Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.3.2010.

Hin grimmi slagur sem fjármögnunarleigur eru í við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Það er ekki bara að þau beiti lántaka miklum órétti við uppgjör á vörslusviptum bílum og bílum sem hefur verið skilað inn, heldur virðast þau þverbrjóta þær heimildir sem þau hafa til starfrækslu fyrirtækjanna.  Má þar t.d. benda á nýlegt flopp hins nýskipaða slitastjóra VBS í svari við kvörtun viðskiptavinar Avants til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

En það vellur sífellt meiri skítur undan teppum fjármálafyrirtækjanna.  Nýjasta tilfellið er umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV, undanfari Samtaka fjármálafyrirtækja) frá 24. apríl 2001 um frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu.  Þetta frumvarp varð síðan að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í umsögninni segir:

Til viðbótar við framangreind atriði telja umsagnaraðilar nauðsynlegt að gera athugasemdir við ákvæði 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að verðtrygging sparifjár og lánsfjár skuli miðast við vísitölu neysluverðs.  Í 2. mgr. 14. gr. er síðan tekið fram að þó sé heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, eða safn slíkra vísitalna, þegar um lánasamninga er að ræða.  Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka verðtrygginguna við við þessar vísitölur.  Það gengur gegn almennu samningsfrelsi, enda getur verið fullkomlega eðlilegt að viðsemjendur fái að nota aðrar viðmiðanir sem þeir koma sér saman um.  Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.  Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.  Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.  Tenging við vísitölur eða sérstakar viðmiðanir er eðlilegur hluti af áhættustýringu á fjármálamarkaði í dag.  Óeðlilegt er að opinber fyrirmæli hindri þann þátt starfseminnar.  Brýnna er að opinbert eftirlit vinni í samvinnu við markaðsfyrirtækin að því að tryggja að skilmálar í slíkum samningum séu skýrir og valdi engum vafa um túlkun síðar.

Þessi hluti umsagnarinnar er alveg ótrúlegur.  Tekið skal fram að hún er undirrituð af Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra SBV, en hann er núverandi framkvæmdastjóri SFF.

Skoðum nokkur atriði nánar:

Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.

Þarna er það alveg kýr skýrt að fjármálafyrirtækin vissu að gengistrygging lánasamninga var og er ólögleg!  Samt ákvað stórhluti fjármálafyrirtækja að bjóða upp á afurð, sem framkvæmdastjóri samtaka þeirra hafi viðurkennt í umsögn til Alþingis að væri ólögleg.  Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir lögmenn, sem hafa verið að verja þessa fjármálagjörninga, að sjá þessa umsögn SBV.

Og það er haldið áfram:

Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.

Hér er stóra málið, að lántakar fengu aldrei erlenda mynt í hendur til að skipta yfir í íslenskar krónur.  Fólk sótti um í íslenskum krónum, t.d. kr. 10 milljónir, og fékk þá upphæð að frádregnum lántökukostnaði.  Lántakar voru ekki einu sinni rukkaðir um þóknun fyrir að "skipta" úr erlendu myntinni yfir í íslenskar krónur, eins og gert er í gjaldeyrisviðskiptum.  Það fóru því aldrei nein gjaldeyrisviðskipti fram.

Þá er það ábending um það hvernig hægt væri að fara framhjá ákvæðum laganna:

Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.

Nú klikkuðu mörg fjármálafyrirtæki illilega, þar sem starfsleyfi þeirra takmörkuðu heimildir þeirra til að eiga viðskipti með óskráða afleiðusamninga við viðskipti við fagfjárfesta.  Afleiðusamninga er ekki hægt að nota sem lánasamninga á neytendamarkaði.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa umsögn SBV.  Hún segir allt sem segja þarf:

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil.


Mótmæla innheimtuaðferðum fjármögnunarfyrirtækja