Dómur héraðsdóms mun fjölga gjaldþrotum einstaklinga og auka á óstöðugleika í hagkerfinu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.7.2010.

Ég hef verið að skoða hver áhrif dóms héraðsdóms er á ímyndað lán fyrstu 4 ár lánstímans miðað við að lánið hafi verið tekið í júlí 2006.  Niðurstaðan kemur mér verulega á óvart.  Lánið sem ég skoða er 20 m.kr. myntkarfa jen og svissneskir frankar.  Lántaki er búinn að vera í skilum allan lánstímann og mun vera það áfram.  Ég reikna með að krónan hafi styrkst um 20% frá lántökudegi fram á mitt ár 2007, hafi verið um 15% veikari frá miðju ári 2007 fram á mitt ár 2008 miðað við lántökudag, 120% næsta árið þar á eftir og 80% frá miðju ári í fyrra fram á mitt á í ár.  Hafa skal í huga að gengið var veikt í júlí 2006, gvt = 133, JPY = 0,66 og CHF= 61,8.  Notað er meðaltal vaxta Seðlabankans á hverju tímabili, sem var 15,85% fyrsta tímabilið, 16,94% annað, 17,40% það þriðja og 9,1% síðasta árið.  LIBOR vextir á þessum tíma með vaxtaálagi er reiknaðir 3,5%, sem er heldur yfir meðaltali tímabilsins.  (Tekið skal fram að sé lánið tekið ári fyrr eða síðar, þá fæst aðeins önnur mynd 

Niðurstaðan af þessu er að sá sem greiddi af gengistryggðu láni er búinn að greiða 9,6 m.kr. meðan að hann hefði átt að greiða 14,8 m.kr. ef lánið hefði borið vexti Seðlabankans allan tímann.  Munurinn er 5,2 m.kr. eða 54% af 9,6 m.kr.  Hvernig getur það staðist neytendarétt, að lántaki eigi að greiða 54% meira en hefur gert vegna þess að dómarinn metur að lánveitandi hafi liðið forsendubrest?  Það getur vel verið að yfir lánstímann þá geti þetta hugsanlega jafnast út.  Málið er að það er ekki vitað.  Dómarinn getur ekki leyft sér að geta til um framtíðina.  Hann getur eingöngu notað raunverulegar tölur.

Hér eru útreikningarnir sýndir:


Dómur héraðsdóms

 

Höfuðstól Seðlabanka

til vaxtaútr. vextir Greiðsla

19,5 15,85% 4,1

18,5 16,94% 4,1

17,5 17,40% 4,0

16,5 9,10% 2,5

Samtala fyrstu 4 árin 14,8

15,5 8,00% 2,2

14,5 7,50% 2,1

13,5 7,00% 1,9

12,5 6,50% 1,8

11,5 6,00% 1,7

10,5 6,00% 1,6

9,5 6,00% 1,6

   27,7


(Gert er ráð fyrir 8% styrkingu krónunnar á ári næstu 6 árin.  Ef hún er 5%, þá er samtalan 26,3 m.kr.)

Berum þetta síðan við greiðsluáætlun.  Hún hljómar upp á enga breytingu á gengi og niðurstaða hennar fyrir fyrstu 4 árin er 6,5 m.kr. eða 8,3 m.kr. (127%) frá niðurstöðu héraðsdóms og 3,1 m.kr. (47%) frá því sem viðkomandi greiddi miðað við gengistryggingu.

Það vill svo til að margir lántakar eru með lán sem eru svipuð þessu dæmi sem ég tek.  Upphæðir og dagsetningar ekki þær sömu.  Ég verð að viðurkenna, að 54% hækkun á greiðslu ofan á það sem lántakinn á að vera búinn að greiða og 127% ofan á greiðsluáætlun (það sem lántakinn miðaði við að greiða) er nokkuð sem fáir ráða við.  Ef lántakinn verður krafinn um þessa upphæð, þá á hann ekki margra kosta völ.  Einn er að lýsa sig gjaldþrota.  Það getur vel verið að eftir 10 ár, þá verði lántakinn kominn í plús, en það er honum líklegast lítil huggun harmi gegn.  Nei, héraðsdómur ákvað í gær (miðað við að dómurinn sé fordæmisgefandi fyrir svona lán sem ég tek dæmi um), að lántakinn eigi eftir að greiða 54% ofan á það sem hann hefur þegar greitt.  Ég verð að viðurkenna, að þetta gengur ekki upp í mínum huga.

Það er kannski ekki sanngjarnt í augum sumra að lántaki eigi inni hjá lánveitandanum mismuninn á því sem hann hefur greitt og upphæð greiðsluáætlunarinnar, en það margfalt sanngjarnara, en að lántaki eigi að greiða 54% til viðbótar við það sem þegar hefur verið greitt.

Hvernig sem á það er litið, þá er það arfavitlaus krafa að ætlast til þess að húseigandi greiði allt að 21% vexti af húsnæðisláni til 20 ára.  (Það er jafnvitlaus krafa að hann greiði 18,6% verðbætur ofan á lán.)  Að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu, að með þessu væri verið að bæta lánveitanda forsendubrest, er síðan gjörsamlega óskiljanlegt.  Hvernig er hægt að bæta einhverju forsendubrest með því að láta hann fá 267%% hærri greiðslu en nemur forsendubrestinum?  (267% = (14,8-6,5)/(9,6-6,5) = 8,3/3,1)  Ég skil ekki slíkan rökstuðning. 

Og hvað með forsendubrest lántakans.  Þegar hann tók lánið reiknaði hann með að greiða (miðað við sýnidæmið mitt) 6,5 m.kr. plús í mesta lagi 1 m.kr. (það er 15% hækkun höfuðstóls).  Allt umfram það, þ.e. 2,1 m.kr., er forsendubrestur. Gangi dómur héraðsdóms eftir, þá bætast 5,2 m.kr. ofan á þennan forsendubrest og hann verður samtals 7,3 m.kr. eða nærri jafn há tala og lántaki reiknaði með að verða krafinn um í versta falli.  Dómarinn blæs ekki bara á forsendubrest lántakans heldur ákveður að margfalda hann.  Því fæ ég ekki séð að þetta standist 36. gr. laga nr. 7/1936.