Það á bara að innheimta 10% af hlutabréfalánunum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.5.2010.

Um daginn henti slitastjórn Kaupþings þeirra bombu að innheimta ætti lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa.  Þessi lán voru vægt til orða tekið umdeild eftir að stjórn Kaupþings ákvað á síðustu metrunum fyrir hrun að fella niður persónulegar ábyrgðir tengdar þessum lánum.  Slegið var upp með stóru letri að innheimta ætti lán að verðmæti 32 milljarðar, en núna kemur annað á daginn.  Samkvæmt frétt í DV, þá náðu persónulegar ábyrgðir starfsmanna bara til 10% af lánunum!  Skoðum brot úr frétt DV:

Líkt og greint var frá í fjölmiðlum á mánudaginn ákvað slitastjórn Kaupþings að rifta niðurfellingu á persónulegri ábyrgð 80 fyrrverandi starfsmanna gamla Kaupþings á lánum sem þeir fengu til hlutabréfakaupa hjá bankanum. Stjórn Kaupþings ákvað að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmannanna á fundi rétt fyrir hrun. Starfsmennirnir fengu alls um 32 milljarða króna að láni og voru persónulegar ábyrgðir þeirra 10 prósent af þeim lánum þeir fengu. Starfsmaður sem fékk 500 milljónir króna að láni á því að greiða 50 milljónir til baka til skilanefndarinnar samkvæmt niðurstöðu mánudagsins. Skilanefndin hyggst því reyna að innheimta um 3,2 milljarða króna með þessum aðgerðum.

Líklegast hef ég bara ekki verið nógu vakandi fyrir staðreyndum málsins á sínum tíma eða bara tekið vitlaust eftir.  Þetta breytir þó ansi miklu.  Viðkomandi starfsmenn munu sem sagt fá 28,8 milljarða fellda niður, þó svo að tíu prósentin verði innheimt.  Já, 28.8 milljarðar kr. af hlutabréfalánum starfsmanna Kaupþings verða afskrifaðir, ef mark er á frétt DV takandi.  Sigurður Einarsson þarf því að endurgreiða 780 milljónir kr., ekki 7,8 milljarða kr.   Þarna munar 7 milljörðum og 20 milljónum.  Nú af 1,2 milljarða láni þarf eingöngu að greiða til baka 120 milljónir.

Ég held að þessar upplýsingar í DV breyti ansi miklu, ef sannar eru.   Það er mikill munur að eiga að greiða 100% af láni eða 10%.  Ég hef þó ekki breytt þeirri skoðun minni, að gera eigi greinarmun á þeim sem líklegast nauðbeygðir samþykktu að taka þátt í þessum leik og þeim sem skipulögðu hann.  Áður en við eyðum kröftum okkar í að elta uppi litlu fiskana, eigum við að tryggja að þeir stóru rífi ekki netin.