Eitt að styðja tryggingasjóðinn, annað að tryggja allar innstæður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.1.2010.

Ég skil ekki þessa tortímingarstefnu sumra þingmanna VG.  Þeim er svo í mun að Íslendingum blæði eins mikið og mögulegt er vegna Icesave, að þeir búa til alls konar rök fyrir því að það sé gert.  Nýjasta útspilið er frá Birni Vali Gíslasyni.  Í gær staðhæfði hann (samkvæmt frétt á visir.is og ruv.is) að þegar FSA (breska fjármálaeftirlitið) ætlaði sumarið 2008 að loka Icesave, þá hafi ríkisstjórn Geirs H. Haarde gefið út yfirlýsingu um að allar innstæður væru tryggðar.  Nú hefur komið í ljós að engin slík yfirlýsing var gefin.  Lýst var yfir að íslenski tryggingasjóðurinn yrði styrktur til að standa við skuldbindingar sínar!

Það er himinn og haf á milli staðhæfingar Björns Vals og þess sem lýst var yfir af hálfu viðskiptaráðherra (ekki ríkisstjórnin).  Þegar Birni Vali var bent á þetta, þá bakkaði hann og sagði að hann hefði átt við yfirlýsingu í fjölfar neyðarlaganna.  Hvenær 6. október varð að sumardegi á Íslandi veit ég ekki og finnst mér eftiráskýring þingmannsins heldur klén.

Staðreyndir málsins eru að með neyðarlögunum voru innistæður tryggðar eins og eignir bankanna leyfðu.  Með því að gera innistæður að forgangskröfum snarbreyttist staða innstæðueigenda.  Í staðinn fyrir að þurfa að bíða upp á von og óvon um það hvort eitthvað fáist upp í ótryggðar innstæður, þá er nokkuð ljóst fyrirfram að lítið sem ekkert tapast.  Þetta var a.m.k. raunveruleikinn hjá Icesave innstæðueigendum þar til bresk stjórnvöld notuðu bálk úr hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans.

Mér finnst að Björn Valur Gíslason ætti að hugsa um að tala fyrir málstað Íslands í staðinn fyrir að tala fyrir málstað Breta og Hollendinga.  Mergur málsins í þessari deilu er sú krafa Breta og Hollendinga, að hver krafa sé tvær jafn réttháar kröfur, þ.e. ein upp að EUR 20.887 og önnur þar fyrir ofan upp að GBP 50.000/EUR 100.000.  Greiða skuli jafnt inn á kröfurnar, sem þýðir að fáist 30.000 EUR upp í EUR 35.887 kröfu, þá þarf íslenski tryggingasjóðurinn að greiða erlendu sjóðunum 5.887 EUR, en þeir fá allt greitt af sínum hluta ábyrgðarinnar.  Þetta er skandallinn við Icesave samninginn og er ástæðan fyrir því að ég hef frá upphafi verið mótfallinn samningnum (ásamt nokkrum öðrum atriðum).  Annars hef ég aldrei geta skiliði hvers vegna innistæður umfram tryggingar Hollands og Bretlands (þ.e. umfram EUR100.00 eða GBP 50.000) mynda ekki þriðju kröfuna, sem er líka jafn rétthá hinum.  Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér, þá ætti þetta að vera með þessum hætti.

Ég var í þessu að hlusta á Björn Val í viðtali í hádegisfréttum RÚV.  Þar fer hann aftur með sama misskilninginn og hann fer með á blogginu sínu um að Alain Lipietz hafi samið tilskipunina um innstæðutryggingar.  Lipietz sagði í Silfri Egils í gær, að hann hefði ekki komið að þeirri tilskipun, heldur um fjármálaeftirlit (2002/87/EB).  Björn sagði Lipietz misskilja stöðu Íslands, þar sem fjármálastofnun með höfuðstöðvar innan EES lúti eftirliti heimaríkis.  Það er alveg rétt að eftirlitið er núna hjá heimaríki, en það hefur ekki alltaf verið þannig.  Þessari tilskipun var breytt fyrir ekki löngu (2006 eða 2007, jafnvel snemma árs 2008).  Fram að því var eftirlitið í höndum gistiríkis.  Hugsanleg er hluti vandans, að FME hafði ekki náð að laga sig nægilega vel að þessari breytingu, enda fékk stofnunin skyndilega upp í hendurnar gríðarlega umfangsmikið verkefni, sem fólst í því að hafa eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum út um allan heim.

(Ég tek það fram, að ég hef, undanfarin 9 ár, m.a. unnið að ráðgjöf fyrir fjármálafyrirtæki á sviði upplýsingaöryggismála, stjórnunar rekstrarsamfellu og persónuverndar.  Af þeim sökum hef ég þurft að kynna mér alls konar tilskipanir ESB sem innihalda kröfur til fjármálafyrirtækja til þess m.a. að átta mig á hvar eftirlitið með fjármálastofnuninni lá hverju sinni og þar með hver uppruni öryggiskrafna var.)


Segir margt athugavert við málflutning Lipietz