeyrissjóða landsins um síðustu áramót. Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu þessara sjóða voru a.m.k. 51,65% af heildareignum þeirra óverðtryggðar.  Miðað við þetta, hvernig getur Vilhjálmur Bjarnason komið í fjölmiðla og fullyrt að lífeyrissjóðirnir treysti á verðtryggingu?  Vissulega er lífeyririnn verðtryggður, en það hefur hvorki hindrað lífeyrissjóði í að hækka eða lækka áunnin réttindi sjóðfélaga.  Þessi breyting til hækkunar eða lækkunar hefur yfirleitt verið vegna þess að óverðtryggði hluti eigna sjóðanna hefur hækkað/lækkað umfram verðbólgu. Það mun halda áfram að gerast.

Að lífeyrir sé verðtryggður breytist ekkert, þó hætt verði að bjóða verðtryggð lán.  Það er ekki ætlunin að hætta að mæla breytingar á vísitölu neysluverðs.  Það sem breytist er að lántakendur þurfa að greiða verðbólguna strax í áföllnum vöxtum (þegar um breytilega vexti er að ræða) í staðinn fyrir að verðbætur bætist ofan á höfuðstól.  Verðtrygging er ekkert annað en breytilegir vextir sem bætast á höfuðstól lána í staðinn fyrir að lántakandinn greiði þá jafnóðum.  Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda því fyrirkomulagi áfram, ef menn vilja (sem ég efast um), þ.e. að láta hluta breytilegra vaxta breyta höfuðstól lána. 

Þó svo að bannað verði að verðtryggja lán til einstaklinga (sem ég býst við að sé það fólk er að tala um), þá er ekki þar með sagt að öll verðtryggð lán fari út af markaðnum. Það má heldur ekki gleyma því að mjög mikið magn af verðtryggðum lánum er á markaðnum.  Meðan að þeim er ekki skuldbreytt eða þau greidd upp, þá verða þau til staðar.  Um síðustu áramót vógu slík lán eitthvað á milli 30 og 40% af heildareignum lífeyrissjóðanna.  Að þetta hlutfall lækki þarf ekki að vera slæmt, þar sem óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa undanfarin ár verið að gefa mjög góða ávöxtun.  Margir bankar eru í dag að bjóða lán með yfir 20% breytilegum vöxtum.  Það eru 5,5% raunvextir, sem varla telst slæm ávöxtun.

Ég held að þessar áhyggjur Vilhjálms Bjarnasonar af afkomu lífeyrissjóðanna séu óþarfar.  Ég hef rætt við það marga hjá sjóðunum sem sjá um fjárfestingar fyrir sjóðina, til að vita, að þeir spjara sig alveg án verðtryggingarinnar.  Raunar, ef litið er til síðustu ára, þá er stór hluti raunávöxtunar sjóðanna til kominn vegna fjárfestinga í óverðtryggðum pappírum.

Annars held ég að fréttastofa Stöðvar 2 ætti bara að snúa sér til Árna Guðmundssonar hjá Gildi, Þorgeirs Eyjólfssonar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Hauks Hafsteinssonar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og spyrja þá út í þessa fullyrðingu Vilhjálms.  Það kæmi mér verulega á óvart, ef þeir tækju undir hana.