Álit lögfræðings ráðuneytisins segir gengistryggingu óheimila, en snerist um ranga spurningu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.8.2010.

Viðtal Helga Seljan við Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Kastljósi var alveg ótrúlegt.  Ég veit ekki hversu oft Helgi gaf Gylfa færi á að segja að kannski hafi hann misskilið eitthvað eða hann hafi kannski ekki alveg farið með rétt mál, en Gylfi roðnaði frekar og svitnaði en að nýta sér þessi tækifæri.

Ég búinn að skoða þetta mál frá ýmsum hliðum síðustu daga, en uppákoman í kvöld er toppurinn á vitleysunni.  Skoðum enn og aftur hvers Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi þessarar fyrirspurnar langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra. Svo virðist sem myntkörfulánin séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? Þar kemur fram að ekki megi miða lán við neitt annað en það sem þar stendur. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?

Hún spyr um myntkörfulán og hvort lögmæti þeirra sé hafið yfir allan vafa.  Og þá er það svar Gylfa við spurningu Ragnheiðar:

Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.

Hann svarar fyrirspurn um lögmæti lána í erlendri mynt.  En Ragnheiður spurði um MYNTKÖRFULÁN.  Þegar ráðherra segist vera að svara fyrirspurn Ragnheiðar "um lögmæti lána í erlendri mynt" er nokkuð óeðlilegt að þingheimur hafi skilið það þannig, að hann væri að meina MYNTKÖRFULÁN.  Hann plataði mig, svo eitt er víst.

Nú næst er að benda á orðin: 

Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.

Fyrri setningin er rétt, þ.e. að lögfræðingar í ráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni höfðu skoðað málið, en síðari setningin er röng ef miðað er við það sem Gylfi segist vera að svara, þ.e. spurningu Ragnheiðar um MYNTKÖRFULÁN.  Hún er aftur rétt sem svar við allt annarri spurningu, sem enginn var að spyrja.

Í fyrsta lagi hafði aðallögfræðingur Seðlabankans komist að þeirri niðurstöðu að bannað væri að nota gengistryggingu.  Sigríður Logadóttir var mjög afgerandi í afstöðu sinni.  Hún ekki bara endurtekur efni úr áliti LEX lögmannsstofu, heldur bætir við eigin athugunum.  Svo segir hún:

Undirrituð tekur undir lögfræðiálitið.

Ég spyr bara, er hægt að tala skýrar?

Í öðru lagi hafði talsmaður neytenda sent viðskiptaráðuneytinu í apríl 2009 efasemdir sínar um lögmæti gengistryggingar.  Kannski telst talsmaður neytenda ekki undir lögfræðinga í stjórnsýslunni?

Í þriðja lagi er grundvallarspurningin sem Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins allt önnur, en felst í spurningu Ragnheiðar og því var ekki hægt að nota niðurstöðu Sigríðar Rafnar við spurningunni til að svara Ragnheiði.  Hver var spurningin sem Sigríður Rafnar leitaði svars við?

Eru lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, ólögmætar?

Satt best að segja skil ég ekki hvernig Sigríði datt í huga að spyrja hennar.  Var einhver að velta vöngum yfir þessu?  Nei, ekki svo ég viti til.  Sigríður Logadóttir, Gísli Tryggvason, Björn Þorri Viktorsson og fleiri voru að velta fyrir sér hvort heimilt væri að tengja höfuðstól í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki hvort heimilt væri að tengja lán í erlendri mynt við erlenda gjaldmiðla!

En gefum okkur nú að Sigríður Rafnar hafi verið að meina þetta.  Hvað segir þá í áliti hennar?  Jú, hún bendir á texta athugasemda með frumvarpi að lögum nr. 38/2001, þar sem segir að gengistrygging sé bönnuð og rétt sé að taka af allan vafa um það.  Einnig bendir hún á framsöguræðu ráðherra, þar sem hann segir að felldar séu niður heimildir til að gengistryggja skuldbindingar í íslenskum krónum.  Nú hún kemst líka að því, að eingöngu er hægt að verðtryggja íslenskar krónur með vísitölu neysluverðs.  Mér finnst þetta vera nokkuð skýrt fram tekið hjá Sigríði Rafnar að gengistrygging sé óheimil.  Það eina sem vefst fyrir henni (eins og mjög mörgum í dag) er hvaða lán teljast til hvaða flokks.  Það er nefnilega alveg á hreinu að lán í erlendri mynt eru lögleg að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Í álitinu segir:

Það getur verið álitaefni hvort um ræði lánveitingu í erlendum gjaldmiðli  eða  lánveitingu í íslenskum krónum.  Lánssamningar eru mismunandi og túlkun þeirra skiptir máli.  Úr slíku álitaefni verður að skera á grundvelli þeirra samningsskilmála sem við eiga hverju sinni, með hliðsjón af atvikum við samningsgerð, stöðu samningsaðila o.s.frv.  Heildarmat verður að fara fram á efni samnings, þ.m.t. samningskjörum, enda kunna atvik eða skilmálar að renna stoðum undir að lán sé í þeirri mynt sem tilgreind er eða jafnvel benda til þess að lán sé í raun í annarri mynt þrátt fyrir tiltekið orðalag.

Ekki geri ég athugasemd við þetta og tel þessa ályktun Sigríðar Rafnar vera mjög vandaða, sem og þá næstu sem hún kemur með:

Ákvæði lánssamnings í íslenskum krónum  (eða lánssamnings sem túlka má þannig að sé í raun og veru í íslenskum  krónum) um verðtryggingu í erlendum gjaldmiðli  („gengistryggingu“) kann að koma til álita að ógilda fyrir dómstólum á þeim grundvelli að sérstaka heimild hefði þurft til að semja um tengingu við gengi erlendrar myntar.

Ég verð að viðurkenna, að ég sé ekki betur en að Sigríður Rafnar taki í grófum dráttum undir álit nöfnu sinnar Logadóttur.

En þar sem spurning Sigríðar Rafnar Pétursdóttur var hvort erlend lán væru lögleg eða ekki, þá fjallar niðurstaða hennar náttúrulega um það.  Hún er mjög skýr:

Að mati undirritaðrar verður þó ekki lagður sá skilningur í ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, út frá umræddu ákvæði, að þau banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli og tengingu við gengi þeirra í lánssamningum með hliðsjón af gildissviði VI. kafla laganna og meginreglunni um samningsfrelsi.  

Þetta er gott og blessað, en fjallar bara nákvæmlega ekkert um spurningu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og því er það algjört klúður hjá Gylfa Magnússyni að vitna í þessa niðurstöðu, þegar hann svara Ragnheiði.  Ef hann hefði notað málsgreinina sem byrja á "Ákvæði lánssamnings.." sem ég vita í hér fyrir ofan, þá hefði hann verið að svara Ragnheiði.

Spurningin sem ég hlýt að spyrja er hvort ráðherra hafi ekki skilið álit Sigríðar Rafnar eða hvort hann hafi ekki skilið spurningu Ragnheiðar.  Það er ekki um nema þetta tvennt að ræða.  Mér finnst álit Sigríðar Rafnar vera mjög skýrt, þegar ég var búinn að skoða það í ró og næði, og einnig spurning Ragnheiðar.

Sigríður Rafnar veltir fyrir sér í lok álits síns hvernig væri farið með lánin ef gengistryggingarákvæðið yrði ógilt.  Spurði Gylfi sig aldrei af hverju Sigríður var að skoða þetta?  Hún var náttúrulega að því, vegna þess að henni fannst líklegt að á það reyndi.  Eða þannig skil ég vangaveltur hennar.  Hún kemst að svipaðri niðurstöðu og héraðsdómari komst að um daginn, að eitthvað sanngjarnt viðmið kæmi í staðinn.  Hún aftur varar við því að þetta sanngjarna viðmið geti verið breytilegt eftir gerð samninga eða eins og hún segir:

Ef á reyndi myndi dómstóll væntanlega kveða á um það við hvað sanngjarnt væri að miða í staðinn fyrir ógilda gengistryggingu láns í íslenskum krónum (t.d. verðtryggingu, þ.e. þróun vísitölu neysluverðs á lánstímanum).  Fordæmisgildi slíkrar dómsniðurstöðu takmarkast við sambærilega staðlaða lánssamningsskilmála (og atvik við samningsgerð).

Það þýðir líklega, að Sigríður telur líklegt að mismunandi vaxtaviðmið geti verið dæmd á ólíka samninga.

Ótrúlegur skilningur eða skilningsleysi Gylfa

Niðurstaða af þessu öllu er að Gylfi misskilur gróflega spurningu Ragnheiðar og svara í reynd allt annarri spurningu.  Hann misskilur líka álit Sigríðar Rafnar, þar sem hann skoðar svar við spurningu sem enginn spurði.  Nú verst af öllu er að vegna þess að Gylfi er að svara allt annarri spurningu en hann var spurður, þá segir hann ekkert um málið sem spurt var um, en það gátu þingmenn og almenningur ómögulega vitað.  Það er því alveg ljóst að viljandi eða óviljandi afvegaleiddi Gylfi þingheim og almenning með svörum sínum.

Nú veit ég ekki hvort er verra að Gylfi fóru villu vegar viljandi eða óviljandi.  Hafi hann gert það viljandi, þá á hann ekki um neitt annað að ræða en að segja af sér (þó ég sé ekkert viss um að við höfum betri einstaklinga í starfið á reiðum höndum).  Hafi hann gert það óviljandi, þá verður hann maður með meiru að koma fram og biðjast afsökunar.  Ég skil alveg að hann hafi ruglast, þar sem álitið sem hann var með í höndunum er að leita að svari við allt annarri spurningu, en umræðan á þingi og í þjóðfélaginu snerist um.  Það er aftur grafalvarlegt mál, ef ráðherra skilur ekki gögnin sem hann er með í höndunum.  Ætli það sé eitthvað fleira sem hann hefur misskilið?