Búið að vara við þessari leið frá því í júlí 2009

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.12.2010.

Í störfum mínum fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég rekist á alls konar dæmi sem sýna það og sanna, að hin svo kallaða 110% leið bankanna er óréttlát.  Hún skilur hina sem varlega fóru eftir með tjón sitt, en þá sem tóku líklegast mestu áhættuna eftir í betri málum en þeir voru í fyrir sín íbúðarkaup. 

Nú er ekki svo að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki varðað við þessu fyrr.  Nei, það er öðru nær.  Þegar Nýja Kaupþing kynnti svona hugmynd fyrir stjórnarmönnum HH 24. júní 2009, þá sendu samtökin frá sér greinargerð um aðferðina.  Ég læt greinargerðina fylgja með þessari færslu svo fólk geti séð gagnrýni samtakanna í heild.  Helstu niðurstöður eru þó sem hér segir:

Almennt má gera ráð fyrir því að þeir sem áttu hlutfallslega lítið eigið fé til íbúðakaupa við lántöku séu flestir yngri lántakendur sem hafi verið að festa kaup á sinni fyrstu eign og eru jafnvel nýkomnir út á vinnumarkaðinn.  Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að fjölskyldur sem áttu meira eigið fé hafi verið búnar að vinna fyrir því á lengri tíma þar sem fyrirvinnur þeirra heimila hafi verið lengur á vinnumarkaði en fyrstu kaupendur. Tap þeirra (heimili A) vegna efnahagshrunsins er því í raun mun meira en fyrstu kaupenda (heimili B).  Þar sem þessi  lausn nýtist fyrst og fremst yngra fólki, sem við lántöku var með lítið eigið fé til íbúðakaupa og með verðtryggð lán en alls ekki þeim sem tóku gengistryggð lán, eða þeim sem áttu meira eigið fé við lántöku, má spyrja hvaða úrræði verða í boði fyrir þau heimili.  Ef þessi leið er ætluð til að skapa friðþægingu fyrir stjórnvöld til að gera ekki neitt varðandi leiðréttingu á lánum heimilanna, þá er að lokum mikilvægt að komi fram að þetta úrræði felur ekki í sér neina leiðréttingu, og enn síður afskrift,  og skapar jafnvel óásættanlegt ójafnræði milli lántakenda.

Hagsmunasamtök heimilin telja að þessi úrræði Nýja Kaupþing nýtist fyrst og fremst þeim sem tóku lán með háum upphaflegu lánshlutfalli (70-100%), hvort heldur verðtengd eða gengisbundin.  Fyrir þá eru þessi úrræði ásættanleg skammtímalausn uns í ljós kemur hvað gerist með biðlánin eftir 2-3 ár.  Samtökin geta ekki mælt með þessari lausn fyrir þá sem eru með gengisbundin og lægra upphaflegt lánshlutfall.  Þá sjá samtökin ekki að þetta úrræði nýtist mörgum með undir 70% lánshlutfall við lántöku og tóku verðtryggt lán.

(Með heimili A er átt við heimili með háu eiginfjárhlutfalli meðan heimili B átti nánast ekkert eigið fé.)

Í meðfylgjandi grein er miðað við að lán hafi verið færð niður í 80% af markaðsverði eignar, en upp á það hljóðaði upphaflega hugmynd Nýja Kaupþings.  Að þetta hlutfall sé 110% gerir ekkert annað en að skekkja myndina enn frekar.  Niðurstaðan er einfaldlega sú að verið er gera upptækan stóran hluta þess eiginfjár sem fólk lagði í fasteignir sínar.  Verst fer út úr þessu fólk sem er komið yfir fertugt og má segja að það lendi í stórfelldri eignaupptöku.  Get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort ekki sé verið að brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar á þessu fólki.

Það er staðreynd, að þau úrræði sem kynnt voru í dag sniðganga gjörsamlega vanda stórs hóps húsnæðiseigenda.  Þetta fólk keypti á þeim tíma, þegar ekki var hægt að fá 100% lán og geyma peningana sína annars staðar vegna þess að það gaf betri ávöxtun.  Nei, það varð að leggja fram 30 - 40% eigið fé við fasteignakaup.  Það fór heldur ekki í bankann til að skuldsetja húsnæðið sitt upp í topp, þegar peningarnir flutu út úr bönkunum.  Nú er verið að refsa því fyrir ráðdeildina.

Það er mjög ánægjulegt, að bankarnir ætli að staðfesta að sokkinn kostnaður er tapað fé, en ég er ekki svo viss um að öll yfirskuldsetning sé tapað fé.  Nú er fasteignaverð í lágmarki og því er skuldsetning sem hlutfall af íbúðaverð almennt mjög hátt.  Það á bæði við um þá sem skuldsettu sig hátt í upphafi og líka hina sem sýndu ráðdeild.  Þegar fasteignaverð hækkar aftur, þá mun eiginfjárhlutfall beggja hópa aukast.  Þrátt fyrir að báðir hópar hafi orðið fyrir viðlíka tjóni við hrun hagkerfisins, þá er það svo að annar hópurinn á að fá tjón sitt bætt, en hinn á að sitja uppi með það.  Ég tek það skýrt fram, að ég hef alltaf talað fyrir því að hækkun lánanna skipti meira máli en lækkun fasteignaverðs.  Raunar tel ég lækkun fasteignaverðs ekki skipta máli nema skuldsetning hamli fasteignaviðskipti.  Þess vegna hef ég alltaf talað fyrir því að almenn lækkun lána skipti meira máli, en að koma stöðu láni niður í eitthvað hlutfall af fasteignaverði.  Ég var vændur um að það væri vegna þess að það kæmi mér svo vel, en ástæðan er sú að mér finnst almenn lækkun lánanna hin réttláta niðurstaða.

Nú er sem sagt búið að ákveða að sniðganga vanda fólks á miðjum aldri, hvar sem það er í stétt.  Verkamaður á miðjum aldri er líklegast búinn að tapa stærri hluta af ævisparnaði sínum en háskólamenntaði maðurinn á sama aldri.   Það getur vel verið að greiðslugetan sé fyrir hendi, en tíu ár af afborgun lána hefur verið þurrkuð út, ef ekki meira.  Varla telst það sanngjarnt.  Eina sem bankarnir og stjórnvöld segja er:  Þeir skulu borga sem geta borgað!  Meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn hefur sótt mest fylgi sitt til þessa hóps, hann er glaður með niðurstöðuna.  Ástæðan er líklegast, að hann sér að ríkisstjórnin er að grafa sína eigin gröf og það styttist í að hrunverjar Sjálfstæðisflokksins eygja það að komast til valda á ný.  Ég sé ekki fyrir mér að fólk sem er búið að tapa milljóna tugum á efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi geð í að kjósa flokkinn aftur til valda.  Ég ofmet kannski pólitískt minni kjósenda og síðan má ekki gleyma að þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.

Ekki vil ég gera lítið úr þeim úrræðum sem kynnt voru í dag, en ég óttast að þau hafi skilið mjög margar fjölskyldur frammi fyrir ókleifum hamrinum.  Þessi úrræði er a.m.k. ekki þau tækifæri til þjóðarsáttar sem stjórnvöld og bankarnir gátu gripið.


Frétt mbl.is: Hinir ráðdeildarsömu tapa

Skrár tengdar þessari bloggfærslu: