Hvort er mikilvægara: Völdin eða samviskan?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.12.2010.

Ég get ekki annað en furðað mig á þeirri umræðu sem upphófst í síðustu viku við það að þrír þingmenn VG gátu ekki samvisku sinnar vegna stutt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.  Þessir þrír þingmenn hafa, ásamt þremur öðrum, verið mjög opinskáir í gagnrýni sinni á mjög margt í stefnu núverandi stjórnar.  Maður hefði haldið að flokkssystkini þeirri hefðu gripið það fegins hendi að reynt væri að koma í veg fyrir að stjórnarsamstarfið litaðist um of af sjónarmiðum hins stjórnarflokksins, en það er öðru nær.

Ég hef fylgst með störfum Lilju Mósesdóttur undanfarna 18 mánuði eða svo.  Er hún einn fárra þingmanna sem ég hef átt í samskiptum við, sem ég veit að breytir ekki málflutningi sínum um leið og snúið er baki við manni.  (Tekið skal fram að ég hef svo sem ekki verið í samskiptum við nema svona 20 - 30 þingmenn vegna starfa minna fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, þannig að fjölmarga þingmenn þekki ég lítið eða ekki neitt.)  Í samræðum við hana getur maður alltaf gengið að málefnalegir umræðu og málefnalegir hugsun.  Hennar rök hafa vissulega tekið breytingum, en það er fyrst og fremst vegna þess að ný sjónarhorn hafa komið fram og nýjar upplýsingar verið opinberaðar.

En hvers vegna eru viðbrögð einstakra stjórnarliða jafn ofsafengin og raun ber vitni? Hvað fær formann þingflokks VG, formann fjárlaganefndar og fleiri stjórnarþingmenn til að stíga fram með blammeringar og hótanir í garð þess fólks sem vill að stjórnarflokkarnir standi vörð um heimilin í landinu, velferðarkerfið og ekki síst fylgi stjórnarsáttmálanum?  Af öllum stjórnarþingmönnum, sem stigið hafa fram, furða ég mig mest á orðum Björns Vals Gíslasonar.  Hann lætur eins og enginn megi hafa aðra skoðun en hann.  Það sem veldur mér samt mestum áhyggjum varðandi yfirlýsingar hans, er að hann er almennt talinn segja það sem Steingrímur J. getur ekki sagt stöðu sinnar vegna.  Að Björn Valur segi að þremenningarnir eigi sér ekki framtíð innan VG verður því að túlkast sem svo að Steingrímu J. telji svo vera og á meðan hann stígur ekki fram og andmælir þessum orð Björns Vals, þá lít ég svo á, að Björn Valur hafi látið þessi orð flakka með samþykki og að beiðni Steingríms.

Þingmönnum Samfylkingarinnar er viss vorkunn.  Margir þeirra munu ekki halda þingsætum sínum verði efnt til kosninga á næstu mánuðum.  Þeir horfa því upp á að skoðanafrelsi þremenninganna sé að stefna þingmennsku þeirra í voða.  Ég held að þessir þingmenn geti helst dregið þann lærdóm af þessu, að betra væri fyrir þá að standa með almenningi í landinu og verja velferðarkerfið, en að keyra allt hér gjörsamlega á kaf.

Mér sýnist sem tvær framtíðarsýnir mínar frá því í fyrra sé að verða að veruleika.  Önnur var sú, að Samfylkingin ætlaði að keyra þjóðfélagið svo í gólfið, að fólk hrópaði eftir afskiptum ESB.  Hin var að Steingrímur J. myndi nota aðstöðu sína til að refsa landsmönnum fyrir að hafa ekki hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.

Nú eru að verða þrjú ár síðan að krónan féll og þar með spilaborg fjármálafyrirtækjanna.  Á þessum þremur árum, og sérstaklega síðustu tveimur, hafa tveir hópar þurft að taka út ógurlega refsingu afglapa fjármálafyrirtækjanna, stjórnvalda og embættismanna.  Annar er heimili landsins og hinn samanstendur af fyrirtækjum sem á engan hátt tengdust stjórnendum eða eigendum fjármálafyrirtækjanna.  Eignir heimilanna og fyrirtækjanna hafa runnið óbættar til fjármálafyrirtækja, sem stofnuð voru á rústum bankanna þriggja.  Sýndarmennskuafskriftir hafa átt sér stað, en að nær engu leiti hafa bankarnir gefið eftir annað en það sem hvort eð er var tapað.  Krafa AGS um viðeigandi skuldaniðurfellingu til lífvænlegra lántaka hefur verið nær algjörlega hunsuð.  Eina sem gert hefur verið, er að afskrifa það sem var óinnheimtanlegt.

Ríkissjóður hefur þegar borið ríflega 1.300 milljarða kostnað vegna bankahrunsins.  Þessi kostnaður verður greiddur af komandi kynslóðum, þó eitthvað komi til baka með sölu eigna.  Hvað eftir annað hafa stjórnvöld geta farið vægari leiðir í skattheimtu eða innleitt úrræði sem nýttust fjöldanum.  Nei, almenningur skal taka eins stóran skell eins og hægt er.  Húsnæðiseigendur skulu tapa eignum sínum.  Lífeyrisþegar skulu búa við skertar bætur.  Þjónusta við landsbyggðarfólk skal skorin við trog.  Það er eins og ekki megi hugsa út fyrir kassann og þeir sem voga sér að gera það, eins og Lilja Mósesdóttir, þeir eru sagðir andfélagslegir.

Ég hef fylgst með störfum nokkurra nefnda Alþingis og verð því miður að segja, að fátt er um sjálfstæð vinnubrögð.  Röksemdir eiga alls ekki upp á pallborð hjá þeim og komi fyrirmælin ekki beint úr ráðuneytinu, þá þorir engin að hreyfa við breytingum.  Kostulegast fannst mér símtalið, sem ég fékk á laugardagsmorgni frá nefndarmanni í efnahags- og skattanefnd, en sú nefnd fjallaði um gengislánafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra.  Spurningin sem ég fékk var:  Skilur þú hvernig þetta er reiknað?  Önnur umræða var afstaðin og þingmaðurinn var ekki viss hvort hann skildi innhald frumvarpsins!  Ekki skal taka þessu þannig, að ég sé að gagnrýna þingmanninn.  Spurningin var skiljanleg, þar sem frumvarpið er óskiljanlegt og þar með lögin.  Stjórnarliðar voru að þjösna frumvarpinu í gegn án þess að vinna verk sitt.  Og ekki í fyrsta skiptið.  Í fyrra voru samþykkt lög nr. 107/2009 um aðgerðir fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldeyrishruns.  Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna vöruðum ákaft við því frumvarpi.  Ári síðar hafði allt komið fram sem við vöruðum við.  Þetta er því miður veruleikinn á Alþingi.  Menn eru svo uppteknir við að þóknast ríkisstjórninni og fjármálafyrirtækjunum að menn gleyma réttsýni og rökhyggju.  Kannski hafa menn ekki tíma til vinna verk sín af kostgæfni.  Kannski skortir þá áhuga eða getu.

Það er inn í þetta umhverfi sem Lilja Mósesdóttir og nokkrir aðrir þingmenn hafa stigið með þá fáránlegu kröfu, að mati fjölda annarra þingmanna, að þingmenn hugsi sjálfstætt og í samræmi við sannfæringu sína.  Þessi eðlilega krafa hefur reynst mörgum þingmönnum ofviða.  Það er öruggara að samþykkja ruglið, en að rugga bátnum.  Þeir sem rugga bátnum fá nefnilega fyrir ferðina.

Lilja, Ásmundur og Atli, við ykkur vil ég segja: 

Þið eruð menn að meiru að standa á sannfæringu ykkar.  Þið eigið heiður skilinn fyrir þann kjark og þor sem þið sýnduð.