Gengistrygging höfuðstóls er ólögleg og ekki má skipta henni út fyrir aðra verðtryggingu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.4.2010.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í morgun upp úrskurð í máli NBI hf. (Landsbankans) gegn fyrirtækinu Þráinn ehf., þar sem gengistrygging höfuðstóls láns er dæmd óheimil með vísan til dóms héraðsdóms frá 12. febrúar sl.  Dómarinn, Jón Finnbjörnsson, fer með dóm sinn skrefinu lengra en Áslaug gerði í febrúar.  Hér er nefnilega (samkvæmt frétt mbl.is) dæmt að önnur verðtrygging komi ekki í staðinn fyrir gengistrygginguna og því standi bara eftir upprunalegi höfuðstóllinn auk vaxta eða eins og segir í fréttinni:

Miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en ekki megi reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað.

Þetta er stórt skref í réttarbaráttu heimilanna og fyrirtækjanna.  Verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti, þá færast ÖLL gengistryggð lán niður í upphaflegan höfuðstól að viðbættum LIBOR vöxtum samkvæmt skilmálum lánsins og frádregnum afborgunum.

Það er með þennan dóm, eins og dóminn 12. febrúar, að bíða verður eftir Hæstarétti.  Niðurstaða hans er ekki sjálfgefin.  Því miður.  En þangað til:  Til hamingju Ísland.