Misskilningur eða útúrsnúningur fyrrum bankamanns

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.9.2010.

Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann kemst að þeirri furðulegu niðurstöðu að lántakar gengistryggðra lána hafi samþykkt allt að 21% vexti á lánum sínum.  Þetta er nú svo mikil vitleysa að henni verður að svara.  Skoðum fyrst hvað Erlendur Magnússon segir:

Ekkert þak á vöxtum

Lögmaður lántaka í vaxtamáli Lýsingar segir fyrir Hæstarétti að lántaki hefði aldrei keypt bíl á láni sem bar 16-21% vexti. Það er undarleg fullyrðing, því með því að taka lán bundið LIBOR-vöxtum skuldbatt lántaki sig til þess að greiða breytilega vexti sama hverjir þeir yrðu á lánstímanum, þar með ef þeir færu upp í 21% á lánstímanum eða jafnvel hærra. Þegar menn taka lán sem bera LIBOR-vexti eða aðra millibankavexti, að viðbættu álagi, þá skuldbinda þeir sig til þess að greiða viðkomandi vexti sama hvernig sem millibankavextir þróast á lánstímanum. Það er aðeins álagið sem er fast í umsaminn tíma; millibankavextirnir breytast frá einu vaxtatímabili til annars. Hversu háir millibankavextirnir geta orðið á samningstímanum veit enginn fyrirfram.

Sem dæmi þá hafa LIBOR-vextir í dollurum hæst farið yfir 19% og LIBOR-vextir í pundum voru um langt skeið 15% fyrir um tveimur áratugum. Það er ekkert sem segir að þeir geti ekki orðið hærri í framtíðinni. Millibankavextir undir 1% í evrum, pundum og dollurum þekktust ekki fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2008 og áttu rætur að tekja til viðbragða seðlabanka um heim allan til að koma í veg fyrir hrun alþjóðahagkerfisins.

Millibankavextir miðast ávallt við tiltekinn gjaldmiðil

Það er viðskiptaregla um heim allan þegar menn breyta höfuðstól láns sem ber millibankavexti úr einum gjaldmiðli í annan þá eru vextir ávallt reiknaðir miðað við millibankavexti nýs gjaldmiðils. Vextir í einum gjaldmiðli bera aldrei millibankavexti annars gjaldmiðils. Komist íslenskur dómstóll að niðurstöðu um að lán í íslenskum krónum skuli bera millibankavexti í öðrum gjaldmiðli, þá dæmir hann íslensk lög og íslenska dómstóla úr leik í öllum alþjóðaviðskiptum næstu áratugina.

Fyrst smá inngangur áður en ég svara einstökum atriðum í grein Erlends.

Lántakar sem kusu að taka gengistryggð lán völdu þá leið, þar sem þeir töldu hana alltaf verða hagstæðari en önnur lánaform sem voru í gangi, þ.e. lán verðtryggð miðað við vísitölu neysluverð  og óverðtryggð lán, sem í boði voru hjá íslenskum fjármálastofnunum.  Sögulega höfðu vextir LIBOR vextir allra þeirra gjaldmiðla, sem lántaka sóttu í, verið vel undir þeim vöxtum sem buðust á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum hér á landi.  Lántakar gerðu líka ráð fyrir að gengið héldist sæmilega stöðugt og þó það sveiflaðist, þá færu slíkar sveiflur frekar hratt yfir og yrðu ekki mjög öfgakenndar, sbr. sveifluna árið 2006.  30% hækkun á erlendum gjaldmiðlum, sem gengi yfir á 6 mánuðum, var eitthvað sem flestir lántaka, sem ég hef verið í sambandi við, töldu sig þola.  Loks gerðu lántakar ráð fyrir að lánaformið sem notað var, stæðist íslensk lög.  Að Hæstiréttur hafi dæmt gengistrygginguna ólögleg breytir ekkert forsendum lántökunnar, þ.e. að heildarlántökukostnaður yrði umtalsvert lægri, en ef tekin væru hefðbundin verðtryggð eða óverðtryggð lán.

Erlendur byrjar á því að segja að lántaki hafi með því að samþykkja LIBOR vexti samþykkt að borga þá sama hve háir þeir yrðu.  Það er vissulega alveg rétt, en enginn lántaki gekk út frá því að vextir þeirra mynta sem þeir tengdu lán sitt við, færu ofar en saga síðustu 10 - 15 ára kenndi okkur. Það eru vissulega dæmi um að vextir á bresku pundi og bandarískum dölum hafi farið upp fyrir 6%, en að þessir vextir hafi eitthvað nálgast 21% er fráleitt.  Nú þó svo að vextir þessara mynta hefðu farið í slíkar hæðir, þá er það ekki það sem lántakinn gekk út frá og hann hefði því ekki tekið lán í viðkomandi mynt vitandi að þeir gætu orðið svona háir.  Erlendur ruglar hér saman fræðilegum möguleika á vaxtastöðu og væntingum lántaka til þróunar vaxtanna.  Þetta á ekkert skylt hvort við annað.  Það er því hreinn útúrsnúningur hjá Erlendi þar sem hann segir:

Þegar menn taka lán sem bera LIBOR-vexti eða aðra millibankavexti, að viðbættu álagi, þá skuldbinda þeir sig til þess að greiða viðkomandi vexti sama hvernig sem millibankavextir þróast á lánstímanum.

að með því hefði lántaki hagað lántöku sinni á þann hátt sem hann gerði, ef hann hefði vitað og gert ráð fyrir að LIBOR vextir myndu fara upp í 21% og vera vel yfir 15% í langan tíma.  Það er eitt að vextir geti hækkað mikið og annað að lántaki hefði gert það sem hann gerði vitandi að vextirnir myndu fara upp úr öllu valdi.

Það er rétt að fyrir óralöngu voru vextir á breskum pundum mjög háir.  Það var í allt öðru efnahagsumhverfi.  Ég skil bara ekkert í Erlendi að leita ekki aftur til þess tíma þegar vextir voru jafnvel ennþá hærri á tímum heimskreppunnar miklu.  Hann hefði líka getað bent á hrun þýska marksins á tímum Weimarlýðveldisins og fleiri svona öfgakennd dæmi, sem eingöngu eru til í sögubókum dagsins í dag.  Og þó svo að þetta sé eitthvað sem hafði gerst, þá skiptir það ekki máli.  Það eina sem hér skiptir máli eru væntingar lántaka til vaxta- og gengisþróunar.

Erlendur talar um að millibankavextir undir 1% í evrum, pundum og dollurum hafi ekki þekkst fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2008.  Þetta er einmitt mjög góður punktur.  Lántakar sem tengdu lán sín við þessar myntir bjuggust við því að vextir á þessar myntir væru á bilinu 4,5 - 6,0%.  Það er það sem tímaraðir þessara vaxta gefa til kynna.  Það ástand, sem er núna, er óeðlilegt og því rangt af fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka og FME að reikna tap sitt af því að samningsvextir gildi út frá því að LIBOR vextir allra erlendra gjaldmiðla séu undir 1%.

Erlendur lýkur máli sínum með atriði sem kemur því ekkert við hvaða vexti lántakar gátu búist við að borga eða voru tilbúnir að borga.  Þegar lántaki reiknar með því í upphafi að greiða LIBOR vexti í jenum, hvaða máli skiptir þá það að eðlilegt sé að greiða íslenska millibankavexti, ef dómstóll dæmir að gengistrygging sé ólögleg.  Megin málið hér er hvaða kostnað lántakinn reiknaði með að hafa af lántökunni í upphafi.  Þar sem þetta virðist ennþá vefjast fyrir sprenglærðum bankamanni sem plægt hefur sinn akur hjá fínustu bönkum heims, þá vil ég skýra þetta út í eins skýru og einföldu máli og hægt er: 

Lántakinn reiknaði með því að lánaformið sem hann skrifaði upp á í upphafi væri í samræmi við íslensk lög.  Að svo hafi ekki verið er ekki lántakanum að kenna og honum ber ekki að refsa fyrir það.

Lántakinn sóttist eftir lágum vöxtum erlendra mynta.  Að þessir vextir hafi lækkað ennþá frekar og að vaxtamunur millibankavaxta verðtryggðra og óverðtryggðra krónulán annars vegar og erlendra mynta hins vegar hafi aukist er ekki lántaka að kenna og honum ber ekki að refsa fyrir það.

Lántakinn sóttist eftir því að sjá höfuðstól lána sinna lækka með hverri afborgun, en ekki eins og með verðtryggð lán, þar sem höfuðstóllinn virðist aldrei lækka.

Lántakinn sóttist eftir láni, þar sem heildarkostnaður hans af lántökunni væri umtalsvert lægri en með hefðbundnum verðtryggðum og óverðtryggðum lánum sem voru í boði á markaðnum.

Allt þetta hefði gengið eftir, ef fjármálafyrirtæki hefðu notað löglegt lánaform og ef stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna hefðu staðið af ábyrgð og heiðarleika að rekstri fjármálafyrritækjanna.  Þeir gerðu það ekki og það er út í hött að refsa lántökum fyrir það.

Lántakar báðu ekki um dóma Hæstaréttar.  Þeir báðu um sanngjarna leiðréttingu á forsendubresti lána sinna.  Þeir báðu um að það stæðist sem þeir gengu út frá við lántökuna og voru meira að segja tilbúnir að bæta við eðlilegu álagi.  Útúrsnúningar Erlends Magnússonar breyta því ekki neitt og þeir koma þessu máli ekkert við.