Hvernig hægir það uppbyggingu að almenningur og fyrirtæki hafi meira milli handanna?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.6.2010.

Stundum er alveg óborganlegt að lesa eða heyra rökstuðning manna fyrir töpuðum málstað.  Nú koma seðlabankastjóri og efnahags- og viðskiptaráðherra og segja að það mundi hægja á uppbyggingu ef almenningur og fyrirtæki hafi meira á milli handanna.  Höfum í huga að þessir sömu menn bentu á það um daginn, að bankarnir væru stútfullir af peningum sem þeir ættu í erfiðleikum með að koma út.  Seðlabankastjóri taldi það vera vegna þess að bankarnir hefðu ekki náð að ávinna sér traust.

Ég er sannfærður um að uppbyggingin verði hraðari, ef fjármunir almennings og fyrirtækja fara í neyslu og veltu í staðinn fyrir að safnast fyrir inni í bönkunum.

Skýring á þessum áhyggjum ráðherra og bankastjóra má líklega rekja til þess, að búið er raska því jafnvægi sem stjórnvöld hafa samið um við AGS.  Það var nefnilega búið að stilla upp því sjónarspili, að kröfuhafar væru að veita afslátt til nýju bankana, þegar í reynd var bara verið að búa til bókhaldsflækju.  Lánasöfn voru færð með afslætti til nýju bankanna sem síðan reyna að innheimta þau að fullu.  Með því myndast hagnaður sem hægt er að borga út í formi arðs til kröfuhafa sem jafnframt teljast eigendur.

Mín trú er sú, að peningunum er betur komið fyrir í höndum almennings og fyrirtækja.  Þannig mun uppbyggingin verða hraðari.