Ekkert einsdæmi - Ársreikningar byggja mikið á mati en ekki hreinum staðreyndum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.12.2010.

Ég er sannfærður um að séu ársreikningar allra stærstu fyrirtækja landsins skoðaðir á sama hátt í baksýnisspegli og bankanna þriggja, þá kæmi önnur niðurstaða en birtist í reikningunum.  Sama á við um fyrirtæki út um allan heim.

Eftirfarandi fyrirtæki hafa öll komist að því, með góðu eða illu, að ársreikningar þeirra gáfu ekki rétta mynd af rekstrinum:

  • UBS

  • Bear Stearns

  • GM

  • Ford

  • Lehman Brothers

  • HBOS

  • RBS

  • AIG

  • Glitnir

  • Landsbankinn

  • Kaupþing

  • Enron

  • WorldCom

  • Tyco

  • Computer Associates

  • Global Crossing

  • ImClone Systems Incorporated

  • Parmalat

  • Cirio

Ég gæti haldið svona áfram endalaust, en læt þetta duga.  Mörg þeirra hreinlega fölsuðu bókhald sitt, eins og sannast hefur á Enron, WorldCom og Parmalat, meðan önnur fegruðu það verulega, misfærðu, túlkuðu vafaatriði þannig að ekkert væri að óttast eða greindu ekki frá atriðum sem hefðu orðið til þess að fjárfestar og hlutafjáreigendur hefðu flúið fyrirtækin eins og heitan eldinn.  Síðan má ekki gleyma afneitun, hóphugsun og meðvirkni.  Allt var þetta gert til að verja stöðu stjórnenda fyrirtækjanna og oft aðaleigenda.  Það er sorglegt til þess að hugsa, að hagsmunir einstaklinga ráði ferð, en ekki hagsmunir fyrirtækjanna.  Halda menn virkilega að svindlið komist ekki upp að lokum?

Mikilvægast í starfsemi hvers fyrirtækis er að tryggja samfeldni rekstrarins.  Margir myndu halda að hagnaður skipti öllu máli, en svo er ekki.  Hagnaður eins árs skiptir engu máli, ef fyrirtækið lifir ekki næsta ár af.  Betra er fyrir fyrirtæki að viðurkenna það sem er að í rekstrinum, sýna tap og bæta úr því sem afvega fór, en að spinna blekkingarvefi.  Málið er að það er betra fyrir stjórnendur fyrirtækjanna að afkoman sé góð.  Þeir fá yfirleitt afkomutengd laun þannig að það er mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækjanna, að ársreikningarnir sýni eins jákvæða niðurstöðu og hægt er.  Hefur einhver heyrt af stjórnanda sem hefur þurft að skila bónus byggðum á fölskum forsendum?  Meira að segja forstjórar sem hafa verið reknir frá fyrirtækjum eftir að svikamyllan hefur komist upp, hafa gengið út með himinháar starfslokagreiðslur.

Hlutverk endurskoðenda er ekki öfundsvert.  Þeim er ætlað að koma inn og fara yfir bókhald sem er oftar en ekki yfirfullt af alls konar einkennilegum færslum.  Margar eru alveg 100% réttar samkvæmt lögum og reglum, en væru ekki jafnflóknar og þær eru, ef ekki væri að eitthvað væri bogið við þær.  Í öðrum tilfellum, og það er algengast, byggja færslurnar á túlkun eða mati á aðstæðum.  Hvenær eru birgðir ofmetna?  Hvernig er best að meta virði hlutafjár?  Hefur verið fært nægilega mikið á afskriftarreikning lána, er varúðarfærslan of lág?  Erfitt er fyrir endurskoðanda að segja að eitthvað sé hreint út sagt rangt, en mikilvægt er að hann hafi kjark til að andmæla staðhæfingum sem eru í besta falli vafasamar.  Svo eru það náttúrulega tilfellin, þar sem endurskoðandann brestur kjarkur til að gera athugasemd eða tekur hreinlega þátt í vitleysunni.  Hvaða hlutverki endurskoðendur PwC gegndu ætla ég ekki að kveða úr um, en þetta lítur ekki vel út.

Enron og WorldCom voru tvö fyrirtæki, sem fölsuðu bókhald sitt með aðstoð endurskoðenda sinna.  Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á svikin, þá hefur ótrúlega lítið gerst.  Athur Andersen, eitt stærsta endurskoðunarfyrirtæki í heimi á sínum tíma, fór vissulega á hausinn, en nánast enginn af starfsmönnum fyrirtækisins fékk mikið meira en skömm í hattinn.  Starfsmennirnir sem tóku þátt í rangfærslu bókhalds og fölsun ársreikninga sluppu nánast allir eða fengu í mesta lagi mjög væga dóma.  Líklegast eru allir komnir í gott starf hjá einhverju öðru endurskoðunarfyrirtæki, þó einhverjir hafi vissulega misst starfsleyfi sitt.  Þeir sem fengu þyngstu dómana, voru þeir sem sáu um að tæta bókhaldsgögnin.  Bernie Maddox fékk 150 ára fangelsi fyrir fjársvik, en forráðamenn Enron, WorldCom og Athur Andersen náðu ekki einu sinni þeim árafjölda samanlagt.

Líklegast stefnir í svipað hér á landi.  Einstaklingur í litlu fyrirtæki, sem er í persónulegum ábyrgðum fyrir rekstur sinn er að fá himinháar sektir og fangelsisdóm fyrir að skila ekki vörslusköttum á réttum tíma, en ég efast um að mennirnir sem settur hagkerfið á hliðina geri annað en að tapa hluta af vafasömum og innistæðulausum tekjum sínum.  Lögmaður var um daginn að furða sig á því að ganga ætti að fyrrverandi bankastjóra.  Það hefði ekkert annað upp á sig en að bankastjórinn fyrrverandi yrði gjaldþrota.  Samkvæmt þessu má ekki snerta við yfirstéttinni, þar sem það er óréttlátt að meðlimir hennar verði gjaldþrota!

Færsla bókhalds og gerð ársreikninga á að vera mjög einfalt ferli.  Þegar ég lærði bókfærslu fyrst í 9. bekk og síðan í HÍ, þá var notast við dagbækur með mörgum settum af debet og kredit dálkum.  Á þeim árum tók mörg ár að búa til ársreikninga og nánast ómögulegt var að sannreyna nokkurn skapaðan hlut.  Með nútíma bókhaldskerfum, þá vita stjórnendur stöðu fyrirtækja sinna um leið og skjal hefur verið skráð í tölvuna.  Þeir vita því líka hverju þarf að breyta svo niðurstaðan verði hagstæð.  Flestir leika sér líklegast með tölurnar sem enginn getur sagt til hvort eru réttar eða rangar, þ.e. verðmæti eigna, afskriftir eða varúðarfærslur vegna lána/útistandandi skulda, birgðir og viðskiptavild.  Með því að fikta í þessum liðum er hægt að láta hagnað hverfa eða fara upp úr þakinu.  Ef marka má skýrslur norsku og frönsku endurskoðendanna, þá voru þessir liðir einmitt stilltir þannig af, að hagnaður yrði sem mestur.  Afskriftir Glitnis og Landsbanka voru langt fyrir neðan öll viðmið, verðmati eigna var haldið háu, bankarnir héldu verði hlutabréfa sinna uppi og áhættur vegna útlána voru hreinlega falsaðar.  Og hverju skilaði þetta?  Hagkerfið hrundi og Ísland er tæknilega gjaldþrota.

Til að botna þetta má að lokum spyrja:  Spiluðu endurskoðendur með eða var spilað með þá?