Stórfrétt: Seðlabankinn þagði um lögfræðiálit frá 12. maí 2009

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.8.2010.

Tveir þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, sendu áðan tölvupóst til formanna viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar.  Afrit var sent á nefndarmenn, fjölmiðla og auk þess sem hann var birtur á síðu Hreyfingarinnar.  Því miður hafa fjölmiðlar ekki ennþá séð ástæðu til að fjalla um málið, því þar er varpað fram einhverri stærstu sprengjum sem varpað hefur verið inn í umræðuna um lögmæti gengistryggingarinnar.  Hér er pósturinn og fjalla ég síðan um innihald hans fyrir neðan:

Sæl Lilja og Helgi,

við óskum eftir sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar vegna svara Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til nefndanna við fyrsta tækifæri.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar þann 19. júní þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögleg voru fulltrúar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar. Í framhaldi af þeim fundi sem haldin var 5. júlí voru stofnanirnar beðnar um svör við ákveðnum spurningum sem nú hafa borist.

Svörin eru þess eðlis að ekki er hægt að sætta sig við þau án frekari skýringa en þar kemur m.a. fram að mikið ósamræmi er í tölulegum gögnum stofnananna og að mati sérfræðings munar jafnvel hundruðum milljarða á tölulegum niðurstöðum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Alvarlegast í svörunum er þó að fram kemur að Seðlabankinn lét gera óháð lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána og að það lögfræðiálit hafi gefið til kynna að gengistryggingin kynni að vera óheimil. Í framhaldinu sendir aðallögfræðingur Seðlabankans frá sér minnisblað þar sem tekið er undir lögfræðiálitið. Óháða álitið og minnisblað aðallögfræðingsins eru dagsett 12. og 18. maí 2009. Seðlabanki Íslands hafði því ákveðna vissu fyrir því hver líkleg niðurstað málaferla yrði heilum þrettán mánuðum fyrir dóm Hæstaréttar.

Seðlabanki Íslands þarf að útskýra fyrir þingi og þjóð með hverjum hann deildi þessum upplýsingum og ef hann hélt þeim fyrir sig, þá hvers vegna.  Gengistryggðu lánin voru stór hluti af uppgjörinu milli gömlu og nýju bankanna sem fram fór um haustið 2009 og lögmæti þeirra mikilvert í því ferli. Til upprifjunar skal á það minnt að stórs hluti þingmanna og almenningur hefur lengi verið kallað eftir almennum aðgerðum til leiðréttingar á skuldum heimilanna, m.a. til að eyða þeirri óvissu sem skapaðist fyrir efnahagslífið í heild til lengri tíma litið, ef ekki yrði gripið slíkra aðgerða. Með upplýsingar frá Seðlabankanum um ofangreint lögfræðiálit eru meiri líkur en minni á því að Alþingi hefði tekið af skarið og náð saman um almennar aðgerðir og þar með eytt þeirri óvissu sem og þörfinni á málaferlum sem nú valda endurreisn efnahagslífsins óþolandi og óþarfa töfum.

Það er því krafa Hreyfingarinnar að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og Bankasýslu ríkisins verði boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar til að gera frekari grein fyrir þeim svörum sem fram eru sett í áðurnefndum bréfum dagsettum 27. júlí (FME) og 30. júlí (SÍ).

Margrét Tryggvadóttir

Þór Saari

þingmenn Hreyfingarinnar

Ég veit ekki hvort fólk átti sig almennilega á þessu.  Seðlabanki Íslands vissi í maí 2009, já maí 2009, að gengistrygging kynni að vera óheimil og aðallögfræðingur bankans skrifaði minnisblað 18. maí 2009, þar sem hann tekur undir þennan skilning.

Ég er eiginlega alveg kjaftstopp.  Seðlabanki Íslands viðurkennir að hafa vitað frá því 12. maí 2009 að gengistrygging kynni að vera óheimil og bankinn gerði ekki neitt (að því virðist) til að bregðast við því.  Ég hélt að tilmæli hans frá því 30. júní hafi einmitt verið sett fram vegna áhyggju bankans af fjármálastöðugleika og lagaskyldu um að gera allt sem hægt er til að viðhalda honum.  Mér sýnist sem Seðlabankinn hafi sjálfur skapað þann "óstöðugleika" sem hann taldi sig hafa verið að bregðast við 30. júní sl.  Ég spyr bara:  Hvað er í gangi?  Er mönnum ekki sjálfrátt í fúskinu?

Ég krefst þess að Seðlabankinn upplýsi hverja hann lét vita af álitinu og hverjum hann sendi minnisblað aðallögfræðings bankans.  Ég krefst einnig að vita hvers vegna Seðlabankinn gerði ekki þetta álit opinbert, þar sem það hafði mjög mikla þýðingu við endurskipulagningu bankakerfisins.  Þá vil ég fá að vita hvers vegna Seðlabankinn greip ekki inn í hina (líklega) ólöglegu starfsemi fjármálafyrirtækjanna.  Bankinn sá ástæðu til þess 30. júní að grípa inn í dóm Hæstaréttar, þegar hann taldi lagaóvissu stefna fjármálakerfinu í óvissu.  Hvers vegna gerði bankinn það ekki í fyrra sumar?

Tölur FME aðrar en Seðlabankans

Ég vil líka vekja athygli á því sem fjallað er um tölur FME um kostnað fjármálakerfisins vegna dóma Hæstaréttar og þess að nota mismunandi vaxtaforsendur.  Ég er nefnilega þessi sérfræðingur sem vísað er til í bréfi þingmannanna og án þess að brjóta trúnað um tölurnar, þá get ég sagt að það er ekki heil brú í útreikningum FME.  Slengt er fram tölum án rökstuðnings.  Tölur FME eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi yfirlýsinga minnst tveggja ráðherra, Seðlabankans og forstjóra FME um að allt að 350 milljarðar geti fallið á skattgreiðendur verði samningsvextir látnir standa á gengistryggðum lánum.  Fljótt á litið er EKKERT í svari FME sem styður þá staðhæfingu.  EKKERT.  Staðhæfingin er svo tilhæfulaus, að ég mun í framtíðinni efast um sannleiksgildi alls sem frá Gunnari Andersen kemur. 

Það er rétt að í svörtustu sviðsmyndinni reiknar FME út að áhrifin geti orðið nálægt 350 milljörðum, en það er ekkert í sem bendir til þess að eitthvað nálægt þeirri upphæð falli á skattgreiðendur, þó svartasta sviðsmyndin verði að veruleika.  Ekki er tekið tillit til afsláttar sem fjármálafyrirtækin fengu frá eldri kennitölum sínum.  Íslandsbanki fékk 47% afslátt af sínum lánasöfnum, Landsbankinn fékk 34% afslátt af lánasöfnum heimilanna og örugglega meira af lánsöfnum fyrirtækjanna og Arion banki fékk 24% afslátt af lánasöfnum heimilanna.  Það er fáránlegt að taka ekki tillit þessa afsláttar í útreikningum FME.  Hafi bankarnir ætlað að nýta sér þennan afslátt til framtíðartekna, þá er það náttúrulega ekkert annað en þjófnaður.  Auk þess metur FME að tjón, sem einkafyrirtækin Lýsing, Avant og SP-fjármögnun verða fyrir vegna bílalána, lendi á skattgreiðendum.  Það er náttúrulega ótrúleg þvæla.

FME segir vissulega að „[h]eildarlækkun verður vegna lækkunar á höfuðstól lánasamninga, núvirts taps á framtíðargreiðsluflæði, útborgunar vegna opinna lánasamninga og uppgreiddra lánasamninga“.  Hér vantar sundurliðun.  Hér vantar líka að tilgreina hvernig „núvirt tap á framtíðargreiðsluflæði“ verður til.  Hvaða vexti var miðað við, hvaða verðbólgu og áhrifin af því að lánin innheimtist betur eða verr eftir því hvaða leið verður farin.  Ef ég á að segja eins og er, þá segja tölur FME nákvæmlega ekki neitt.  Það er ómögulegt að segja til um hvort þær eru réttar eða rangar.  Það er ekki á þeim byggjandi.  Svo einfalt er það.

Þess fyrir utan, þá mótmæli ég því að tjón einkafyrirtækjanna Lýsingar, Avant og SP-fjármögnunar sé áhyggjuefni skattgreiðenda eða ríkisins.  Okkur kemur nákvæmlega ekkert við hvort þessi fyrirtæki tapi á því að fara að lögum.  Þau eru lögbrjótarnir og eigendur þeirra og kröfuhafar verða að taka á sig tapið.  Þá er "tapið" sem gæti lent á ríkinu vegna heimilanna allt í einu orðið að engu.  Ég mótmæli því líka að það hafi áhrif á fjármálastöðugleika, eins og SÍ og FME héldu fram, þegar stofnanirnar hvöttu fjármálafyrirtæki til lögbrota, að nokkur einkarekin fjármögnunarfyrirtæki fari á hausinn.  Það er líka út í hött að Seðlabankinn sé allt í einu að verja slík fyrirtæki, þegar bankinn virðist hafa hylmt yfir með lögbrjótum í 15 mánuði.  Mikið hefði bara verið gott, ef Seðlabankinn hefði sýnt væntumþykju sína um fjármálastöðugleika strax eftir að hann komst að lögbrotum fjármálafyrirtækjanna með því að gera þá strax eitthvað annað í málunum, en að breyta tölfræðisamantekt sinni.  Verða það að teljast einhver aumustu viðbrögð við þeirri ógn, sem bankinn sér í lögbrotinu núna eftir að Hæstiréttur hefur tekið undir lögfræðiálit Seðlabankans.  Bankinn vissi af því í 15 mánuði, að gengistryggingin kynni að vera ólögleg og það er því rétt sem ég sagði um daginn:  Mistök embættismanna og ráðherra kosta skattgreiðendur hugsanlega 100 milljarða - Lán heimilanna eru ekki ástæðan.  Já, það voru mistök Seðlabankans sem þarna skipta máli, ekki lán heimilanna.  Mér sýnist sem það kosti fjármálafyrirtækin eitthvað að fara að lögum, en að halda því fram að lán heimilanna valdi því að allt að 350 milljarðar falli á ríkið það tilbúningur og heldur ekki vatni.  Gleymum því svo ekki sem ég nefndi að ofan að Íslandsbanki fékk að jafnaði 47% afslátt af lánasöfnum sínum, Landsbankinn 34% af lánum heimilanna og Arion banki 24%.  Ekki reyna eitt augnablik að telja mér trú um að afslátturinn á óverðtryggðum krónulánum og verðtryggðum krónulánum hafi verið jafnhár og af gengistryggðum lánum. Nei, afslátturinn af gengistryggðum lánum var margfalt meiri en af krónulánunum og FME getur ekki leyft sér að reikna áhrif af einhverju sem þegar hefur fengist afsláttur af, nema auðvitað að aldrei hafi staðið til að láta viðskiptavinina njóta afsláttarins. Höfum svo loks í huga, að endurskoða á (a.m.k. í sumum tilfellum) uppgjörið milli gömlu bankanna og nýju árið 2012.  Þá mun gefast tækifæri til að leiðrétta afsláttinn hafi verðmæti lánasafnanna ekki verið það sem gert var ráð fyrir.

Mér finnst að þingnefndirnar tvær: efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar, eigi að kalla SÍ og FME aftur fyrir og krefjast frekari skýringa.  Ekki á að sleppa þeim við þá útúrsnúninga, sem koma fram í svörum þeirra og ekki á að leyfa þeim að komast upp með FÚSK.