Gengistrygging dæmd ólögleg!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.2.2010.

Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, kvað upp þann úrskurð í dag að

GENGISTYRGGING LÁNA ER ÓLÖGLEG

Dóminn má sjá hér.

Úrskurður Áslaugar er mun betur rökstudd en fyrri héraðsdómur, þar sem gengistrygging var dæmd lögleg.  Þar segir:

Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild. Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram.

Þessum dómi verður alveg örugglega áfrýjað.  Á því leikur enginn vafi.  Hann er samt gríðarleg viðurkenning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og allra annarra sem tekið hafa þátt í baráttunni með okkur.

Ég get ekki annað en bent á að á morgun er nákvæmlega eitt ár síðan ég vakti fyrst athygli á því, í athugasemd við færsluna Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?, að hugsanlega væru gengistryggð lán ólögleg.  Í athugasemdinni segi ég:

Svo má bæta við þetta eftirfarandi úr lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Mér sýnist hugsanlega verið að segja þarna að verðtrygging við gengisvísitölu, sé hreinlega ekki heimil.  Það er heimilt að miða við hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalan en ekki viðmið við gengi gjaldmiðla.   Ég finn hvergi lagatilvísun í gengistryggð lán, þannig að spurningin er hvort allt sé leyft sem ekki er sérstaklega bannað eða allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft.

Marinó G. Njálsson, 13.2.2009 kl. 23:22

Þá vakti þetta enga athygli.  Ég tók því þráðinn aftur upp í apríl, nánar tiltekið 17. apríl, í færslunni Eru gengistryggð lán ólögleg?.  Þar bendi ég á greinargerðina, sem Áslaug notar sem forsendu fyrir ákvörðun sinni.

Þessi dómur er frábær, þó hafa skal þann vara á að endanleg niðurstaða er ekki komin.  Eða eins og segir:  Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.