Játning óráðsíumanns og áhættufíkils

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.7.2010.

Ég fékk í kvöld einu sinni sem oftar þessa klassísku spurningu um áhættusækni þeirra sem tóku gengistryggð lán.  Ég er búinn að fá þessa spurningu svo oft að ég hef ákveðið að hætta allri "afneitun" og viðurkenna syndir mínar og mistök.  Fyrst er það spurningin, en henni var beint til mín á Eyjunni:

Cola 1.7 2010 22:54

Marinó:
Var það ekki meðvituð ákvörðun hjá þér að taka erlent lán? Og skildirðu ekki að lánið myndu hækka/lækka eftir því hvernig gengi íslenski krónunnar þróaðist miðað við aðra gjaldmiðla?

Og finnst þér allt í lagi nú að skýla þér á bak við formsgalla í samningnum?

Hér er svo svar mitt:

Cola, já, ég viðurkenni að ég tók svona lán af vandlega íhuguðu máli.  Ég hef aldrei neitað því og ég hef aldrei neitað því að ég gerði ráð fyrir að gengið gæti veikst.  Ég tók lánin á nokkurra ára tímabili og því sveiflaðist gengisvísitalan frá því að vera 124 niður í 100 og upp í 122 á þeim tíma sem ég tók lánin.  Samkvæmt spám á árunum 2004 - 2007 frá greiningadeildum bankanna, fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, þá var gert ráð fyrir að gengið myndi haldast nokkuð stöðugt, en þó gæti það tekið snöggum breytingum og upp og niður.  Talað var um að jafnvægisgengi væri 128 (gengisvísitala) og mjög svartsýn spá var að gengið færi í 136.  Í minni áætlun, þá gerði ég ráð fyrir tveimur sviðsmyndum um veikingu gengisins.  Fyrri var að gengið veiktist um 0,5% á ári að jafnaði, en það var í dúr og moll við þróun þess síðustu 10 ár á undan, þ.e. jafnaðar veiking án sveiflna.  Bar ég þetta saman við að Seðlabankanum tækist að halda verðbólgu innan 2,5% verðbólgumarkmiða sinna.  Seinna dæmið var að gengið veiktist um 2% á ári að jafnaði á 30 árum og verðbólga væri óbreytt frá fyrra dæmi.  Ég nýtti mér alls konar gögn og tölulegar upplýsingar til að styðja útreikninga mína og fá þannig sem raunhæfustu niðurstöður.  Við útreikninga mína gerði ég ráð fyrir stuttum dýfum eða toppum, sem gengju yfir á 6 - 12 mánuðum og væru í líkingu við sveiflurnar 2001 og með seinni lánin það sem gerðist 2006.  Spá mín er svo sem ekki orðin röng ennþá fyrir utan að toppurinn varð hærri og hefur varað lengur, en þetta með 2% jafnaðarvöxt á 30 árum gæti ennþá ræst, þó ólíklegt sé.  A.m.k. gerði ég ekki ráð fyrir að öll 30 ára hækkunin kæmi á nokkrum mánuðum.

Ég verð að viðurkenna, að mér yfirsást einn veigamikill þáttur sem skiptist í um 50 undirliði, en ég held að mér sé nokkur vorkunn með það.  Mér yfirsást sá möguleiki að verið væri að ljúga að okkur um hagstærðir, þróun gengis, áhættu í fjármálakerfinu og við fengum ekki að vita að bankarnir væru í raun risastór seðlaveski nokkurra manna sem hefðu það að markmiði að kreista úr þeim alla þá peninga sem þar voru.  Mér yfirsást að taka tillit til þess að bankarnir fölsuðu afkomutölur sínar og hlutabréfaverð með grófri markaðsmisnotkun.  Ég gleymdi að taka með í reikninginn að nokkrir ósvífnir einstaklingar (og líka erlendir vogunarsjóðir) hefðu saman eða í nokkrum hópum ákveðið að íslenska krónan og íslenska hagkerfið væri verðugt fórnarlamb fyrir sísvanga varúlfa fjármálaheimsins. 

Já, ég gerði alvarleg mistök og um ástæðu mistaka minna má lesa á hátt í 3000 bls. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Mér finnst einhvern veginn að ég hafi nokkuð þokkalega afsökun fyrir mistökum mínum, sérstaklega þar sem ég hef aldrei verið innvígður né innmúraður í innsta hring fjárglæframanna Íslands. 

Ég gerði líka þau mistök að trúa sérfræðingum greiningardeildar Íslandsbanka, sem gáfu út þá spá 28. maí 2008 (sjá frétt mbl.is http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/05/28/glitnir_gengishaekkun_i_haust/) að lokagengisvísitala ársins 2008 myndi verða 135 og meðalgengisvísitalan yrði 142.  Fyrir árið 2009 hljóðaði spáin upp á meðalgengi 128.  Segðu mér nú, Cola, hverju átti maður að trúa?  Ég tek það fram að spáin í júní var svartari, en hún var samt góð miðað við það sem varð.

Ekki má gleyma því að ég trúði ráðherrum, þingmönnum, eftirlitsstofnunum, embættismönnum og því að upplýsingar á verðbréfaþingi væru réttar og sannar.  Já, ég féll í þá gryfju að halda að menn hefðu heiðarleika að leiðarljósi, en væru ekki útsmognir svikarar, lygarar, fjárglæframenn og hugsuðu bara um eigin hag á kostnað almennings og þjóðfélagsins.  Ég hélt að þeir væru eins og ég.  En mikið er ég feginn að ég er ekki eins og þeir.

Ég játa á mig þá fákunnáttu, að hafa ekki kunnað á öll trixin í bókinni, svo sem að vera með framvirkar varnir, færa áhættuna af lántökum mínum yfir í nær eignalaus eignarhaldsfélög, sem auðvelt væri að setja á hausinn án þess að ég tapaði nokkru, láta eignarhaldsfélagið kaupa húsið mitt á uppsprengdu verði og veðsetja það fyrir margfalt verðmæti þess og leigja mér svo húsið á skúringarkonutaxta.  Nú að láta síðan hið gjaldþrota eignarhaldsfélag taka himin hátt lán til þess að greiða mér allt lánið sem arð sem ég færði í snatri yfir á huldufélag á aflandseyju.  Já, mistök mín voru mörg.  Líklegast þau stærstu og afdrifaríkustu eru að ég tel mig þokkalega heiðralegan og með vel við unandi siðgæðisvitund, hvorutveggja sem ég met meira en allt hitt.

Geri þetta mig að óráðsíumanni og áhættufíkli, þá verður svo að vera.

Varðandi síðustu spurninguna þína, Cola, þá hef ég aldrei skýlt mér bak við formgalla lánanna.  Ég hef alltaf talað um að sanngirni þurfi að ganga í allar áttir.  En núna er Hæstiréttur búinn að dæma um þessi "mistök" fjármálafyrirtækjanna og ég fæ bara engu um það ráðið.  Ég bað ekki um þessa niðurstöðu og hafði allt fram til 12. febrúar á þessu ári talað fyrir öðrum lausnum.  Þann dag reis vonarsól almennings og við sáum í fyrsta sinn, að kannski, já kannski, yrðu það réttlætið (þ.e. lögin) en ekki manneskjuleg úrræði (sanngirni), sem kæmi okkur til hjálpar.