Ef bankakerfið hefði fallið fyrr..

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.9.2010.

Þetta er áhugavert atriði sem Margrét Tryggvadóttir bendir á í ræðu sinni.  Hvað ef bankakerfið hefði fengið að falla fyrr, hverju ætli það hefði breytt?

Allt bendir til þess, að bankakerfinu hafi verið orð ógreiðsluhæft um páskaleyti 2008.  Búið var að tæma alla sjóði og ganga á allar þrautavaraleiðir.  Þetta vissu Geir og Ingibjörg, Árni og hugsanlega Björgvin.  Þetta vissu líka Davíð, Ingimundur og Eiríkur í Seðlabankanum, Jónas hjá Fjármálaeftirlitinu, líklegast allir bankastjórar, bankastjórnir og eigendur stóru bankanna og fjölmargir embættismenn, starfsmenn og ráðgjafar bankanna.  Raunar vissu margir þessara aðila haustið 2007 í hvert stefndi.  Þess vegna ákvað hluti eigenda Kaupþings að taka mjög virka og grófa stöðu gegn krónunni.  Það var álit þessara manna að bönkunum yrði ekki bjargað eftir venjulegum leiðum vegna lausafjárkreppunnar í heiminum og að krónan myndi ekki standast það áhlaup sem færi í gang.  Í staðinn fyrir að stíga fram og viðurkenna þessar staðreyndir, þá var farið í umfangsmiklar björgunaraðgerðir, en á endanum var öllum þeim peningum sem í þær fóru kastað á glæ.

Ég hef bara þá mynd af þessu sem birst hefur í fjölmiðlum:

1.  Bankarnir notuðu krókaleiðir til að fá þrautavaralán hjá Seðlabanka Íslands með útgáfu "ástarbréfa" sem nytsamir sakleysingjar keyptu og notuðu sem tryggingar í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands.  Þetta kostaði Seðlabanka Íslands 345 milljarðar og setti Sparisjóðabankann (Icebank), VBS og einhverja sparisjóði í raun á hausinn.  Bankarnir fóru líka krókaleiðir til að fá lán hjá Seðlabanka Evrópu, beittu við það blekkingum sem skaðaði orðspor þjóðarinnar og gerði það að verkum að Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Bandaríkjanna ákváðu að sniðganga íslenska seðlabankann í gjaldeyrisvörnum.

2.  Seðlabankinn ákvað að létta á bindiskyldu bankanna í mars 2008.  Það hefðu átt að vera nógu skýr skilaboð til stjórnvalda, að staða bankanna var orðin þess leg að eingöngu mjög umfangsmiklar aðgerðir gætu bjargað þeim.  Með því að létta bindiskyldunni var bönkunum veittur aðgangur að nokkurs konar varasjóði.  Þessu hefði átt að fylgja mun meira eftirlit með starfsemi bankanna og raunar gefa tilefni til að taka þá í hálfgerða gjörgæslu.  Hún hefði ekki þurft að vera áberandi á yfirborðinu, fyrst það var það sem menn hræddust svo svakalega, en þessi aðgerð að létta bindiskyldunni var ein skýrasta vísbendingin um alvarlega stöðu bankanna.  Bankarnir voru orðnir þurrausnir af lausafé, voru greinilega búnir að tæma alla möguleika á auknu lánsfé frá Seðlabankanum og því var ekki um annað að ræða en að greiða út trygginguna, ef svo má að orði komast.  Höfum í huga að bindiskyldan er hugsuð til að verja hagsmuni viðskiptavina bankanna.

3.  Icesave reikningar voru opnaðir í Hollandi og tókst Landsbankanum með því í reynd að svíkja út úr hollenskum sparifjáreigendum og hollenska ríkinu hátt í 1,2 milljarða evra.  Haldið var áfram að safna innstæðum á Icesave í Bretlandi, þrátt fyrir að Landsbankamönnum mátti vera ljóst að bankinn væri tækilega gjaldþrota.  Hann átti ekki fyrir skuldum sínum og hefði því á vormánuðum 2008 átt að kalla til Fjármálaeftirlitið.  Breska fjármálaeftirlitið var mjög meðvirkt í þessu tilfelli, þar sem menn þar á bæ vissu af afleitri stöðu bankans, en ákváðu að treysta orðum íslenskra ráðamanna eða vonuðust til þess að úr rættist.

4.  Gengisvísitalan stóð í um 160 fyrir páska 2008.  Ef bankarnir hefðu fengið að falla þá, eru talsverðar líkur á að hún hefði veikust orðið í kringum 210 og stæði núna í 170.  Þetta eitt og sér hefur aukið skuldavanda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga mjög mikið.  Flestir hefðu ráðið við gengisvísitölu á bilinu 180 - 190, eins og hún hefði líklegast legið í mestan tímann.

5.  Ekki er víst að allir íslensku bankarnir hefðu fallið, en Landsbankinn og Kaupþing stóðu greinilega mjög illa og Glitnir átti ekki fyrir afborgunum lána 12 mánuði fram í tímann.  En blekkingarvefurinn sem settur var í gang með ástarbréf, hlutabréfasvikamyllur, innlánasöfnun og fleira í þeim dúr án þess að 1 króna kæmi frá eigendum til að styrkja við rekstur bankanna segir allt sem segja þarf.  Bankarnir voru í reynd gjaldþrota í lok mars 2008.

6.  Hægt hefði verið að snúa sér til alþjóðasamfélagsins fyrr og hugsanlega lina áfallið, en líklegast hefði skellurinn verið óumflýjanlegur.

Ég gæti haldið áfram í nokkurn tíma og t.d. rætt um svindl með hlutabréf, blekkingar í kringum gjaldeyrisskiptasamninga og jöklabréf, svikamyllu skúffufyrirtækja, flutning fjármagns til skattaskjóla, lyga stjórnenda bankanna og ráðamanna á Íslandi, en ætla að láta það vera.

Málið er að það var alveg vitað innan stjórnsýslunnar í febrúar 2008 að íslensku bankarnir mynda falla í síðasta lagi í októberbyrjun sama ár.  Þetta vita Íslendingar sem voru á Kanaríeyjum með kjaftaglöðum lögfræðingi innan úr bankakerfinu í febrúar 2008.  Hann fullyrti í vitna viðurvist að íslenska bankakerfið myndi hrynja í fyrstu viku október þá um haustið.  Raunar voru menn svo vissir um þetta að sagan segir að búið hafi verið að skrifa uppkast af neyðarlögum í júní eða júlí og hjá Reiknistofu bankanna var prufukeyrð hjá fyrirtækinu viðbúnaðaráætlun þar sem líkt var eftir hruni eins banka sömu helgi og Lehman Brothers féll.  Ég er alveg viss um að innsti kjarni ríkisstjórnar Íslands á þeim tíma vissi af þessari stöðu.  Ég skil vel að menn hafi reynt að halda andlitinu út á við.  Ég skil vel að þessu hafi verið haldið eins mikið leyndu og kostur var.  Ég vil aftur benda á, að erlendir stjórnmálamenn og háttsettir bankamenn reyndu ítrekað að fá íslensk stjórnvöld og Seðlabankann til að grípa inn í atburðarásina, en menn létu sér ekki segjast.  Vissulega hafði margt verið gert eftir krísuna 2006, en stjórnvöld virtust ekkert hafa lært nóg af því og svo voru ráðherrar Samfylkingarinnar greinilega svo ánægðir með stólana sína að þeir gerðu ekkert sem gat orðið til þess að þeir misstu sætið sitt. 

Kannski sigldu menn ekki sofandi að feigðarósi.  Líklegast gerðu menn það með galopin augu og vissu í hvað stefndi og gerðu fjölmargt sem a.m.k. menn vonuðu að myndi afstýra stórslysi.  Ég hreinlega trúi ekki öðru.  Ég efast ekki um að margt var gert til að afstýra þessu áfalli, en kostnaðurinn við björgunina hefur því miður reynst mjög dýrkeyptur.  Er ég þeirrar skoðunar eða vil að minnsta kosti trúa því að einhverjir aðilar innan stjórnsýslunnar hafi reynt sitt besta til að afstýra því sem varð, en annað hvort ekki haft getu, þor eða kjark til að taka nauðsynleg skref, sem m.a. fólust í því að taka fyrr fram fyrir hendurnar á, að því virðist, gjörsamlega vanhæfum stjórnendum bankanna.

Ég er sannfærður um að höggið hefði orðið minna fyrir íslenskt þjóðfélag, ef bankarnir hefðu verið settir í gjörgæslu Fjármálaeftirlitsins strax vorið 2008 á þeim tímapunkti þar sem þeir voru tæknilega gjaldþrota.  Í því felast líklegast stærstu mistök og um leið afglöp stjórnsýslunnar og stjórnenda bankanna.  Sagan segir okkur, að stjórnendur og eigendur bankanna voru búnir að missa stjórn á atburðarásinni seint í febrúar 2008.  Frá þeim tímapunkti voru menn í slæmri afneitun og á kafi í meðvirkni.  Menn sem nota óþverrabrögð og jafnvel lögbrot til að komast yfir meiri pening til að halda fyrirtæki sínu á floti, eru í engu frábrugðnir fíklinum sem gerir hvað sem er fyrir næsta skammt.  Ég segi óþverrabrögð og jafnvel lögbrot og vísa þá til hvernig nytsamir sakleysingjar voru fengnir til að leppa lán hjá Seðlabankanum (sem er alveg örugglega lögbrot), notuðu útibú sín í útlöndum til að ná til sín lánum frá erlendum seðlabönkum sem bankarnir áttu ekki rétt á, söfnuðu innlánum í Evrópu vitandi að bankinn gæti ekki greitt þau til baka, þvinguðu starfsfólk til að hringja í gamlamenni til að fá þau til að færa ævisparnaðinn í botnlausa hít skuldabréfasjóða, bjóðandi öllum sem báðu um lán gengistryggð lán vitandi að krónan var orðin innistæðulaus, sendandi út greiningar og spár um styrka stöðu efnahagslífsins, þegar allt benti til annars, og svona gæti ég haldið endalaust áfram.

Já, bara að bankarnir hefðu hrunið fyrr, þá værum við mun betur sett í dag.

Viðbót 27.3.2024: Ég átti seinna eftir að komast það því, að bankakerfið hafi verið orðið svo laskað að því hefði líklega ekki verið bjargað í síðasta lagi síðsumars 2007. Sé fjármögnun þeirra skoðun, þá þurfi að fara aftur til ársins 2006. Og sé viðskiptalíkan þeirra skoðað, þá megi fara aftur til ársins 2005. Vissulega hefðu menn getað gert ýmislegt í millitíðinni, en þar sem það var ekki gert, þá er grunnurinn að falli þeirra viðskiptalíkan sem notað var minnst þrjú ár fyrir fall þeirra.