Afnemum verðtryggingu í skrefum - Bönnum hana á lánum einstaklinga og heimila

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.3.2010.

Hún er merkileg þessi hræðsla manna við að afnema verðtrygginguna af lánum.  Á sínum tíma tók það dagstund á Alþingi að afnema verðtryggingu launa.  Þá skipti engu máli, þó fólk hefði gert framtíðaráætlanir sínar miðað við að laun væru verðtryggð.  Voru skuldbindingar þeirra launasamninga, sem þá voru í gildi, eitthvað öðru vísi en lánasamninga?  Er samningsákvæði kjarasamninga minna virði en ákvæði í verðtryggðum lánasamningum?

Lausnin sem margoft hefur verið bent á, er að setja þak á verðbætur sem trappað er niður á nokkrum árum.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert tillögu um 4% árlegt þak frá 1. janúar 2008 til 31.12.2009, þakið lækki í 3% fyrir 2010 og 2011, þá 2%, 1% og loks hverfi.  Samtökin hafa vissulega bara gert kröfu um að þetta nái til húsnæðislán og þá aðeins þau lán sem sannanlega eru vegna húsnæðiskaupa, byggingar á nýju húsnæði, viðhalds húsnæðis eða framkvæmda við húsnæðið.  Hvernig væri bara að byrja á þessu?

Það að setja þak á verðbætur þarf ekki að breyta verðtryggingarkerfinu nokkurn skapaðan hlut.  Það er eingöngu ef verðbólgan verður hærri en þetta þak sem áhrifin koma fram.  Þar sem verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands voru frá apríl 2001 til loka árs 2008 (eða svo) 2,5%, þá ættu áhrif af 3 eða 4% þaki ekki að vera nein.  Það sem meira er, að það myndast hvati í fjármálakerfinu að halda verðbólgunni niðri, þar sem skuldabréfaeigendur "tapa" engu meðan verðbólga er undir þakinu.  Takist síðan að halda verðbólgunni lágri í nokkur ár, þá kemur nægilegur stöðugleiki til að afnema verðtrygginguna alveg.

Afnámi verðtryggingarinnar verður að fylgja þak á vexti húsnæðislána (sbr. þau lán sem ég taldi upp að ofan).  Hagsmunasamtök heimilanna hefur verið að líta til lánakerfisins í Danmörku, þar sem bankarnir ákváðu sjálfir að taka upp 5% þak.  Hér hafa bankarnir sæst í bili á 6% þak.  Þetta þak þarf að vera til frambúðar.  Nú segja einhverjir að erfitt sé að fjármagna lán til 25 - 40 ára á svo lágum vöxtum.  Málið er að það er ekki nauðsynlegt.  Ef skoðuð er reynsla Norðmanna, þá skiptir fólk um húsnæði að meðaltali á 8,5 ára fresti.  Fjármögnun lánanna þarf því eingöngu að vera til 8 - 9 ára.   Í þeirra kerfi flytjast lán ekki á milli eigenda heldur eru öll áhvílandi lán gerð upp við eigendaskipti.  Ekkert uppgreiðslugjald er, ekkert lántökugjald þegar um húsnæðiskaup er að ræða og að sjálfsögðu ekkert stimpilgjald. Danir endursemja um vextina (innan þaksins) á 3-5 ára fresti og þá eru lánin jafnframt uppgreiðanleg.  Viðkomandi getur flutt viðskipti sín til annars fjármálafyrirtækis og því er virk samkeppni á markaði.

Þannig að, Steingrímur, þetta er spurning hvort þetta er hægt með stuttum fyrirvara,heldur hvernig við viljum fara að þessu. Núna er mjög mikilvægt að taka einhver skref, þar sem búast má við verðbólguskoti, þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin.  Vil ég því hvetja til þess að frumvarp Framsóknar um 4% þak verði samþykkt án tafa.


Meinsemd hve verðtrygging er fyrirferðarmikil