Afsláttur af lánum allra notaður í suma

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.12.2010.

Nú kom stóridómur ríkisstjórnarinnar og fjármálafyrirtækjanna síðast liðinn föstudag.  Hann er eiginlega ótrúlegur, þar sem lítið er gert annað en að afskrifa sokkinn kostnað og jafnvel er gengið lengra en þarf í þeim efnum.  Í þessari færslu vil ég benda á það ótrúlega ósamræmi sem er í málflutningi stjórnvalda og málsvara 110% leiðarinnar varðandi það hvernig afslætti af lánasöfnum heimilanna var háttað.

Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bönkunum og upplýsingum sem birst hafa í fjölmiðlum, þá fengu bankarnir verulegan afslátt af lánum heimilanna við flutning þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Þessi afsláttur var misjafn eftir bönkum, en almennt var farin sú leið að samræmdur afsláttur var gefinn af sambærilegum lánum.  Þannig var ekki farið í að skoða greiðslugetu eða skuldastöðu hvers og eins lántaka, heldur var jafnt yfir alla ganga.  Þannig fékk bankinn sama afslátt af láni einstaklings með mikla greiðslugetu og lága skuldsetningu og einstaklings með litla greiðslugetu og háa skuldsetningu, þegar um verðtryggð lán var að ræða.  Samkvæmt tölu Seðlabanka Íslands var breytingin á lánum heimilanna hjá innlánsstofnunum sem hér segir milli 30.9.2008 og 31.12.2008:

Þessar tölur benda í fyrsta lagi til þess að bankarnir hafi fengið mun meiri afslátt af íbúðalánum heimilanna, en þeir 90 milljarðar sem fulltrúar þeirra segja að hafi fengist.  Í öðru lagi voru gengisbundin húsnæðislán tekin yfir með allt að 46% afslætti, sem þýðir að afsláttur af öðrum húsnæðislánum (verðtryggðum) var að minnsta kosti 26%.  Þessi afsláttur er misjafn eftir bönkum.  Loks má benda á að þá er ótaldir um 167 milljarðar sem er afslátturinn af öðrum lánum.

Mín niðurstaða, af skoðun þessara talna, lestur frétta og umfjöllunar ljósvakamiðlanna um þessi mál, er að bankarnir fengu meira og minna flata afslætti af lánasöfnum heimilanna.  Ekki var gerð tilraun til að ákvarða að eitt verðtryggt lán væri í verri stöðu gagnvart innheimtu en annað.  Sama gildir um gengisbundin lán.  Auk þess fengu bankarnir afslætti vegna lána sem mundu tapast, en það var gert með almennri viðbót við afsláttinn, ekki með því að hækka afslátt var tilteknum lánum.  Með þeim aðgerðum, sem fjallað er um í viljayfirlýsingu stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna, er verið að taka afslætti af lánum þeirra, sem sýndu ráðdeild og hófsemi, til lána þeirra sem tóku áhættu með þeim rökstuðningi að síðarnefndi hópurinn sé yfirskuldsettur.  Málið er að um það var ekki spurt, þegar afslátturinn var reiknaður út og það er gjörsamlega út í hött að það sé haft til hliðsjónar núna.

Aðeins að yfirskuldsetningunni.  Stór hluti þeirra sem var yfirskuldsettur með fasteignalán sína voru það þar sem þeir annars vegar voru með gengisbundin lán og hins vegar vegna þess að þeir keyptu húsnæði á verðtryggðum lánum með mikilli skuldsetningu.  Hvað fyrri hópinn áhrærir, þá fengu bankarnir lán þeirra með 46% afslætti, skv. tölu Seðlabankans, og fátt bendir til annars en að sá afsláttur dugi til að mæta klúðri bankanna vegna hinna ólöglegu gengistryggingar.  Því til viðbótar fengu bankarnir yfir 85 milljarða í afslátt vegna annarra gengisbundinna lána heimilanna.  Hvað síðari hópinn varðar, þá í fyrsta lagi veittu bankarnir þessum hópi ekki svona há lán nema að greiðslugeta hafi verið fyrir hendi, í öðru lagi fengu þeir sérstaka ábót á afsláttinn til að mæta augljóslega töpuðum kröfum og í þriðja lagi þá er yfirskuldsetning afstætt ástand.  Á þetta benti ég í séráliti mínu, en þar bendi ég á að yfirskuldsetning sé aðeins vandamál undir tveimur kringumstæðu:

  1. Þegar greiðslugeta væri ekki næg.

  2. Þegar ekki væri hægt að selja húsnæði vegna skuldsetningar.

Það vill svo til að fyrra atriðið á við um alla stöðu skuldsetningar.  Einstaklingur getur haft greiðslugetu fyrir 30% skuldsetningu á litlu húsnæði, en ekki fyrir 39% skuldsetningu.  Hann er því í greiðsluvanda, en á ekki að fá neitt.  Annar getur haft greiðslugetu fyrir 300% skuldsetningu og hefur haldið öllum lánum sínum í skilum, en á samkvæmt viljayfirlýsingunni að fá lánin færð niður í 110%.

Ástæðan fyrir því að ég setti fram sérálit eftir vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðuneytisins var einmitt að ég var ósammála um þá nálgun að yfirskuldsetning væri vandamál sem taka þyrfti á.  Ég taldi að mun mikilvægara væri að fá úrlausn annarra mála og vil ég þar nefna:

  1. Skert greiðslugeta lántaka sama hver skuldsetningin er.  Gildir líka um fólk í leiguhúsnæði og hefur ekki tekjur til að standa undir leigugreiðslum.

  2. Leiðréttur sé forsendubrestur lána hjá fólki sem tapað hefur stórum hluta af því eiginfé sem það lagði fram við íbúðakaup.  Gildir líka um hækkun leiguverðs.

  3. Komið sé til móts við húsnæðiseigendur sem eru með yfirskuldsettar eignir og geta af þeirri ástæðu ekki selt án þess að taka á sig verulegt tjón.

  4. Hækka tekjur þeirra sem hafa ekki nægar tekjur til að framfleyta sér og sínum.

Aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar hefði betur horft á þessi markmið í staðinn fyrir að horfa bara á þarfir bankanna að afskrifa sokkinn kostnað.  Mun ég fjalla nánar um þetta í öðrum pistli á næstunni.