Landsbankinn vaknar með stæl, en héraðsdómur býður betur fyrir suma

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.5.2010.

Landsbankinn auglýsir á heilsíðum í blöðunum í dag 25% lækkun höfuðstóls lána bæði heimila og fyrirtækja í erlendri mynt.  Miðað er við gengi 30. apríl, en þá var gengisvísitala um 226,5.  Tilboð bankans þýðir því lækkun í gengisvísitölu 170.  Tekið er fram í frétt Landsbankans um tilboðið að það gildi afturvirkt "fyrir þá sem hafa greitt upp lán að hluta eða heild frá 8. október 2008 eða hafa fengið leiðréttingu á höfuðstól en með minni lækkun". 

Verður þetta að teljast verulega höfðinglegt boð hjá Landsbankanum, en vandinn er að Héraðsdómur Reykjavíkur býður betur hvað varðar gengistryggð lán.  30. apríl úrskurðaði dómurinn nefnilega að gengistrygging væri ólögleg og engin verðtrygging kæmi í staðinn.  Það þýðir að lánin færast niður í upphaflegan höfuðstól að frádregnum afborgunum.  Það merkilega við þetta, er að Landsbankinn var stefnandi í málinu sem héraðsdómur úrskurðaði í og úrskurðurinn féll gegn bankanum.

Líklegast er markaðsdeild bankans búinn að liggja yfir þessum tilboðum í einhverjar vikur eða mánuði og því ekki verið tekið tillit til úrskurðar héraðsdóms.  Svo á Hæstiréttur eftir að gefa sína niðurstöðu og nú er ekki sjálfgefin.  Fari allt á versta veg og Hæstiréttur snúi úrskurði héraðsdóms, þá er þó komið tilboð frá Landsbankanum sem hægt er að ræða.  Sem stendur er betra tilboð á borðinu hvað varðar gengistryggð lán.

Hvað varðar lán fyrirtækja í erlendri mynt (sem var sótt um í erlendri mynt, greidd út í erlendri mynt og endurgreidd í erlendri mynt), þá er ég viss um að mörg fyrirtæki munu grípa tækifærið.  Þó svo að gengisvísitalan hafi þegar styrkst um 5 punkta eða nálægt 2,5% frá 30. apríl, þá á hún eftir að sveiflast verulega á næstu mánuðum.  Flest bendir þó til þess að gengið sé í styrkingarfasa og ólgan í Evrópu mun örugglega verða til þess að hún styrkist enn frekar.  Mér finnst því að Landsbankinn eigi að bjóða lántökum að helmingur af styrkingu krónunnar á næstu árum virki sem innborgun á höfuðstól lánanna.  Það gengur ekki að lántakar eigi síendurtekið að taka meiri áhættu af gengisbreytingum en lánveitandi.  Skora ég raunar á alla bankana að byggja slíka gengisvörn inn í lánasamninga, þegar verið er að breyta lánum í erlendri mynt yfir í lán í krónum.  Ég er viss um að fleiri tækju boði bankanna, ef það væri gert.