Stór hópur fjölskyldna hefur ekki efni á húsnæðinu sínu eða neyslu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.11.2010.

Eftir að hafa setið yfir tölum í nokkrar vikur um afkomu heimilanna, greiðslugetu og skuldastöðu, þá finnst mér einsýnt að hér munu hlutirnir ekki færast í samt lag nema kaupmáttur aukist með hækkandi tekjum.  Slík hækkun tekna verður að ná til allra hópa með undir 450 þús.kr. í laun á mánuði.

Því miður er staðan sú, að tiltekinn hópur fjölskyldna hefur ekki tekjur til að standa undir lágmarksneyslu, hvað þá að hafa eitthvað afgangs til að greiða fyrir húsnæði.  Þetta er vandamál sem nær til allra fjölskyldugerða, en þó síst hjá barnlausum hjónum.  Ef maður skoðar neyslutölur sem Hagstofan safnar, þá er myndin mjög dökk.  Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi úr tölum Hagstofunnar fyrir árin 2006-2008 og er að finna í Hagtíðindum fyrir 2006-2008.  Sýni ég neyslu fyrir svo kallaða viðmiðunareiningu, en hún jafngildir neyslu fyrsta fullorðins einstaklings í hverri fjölskyldu.  Hver fullorðinn eftir það telst 0,7 neyslueiningar og hvert barn 0,5 neyslueiningar.  Hjón með tvö börn telst því 2,7 neyslueiningar.

Meðalútgjöld 2006-2008  kr. 2.720.465 (kr. 226.705 á mánuði)
Höfuðborgarsvæðið  kr.  2.853.017 (kr. 237.751 á mánuði)
Annað þéttbýli  kr.  2.521.790 (kr. 210.149 á mánuði)
Dreifbýli  kr.  2.537.509 (kr. 211.459 á mánuði)
Einhleypir  kr.  3.072.827 (kr. 256.069 á mánuði)
Hjón/sambýlisfólk án barna  kr.  3.490.970 (kr. 290.914 á mánuði)
Hjón/sambýlisfólk með börn  kr. 2.485.025 (kr. 207.085 á mánuði)
Einstæðir foreldrar  kr. 2.224.329 (kr. 185.361 á mánuði)
Önnur heimilisgerð  kr.  2.314.274 (kr. 192.856 á mánuði)
Meðalneysla á heimili eftir ráðstöfunartekjum:
1. fjórðungur kr.  2.440.158 (203.346 á mánuði)
2. fjórðungur kr.  2.417.810 (201.484 á mánuði)
3. fjórðungur kr.  2.685.297 (223.775 á mánuði)
4. fjórðungur kr.  3.411.412 (284.284 á mánuði)
Meðalneysla á heimili eftir útgjaldafjórðungum:
1. fjórðungur kr.  1.728.292 (144.024 á mánuði)
2. fjórðungur kr.  2.129.329 (177.444 á mánuði)
3. fjórðungur kr.  2.585.046 (215.420 á mánuði)
4. fjórðungur kr.  3.881.563 (323.464 á mánuði)

Ef við tökum 1. fjórðung út frá útgjöldum, þá sýnir sú tala meðalneyslu þeirra 25% landsmanna sem eru með lægst neysluútgjöld.  Inni í kr. 1.728.292 er húsaleiga og reiknuð húsleiga upp á 20,7% af tölunni en enginn kostnaður vegna kaupa á bifreið.  Ef ég tek þennan lí út, þá standa eftir kr. 1.370.535 eða kr. 114.211 á mánuði.  Þetta er sem sagt meðalneysla einstaklings í lægsta útgjaldafjórðungi á Íslandi árin 2006-2008 á verðlagi ársins 2008 (þ.e. framreiknað miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs).  Til þess að hafa efni á þessari neyslu, þá þarf viðkomandi að hafa kr. 121.500 á mánuði í tekjur miðað við að greitt sé í lífeyrissjóð og séreignarsparnað eða kr. 1.458.000 á ári.  Í þessum hópi eru að meðaltali 2,59 einstaklingar, sem samsvara 2,03 neyslueiningum.  114.211 * 2,03 = 231.848 kr. í neyslu kallar á tekjur upp á rúmlega 323.000 kr. á mánuði ef fyrirvinnan er ein, en 243.000 kr. ef fyrirvinnur eru tvær.

Skoðum þá næst húsnæðiskostnað.  Hér er um tvo kosti að ræða, þ.e. að vera á leigumarkaði eða verða í eigin húsnæði.  Ég ætla að taka dæmi af íbúð með 10 m.kr. áhvílandi láni.  Greiðslubyrði af þvi er hér stillt á 5.000 kr. á hverja milljón á mánuði eða 50.000 kr.  Það þýðir að framfærslukostnaðurinn fyrir þessa fjölskyldu fer úr kr. 231.848 í kr. 281.848 á mánuði.  Nú vill svo til að hátt í 22 þúsund fjölskyldur sem eiga húsnæði eru með ráðstöfunartekjur að hámarki 250.000 kr.  Þær eru vissulega misstórar, en alveg má reikna með því a.m.k. helmingurinn sé í þeirri stöðu að hafa ekki efni á húsnæðinu sem hann býr í, jafnvel þrír-fjórðuhlutar.  Er þetta þrátt fyrir að verið sé að skoða neyslu þeirra sem spara mest við sig í neyslu.  Húsnæðisskuld upp á 10 m.kr. er síðan ekki há tala og sýnist mér af tölum Seðlabanka Íslands að rúmlega 63% heimila skuli meira en 10 m.kr. í húsnæði sínu.  Án þess að hafa neitt sérstakt fyrir mér, þá grunar mig að stærsti hluti þeirra heimila, sem eru með 10 m.kr. eða minna í húsnæðisskuld sé í aldursflokknum 55 ára og eldri en jafnframt er algengast að sá hópur hafi ekki börn á heimilinu. 

Raunar er áhugavert að sjá hve lítill munur er á neyslu þriggja lægstu neysluhópanna og hvernig þeir neysluglöðustu toga upp meðaltalið, þegar kemur að tekjuhópunum.  Munurinn á fyrrnefndu hópunum þremur er innan við 270 þús.kr. á ári á hverja neyslueiningu eða 22.500 kr. á mánuði, þrátt fyrir að það muni rúmlega 100 þús.kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar vill svo til að heimilisstærð er nokkurn vegin sú sama hjá þessum hópum (2,44-2,47 einstaklingar), þannig að neysla ræðst hjá þeim af heimilisstærð en ekki tekjum!  Tölur Hagstofunnar sýna einnig að tveir neðri hóparnir eyða meira en þeir afla.

Allt virðist þetta bera að sama brunni:  Stór hópur landsmanna hefur ekki efni á því lífi sem þeir lifa, hver svo sem ástæðan er.