Einbjörn, Tvíbjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.2.2010.

Steingrímur sagði ekki ég, Kalli sagði ekki ég, Guðmundur sagði ekki ég og Þór sagði ekki ég.  Munurinn á þessu og litlu gulu hænunni er að enginn gengst við verkinu.  Þetta minnir óþyrmilega á dópsala neita því að hafa flutt inn dópið sem fannst í hreysi þeirra.  Á að selja almenningi það, að fjórir menn sem allir báru ábyrgð á rekstri fyrirtækja sem voru milljarða virði hafi ekki vitað hvað gerðist hjá fyrirtækjunum?  Er ekki til einhver lagagrein sem hægt er að nota til að dæma menn í ævilangt fangelsi fyrir vanhæfi, a.m.k. banna þeim að eiga og reka fyrirtæki. Látum vera þetta með að vilja ekki taka ábyrgð.

Ég hef enga trú á því að Guðmundur Ólason eða Karl Wernersson hafi ekki vitað hvað gekk á í rekstri Sjóvár.  Ef ég ætti milljarða fyrirtæki og væri með umsvif um víða veröld, þá vissi ég upp á hár hvað væri í gangi.  Nei, þeir skella sér í líki þeirra bræðra Einbjörns, Tvíbjörns og Þríbjörns og grófu upp Fjórbjörn til að búa til leikrit afneitunar. Hvernig væri að finna einhvern góðan klefa handa þeim og týna lyklinum um stundarsakir.  Kannski rifjast eitthvað upp fyrir þeim.

Sorglegast í þessu öllu finnst mér hlutur Þórs Sigfússonar.  Hann er búinn að vera í fararbroddi þess að bæta stjórnhætti fyrirtækja.  Í kjölfar bankahrunsins vann hann að slíkum reglum með Viðskiptaráði, en það er með þetta eins og margt annað, að reglurnar voru fyrir aðra en hann.  Hugsanlega sagði Steingrímur rétt frá, þegar hann kallaði Þór "nytsaman sakleysingja".

Frá mínu sjónarhorni er þetta sviðsett leikrit til að rugla almenning og yfirvöld.  Ég treysti aftur Ólafi Þór Haukssyni og hans fólki fullkomlega til að fletta ofan af þessu.  Það er ekki trúverðugt að fjórir menn viti ekki hvers vegna 10,5 milljarða skuldabréf var útbúið.  Hvað þá að ríflega 15 milljarðar hafi verið færðir úr sjóðum Sjóvár yfir í svikavafninginn Vafning.  Nei, þið verðið að reyna betur og kannski er bara gott til tilbreytingar að segja sannleikann.  Maður er alltaf að skilja betur og betur hvers vegna Geir sagði "Guð blessi Ísland".