Gengur þvert á fyrri dóma - Hagsmunir neytenda fyrir borð bornir

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.7.2010.

Eftir að hafa skoðað dóma héraðsdóms, þá er ekki hægt annað en að verða fyrir vonbrigðum.  Er það virkilega niðurstaða dómara, að lántaki hafi ætlað að gangast undir allt að 21% vexti á ári af 5 m.kr. láni?  Það gerir rúmlega 1 m.kr. í vexti.  Ég segi bara:  Guð hjálpi þeim sem eru með húsnæðislán, ef réttlæti Arnfríðar Einarsdóttur mun ganga yfir húsnæðislántaka.

Óhætt er að segja að stjórnvöld, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hafi fengið það sem þau óskuðu eftir.  Lántakar eiga að bjarga fjármálafyrirtækjunum frá sínu klúðri.  Er það sorgleg niðurstaða, svo ekki sé meira sagt.  Lántakar eiga að taka á sig alla áhættu í viðskiptum, en fjármálafyrirtækin mega pissa í alla skóna sína og bíða engan skaða af.

Dómaranum er tíðrætt um hvað fjármálafyrirtækið hafi boðið upp á, en nefnir ekki einu orði kostina sem lántaki stóð frammi fyrir.  Ég veit ekki um marga sem hefðu tekið óverðtryggt lán nóvember 2007 með 16,65% vöxtum.  Það sér það hver heilvita maður að slíkt lán hefði ekki verið tekið.  Af hverju horfir dómarinn framhjá þessum möguleika.  16,65% af 5 m.kr. er 832.500 kr.  Segjum að lánið sé til fimm ára, þá væri vaxtabyrði af slíku láni 749 þ.kr. fyrsta árið, 583 þ.kr. annað árið, 416 þ.kr. þriðja árið, 250 þ.kr. fjórða árið og 83 þ.kr. síðasta árið, alls tæplega 2,1 m.kr.  Ég er ekki viss um að bílasala hefði verið mikil með slíka vexti.

Lántakar stóðu nefnilega frammi fyrir þeim kosti að taka ekki lán.  Er ég nokkuð viss um að margir hefðu valið þann kost umfram það að taka lán með 16,65% vöxtum.  Það er bara út í hött og það er furðulegur rökstuðningur hjá dómaranum að líta framhjá þessum möguleika.

Stærstu vonbrigðin með þennan dóm, er að dómarinn lítur ekki til þeirra fordæma sem áður hafa verið sett.  Áslaug Björgvinsdóttir, þá settur héraðsdómari, og Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, komust bæði að því að samningar skyldu standa að öðru leiti en sem nam gengistryggingarákvæðinu.  Hæstiréttur fellir burt gengistryggingarákvæðið en gerir ekki athugasemdir við aðra liði samninganna.  Arnfríður tekur upp hanskann fyrir lánveitandann og segir að forsendur hans fyrir lánasamningnum hafi brostið.  Er þetta ekki dæmigert?  Hún réttir hlut lánveitandans og býr til nýja forsendubrest.  Lántaki reiknaði hvorki með að borga allt að 20,9% vexti af láninu sínu né að krónan félli til botns eins og steinn.  Hvers vegna á lántakinn að sitja uppi með forsendubrest en ekki fjármálafyrirtækið?

Vissulega voru dómaranum ekki margar leiðir færar fyrst hún hafði á annað borð ákveðið að fallast á rök Lýsingar fyrir forsendubresti.  Það hefði þó verið áhugavert að sjá til hvaða lagabókstafs hún sækir þá heimild.  Í hvaða lögum segir að lántaki megi ekki hagnast á því að lánveitandinn hafi brotið lög?  Það væri fróðlegt að vita um þau lög og þá lagagrein.  Það er nefnilega þannig að sá hluti málflutnings stefnda, sem birtur er í dómsorðum er allur morandi í lagatilvísunum, en í málflutningi stefnanda er eingöngu vísað í 4. og 10. gr. laga nr. 38/2001, en svo merkilegt sem það er, þá á hvorug greinin við þann samning sem dæmt var um.

Þó dómur héraðsdóms virðist vera vandaður og góður við fyrstu sýn, þá stenst hann illa skoðun.  Dómarinn slær um sig með neytendavernd eftir að hún er búin að svipta lántakann helstu neytendaverndinni og eftir standa fimm slæmir kostir.  Hvaða neytendavernd fellst í því að bæta lánveitanda forsendubrest sem hann sjálfur ber ábyrgð á?  Það var lánveitandi sem braut lögin með því að bjóða ólögleg kjör.   Þetta má hugsanlega skrifa á lögmann stefnda, sem bauð ekki upp á nægilega margar varakröfur.  Herfræði lögmanns Lýsingar gekk upp, en hún fólst í því að koma með nokkrar öfgakenndar varakröfur, þannig að sú sem varð ofan á virtist hófsöm, þó í reynd sé hún óaðgengileg fyrir lántaka.

Niðurstaða héraðsdóms er nákvæmlega það sem ég bjóst við, þó ég hafi vonast til annars.  Líkt og í bílalánamálinu sem tapaðist í desember, þá gæti ég sætt mig við niðurstöðuna, ef rökstuðningurinn væri traustur og byggður á lögum.  Hvorugt átti við þá og hvorugt á við núna.  Þess vegna mun ég bíða rólegur eftir niðurstöðu Hæstaréttar, þó ég ætli ekki að gefa mér hver hún verður.  Fyrir Hæstarétti gefst lögmanni stefnda kost á að koma með fleiri varakröfur og skora ég á hann að undirbúa þær af kostgæfni.