Það voru þrír dómar í dag - Úrskurður í máli NBI gegn Þráni staðfestur

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.6.2010.

Athygli fólks hefur í dag verið á bílalánadómunum tveimur sem féllu í Hæstarétti, en ennþá stærri dómur féll líka í dag.  Það var í máli NBI gegn Þráni ehf., þar sem NBI krafist gjaldþrotaskipta á Þráni ehf.  Héraðsdómur hafnaði í úrskurði sínum 30. apríl sl. beiðni NBI og hélt ég að þeim úrskurði hefði ekki verið áfrýjað, enda komu upplýsingar um slíkt ekki fram á vefi Hæstaréttar.  Nú kemur upp úr dúrnum að dómnum var áfrýjað og niðurstaða í því máli var tilkynnt í dag.  Hæstiréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms í einu og öllu sjá:

317/2010 NBI hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Þráni ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) (Kveðinn upp: 16.6.2010 ) 

Þessi úrskurður er mun mikilvægari en bílalánamálin, þar sem hann fjallar um lán sem eru með hinum dæmigerðu jafngildisákvæðum, eins og eru hvað algengust í lánasamningum.  Hann er líka mikilvægur vegna þess, að héraðsdómur komast að þeirri niðurstöðu að engin önnur trygging skuli koma í stað gengistryggingar eða eins og segir í dómnum:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.  

Hér það svart á hvítu og enginn vafi.  Gengistryggingin er ólögleg og ekkert annað kemur í staðinn.  Lánin munu ekki taka verðtryggingu eða fá á sig himin háa óverðtryggða vexti.  Þetta er þrefalt yppon hvorki meira né minna.