Afstýra þarf þessu stórslysi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.10.2010.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur tvisvar fengið þá flugu í höfuðið, að réttlæti felist í því að skipta einum forsendubresti út fyrir annan.  Í fyrra skiptið kom Hæstiréttur honum til bjargar og staðfesti það sem margir vissu, að gengistrygging væri óheimil verðtrygging.  Nú hefur Hæstiréttur dæmt í bílalánamáli og kveðið upp að í því máli sé rétt og hagkvæmara fyrir lántakann að notaðir séu lægstu verðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands.  Þetta greip ráðherrann á lofti og hugsaði greinilega ekki nógu djúpt.  Niðurstaðan var að allir lántaka gengistryggðra lána hlytu að vera betur settir með vexti Seðlabanka Íslands, hvort heldur verðtryggða eða óverðtryggða, án tillits til lánategundar, hvenær lánið var tekið og hve mikið er eftir á lánstímanum.  Til að bíta nú höfuðið af skömminni, þá skal ganga á rétt neytenda til að fá ofgreiðslur endurgreiddar með því að skikka lántaka til að sjá á eftir þeim inn í fyrirtæki, sem við vitum ekkert hvort að séu á vetur setjandi.

Einn banki hefur þegar byrjað að senda lántökum út upplýsingar um stöðu lána sinna.  Margir hrósa happi yfir því sem þeir sjá, en aðrir eru augljóslega að fá styttri endann á stráinu.  Fjöldi fólks hefur haft samband við mig til að biðja mig um að fara yfir útreikninga og ennþá fleiri haft samband til að lýsa furðu sinni á því sem það sér.  Í öllum tilfellum held ég að fólki finnist tölurnar lánveitanda hagfelldari en glamur þeirra sem lýst hafa yfir ánægju sinni yfir málsmeðferðinni hefur gefið í skyn.  Ekki bætir út skák að útreikningar eru það ruglingslegir á köflum, forsendur vantar oft eða eru illa útskýrðar eða þá að mistök hafa verið, að nær útilokað er fyrir leikmann að átta sig á því hvað er rétt.  Raunar gengur það svo langt, að á fundi með starfsmönnum viðkomandi fjármálafyrirtækis, þá áttu viðmælendur mínir í megnustu vandræðum með að skilja útreikninga.  En burt séð frá svona "tæknilegum" vandamálum (sem auðvelt verður að leysa og ég á ekki von á að nokkur verði að endingu rukkaður um meira en rétt er miðað við dóma Hæstaréttar), þá eru það þeir sem skulda fjármálafyrirtækinu pening, þó þeir hafi alla tíð greitt heimsenda greiðsluseðla.

Ég er með nokkur dæmi fyrir framan mig, þar sem fólk hefur lent í þessu.  Hvernig getur það verið að sá sem hefur alltaf staðið í skilum geti verið krafinn um upphæð umfram það viðkomandi hafi greitt?  Hvað þá að upphæði hlaupi á tugum, ef ekki hundruðum þúsunda?  Sjálfur hef ég reiknað, að greiðslur af húsnæðisláni sem ég tók hækki um allt að 300% fyrir þann tíma sem stóð í skilum, ef ég verð þvingaður til að færa lánið yfir í lán samkvæmt vöxtum Seðlabanka Íslands og hinn kosturinn er að borga af stökkbreyttum höfuðstóli. Ég get vel skilið að fjármálafyrirtækin taki þessu fagnandi.

Margt í frumvarpi ráðherra er til þess að greiða úr flækju og er það hið besta mál.  Að tengja öll lán við vexti Seðlabanka Íslands er Hér er stórslys í uppsiglingu og því verður að afstýra.  Vekja þarf viðskiptaráðherra af hinum rósrauða draumi sem hann er fastur í.  Ein leið er t.d. að ráða reiknifæran mann inn í ráðuneytið eða kaupa slíka vinna að.

Ég á sæti í "sérfræðinga hópi" forsætisráðuneytisins sem er að reikna út vanda lántaka.  Ég er hræddur um að leið ráðherra muni auka vanda heimilanna svo mikið, að vinna hópsins ónýtist við setningu laganna, fari þau á annað borð í gegn um þingið.  Vissulega er ýmislegt í frumvarpinu sem ætlað er að auka á skýrleika og tryggja samræmi, en það þýðir jafnframt að tryggja á að allir sitji í súpunni saman. Ég raunar geng svo langt að segja að þetta frumvarp (sem ég hef séð í drögum), ef það fer óbreytt í gegn, að það muni stefna mjög mörgum þeirra sem eru með svona húsnæðislán beint í gjaldþrot.

Sú staðhæfing að 50 milljarðar verði færðir frá bönkum til lántaka er með öllu órökstudd.  Verið getur að höfuðstóll lánanna lækki, en í staðinn standi eftir háar vangreiddar fjárhæðir sem munu líklegast bætast beint á höfuðstól nema fólk geti töfrað þessa upphæð upp úr tómum peningahatti.  Og þó svo að höfuðstóllinn lækki, þá skiptir það ekki miklu máli, ef greiðslubyrðin er sú sama.  Ég reikna með því að fólk velti ekki mikið fyrir sér hvort krónurnar sem greiðir fari í afborgun af höfuðstóli eða vexti.  Gjalddagagreiðsla sem byrjaði í 37.000 kr. og hefur hækkað í 53.000 kr. heldur áfram að vera 53.000 kr. eftir talnaleikfimi ráðherra og hverju er fólk þá bættar?  Síðan má fara út í vangaveltur um núvirðingu lánsins og fleiri þannig atriði.

Viðbót 27.3.2024: Í ljós áttir eftir að koma í apríl 2011, að ég hafði Árna Pál fyrir rangri sök. Hann var bara nytsamur sakleysingi sem fenginn var til að framkvæma myrkraverk Steingríms J. Sigfússonar. SJS hafði nefnilega lofað erlendum kröfuhöfum árið 2009 þeim málalyktum, sem Hæstiréttur komst að 16. september 2010 um vexti áður gengistryggðra lána og breytingunum á lögum 38/2001 sem fólust í hinum illræmdu Árna Páls-lögum. Hægri hönd Steingríms í samningunum við kröfuhafa sá nefnilega um að semja frumvarpið að Árna Páls-lögunum.