Hagfræðingur sendir Hagsmunasamtökum heimilanna tóninn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.10.2010.

Þórólfur Matthíassyni, hagfræðingi, virðist eitthvað uppsigað við Hagsmunasamtök heimilanna.  Honum er rauna svo uppsiga við þau, að hann reynir að hefja sig yfir þau og tala niður til okkar sem höfum lagt allar okkar frístundir og fórnað talsvert af vinnutíma okkar til að vinna í sjálfboðavinnu fyrir bættum hag heimilanna.  Í pistli í Fréttablaðinu fer hann mikinn.  Hann byrjar pistilinn á eftirfarandi orðum:

Stjórn samtaka sem kenna sig við hagsmuni heimilanna hefur tekið sér umboð til að krefjast flatrar niðurfærslu húsnæðislánanna.

Um þetta má segja tvennt.  Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna.  Við höfum fullan rétt á að nota þetta heiti og þurfum ekki að fá leyfi eins eða neins til þeirrar nafngiftar.  Annað er að við tókum okkur ekkert umboð.  Stjórnin er kjörin af félagsmönnum á löglega boðuðum aðalfundi.  Samtökin eru öllum opin.  Tillagan var borin upp á aðalfundi og þar var stjórn veitt heimild til að ljúka útfærslu hennar og koma á framfæri.

Næst segir hagfræðiprófessorinn:

Tvennt er við framgöngu þessara talsmanna heimilanna að athuga. Í fyrsta lagi myndi sú aðgerð sem þeir leggja til duga þeim skammt sem eru í mestum vanda. Því fólki verður að mæta með sértækum úrræðum, afskriftum lána eða öðrum róttækum lausnum hvað svo sem líður almennri niðurfærslu lána.

Greinilegt er að prófessorinn bregst frumskyldu sinni sem fræðimanns.  Hann kynnir sér ekki það mál sem hann er að fjalla um.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir því í mjög langan tíma að farið verði út í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna, svo ekki þurfi eins margir að leita í þau sértæku úrræði sem eru í boði. Er til of mikils ætlast af manni sem situr sem sérfræðingur í nefnd sem hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, að hann viti hvað er að gerast í þjóðfélaginu í kringum sig.  Ef prófessorinn hefði haft fyrir því að skoða málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna, þá vissi hann að samtökin hafa í heilt ár sagt að úrræði sem hingað til hafi verið innleidd dugi ekki, þar sem of mörgum verði með þeim beint í gegn um þau úrræði sem hann hefur í nefndarvinnu sinni haft það hlutverk að hafa eftirlit með.  Ég veit ekki betur, en að það hafi verið ein helsta niðurstaða nýútkominnar skýrslu eftirlitsnefndarinnar að of hægt gengi að vinna úr málum fólks og eingöngu 128 einstaklingar hafi komist í gegn um nálarauga fjármálafyrirtækjanna.

Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega, að það sé þjóðfélaginu til góða að stórir hópar hafi verulegar skertar tekjur til ráðstöfunar eftir að búið er að greiða af skuldum?  Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega að gæði lánasafna fjármálafyrirtækja séu  það mikil að þau muni lifa á því innheimtuhlutfalli sem þau búa við?  Í nýjustu skýrslu AGS segir að innheimtuhlutfallið sé 35% af kröfuupphæð.

Áfram heldur hagfræðiprófessorinn:

Í öðru lagi eru meiri líkur en minni á að aðgerðin skaði efnahagsreikninga heimilanna. Hafa ber í huga að efnahagsreikningur heimilis er mun óræðari stærð en efnahagsreikningur fyrirtækis. 

Og þessu til skýringar segir hann: 

Sú aðgerð sem hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna hafa farið fram á felur í sér lækkun á skuldum heimilanna. Afleiðing niðurfærslunnar kæmi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum. Jafnframt myndi staða Íbúðalánasjóðs versna og ríkissjóður yrði að leggja honum til aukið fjármagn. 

(Yfirlæti prófessorsins gagnvart þeim sem vilja ekki viðurkenna forsendubrestinn sem varð nær ákveðnum toppi, þegar hann segir  "hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna". Ætli manninum líði betur við það að gera lítið úr markmiðum og heiti samtakanna?)

Hér klikkar prófessorinn aftur í grundvallarreglum fræðisamfélagsins.  Hann kastar fram kenningu um að afleiðingin af niðurfærslunni komi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna, en sannar hana ekki.  Mig langar að afsanna hana:

1)  Ef gæði lánasafna Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verða meiri eftir þá aðgerð sem Hagsmunasamtök heimilanna leggja til, hvernig getur hún leitt til lækkunar á eignum lífeyrissjóðanna.  Samkvæmt upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða, þá eru um 10% sjóðfélaga lána í vanskilum eða frystingu.  Gefum okkur að þessi tala skiptist jafnt á milli.  Næst skulum við skoða hvernig lánþegar fóru að því að halda hinum 90% í skilum.  Ein leið var að draga úr neyslu, önnur að greiða ekki af lánum annars staðar og sú þriðja að taka út séreignarlífeyrissparnað.  Séreignarsparnaðurinn gaf fólki tekjur upp á 42 milljarða, þar af runnu um 24 milljarðar til þeirra sem tóku út og afgangurinn til ríkis og sveitarfélaga.  Nú veit ég ekki hve stór hluti af þessum 24 milljörðum fóru í að greiða af lífeyrissjóðslánum eða lánum Íbúðalánasjóðs, en gefum okkur að það hafi verið helmingurinn í sömu hlutföllum og upphæð lánanna eru, þ.e. 25% í lán lífeyrissjóðanna og 75% í lán Íbúðalánasjóðs.  Það þýðir að 3 milljarðar af séreignarlífeyrissparnaði hafa runnið aftur til lífeyrissjóðanna í formi afborgana lána.  Miðað við eðlilega greiðslubyrði lána, þá nemur þetta líklegast um 29% af afborgunum ársins (lánin eru 175 milljarðar og 90% í skilum. Greiðslubyrðin er á að giska 5.500 kr. á hverja milljón á mánuði eða alls 10,4 milljarðar á ári og 29% af þeirri tölu gera 3 milljarða og 14 milljónir).  Mér sýnist því að láti lántakar lán lífeyrissjóðanna sitja á hakanum á næsta ári sem nemur þessu hlutfalli, þá verði langleiðina 40% af lánum lífeyrissjóðanna annað hvort í frystingu eða vanskilum.  Vissulega eiga lífeyrissjóðirnir veð að baki lánunum, en þar sem sjóðirnir eru oft síðari veðhafar, þá mun lækkun fasteignaverðs fyrst bitna á veðum lífeyrissjóðanna.  Eignir þeirra í formi sjóðfélagalána munu því rýrna mjög hratt.  40% af 175 milljörðum eru 70 milljarðar.  Það er dágóð summa.  Hvað ætli tap á 70 milljörðum muni leiða til mikillar skerðingar á lífeyri?  Rétt tæp 4%. 

2) Störfum mun fækka, þannig að færri greiða í lífeyrissjóði.  Atvinnulaus einstaklingur greiðir vissulega í lífeyrissjóð, en það gerir ekki sá sem er utan vinnumarkaðar.  Færri einstaklingar standa því undir uppbyggingu sjóðanna, sem þýðir að styttra verður í að sjóðirnir þurfa að ganga á eignir sínar til að greiða út lífeyri. 

3)  En þetta er ekki búið enn.  Eignir Íbúðalánasjóðs hafa rýrnað mikið að undanförnu og munu rýrna ennþá meira á næstu árum, ef ekkert er gert.  Þetta kallar á hærri framlög ríkis og þar með skattgreiðenda til sjóðsins.  100 milljarða framlag, sem er líklegast það sem sjóðurinn þarf í dag, er skattahækkun upp á einhver 20 - 25 prósent. Lífeyrisþeginn mun því missa einhvern hluta af lífeyrinum, kannski 5% eða jafnvel meira.  Hinn kosturinn er að Íbúðalánasjóður endursemji við lánadrottna sína.

4)  Lífeyrissjóðirnir eiga þegar eitthvað af íbúðarhúsnæði sem keypt hefur verið á nauðungarsölum eða tekið upp í uppgjör.  Eignaverð hefur farið lækkandi upp á síðkastið, en fasteignamat íbúðarhúsnæðis var um 2.800 milljarðar í árslok 2008.  Markaðsverð á þeim tíma var talsvert yfir þeirri tölu, en til einföldunar skulum við nota 2.800 milljarða sem viðmiðunartölu.  10% lækkun á húsnæðisverði þýðir því 280 milljarða lækkun.  Miðað við 60% veðsetningu 2008, þá verðmæti veðsins um 168 milljarðar.  Nú veit ég ekki hvert er verðmæti þess íbúðarhúsnæðis sem lífeyrissjóðirnir eiga, en það fer greinilega lækkandi í hverjum mánuði. 

5)  Þá eru það lán fyrirtækja.  Það vill nefnilega svo til að lífeyrissjóðirnir lána líka til fyrirtækja.  Í lok júlí hljóðuðu þessi lán upp á 140 milljarða. Eftir því sem ástandið í þjóðfélaginu versnar, þá aukast líkur á vanskilum þeirra.  Ef eitthvað er að marka tölur AGS, þá er verulegur hluti lána fyrirtækja í vanskilum.  Líklegast í kringum 50%, ef ekki allt að 75%.  Notum lægri töluna og þá fáum við út að 70 milljarðar af lánum lífeyrissjóðanna til fyrirtækja eru í vanskilum.  Veðin eru í fasteignum, en ef verð á íbúðarhúsnæði er í frjálsu falli, þá á ég ekki til orð yfir verð á atvinnuhúsnæði.  (Hægt er að fá skrifstofuhúsnæði á besta stað í bænum fyrir vel innan við 1.000 kr. fermetrann.)

Þegar allt þetta er tekið saman, þá er tap lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga/lífeyrisþega margfalt meira, ef ekki er farið í þessar leiðréttingar, en ef leiðréttingaleiðin er farin.  Ég hvet líka hagfræðiprófessorinn til að kynna sér hugmyndir HH um að skerðingin verði ENGIN hjá þeim sem ekki eiga möguleika á að vinna hana upp, og hækki hlutfallslega eftir því sem lengra er í að sjóðfélaginn komist á lífeyristökualdur.  Ekki má síðan gleyma því að mjög margir lífeyrisþegar eru lántakar og fyrir þá þýðir leiðréttingin á höfuðstólnum lækkun greiðslubyrði til langframa.

Annars er ákaflega merkileg villa (vonandi ritvilla) í síðari hluta setningarinnar um lækkun eigna, en þá segir prófessorinn:  

sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum

Ég vona innilega að hér hafi flýtirinn gert prófessornum grikk, því það er ekkert samhengi á milli lífeyrisskuldbindinga og eigna.  Lífeyrisskuldbindingar hreyfast ekki í takt við eignir.  Það er aftur geta lífeyrissjóðanna til að standa undir skuldbindingunum sem breytist með breytingu á eignum.

Næst fjallar prófessorinn um eitthvað sem á ekkert skylt við tillögur HH og sé ég enga ástæðu til að eyða tíma í það, þ.e. kröfur bankanna á ríkið.  Tillögurnar eru nefnilega um grunn að þjóðarsátt og munu því ekki verða að veruleika nema sátt sé um þær.

Næsta atriði skil ég ekki:

Ef bankarnir fá ekki bætur úr ríkissjóði þurfa þeir að auka vaxtamun. Hvaða leið sem yrði farin af hálfu ríkissjóðs og fjármálastofnana yrði ekki komist hjá neikvæðum áhrifum á ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga sem upprunalega átti að bæta. Sagt með öðrum orðum: Tekjuöflunarmöguleikar heimilanna og mannauður þeirra myndi minnka.

Nú skulum við rifja upp að prófessorinn situr í eftirlitsnefnd sem skoðar m.a. ákveðinn þátt í starfsemi bankanna.  Hefur hann hvergi rekist á það í starfi sínu eða bara lesið um það að bankarnir fengu ríflega afslætti af lánasöfnunum, þegar þau voru flutt frá gömlu kennitölunni til þeirrar nýju.  Samkvæmt tölum AGS voru þetta 420 milljarðar.  Inn í þeirri tölu var gert ráð fyrir 137 milljörðum vegna gengistryggðra lána, sem Hæstiréttur hefur nýtt að fullu með dómum sínum 16/6 sl.  Þá standa eftir 293 milljarðar og hugmyndir HH ganga út á að um 70 milljarðar af þeirri upphæð verði notuð í að leiðrétta verðtryggð lán.  Vissulega gætu fjármálafyrirtækin tapað einhverju af framtíðartekjum vegna gengistryggðra lána, þar sem ekki er gert ráð fyrir að þau beri lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, en fylgi í stað lægstu verðtryggðu vöxtum með þaki á verðbætur.  Ég er aftur sannfærður um að bætt innheimtuhlutfall geri gott betur en að vinna það upp.

Þá eru það lokaorð prófessorsins, fyrir utan síðustu setninguna:

Flöt niðurfærsla húsnæðislána myndi því ekki aðeins lækka skuldir heimilanna, hún myndi einnig hafa mikil neikvæð áhrif á eignahliðinni. Efalítið yrði staða sumra heimila örlítið skárri eftir niðurfærslu en var áður. En fyrir mörg önnur heimili yrði niðurstaðan neikvæð. Flöt niðurfærsla húsnæðislána er því ekki fallin til að bæta stöðu heimilanna í landinu, þvert á móti. 

Nú er ég viss um að prófessorinn er að reikna í raunvöxtum, enda hagfræðingur.  Ég veit að reiknilíkön hagfræðinnar vilja taka heildargreiðsluflæði líftíma aðstæðnanna og núvirðisreikna.  En gallinn er að óvissuþættirnir eru svo margir, að núvirðið getur tekið margar niðurstöður.  Mitt sérsvið er aðgerðarannsóknir.  Ég lærði að nota hagfræðilíkön og setja inn í þau ólíkar forsendur um þróun á því tímabili sem er til skoðunar.  Okkur var uppálagt að skoða bestu lausn og verstu lausn og safn punkta þar á milli.  Fullyrðing Þórólfs Matthíassonar fengi falleinkunn í mínu fagi, þar sem hún er algjörlega ósönnuð, ekki studd neinum rökum og engin næmnigreining er gerð á henni. Ég tel mig hafa afsannað fullyrðinguna, þó ég sýni vissulega ekki næmnigreiningu á niðurstöðum mínum, en valdi að taka líklegustu niðurstöðu hverju sinni og síðan rauntölur.

Þá er það lokasetningin:

Og eftir stæði að vandi þeirra heimila sem ekki geta greitt af skuldum sínum nú væri enn óleystur. 

Nú erum við sammála, en þó bara upp að vissu marki.  Málið er að verði farið að hugmyndum HH eða einhverri útfærslu á þeim, þá hefur þeim heimilum fækkað mjög mikið sem ekki geta greitt af skuldum sínum.  Til þess var leikurinn gerður, ekki til að bjarga öllum.  Slíkt er ekki gerlegt með almennum aðgerðum og nauðsynlegt að grípa til sértækra, m.a. þeirra sem Þórólfur Matthíasson hefur af kostgæfni og fagmennsku (að ég best veit) haft eftirlit með.